Dagur - 26.10.1984, Blaðsíða 6

Dagur - 26.10.1984, Blaðsíða 6
6 - DAGUR - 26. október 1984 26. október 1984 - DAGUR - 7 eikari, hlj ómsveitarstj óri, orgelleikari, kórstjómandi og skólastjóri með meim, í helgarviðtali „Nú kemur þú flatt upp á mig þá liggur maður náttúrlega flatur fyrir. En ég get svo sem reynt að segja þér eitthvað, ég get þá logið einhverju í þig ef ekki vill betur til “ Það er Guðjón Pálsson, skólastjóri Tónlistar- skólans á Hvamms- tanga, sem hefur orðið í helgarviðtali við Dag. Hann er Vest- manneyingur að ætt og uppruna, betur þekkt- ur þar sem „Gaui Páls“. En Gaui er þekktur víðar, því hann hefur víða farið og víða dvalið. Og þó það fari ekki mikið fyrir manninum á velli, þá er eftir honum tekið, einkum þegar hann kemst í tœri við hljóðfœri. Kappinn hefur leikið ífjölmörg- um danshljómsveitum, hann hefur verið kirkjuorganisti í Vest- manneyjum, Borgar- nesi og Siglufirði, jafn- framt því sem hann hefur stjórnað kirkju- kórum þessara staða. Og á undanförnum árum hefur hann farið víða sem undirleikari Jóhanns Más Jóhanns- sonar, bónda og söngvara í Keflavík í Hegranesi. Gaui Páls er sonur Páls Eyjólfs- sonar og Fanneyjar Guðjónsdóttur í Eyjum. Þar ólst kappinn upp og hann var fyrst spurður um unglings- árin og upphaf hljóðfæraleiks. Við gefum Gauja orðið, en sleppum öllum spurningum sem leiddu viðtal- ið. „Ég var svo saklaus drengur, að ég held að ég hafi aldrei fram- ið nein prakkarastrik. Hafi það verið, þá er það fyrnt í minninu, enda svo langt síðan ég var á þessum aldri. En hvernig sem þar var, þá er það víst að í Eyjum var gott mannlíf í þá daga og svo er enn, þó margt hafi breyst. Hvenær fékk ég músíkdeliuna? Það var nú hrein tilviljun skal ég segja þér. Þannig var, að foreldr- ar mínir tóku píanó í geymslu fyrir vinafólk sitt. Þá var ég um 12 ára gamall og fór að fikta við þetta hljóðfæri. Þá var enginn tónlistarskóli og enga píanó- kennslu að fá í Vestmannaeyj- um. Ég varð því að þreifa mig áfram af eigin rammleik. Og þetta kom smátt og smátt og þessi kunnátta mín leiddi til þess að ég var kominn í skólahljóm- sveit strax á gagnfræðaskólaárun- um. Slíkar hljómsveitir voru fá- gætar á þeim árum og ég minnist þess að íþróttafélögin í Eyjum lögðu fram fé til kaupa á harmon- iku handa okkur, því engin hljómsveit gat staðið undir nafni nema hafa nikkuna til taks á þeim árum. í þessari hljomsveit voru auk mín þeir Marinó Guðmundsson, sem var pottur- inn og pannan í öllu saman, bróðir hans Björgvin, Guðni Hermannssen og Gísli Brynjólfs- son. Þessi hópur hélt saman og æfingarnar voru oftast á skósmíð- averkstæði Guðmundar, föður þeirra Marinós og Björgvins. Þessi hljómsveit fékk mjög frum- legt nafn; hún var kölluð „Tunn- uhljómsveitin" vegna þess að Marinó smíðaði trommurnar úr gömlum tunnum. Við spiluðum á skólaböllum, en einnig á al- mennum dansleikjum og höfðum nóg að gera um hverja helgi. Haldið til Reykjavíkur Þegar gagnfræðaskólanámi Iauk varð ég að velja og hafna. Átti ég að fara hefðbundnar námsleiðir, eða átti ég að fara í tónlistarnám. Ég tók síðari kostinn og það sama gerðu raunar nokkrir félag- ar mínir úr Tunnuhljómsveitinni, jafnvel þótt við yrðum að sækja námið til Reykjavíkur. Þar settist ég í Tónlistarskólann og minn fyrsti kennari var Árni Björnsson, tónskáld. En maður lifði nú ekki á loftinu einu saman á þessum skólaárum, þannig að með skólanum var ég í ýmsum hljómsveitum. Til að byrja með spiluðum við saman peyjarnir úr Éyjum, en fleiri hljómsveitir komu síðar til sögunnar. Ætli fyrsta fasta starfið mitt á þessum vettvangi hafi ekki verið í gamla Guttó, þar sem bílastæði alþing- ismannanna okkar eru núna. Minn fyrsti hljómsveitarstjóri þar var Jóhann Gunnar Halldórsson, sem nú er skólastjóri Tónlistar- skólans á Blönduósi. Auk hans komu ýmsir ágætir menn þar við sögu; m.a. Guðni Guðnason, harmonikuleikari og Kristinn Vilhelmsson,trommuleikari, sem nú er búsettur í Danmörku. Hann kom hingað upp í fyrra oig hét þá Kris Will minnir mig og spilaði á orgel og söng með. Þá voru gömlu dansarnir í Guttó á laugardögum og á sunnudögum voru dansleikir fyrir unga fólkið. Þessir dansleikir voru svo vinsæl- ir, að það tók ekki nema 10-20 mínútur að selja hvern einasta miða. Gömlu dansarnir voru mjög formlegir. Klukkan þetta var dansaður vals og klukkan þetta var dansaður peysufata- polki. Mér er Sigurður gamli allt- af minnisstæður, en hann sá um miðasöluna. Við sáum til hans ofan af hljómsveitarpallinum og það brást ekki að hann brá sér á klósettið á nákvæmlega sömu mínútunni hvert einasta laugar- dagskvöld. Eftir þessu gátum við stillt klukkurnar okkar, því við vissum að það voru fimm mínút- ur eftir í marsinn þegar Siggi gamli þurfti að létta á sér. Og marsinn var alltaf dansaður á ákveðnum tíma. En þessi böll í Guttó voru alltaf einstaklega fjörug og skemmtileg og ekki var þar haft vín um hönd, því templ- arar sáu um dansleikina. % Þá var lifandi músik við danskennsluna Fleiri mætir menn komu við sögu í Guttó, m.a. Bragi Hlíðberg og Jan Morarik, miklir snillingar. Ég var oftast við píanóið, en greip stundum í nikkuna, skipti þá við Braga. Á þessum árum gerði ég líka talsvert af því að spila fyrir danskennslu hjá Rig- mon Hanson, því þá tíðkaðist að danskennarar hefðu lifandi músík. Ég var í Tónlistarskólanum í ein fjögur til fimm ár, en eftir það var ég nær eingöngu í hljóm- sveitabransanum. M.a. var ég í tvö sumur á Siglufirði á meðan síldarævintýrið stóð. Þar spiluð- um við sex kvöld í viku, ýmist á hótel Höfn eða Hvanneyri. Þetta var í lok síldarævintýrisins og við vorum þrír saman; Guðmundur Norðdal og Sigurður Guðmunds- son frá Háeyri í Vestmannaeyj- um auk mín. Við spiluðum á sunnudagseftirmiðdögum á rekstrasjón á Hvanneyri og átt- um að mæta klukkan hálf fjögur. Það þótti hins vegar tíðindum sæta, að við vorum aldrei mættir fyrr en svona tíu mínútum of seint. En það var ekki vegna þess að við værum á einhverju slarki, því við vorum í kirkju. Það var svoddans prýðis prestur á Siglu- firði þá, séra Kristján Róberts- son, sem söng vel og hans messur voru góðar. Þess vegna sóttum við þær, jafnvel þótt það þýddi að við kæmum of seint til vinn- unnar. En það bar fleira til á Siglufirði. Eitt skiptið þegar við vorum að koma heim að loknum dansleik var löng biðröð við dyrnar þar sem við bjuggum. Við fikruðum okkur nú nær til að kanna hverju þetta sætti, því okkur var farið að langa í koju. Þá sjáum við hvar tveir norð- menn standa í dyrunum með stóran pott og ausu. Þá höfðu þeir útbúið bollu og jusu upp í hvern sem hafa vildi. Við þurft- um því að fara í biðröðina til að komast inn til okkar. % Ýmislegt brallað á Sigló Jú, það var ýmislegt brallað á Siglufirði á þessum árum. Einu sinni vorum við að spila bridds langt fram á nótt og einn af fé- lögum okkar var Kaj Rasmun- sen, bakarinn á staðnum. Hann þurfti því að fara snemma til vinnu, en við héldum aftur af honum, sögðum að það lægi ekk- ert á því, við gætum hjálpað honum í bakaríinu þegar þar að kæmi. Það væri meira áríðandi að klára bertuna. Loks var ekki lengur haldið aftur af Kaj og við fórum með honum í bakaríið til að laga vínarbrauðin. Við Eirík- ur Eiríksson, núverandi prentari á Akureyri, tókum að okkur að laga í vínarbrauðin, fengum bara gefið upp hvað átti að vera mikið af hverju. Síðan fórum við heim að sofa og bakararnir tóku við. En lögunin hafði tekist vel hjá okkur Eiríki, hafði tekist vel hjá okkur Eiríki, því vínarbrauðin runnu út. Þegar ég kom á fætur upp úr hádeginu var ekki eitt ein- asta eftir. Ég fékk því ekki að smakka þetta lostæti! En böllin voru friðsamleg, ég man ekki nema einu sinni eftir almenni- legum slagsmálum, en þá var líka allt brotið og bramlað á hótel Höfn. Við spiluðum fyrir dansi hvert kvöld og lágum síðan í sólbaði á daginn, ef sólin skein og við vorum vaknaðir áður en hún settist. Eftir Tónlistarskólann fór ég í annan skóla, sem þá hét Söng- skóli þjóðkirkjunnar. Þar var ég í orgelnámi hjá Páli Kr. Pálssyni, en Sigurður Birkis var þá söng- málastjóri og stýrði þessum skóla. Þarna komu organistar víða af landinu, ýmist til að bæta við sig eða til að undirbúa sig undir organistastarf. Reyndin varð nú sú, að ég var nokkurs konar blanda af nemanda og kennara í Söngskólanum, því margt af því sem þar var kennt var ekkert nýtt fyrir mig eftir Tónlistarskólann. Ég lenti til að mynda í því að vera túlkur fyrir Þórarin Jónsson, sem kenndi okkur tónfræðina. Hann var þá nýkominn frá Þýskalandi og hafði ekki á hraðbergi íslensku orðin yfir öll hugtök tónfræðinn- ar. En hann var mikill indælis karl. Aftur til Eyja Eftir alla þessar sólarsögu fór ég aftur til Eyja. Þar spilaði ég fyrir dansi sem fyrr, jafnframt því sem ég kenndi við Tónlistarskólann þar og síðar meir varð ég organ- isti við Landakirkju. Þá hitti ég aftur suma af mínum gömlu fé- lögum úr „Tunnuhljómsveitinni“ og fleiri bættust í hópinn. Guðni Hermannssen var með mér aftur; Gísli Bryngeirsson sem nú er úr- smiður í Borgarnesi; Sigurður Guðmundsson Háeyringur sem var með mér á Siglufirði; Erling Ágústsson var söngvarinn og fleiri mætti nefna. Þá komu út á hljómplötum þessi vinsælu lög sem Erling söng; „Nonni, þú ert ungur enn“; „Oft er fjör í Eyj- um“ og „Við gefumst aldrei upp þó móti blási". Að vísu var það ekki hljómsveitin okkar úr Éyj- um sem lék undir á hljómplöt- unum, heldur hljómsveit Eyþórs Þorlákssonar. Én þeir fengu styrk frá okkur, því ég lék með á píanóið við upptökurnar! Það var Tage Ammendrup sem gaf þessar plötur út. En það voru nokkuð tíð mannaskipti í þessari hljóm- sveit í Eyjum, sem var við líði í nær tíu ár. Ég minnist Höskulds heitins Þórhallsonar, trompet- leikara, Viðars Alfreðssonar og Aðalsteins Brynjólfssonar, sem vann sér það meðal annars til frægðar að smíða sinn kontra- bassa sjálfur, skínandi fallegt hljóðfæri. Eftir að ég gerðist organisti í Landakirkju hætti ég tónlistar- kennslunni. Ég sá Vestmann- eyingum sem sé fyrir hvoru tveggja, kirkju- og dansmúsik. Þetta fór ágætlega saman, en ég varð að passa mig á því að byrja ekki á einhverjum dansmelodí- um í kirkjunni! Það var fjör á vertíðum í Eyj- um á þessum árum, enda var þar margt fólk, t.d. Færeyingar svo hundruðum skipti. Það var því oft örtröð á dansleikjunum og stundum voru jafnmargior utan- dyra sem innan. En mér fannst ekki vera svo mikið um slagsmál eða illindi. Ég held að menn hafi gert of mikið úr því. Þó man ég eftir einu lokaballi sem við spil- uðum á. Þá komu til okkar nokkrir fyrirmyndarskiptstjórar þegar ballinu átti að ljúka og vildu framlengja það. Einn þeirra fór inn í eldhús og náði þar í stórt vaskafat. Síðan gekk hann um salinn til að safna fyrir framleng- ingunni. Og það gekk vel, ég man að það var komið mikið af seðlum í fatið og meira að segja heilu tékkheftin. En þá komst lögreglan í spilið og bannaði framlenginguna. Þar með logaði allt í slagsmálum og næstu dagar fóru í yfirheyrslur út af þessu máli. Mig minnir að það hafi um 40-50 manns verið kallaðir fyrir. Þarna voru lögregluþjónarnir grunnhyggnir að mínu mati, því ef þeir hefðu leyft fólkinu að dansa í hálftíma til viðbótar hefðu engin vandræði orðið og allir unað glaðir við sitt. Við spiluðum gjarnan á þjóð- hátíðum, þeirri síðustu 1960, en að henni lokinni fórum við í heil- mikla ferð til Danmerkur og Frakklands. Við fórum með Heklunni og það hittist þannig á að hún kom til Vestmannaeyja á miðju balli hjá okkur. Við urðum því að pakka saman á pallinum uppi í Herjólfsdal og halda þaðan beint ti skips. En sem betur fer var önnur hljómsveit til taks til að taka við af okkur. Við fórum síðan með Heklunni til Kaup- mannahafnar og síðan með lest til Parísar. Við höfðum safnað okkur farareyri með því að halda músikkabaretta heima í Eyjum, þar sem við fengum hæfileikafólk til að koma fram og syngja. Eftir þessa ferð fór ég til Reykjavíkur aftur. $ Tjarnarkaffi og Borgin Eftir að til Reykjavíkur kom fór ég að spila á Tjarnarkaffi með Jose Riba og fleiri góðum mönnum, en síðan lá leiðin á Hótel Borg, þar sem ég spilaði með Birgi R. Einarssyni. Hann var þá með einstaklega skemmti- lega hljómsveit, enda með ein- valalið; Viðar Alfreðsson, Guð- mundur Einarsson, Vilhjálmur Guðjónsson, Gunnar Ormslev og Erving Köppen, sem var þýskur bassaleikari. Þetta voru allt meðlimir í Sinfóníunni, nema ég, og miklir músíkmenn. En því miður leystist þessi hljómsveit upp eftir fyrsta veturinn, því það vildi brenna við að enginn úr þessu sex manna bandi mætti, nema píanóleikarinn. Hinir voru þá uppteknir með Sinfóníunni. En ég var viðloðandi Borgina um árabil. Og þá var nú stíll yfir þessu. Þá mættum við Jónas Dag- bjartsson, fiðluleikari, á Borginni í hádeginu og aftur um eftirmið- dagskaffið og lékum fyrir gesti. Þarna spiluðum við létt-klassiska tónlist, en það þyrfti líklega að kosta eitthvað kaffið á Borginni í dag til að standa unir slíkum flottheitum. Næst lá fyrir að leika fyrir bandaríska hermenn á Keflavíkurflugvelli og eftir það lá leiðin á Röðul. Síðan fór ég á Borgina aftur, fyrst með hljóm- sveit Jóns Páls Bjarnasonar, en síðan var ég þar með eigin hljóm- sveit í nokkur ár. Þar söng Óðinn Valdimarsson með okkur um tíma, góður drengur, en það kom fyrir að hann kom of seint til starfa þó hann þyrfti ekki að mæta fyrr en níu á kvöldin. Þá bar hann því við að hafa sofið yfir sig! Hann er eini maðurinn sem ég hef kynnst og hefur sofið af sér þennan vinnutíma. En þetta var nú ekki algengt. Janis Carol hóf sinn söngferil með minni hljóm- sveit, en hún gerir nú garðinn frægan í London. Saxafónleikari með hljómsveitinni um tíma var Kristinn Svavarsson, sem nú er með Mezzoforte. Auk þeirra voru með mér Björn R. Einars- son, Guðjón Ingi Sigurðsson og Ómar Axelsson. Það er mikils- vert að hafa gott samstarfsfólk í hljómsveit og ég held að ég hafi verið einstaklega heppinn með mína samleikara. Af Borginni lá leiðin í Leikhúskjallarann og á Loftleiðum lauk mínum hljóm- sveitarferli í Reykjavík. Út á land Á meðan á hljómsveitarbransan- um stóð í Reykjavík hafði ég sótt tónmenntakennaradeild Tónlist- arskólans og réði mig síðan sem tónlistarkennara í Borgarnes. Þar ætlaði ég að vera í eitt ár, en árin mín þar urðu nú níu. Þar var ég með hljómsveit fyrstu árin, en síðan hætti ég því algerlega, lét tónlistarkennsluna nægja og auk þess var ég kirkjuorganisti og sá um að æfa og stjórna kirkjukórn- um. Frá Borgarnesi flutti ég til Siglufjarðar til hliðstæðra starfa og var þar í 4 ár. Þaðan fór ég hingað til Hvammstanga og hér hef ég verið í 3 ár. Þá hefur þú nú lífshlaupið í grófum dráttum. Jú, víst gat hljómsveitarlífið verið slarksamt stundum. Ég get ekki neitað því. Það var talsvert um að okkur var boðið í gleðskap að loknum dansleikjum og oft var það þegið. En ég held að flestir hafi sloppið nokkuð óskemmdir út úr því. Að minnsta kosti tel ég sjálfan mig standa nokkum veginn uppréttan. Kvennamál segir þú. Já, ég er tvígiftur og hef í allt búið með fjórum konum. Það þýðir að ég hef í tvígang lifað í synd. Óneit- anlega er vinnutími hljóðfæra- leikara óhentugur fyrir heilbrigt fjölskyldulíf. Við vinnum þegar aðrir eru að skemmta sér. En hvort að minn starfi áður fyrr er ástæðan fyrir því að ég hef búið með fjórum konum, en ekki bara einni, veit ég ekki. Það er þeirra að svara því. Sjálfsagt hefur það haft einhver áhrif. En það kemur fleira til. Miklar breytingar Það hafa orðið geysilega miklar breytingar í dansmúsik okkar frá því að ég byrjaði að spila fyrir dansi til dagsins í dag. Ég hef það á tilfinningunni, að hér á árum áður hafi verið meiri gleði í mús- ikkinni, en sem betur fer held ég að þetta sé aftur að færast í betra horf. Nú eru hljóðfæraleikarar farnir að afla sér góðrar mertnt- unnar, en hér fyrir nokkrum árum keyptu menn sér hljóðfæri og voru síðan komnir í fulla spilamennsku eftir vikuna kannski. Þá vissu þeir lítið annað en hvernig hljóðfærið átti að snúa og hvernig átti að kveikja á græj- unum. En það var meiri gleði í þessu hér á sokkabandsárum mínum í faginu og það var líka meiri gleði hjá fólkinu sem sótti dansleikina, þá réði gleðin ríkjum. Nú finnst mér fólk gera allt of mikið af því að láta aðra skemmta sér. Það sést varla maður brosa á dansleikjum. Ef til vill eru þetta ellimörk á mér. Það er gaman að kenna börn- um tónlist, sérstaklega þegar maður finnur að það er músik í þeim. Núna munu vera tæp 8 þúsund nemendur í tónlistar- skólum landsins og sem betur fer er ekki hægt að tala um það sem stöðutákn að eiga barn í tónlist- arskóla. Það á öllum að vera fært að senda börn sín í slíkan skóla, enda eru þeir reknir af ríki og sveitarfélögum. Það eru náttúr- lega í tónlistarskólum landsins nemendur sem hvorki hafa áhuga né hæfileika til að vera þar, en í hvaða skóla er það ekki? Það kemur fyrir að börnin sækja skól- ana vegna vilja foreldranna, en slík stýring fer minnkandi. En hún þarf ekki að vera neikvæð, því ég veit dæmi þess að slíkt að- hald hefur skilað árangri og þakklæti barnanna til foreldr- anna þegar þau þroskast. Ég minnist alla tíð þeirra erfiðleika sem ég átti við að glíma í mínu tónlistarnámi heima í Eyjum, þar sem enginn var til staðar til að kenna mér. Þess vegna fór ég út á land til að kenna, því mér finnst sorglegt að vita til þess hvað bú- seta getur sett börnum og ung- lingum þröngar skorður til menntunnar. Það má heldur enginn halda að tónlistarskólarn- ir séu til að skapa snillinga. Það væri nær að segja að þeir finni efni og reyni að beina þeim inn á réttar brautir, en megintilgangur- inn er að auka tónlistarþekkingu almennings, þannig að fólk eigi auðveldar með að njóta tónlistar þegar frístundir gefast; ýmist með að spila fyrir sjálfan sig eða njóta snillinganna af hljóm- plötum. Tónlist hefur góð áhrif á sálartetrið, hún hjálpar þegar illa stendur í bólið. Þess vegna finnst mér nauðsynlegt að allur almenn- ingur eigi kost á tónmenntun. ég reyndi það sjálfur; það eru þessi lög sem fólkið vill heyra aftur og aftur - og það er ekki bara eldra fólkið, því unga fólkið kann að meta þau líka. Og mér finnst Jóhann fara mjög vel með þessi lög og hann leggur líka mik- ið upp úr því í sínum söng, að textinn komist vel til skila. Og hann nær vel til fólksins, sem nær undantekningalaust hefur tekið okkur mjög vel. Ég er sáttur við lífið og tilver- una eins og hún er og hefur verið. Hvort ég myndi lifa því eins ef ég ætti að endurtaka það? Ég veit það ekki. Ætli maður myndi ekki nýta stundirnar betur ef ég mætti hafa hliðsjón af minni lífsreynslu. En það yrði erfitt að endurtaka mitt líf, því tímarnir eru breyttir. Hér áður fyrr fórum við í hljóm- sveitarferðalög á einum fólksbíl með stóru trommuna á toppgrind uppi á þaki. Það kom meira að segja einu sinni fyrir, að tromm- an losnaði og rúllaði á undan bílnum. Um daginn var ég hins vegar samferða hljómsveit út í Grímsey. Þeir þurftu heila flug- vél undir allt sitt dót og það var mikið bras fyrir strákana að pakka þessu öllu saman og koma því fyrir í flugvélinni. Ég sagði þeim, að það hefði nú verið mun- ur að vera í þessu hér á árum áður, þegar maður þurfti ekki að mæta með annað en sjálfan sig og eina brennivínsflösku í slík ferðalög. Já, ég er gleðimaður, félagsvera, sem gleðst innan um gott fólk. En hvort það gleðst yfir nærveru minni er svo aftur annað mál.“ - GS Gott samstarf Þú mátt skrifa eftir mér allt gott sem þú vilt um Jóhann Má Jó- hannsson, því ég kvitta ekki und- ir annað en gott í samstarfinu við hann. Við kynntumst þegar ég var á Siglufirði og tók að mér að leika undir fyrir karlakór á Sauð- árkróki. Þar var Jóhann meðal liðsmanna og þar með hófst okk- ar samstarf sem hefur staðið óslitið síðan. Við flytjum mest ts- lensk sönglög, sem sum hver hafa lifað lengi með þjóðinni. Og það er eftirtektarvert að fólkið vill helst heyra gömlu íslensku lögin. Maður hefði haldið að sum þeirra ættu að vera eins og gömul útspil- uð plata, en það er nú öðru nær. Ég hefði ekki trúað þessu fyrr en

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.