Dagur - 05.09.1984, Blaðsíða 6

Dagur - 05.09.1984, Blaðsíða 6
6 - DAGUR - 5. september 1984 5. september 1984 - DAGUR - 7 Kröftugt Kröflugos hófst um miðnætti síðastliðið, en verulega hafði dregið úr gosinu í birtingu í morgun „Nei, ég átti ekki frekar von á gosi núna, því það hefur verið tiltölulega ró- legt hér á Kröflusvæðinu síðan síðast gaus, í nóvem- ber 1981, og menn voru farnir að gera sér vonir um að þessum Kröflueldum væri lokið, en það er nú öðru nær, eins og þú sérð,“ sagði Axei Björnsson, jarðeðlisfræð- ingur, í samtali við blaðamann Dags uppi á hæsta tindi Leirhnjúks um hálf sexleytið í morgun. Já, það fer fjarri því að Kröflueldum sé lokið, því um hálf níu í gærkvöld hófst 20. kvikuhlaupið í Kröfluöskju, það fyrsta var í desember 1975, og laust fyrir miðnætti hófst 9. eldgosið. „t>ó landris hafi ekki verið mikið hér á Kröflusvæðinu undanfarin 3 ár, þá hefur það þó hækkað smátt og smátt, um nær 5 cm á ári, og af og til hafa komið skjálftahrinur og þeim hefur farið fjölgandi undanfarnar vikur,“ sagði Axei. „Það hefur því verið spennt ástand hér undanfarin ár og þess vegna mátti búast við gosi. En við vitum í rauninni ekki hvernig þetta á að enda. Hættir þessi gosvirkni þegar svæðið er í spennuástandi eins og útblásinn bolti eða endar þetta þegar land- ið er eins og loftlaus tuðra og liggur niðri?“ - Hvernig var atburðarásin í gær? „Um hálfníu í gærkvöld hófst skyndilega ört landsig, sem kom fram á síritandi hallamælum, jafnframt því sem órói kom fram á skjálftamælum. Þessir mælar eru staðsettir í Reynihlíð og þar fara bjöllur sjálfkrafa í gang ef eitthvað óeðíilegt gerist. Það var strax ljóst að þetta gekk óvenju hratt fyrir sig og mikill órói og menn grunaði nú strax að gos væri í aðsigi. Einnig benti sig- ið til þess að gosið yrði fremur norðan til á svæðinu, en ekki sunnan til eins og menn óttast mest. Þetta staðfestu skjálftarnir, sem voru frekar norðarlega á svæðinu. Síðan gerðist það 11 eða 12 mínútum fyrir 12, að menn sem höfðu komið sér fyrir á tryggum útsýnisstöðum sáu eld- inn koma upp. Á sama tíma sást eldurinn frá Kelduhverfi og Öx- arfirði og eins úr flugvélum sem voru á leið hingað norður með vísindamenn, sem frétt höfðu af því hvað væri í vændum. Kom upp í Gjástykki - Hvar kom gosið fyrst upp? „Það gerði fyrst vart við sig norður í Gjástykki á móts við svonefndan Sandmúla, þar sem fyrst komu upp tveir strókar. Mínútu síðar kom upp eldur við Rauðkoll, en á næsta hálftíman- um eða svo breiddist eldurinn út og þessi svæði tengdust saman, jafnframt því sem sprungan lengdist til norðurs og suðurs. Ég reikna með að hún hafi verið um 7 km löng á meðan gosið stóð sem hæst, á milli kl. 1 og 2 í nótt, en síðan fór að draga verulega úr því. Núna, þegar þessi orð eru sögð á sjöunda tímanum að morgni miðvikudags, hefur dreg- ið verulega úr gosinu. Syðsti hlut- inn er að deyja út, en enn er nokkur virkni í nyrsta hlutanum. Þetta er sama þróunin og í fyrri gosum; fyrst gýs á allri sprung- unni, en síðan dregst hún saman þar til eftir verða einn eða fleiri staðir, þar sem hlaðast upp gíga- borgir og þannig getur gosið haldið áfram í einhverja daga. Lengsta gosið í Kröflueldum var minnir mig 10 dagar, en stundum hafa þau ekki staðið nema dagpart. Það er því ómögulegt að segja um hvað verður núna, en miðað við fengna reynslu hef ég trú á því að það lifi í þessu í ein- hverja daga til viðbótar." - Er þetta gos með þeim kröftugri sem komið hafa? „Já, það er í kröftugri kantin- um og sprungan öll var virk ívið lengur en oft áður. En í heildina er sama munstrið í þessu gosi og áður,“ sagði Axel Björnsson. Mývetningar orðnir vanir þessu Það hvíldi ró og friður yfir Mý- vatnssveit í nótt þegar blaðamað- ur Dags kom þangað, en í bak- grunni sveitarinnar teygði rauður bjarminn sig til himins. Stórfeng- leg sjón, en jafnframt ógnvekj- andi og að þessu sinni minntu Kröflueldar á hvað gæti gerst ef gosvirknin færðist enn sunnar. Að þessu sinni náði syðri endi sprungunnar að vesturhlíðum Leirhnjúks og hrauntaumur rann í suðaustur í átt til Kröfluvirkjun- ar. Átti hann aðeins ófarna um 2 km þangað þegar hann stöðvað- ist, en samt sem áður hefði þurft miklu stærra. Gos til þess að Kröfluvirkjun hefði verið í veru- legri hættu. Hins vegar er leiðin jafnvel greiðari áfram suður í Bjarnarflag þar sem Kísiliðjan er og þá er byggðin við Mývatn ekki langt undan. En sem betur fer hafa þau kvikuhlaup sem komið Axel Björnsson og félagar skoða gosstöðvarnar. Myndin er tekin á toppi Leirhnjúks um klukkan 6 í morgun. Mynd: GS. hafa upp á yfirborðið alltaf verið til norðurs, en eitt sinn hljóp kvika neðanjarðar suður í Bjarn- arflag og gerði þar vart við sig upp um borholu. Það getur því allt gerst og þetta vita Mývetn- ingar. Þess vegna eru þeir vel á verði og strax þegar aðvörunar- bjöllurnar glumdu í gærkvöld var almannavarnanefnd sveitarinnar kölluð til stjómstöðvar. Þar hitti blaðamaður Dags fyrir Helga Jónasson, hreppstjóra og spurði hann um þann viðbúnað sém nefndin hefði haft um nóttina. Nefndin strax kölluð út „Almannavarnanefndin var kölluð út strax og séð var hvert stefndi og flestir voru mættir inn- an fárra mínútna," svaraði Helgi. „Fyrsta verkið var að aðvara þá sem næstir eru hættusvæðinu í Kísiliðjunni og Kröfluvirkjun, og fljótlega upp úr því ákváðum við að aðvara alla íbúa þorpsins. Það er gert með beinni hringingu héð- an úr stjórnstöðinni; það er hringt á marga síma í einu og síð- an eru númerin kölluð upp hvert af öðru og númerahafar eiga að svara. Síðan er tilkynningin lesin. Fólkinu var greint frá yfirvofandi hættu og það beðið að hlusta vel eftir hringingum og útvarpi. Þessi fyrsta aðvörun var hringd út rúm- lega 10, en kl. 11 settum við upp vakt á Rauðhól, sem er mjög góður útsýnisstaður og við Kröfluvirkjun og við vorum í beinu talstöðvarsambandi þangað. Við fengum svo tilkynn- ingu um gosið rétt fyrir 12 og til- kynntum það um símakerfið til íbúanna og þeir voru beðnir að fylgjast með útvarpinu. Þá var dagskrá þess lokið, en við báðum um að það yrði opnað eftir að ljóst var að gosið hafði færst til suðurs frá því sem fyrst var. Menn óttuðust stórgos í Leir- hnjúki, en þá er hætta á hraun- rennsli til suðurs og það óttumst við mest. Ómar Ragnarsson var fyrstur manna á staðinn í flugvél og veitti hann okkur ómetanlega aðstoð við að fylgjast með þróun gossins fyrstu klukkutímana, enda er hann mjög staðkunnugur hér sem víða annars staðar og hann hefur fylgst með öllum gos- unum.“ - Þið lokuðuð veginum? „Já, við höfðum samband við lögregluna á Húsavík, sem kom og sá um að loka veginum um Námaskarð fyrir almennri umferð. Við teljum ekki rétt þeg- ar gos kemur upp að nóttu til að hleypa fólki þarna norður eftir, því ef eitthvað kemur upp þá vilj- um við hafa veginn ótruflaðir fyr- ir óþarfa umferð.“ - Hvað stóð hættuástandið lengi? „Við töldum hættuna liðna hjá um hálf fjögur og eftir það var ákveðið að hætta hér á vakt og ekki var talin ástæða til að halda útvarpinu gangandi lengur. En áður en dagskránni lauk var tilkynnt að hættuástand væri liðið hjá.“ - Urðuð þið varir við óróa hjá fólkinu? „Nei, enda eru Mývetningar hættir að kippa sér upp við slík umbrot. Raunar voru menn hætt- ir að hugsa um þetta eftir svona langt hlé og þar með farnir að vona að þetta væri úr sögunni fyr- ir fullt og allt. Þess vegna finnst okkur slæmt að þetta skyldi koma núna. En við verðum að búa við þetta,“ sagði Helgi Jón- asson. Þar með kvöddum við Mý- vatnssveitina og þá var klukkan að ganga átta í morgun. Gosið var í rénum, en þó enn líflegt, sérstaklega nyrst. GS. Gunnar Hallgrímson og Jóhann Þórarínsson lögreglumenn frá Húsavík stöðvuðu alla almenna umferð um Námaskarð. Hér sést Kröfluvirkjun í forgrunninn og eldstöðvarnar í baksýn. I I III Axel Björnsson og félagar hans við hrauntunguna sem menn óttuðust að héldi áfram til suðurs.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.