Þjóðviljinn - 24.12.1976, Blaðsíða 19

Þjóðviljinn - 24.12.1976, Blaðsíða 19
Jólablaö ÞJÓÐVILJINN — SIOA pi að hann laumist inn til mín eins og þjófur, að hann komi að mér óvörum að særa mig með sínum hræðilegu vopnum? Já hann er kominn! Mjóu örvarnar hans lentu i hjarta mínu, og nú er það sem í hers höndum. Ætti ég að láta undan honum? Eða að reyna að verjast? Það væri að hella olíu á eldinn. Þá mundi hann loga hátt. Það er víst best að ég láti undan, byrði sem maður er ásáttur með að bera, vegur léttar. Ég þekki það að logi á kyndli æsist ef kyndlinum er sveitlað en deyr út ef kyndillinn er látinn óhreyfður. Ungir uxar sem beitt er fyrir plóg eru miklu oftar barðir ef þeir þverskallast við að gegna verki sínu, heldur en hinir sem hlýðnir eru. Ólmur foli er hörðu höggi sleginn, það kennir honum hlýðni. En gangist hann undir vilja tamningamannsins án þverúðar, list honum höggið ekki jafnhart. Og svona er ástaguðunum farið, þeim sem honum eru þægir, er hann linari, en harðari þeim sem móti honum standa. Látum þá slag standa, Amor, ég játa mig yfirunninn. Aumur fangi er ég núna og ég krýp, fórnandi höndum frammi fyrir þér, sigrari minn. Til hvers er að þverskallast? Ég bið ekki um annað en fyrirgefningu og frið. Litlu mundi það auka við hróður þinn að vinna á varnarlausum manni. Krýndu nú enni þitt myrtu og beittu dúfum móður þinnar fyrir vagninn. Stjúpi þinn mun gefa þér þann vagn sem hæf ir þér, og á þeim vagni, og við hylling fjöldans, muntu fara fram við sigurhrós, og þú munt kunna tökin á að stýra þessum aktygjuðu fuglum. Fangar þínir sveinar og meyjar, skulu fylgja eftir, og dýrðleg skal verða sigurför þín. Og ég, sá sem þú særðir síðast, verð einn í þeim hópi, með mitt blæðandi sár, með auðmýkt mun ég bera mína nýgerðu hlekki. Varfærni fær að ganga með okkur, með hendur bundnar á bak aftur, og með henni Skírlífi og allt það annað sem guðdómi þessum er til traf- ala. Allir skulu veita þér lotningu, hylla þig skulu þeir sem í skrúðgöngunni ganga, réttandi upp og f ram hendur með hrópinu: ,,lo Triumphe!" Blið- læti skal vera fylgilið þitt ásamt Blekkingu og Galskap, því þessar eigindir fylgja þér jafnan. Og fyrir atbeina þessara þriggja muntu verða ofjarl guðum og mönnum, án þeirra ber jafnt að framan sem á baki. Svo fegin verður móðir þín upphefð þinni að hún klappar þér lof í lófa frá Ólympstindi sínum og stráir rósum á veg þinn. Vængir þínir og hárlokkar skulu skreyttir vera dýrum steinum, og gulli skrýdd skaltu aka þínum gullna vagni. Og svo muntu, ef ég þekki þig rétt, kveikja i fjöldamörgum hjörtum til viðbótar, og mörgum sárum muntu valda á ferli þínum. Þó þú óskir þér hvíldar má það ekki veitast þér, þvi aldrei má örvadrífan stöðvast. Eldar þínir breyta vatni i eim. Þannig fór Bakkusi þegar hann vann lönd við Ganges. Dúfur draga vagn þinn, haps vagn var dreginn. af tígrum.^Og fyrst ég má kalla mig þátttakanda i þinni guðumlíku sigurför, vil ég biðjast þess að þú losir ekki um vald þitt yfir mér. Minnstu sigurvinninga frænda þins Cesars, hann hélt skildi yfir þeim sem hann hafði sigrað, með sömu hendi sem hann neytti við sigurinn. Úr Ars amores Óvíds Fjoröa sorgarljóö Maðurinn þinn ætlar að koma og borða kvöldverð með okkur. Megi sú máltíð verða hans siðasta. Og má ég þvi ekki lita á elskuna mína nema rétt eins og hver annar af gestunum. Ekki má ég sýna henni nein atlot, það er annar sem á réttinn. Og þar sem hún hvílir munaðarsæl að annars manns fótum, þá er það hans brjóst sem þú vilt verma. Og hann má strjúka þér um háls, gæla við þig að vild sinni. Undrastu ekki framar þó að Hippodamia hin fagra hafi æst upp vígamóð hinna fáránlegu kentára, þegar að lokinni brúðkaupsveislunni. Ekki lifi ég í skógi, svo sem þeir, né heldur er ég maður að hálfu, en hestur að hálfu, svo sem þeir, samt mundi mér veitast örðugt að hafa taum- hald á ákefð minni og afbrýðis- semi. Taktu nú eftir hvað þér ber að gera og leyfðu hvorki Eurus né hinum andheita Notus að þyrla orðum mínum út í veður og vind. Reyndu að stilla svo til að þú komirá undan bónda þínum. Ég veit ekki hvað fyrir kann að koma ef þú hlýðir þessu, en komdu nú samt á undan honum. Þegar við höfum komið honum fyrir útafliggjandi á bekknum, skaltu koma, hógvær og prúð og leggjast á bekkinn hjá honum, en mundu að koma við fótinn á mér um leið og þú gengur hjá, varlega, svo hann sjái ekki til þín. Gefðu stöðugt gætur að mér, hverri hreyfingu minni, og gættu þess hvertég lit. Hafðu við mestu gætni í því að senda mér merki og ég mun hafa við mestu gætni. Engin orð skulu koma yfir varir okkar, augnaráð mitt mun segja þér allt sem þú þarft að vita, hendur mínar og vínið, jafnvel það, mun tala til þín. Þegar þú hugleiðir hvílíkt skal vera okkar gaman, strjúktu þá hendi yfir rósvanga þinn. En sé nú eitthvað sem þú vilt álasa mér fyrir, snertu þá eyrnasnepilinn aðeins. En líki þér merkin sem ég gef þér, eða orðin sem ég tala, stjarnan mín, gleymdu þá ekki að snúa hringnum á fingrinum. Snertu borðið þegar presturinn snertir altarið, ef þú skyldir vilja óska manninum þínum þeirra ónefndu hluta sem hann á sannarlega skilið að hljóta. Bjóði hann þér vín, þá segðu honum að svolgra það sjáífur, síðan skaltu hvísla lágt að þrælnum að hann færi þér það vin sem þér þykir best. Af bikarnum sem þú færð honum, þegar þú hefur drukkið, ætla ég að drekka, og bera mér að vörum þann stað á röndinni, sem varir þínar snertu, mínar skulu snerta þann stað. Ef hann skyldi rétta þér skerf af því, sem hann hefur sjálfur bragðað, snertu ekki á því. Leyfðu honum ekki að viðhafa nokkur blíð- skaparatlot. Hneigðu ekki þetta fagra höf uð að hans Ijóta brjósti, láttu ekki hans gráðugu fingur greipa um þitt yndislega brjóst, og umfram allt, láttu það ekki koma f yrir að hann kyssi þig. Þó ekki væri nema einn einasti koss, mundi ég rísa uppog lýsa því yf ir i allra viðurvist að ég sé elskhugi þinn, ég mundi segja: ,,Það er ég sem á þessa kossa", og leggja á hann þunga hönd. Sjötta sorgarljóð Dyravörður, veslingur minn, færður í hlekki sem þú átt ekki skilið að bera, opnaðu fyrir mér dyrnar. Það er svo litið sem ég bið þig um. Nei, opnaðu aðeins svolítið, rétt svo ég geti skáskotið mér inn. Ég hef lengi verið i þingum við konu og af því er ég orðinn svo horaður að ég þarf ekki viða gátt til að smeygja mér gegnum. Af því hef ég líka lært að laumast svo lítið beri á f ram- hjá húsvörðum. Því það er ásta- guðinn sem leiðir mig og stýrir hverju fótmáli svo ég ekki hrasi. Sú var tiðin að ég óttaðist nóttina og skugga næturinnar. Ég skildi ekki neitt í þvi að nokkur skyldi komast leiðar sinnar i myrkri. En Amor hló upp i opið geðið á mér og mamma hans lika, og hvíslaði mér í eyra: ,,Þér skal vaxa fiskur um hrygg." Nú er upprunnin hans stund, guðsins, og nú óttast ég ekki framar hina ískyggilegu skugga næturinnar né heldur vopnin sem reidd eru gegn mér. Það sem ég óttast mest núna, það er seinlæti þitt, meðskrumi og skjalli hyggst ég að koma þér til að gegna mér, þvi þú átt vald á lífi mínu. Líttu á, svo þú megir verða enn sann- færðari um réttmæti bænar minnar, taktu þá þessa ólukkans slagbranda f rá, svo þú getir séð - hve rækilega ég hef vætt dyrnar með tárum mínum. Svona er ég, og það veistu vel, að það var ég sem bað þér vægðar hjá frú þinni, þegar yfir þér vofði fleng- ing. Og núna! Sinnir þú ekki framar mínum heitu bænum, sem þú varst áður svo fús að veita, mikil fyrirmunun má það vera sem komin er yfir þig. Komdu nú að opna, þá skuld á ég hjá þér, nú er einmitt tækifæri til að greiða þakkarskuldina. Nóttin er bráðum liðin, dragðu slag- brandana frá. Opnaðu dyrnar og ég skal sjá um að þú losnir úr þinni löngu hlekkjavist, úr ánauð þinni við vesælan vatnsdrykk. Ekki gegnir þú enn, daufheyrði maður, hjarta þitt er harðara en járn. Þú heyrir til mín, samt bifast ekki þessi hurð úr eik. Umsetin borg má hafa óbifan- lega harðlokuð hlið, nú er friður i landi, og hvað hræðistu þá? Hvernig mundirðu fara að við óvin, fyrst þú ferð svona með meinlausan elskhuga? Nóttin er á förum, taktu slagbrandana frá. Ekki kom ég hingað i líki her- liðsforingja með sveit af böðlum á hælunum. Ég kæmi einsamall núna ef ekki væri ástaguðinn nærri mér. Hann mundi ekki fara frá mér, hvernig sem ég bæði hann, þvi það gæti hann ekki. Auðveldara mundi að skilja mér sál frá líkama. Ástina mína, ofurlitið vin í kollinum, húfu sem hallast yfir mínu ilmsmurða hári, þetta er það sem ég hef með mér. Hverjum mundi vera mein að þessu? Hver mundi hræðast þvíllkar óvinahetjur? Nóttin er bráðum liðin, taktu slagbrand- ana frá. Ertu svona seinn að átta þig, eða sigraði þig sá svefn sem and- vígur er ástafari, fyrst þú ansar bænum minum engu, og lætur þær liða sem óheyrðar út i vindinn? Ef ég man rétt þá var það einu sinni þegar ég var að reyna að sleppa framhjá þér, að ég heyrði að þú varst á ferli um miðja nótt. Hver veit nú nema þin stúlka hvili hjá þér þessa stund- ina. Sé svo, þá áttu mun betra en ég. Ef svo skyldi vera, færist það yfir á mig, þér grimmu hlekkir. Nóttin er liðin að stuttri stundu, taktu slagbrandana frá. Dreymir mig? Var ekki hurðin að sveiflast á hjörunum? Heyrði ég ekki marrið, var það ekki boð- skapur hennar til min að nú mætti ég fara inn fyrir? Ö, þetta var missýning! Það kom vind- hviða og skók hurðina svo marraði i hjörunum. Æ auman mig! Langt barst vonin á braut með gusti þeim. Allt er nú hljótt i borginni. Glitrandi demanta- daggir, og nóttin líður, dragðu slagbrandana frá. Opnaðu, segi ég, opnaðu, annars brýst ég inn í húsið og þá máttu vara þig. Brýt hurðina, kveiki eld með kyndlinum. Nótt. Ástin og Vínið leyfa enga undan- sláttarsemi, óttast ekkert. Allt er ég búinn að reyna, bænir, hótanir, allt fyrir gýg, ekkert bitur á þig, þú heyrir ver en hurðin sem þú gætir! Það hefði aldrei átt að láta þig gæta dyra fagurrar konu. í staðinn hefði átt að hafa þig til að gæta dyra á viðurstyggilegri dýf lissu. Líttu á, nú er morgunstjarnan komin á loft, og hanagalið kallar verka- menn til vinnu. Nú fleygi ég blómsveignum, sem ég bar um ennið, með hryggð á þröskuldinn, hann skal liggja þar meðan nokkuð lifir af nótt. Ef frú min skyldi sjá grilla í þig þar sem þú dragnast áfram í hlekkjunum, þá segðu henni hve lengi ég beið milli vonar og ótta, eftir því að þú opnaðir dyrnar. Vertu sæll, dyra- vörður, þrátt fyrir allt sem ég hef sagt, vil ég kveðja þig. Eg óska þér þess að þú megir sjálf ur þola hörmungar óendurgoldinnar ástar. Skítugi þorpari, sem ekki vildir hleypa ástföngnum manni inn, sæll vertu samt. Og þið líka, grimmlyndu hjörur, og þú þrösk- uldur, þrællundaðri en ræfillinn sem gætir þin, þig, og ykkur öll, kveð ég núna kveðju minni án þess þið eigið það skilið. Málfríður Einars- dóttir íslenskaði

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.