Dagur - 07.11.1984, Blaðsíða 2

Dagur - 07.11.1984, Blaðsíða 2
2 - DAGUR - 7. nóvember 1984 Verður veturinn snjóþungur? Sigurður Gunnarsson: Nei, það held ég ekki. En þetta er bara óskhyggja hjá mér. Gunnar Sigtryggsson: Nei, ég held að vcturinn verði sæmilegur, að minnsta kosti fram til áramóta. Anton Stefansson; Það verður slatti af snjó. Halldór Kristjánsson: Pað verður mikill snjór í vetur. - Steini P. í Viðtali Dags-ins „Eg sá svona snjóbursta er- lendis og stundum getur maður orðið afskaplega hissa þegar maður sér svona einfalda hluti en bráðnauðsynlega, að hafa ekki látið sér detta í hug að búa svona til. Þegar ég sá þetta úti var ég strax ákveðinn í að reyna að nota hugmyndina hérna heima. Ég hafði sam- band við kunningja minn á Vélsmiðju Steindórs og í sam- einingu erum við byrjaðir framleiðslu á þessum burstum. Það er komið „model“ frá okkur sem hentar mjög vel þar sem mikið er gengið um eins og t.d. við fjölbýlishús og fyrir- tæki. Einnig erum við að reyna að koma á markaðinn minni bursta sem myndi henta t.d. við einbýlishús.“ - Þetta sagði Þorsteinn Péturs- son lögreglumaður á Akureyri í stuttu spjalli við Dag, en „snjó- burstinn“ hans Steina P. hefur vakið mikla athygli. „Svona bursti er búinn að vera uppi við íþróttahöll og húsverðir þar eru stórhrifnir. Fleiri og fleiri nota burstann í stað þess að vaða inn með snjóinn á skónum sínum. Pað er ekki einungis spurning um að fá snjóinn ekki inn, heldur er ekkert verra fyrir skófatnað en að láta snjó standa á honum, þá blotnar hann illa og t.d. leður- stígvél fara illa við svoleiðis meðferð.“ - Hvað ert þú búinn að af- greiða marga svona bursta? „Það voru smíðaðir 50 burstar og við erum langt komnir að selja þá. Ég var ákveðinn í að hrinda þessu í framkvæmd og láta smíða þetta hérna heima á Akureyri vegna þess að þetta er hlutur sem við getum útbúið og þetta gefur atvinnu. Þetta litla ævintýri er þegar búið að færa tveimur iðn- aðarmönnum vinnu í eina viku. Ég veit það hins vegar að það er hægt að flytja þessa bursta til landsins, en það skapar ekki at- vinnu á Akureyri.“ - Hefur þú í hyggju að reyna að koma burstanum á framfæri víða á landinu? „Já, ég ætla að reyna að koma honum á markað um allt land, enda hefur það í för með sér at- vinnu hér á Akureyri. Ég nota minn frítíma í það að dreifa þessu og hef einnig aðstoðað við að koma burstunum fyrir.“ - Fleiri hugmyndir sem geta skapað vinnu í bænum? „Já, já. Það er meiningin að reyna að smíða grindur til þess að festa skíði á, þessar grindur gætu verið hvort sem er í þvottahúsinu eða jafnvel utanhúss. Það eru margir í vandræðum með að geyma skíðin sín, þau standa gjarnan upp á endann hjá fólki úti í horni en þessar handhægu grindur gætu leyst þann vanda. Ég er búinn að smíða mér svona grind sjálfur." - Þú ert sem sagt orðinn upp- finningamaður? „Nei, nei, nei. Við þurfum hins vegar að líta í kringum okkur. Ég held að við verðum að horfa á eitthvað annað í bili en álver vegna þess að það kemur ekki fyrr en eftir mörg ár og ég er viss um að það er fullt af verkefnum sem við gætum skapað okkur sjálfir. Ef mér tekst að skapa iðn- aðarmönnum atvinnu einhverjar vikur í vetur, þá geta aðrir það líka. Það verða allir að sameinast um þetta. Mér dettur í hug í þessu sam- bandi að það er engin minja- gripaframleiðsla á Akureyri. Ég vildi endilega að það væri hægt að skapa nokkrum mönnum vinnu við það í vetur að búa til minjagripi frá Akureyri sem hægt væri að selja í göngugötunni næsta sumar. Þarna kemur allt mögulegt til greina. Færeyingarn- ir t.d. búa til platta sem á eru uppskriftir af ýmiss konar fær- eyskum réttum. Þetta getum við gert, plattar með uppskrift á af sviðum og kartöflustöppu og mynd af réttinum gætu t.d. ör- ugglega selst. Við erum ekki næstum því nógu duglegir að græða. Ef það koma t.d. um 60 þúsund ferða- menn til landsins þá er ljóst að þeir þurfa að pissa á meðan þeir standa hér við. Það á alls staðar að selja þeim aðgang að salern- um. Þetta má ég hafa ef ég fer er- lendis, ég má gjöra svo vel að borga fyrir pissiríið. Ef 60 þús- und manns borga 10 krónur hver fyrir að fá að pissa þá koma nokkrar krónur í kassann, og hvað þurfa þeir að pissa oft í landinu? í alvöru, þarna er gjaldeyrir. Við eigum líka að gefa ferða- mönnum kost á að kynnast vinnustöðum. Hér á Akureyri erum við með besta frystihús landsins, það ber af og er stór- kostlegt. Þar eiga menn að taka sig til, auglýsa ákveðna tíma sem frystihúsið er til sýnis og láta ferðamennina greiða fyrir að sjá fólk að störfum. Svo á að selja þessu fólki kaffi á eftir. Það ætti líka að leyfa þessu fólki að fara um borð í togara þegar hægt er að koma því við. Það á að selja aðgang að þessu. Fólk sem kem- ur hingað kvartar yfir því að hér sé ekkert hægt að gera annað en að fara í Sjallann en þetta er ekki rétt. Þótt okkur finnist ekki merkilegt að sjá þorsk flakaðan þá finnst útlendingum það stór- merkilegt. Ég þekki ferðamenn sem komu hingað og fengu að fylgjast með í frystihúsinu og fólkið átti ekki orð yfir þetta, þótt íslendingar taki fyrir nefið sumir hverjir. Möguleikarnir eru alls staðar, menn verða bara að leggjast á eitt við að hrinda ýmsu skemmtilegu í framkvæmd sem um leið skapar atvinnu og pen- inga hér í bænum. Við eigum t.d: að reisa lítil hús í Kjarnaskógi. Við höfum þar fallegasta útivistarsvæði landsins, fólk getur verið þarna á skíðum á veturna og á sumrin ætti að fara vel um fólk þar. Möguleikarnir eru alls staðar," sagði Þorsteinn Pétursson að lokum. gk-. Furðuleg vinnubrögð hjá bankaráði Bragi Guðmundsson skrifar: Ráðning bankaráðs Búnaðarbanka íslands á Gunnari Hjartarsyni í stöðu útibússtjóra bankans á Akureyri kom mjög á óvart. Meðal umsækj- enda var Jóhann Helgason sem helg- að hefur bankanum krafta sína sl. 25 ár og um langt árabil sá starfsmaður er næst hefur staðið fráfarandi úti- bússtjóra og þráfaldlega gengið í störf hans. Nú síðustu árin sem skrif- stofustjóri útibúsins. Að öðru jöfnu hefði Jóhann fengið útibússtjóra- stöðuna ef starfsaldur, reynsla og hæfni umsækjenda hefði verið látin ráða. En öðrum var ætluð staðan og vinnubrögðin við veitingu hennar og fréttaflutningur af gangi mála eru ástæður þessara skrifa. Steingrímur Bernharðsson ætlaði að láta af störfum útibússtjóra fyrir tveimur árum og þá eins og nú reynd- ust Jóhann og Gunnar hafa mest fylgi í bankaráði. Einhverra hluta vegna ákvað ráðið að veita stöðuna ekki að sinni, heldur óskaði eftir því við Steingrím að hann héldi henni áfram. Sem hann svo gerði. Um raunverulegar ástæður frestunarinn- ar fyrir tveimur árum er óhægt að fullyrða en vissulega vakti hún marg- ar spurningar sem enn er að nokkru ósvarað. Nú vita það allir sem vilja vita að betri starfsmann en Jóhann Helgason er erfitt að hugsa sér. Þess vegna var það í hæsta máta ómaklegt sem lesa mátti í DV þann 26. október að starfsfólkið hefði nær einhuga fylkt sér um Gunnar og væri fróðlegt að vita hverjir voru heimildarmenn blaðsins að fréttinni. Eftir áliti starfs- liðsins var hins vegar aldrei leitað og mér er fullkunnugt um að það brást ókvæða við þessari tilhæfulausu frétt og sendi frá sér athugasemd þar að lútandi sem birtist í DV 31. október. Mér og fleirum hefur ofboðið söguburðurinn sem komið var á fót gegn Jóhanni og afgreiðslan í banka- ráði er kapítuli út af fyrir sig. Ráðn- ing Gunnars Hjartarsonar er enn eitt dæmið um spillingu við embættaveit- ingar hér á landi þótt hæfni hans til starfans sé ekki dregin í efa. Starfs- aldur var að engu metinn, Jóhann hefur um tvöfalt lengri starfsaldur hjá Búnaðarbankanum en Gunnar, og farnir eru refilstigir á bak við tjöldin þar sem illmælgi og hrossa- kaup varða veginn. Jóhann Helgason hefur sagt upp störfum við útibú Búnaðarbankans á Akureyri og mér finnst mannsbrag- ur að þeirri ákvörðun hans. Honum fylgja bestu óskir um gott gengi á nýjum starfsvettvangi.

x

Dagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagur
https://timarit.is/publication/256

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.