Þjóðviljinn - 24.12.1983, Blaðsíða 10

Þjóðviljinn - 24.12.1983, Blaðsíða 10
10 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Helgin 24.-25. desember 1983 Sigurður A. Magnússon ritstýrði Þeir settu svip á öldina, Islenskir stjórnmálamenn Frásagnir af 16 stjórnmálamönnum. Iðunn 1983. „Eg lagði áherslu á að reynt yrði að hafa umsagnirnar eins „hlutlausar“ og lausar við boðun eða prédikun einsog kostur væri, og vona að iesendum þyki bærilega hafa tek- ist“, segir Sigurður A. Magnússon í formála bókarinnar um hina merku stjórnmála- menn. Sjálfur skrifar Sigurður A. Magnússgn um Hannes Hafstein. Þar segir m.a.: „Ég hygg að enginn íslenskur stjórnmálamaður hafi verið gæddur jafnfjölbreytilegum gáf- um og Hannes Hafstein. Má fullyrða að hann væri heimsnafn hefði hann verið uppi með stærri þjóð. Samt hefur enginn stjórnmálamaður verið jafnherfílega rægð- ur og affluttur af öfundarmönnum sem flykktust að honum einsog hrægammar“. Aðalheimild Sigurðar virðist vera ævi- saga Hannesar eftir Kristján Albertsson. Segir Sigurður Kristján bregða upp „hrollvekjandi mynd af hringlandahætti, hentistefnu og hundsku þeirra valdasjúku manna sem sáu ofsjónum yfír framtaki og farsæld skáldmennisins...“. Og fleira er þarna af sama toga. Sigurður spyr hvort Hannes hafi kannski verið í ætt við hetju klassíska harmleiksins. Hann hafi alltjent haft „tragískan brest“. „Auk þess gæti ég trúað að Hannesi hafí verið mikil raun að því að umgangast leiðinlega menn“, segir Sigurður á öðrum stað. Ekki veit ég hver hefur beinlínis gaman af því að umgangast leiðinlega menn, en það hlýtur að heyra undir hugtakið „félagsleg fötlun“ að geta ekki umborið slíka menn t.d. í stjórnmálum. Hannes hefur semsagt verið dæmdur til félagslegrar einangrunar? Þjóðsagan hermir að þegar ævisaga Hannesar eftir Kristján Albertsson kom út hafi Sverrir Kristjánsson sagnfræðingur hitt kunningja sína og verið mikið niðri fyrir: „Þetta er mesta sögufölsun síðan (fann ekki góða líkingu strax) ... síðan Stalín dó!” Höfundar og vidfangsefni Bókin segir í stuttu ágripi af mönnum. Þessi ágrip eru einskonar útfærsla á „Merk- ir íslendingar“ og í ættarsamfélagi okkar er alltaf fengur að slíkum fróðleik. Hitt er svo annað mál að oft bera þessi ágrip frekar vitni höfundum sínum og máske einhæfum heimildum þeirra, en þeim sem um er fjallað. Þetta þarf ekki að vera svo slæmt, því höfundarnir, sérstak- lega í þessari bók, eru einkar forvitnilegir. f huglægri bókarumsögn í hlutdrægu dag- blaði er að minnsta kosti óhætt að fullyrða að frásögnin af Skúla Thoroddsen ber af öðrum í þessari bók. Hana skráði Jón Guðnason sem hefur skilað ómældri vinnu i rannsóknum á tímabili Skúla og persónunni sjálfri. Aðrar sérlega Iæsilegar frásagnir eru um Jón Þorláksson eftir Gunnar Thorodd- sen, um Jónas Jónsson eftir Þórarin Þórar- insson og Magnús Kjartansson eftir Svavar Gestsson. í frásögninni af Magnúsi er þó erfiðast um vik, þarsem fjallað er um tím- ann næst okkur. Sínum augum... Það er dálítið skemmtilegt, allavega þjóðlegt, hvernig segir frá í öndverðum skoðunum um sömu persónur og atburði í hinum ýmsu frásögnum. Þannig skrifar Sig- urður Líndal um að því er virðist afskaplega litlausan stjórnmálamann, Jón Magnússon, að hann hafi þrátt fyrir allt ekki verið neinn „veifiskati". Nefnir hann sem dæmi um þetta að Jón hafi í dómsmálaráðherratíð sinni látið bjóða út 400 manna lögregluliði, vopnuðum bareflum og skotvopnum til að ráðast að heimili Ólafs Friðrikssonar vegna rússneska drengsins. Höfundur segir að hér hafi verið „tekist á um það meginatriði hvort rétt stjórnvöld ættu að halda uppi lögum eða ekki“. Pétur Pétursson, sem er manna kunnug- astur þessu máli, hefur aðra sögu að segja þegar hann skrifar um Ólaf Friðriksson. Þarsegir m.a. um aðförina að Ólafi: „Færa má að því nokkur rök að upphafs fasisma í Evrópu gæti í aðför hvíta liðsins að Ólafi Friðrikssyni“. Pétur Pétursson upplýsir einnig að fyrsti klofningur Alþýðuflokksins hafi ekki orðið af völdum Ólafsmanna og kommúnista. Úrsögn Jóns Baldvinssonar og fleiri úr Jafnaðarmannafélagi Reykjavíkur 1922 hafi verið svar þeirra við kröfum danskra sósíaldemókrata og Morgunblaðsins um að sverja af sér bolsévisma og játast undir „löghlýðni“. Svipmiklir stj órnmálamenn eða „mesta sögufölslun - síðan Stalín dó?“ Hjá Jóni Baldvin Hannibalssyni um Jón Baldvinsson kveður hins vegar við allt ann- an tón. Hann segir að erindreki Komintern og aðdáendur rússnesku byltingarinnar hafi reynt að rjúfa einingu jafnaðarmanna- flokka og verkalýðshreyfingarinnar snemma á 3ja áratugnum. Frásögn Jóns Baldvins Hannibalssonar er því miður framhald af greinum og ræðum hans um að frá kommum komi allt illt: „Enn í dag er spurt: Hvernig má það vera að menn, sem gerðu átrúnað á blóðugt lögregluríki Stalíns að lífshugsjón sinni náðu fjöidafylgi með íslendingum?“ Og síðar segir hann: „Seinni tíma mönnum hlýtur að vera það ráðgáta, hvernig pólitískur sértrúarsöfnuður, sem var svo gjörsamlega ærður á sál og sinni, sem þessi málflutningur ber vott um, gat áunnið sér tiltrú almennings með óbrjálaða dómgreind“. Það er greinilegt að Jón skilur ekkert í karli föður sínum né sjálfum sér að hafa bundist pólitískum samtökum við svoddan lið. Það er sorglegt til þess að vita að menn sólundi svo greind sinni í misskiln- ing á íslandssögunni. Tilviljanir Það er dálítið merkilegt í frásögnum af mönnum einsog Tryggva Þórhallssyni eftir Andrés Kristjánsson og af Hermanni Jón- assyni eftir Vilhjálm Hjálmarsson, hversu tilviljanir virðast hafa ráðið miklu um að þeir fóru að starfa í pólitík. Þannig segir Andrés frá því þegar Tryggvi varð af dós- entsstöðu í guðfræði við Háskóla íslands 1917 og var boðin ritstjórastaða við Tímann sama dag og það var ljóst. Áður hafði hann ekki haft nein flokksleg afskipti af pólitík. Þá höfðu Framsóknarmenn beðið eftir því að Héðinn Valdimarsson kæmi heim frá námi og gerðist ritstjóri, en það fór á annan veg. Vilhjálmur Hjálmarsson segir frá því að þegar Hermann Jónasson var lögreglustjóri í Reykjavík 1930, hafi Sjálfstæðisflokkur- ínn leitað til hans um að skipa efsta sæti framboðslista flokksins við bæjarstjórnar- kosningarnar það ár. Það gerði Framsókn- arflokkurinn líka og Hermann skipaði efsta sæti listans í Reykjavík. Aðeins fjórum árum síðar er hann orðinn forsætisráðherra Framsóknarflokksins. Héðins þáttur Máske er Héðinn Valdimarsson ævintýr- alegasti pólitíkusinn sem sagt er frá í þessari bók. Gils Guðmundsson skráir hans þátt. Einsog kunnugt var Héðinn forstjóri BP á íslandi og Tóbaksverslunar íslands um leið og hann var einn harðskeyttasti forystu- maður verkalýðshreyfingarinnar fyrr og síðar. Á alþingi lágði Héðinn til að ríkis- einkasala yrði tekin upp á tóbaki. Ólafur Thors og aðrir Sjálfstæðismenn mótmæltu frumvarpi Héðins bæði vegna þess að þeir voru í grundvallaratriðum á móti ríkisversl- un og með tilvj'sun til þess að það væru ekki of margir dugandi kapitalistar í þessu landi. Hagsmunum neytenda væri ekki síður borgið í höndum Héðins en í höndum ein- hvers tóbakssöluforstjóra ríkisins. Þeir áttu erfitt með að skilja hvers vegna Héðinn stefndi „eiginhagsmunum" sínum í voða með slíkum málarekstri. Héðinn svaraði: „Háttvirtur þingmaður skilur auðvitað ekki, að ýmsir menn þar á meðal ég, geti miðað fylgi sitt við mál af öðru en eigin hagsmunum“. Héðinn Valdimarsson vildi skapa sósíal- ískt mótvægi við borgaraflokkana í landinu. Fyrir honum vakti að „gerð yrði stórfelld tilraun til að byggja upp óháðan sterkan sósialistiskan flokk, flokk sem stæði að skipulagi og stefnu næst norska Verka- mannaflokknum“, en sá flokkur var á þeim árum róttækur sósíaliskur flokkur. Er skemmst frá því að segja, að enn er uppi viðleitni að gera þá stefnu að veru- leika, en hinu verður vart á móti mælt að kratar og kommar hafi komið hraksmánar- legar fram við Héðin en nútímamenn geta auðveldlega skilið, frá 1938 til 1940. En sagan verður því miður ekki skrifuð í þá- skildagatíð. Jónas Haralz bankastjóri skrifar um Ólaf Thors og Jóhannes Nordal bankastjóri skrifar um Bjarna Benediktsson og hygg ég það einkar vel til fundið. í frásögnum af þeim er einkar athyglis- vert að á kveldi æviskeiðsins tóku þeir að spekjast og mildast í garð andstæðinga sinna: „Á gamals aldri fyrirverður Ólafur Thors sig fyrir að hafa beitt sér af hörku gegn Vökulögunum“, skrifar Jónas Haralz. Og síðar: „Fyrsta verk hans í ráðherrastóli er að skipuleggja varalið til styrktar lög- regiu Reykjavíkur eftir átökin 9. nóvember 1932, hið síðasta að stöðva afgreiðslu frum- varps um tímabundið bann við verkföll- um“. Og í frásögn Jóhannesar Nordals um Bjarna Benediktsson kemur hið sama fram. Sá Bjarni sem kvaddur var 1970 var gjörólíkur þeim vígreifa og harðskeytta Bjarna sem menn kynntust á fimmta ára- tugnum. Og haft er eftir, að Bjarni hafi lagt mildandi hönd yfir stjórnmálalífið og þjóð- lífið í heild á síðustu árum sínum. Vert er að vekja athygli á þeim ummæl- um í frásögn Nordals sem hann hefur eftir Bjarna frá 1940 snemma árs: „Hiklaust verðum við að haida fast við hlutleysisyfir- lýsinguna frá 1918. Hún er sverð okkar og skjöldur á þessari skálmöld. Ef frá henni er vikið, er okkar eina vörn úr sögunni“. Ekki þarf að spyrja að fráhvarfi frá þess- ari stefnu og réttlætingu fyrir því. Óhugn- anlegt er einnig að lesa, hvernig aðild ís- lands að Nató ber fyrst á góma í viðtali Bjarna við bandaríska utanríkisráðherrann í janúar 1949 og tæpum þrem mánuðum síðar er aðildin orðin að veruleika. Þegar haft er í huga hvers konar upplýsingamiðl- un var við lýði - þá er hreint út sagt ægilegt að vita til þess í lýðræðisríki að ákvörðun um jafn afdrifaríkt mál skuli hafa verið tekin á jafn skömmum tíma og af jafn fáum mönnum. Óskar Guðmundsson skrifar í nálægð Um núlifandi menn skrifa þeir Gísli Ás- mundsson um Brynjólf Bjarnason, Haukur Helgason um Einar Olgeirsson og Helgi Már Arthúrsson um Hannibal Valdimars- son. Höfundar fara nærfærnum og skiln- ingsríkum höndum um viðfangsefni sín, en að sjálfsögðu skyggir nálægð mannanna dá- lítið á þá hlutlægu frásögn, sem ritstjórinn auglýsti eftir í formála bókarinnar. Öðru- vísi er varla hægt að haga slíkum skrifum og frásagnir þessar varpa allar ljósi á mikilvægt hlutverk þessara manna í íslandssögunni. Þó get ég ekki orða bundist um Hanni- balsþátt eftir Helga Má Arthúrsson. Helgi bregður á það ráð að setja fram þá kenn- ingu, væntanlega til að gera Hannibal að hugsjónamanni að hann hafi kynnst og búið til sósíaliskt módel á ísafirði, sem á að hafa verið andstætt krötum í Reykjavík og ands- tætt kommum hins vegar. Þessari hugsjón „rauða bæjarins" á svo Hannibal að hafa verið trúr í minnihluta og meirihluta í Al- þýðuflokknum, í Alþýðubandalaginu, í Samtökum frjálslyndra og vinstri manna og víðar. Á lesanda virkar þetta einsog „redd- ing“. Persónulegur metnaður Hannibals, samstarfsörðugleikar og pólitísk mistök hverfa í skuggann, sjást ekki á blaði, þó þessi atriði hafi máske alltaf verið hinum pólitíska sjarmör fjötur um fót. Helgi Már færir heldur ekki trúverðug rök fyrir kenn- ingum sínum. Og þarsem höfundurinn er meðal skárri kunningja minna meðal krata hlýt ég að geta leyft mér að segja að Helgi Már skrifar gegn betri vitund þegar hann segir: „Kosningar vinnast ekki á trixum, þær vinnast á stefnu. Pólitískri stefnu“. Hvers konar heimild? Einsog áður var bent á eru þessar frá- sagnir oft betri heimildir um höfunda held- ur en viðfangsefni þeirra, um samtíma okk- ar heldur en þátíðina. Þannig kemur t.d. fram í skrifum þeirra beggja Alþýðuflokks- manna Jóns Baldvins Hannibalssonar og Helga Más Arthúrssonar að þeir báðir eru búnir að missa trúna á Alþýðuflokkinn og forystu hans fyrr og síðar. Bölsýni þeirra og vonbrigði eru einsog rauður þráður í gegn- um frásagnir þeirra af Jóni Baldvinssyni og Hannibal Valdimarssyni. Sögulegt skipbrot Alþýðuflokksins verður enn auðsærra af þessum skrifum - og höfundum báðum ráð- lagt að nálgast fyrirgefandi huga hugmyndir Héðins Valdimarssonar frá 1938 um pólit- íska mótvægið, einn stóran sósíalistiskan flokk. Tónabíósfundinum hefur verið slitið. Á tímum þegar Morgunblaðinu og dindl- um þess var tíðrætt um skiptingu stærsta verkalýðsflokksins í menntamenn og verkalýð er athyglisvert að alþýðuforin- gjarnir á þessari öld: Héðinn Valdimars- son, Ólafur Friðriksson, Jón Baldvinsson, Brynjólfur Bjarnason, Einar Olgeirsson og Hannibal sjálfur, eru allir hámenntaðir menn hver á sína vísu. Og ekki hræddi það verkafólk frá stuðningi við forystu Héðins Valdimarssonar í Dagsbrún að hann var hagfræðingur og stórkapitalisti. Reyndar dró hvort tveggja síður en svo úr stuðningi Héðins við róttækustu þjóðfélagshugmynd- ir um forræði verkafólks. Með bókinni fylgir niðjatal stjórnmála- mannanna sem Guðjón Friðriksson tók saman. Guðjón er landskunnur og sérlega útnefndur sérfræðingur Þjóðviljans í ættvísi og ekki á hvurs manns færi að bera brigður á vísindi Guðjóns, nema ef vera kynni að Blóðbankinn hefði eitthvað við að athuga. Niðjatalið rennir stoðum undir þá kenn- ingu „elítukenninguna" sem oft hefur verið höfð á orði, þe. að íslenskir valdsmenn á þessari öld, einsog á Þjóðveldisöld, séu venslaðir frá kynslóð til kynslóðar, völdum til valda. Það verður því ekki ofsögum sagt að marga lærdóma má draga af þessari bók. Safnritið er ágætt heimildarrit um höfunda og okkar samtíð og sæmileg heimild um stjórnmálamennina sem um er fjallað. Mér þykir ekki Iíklegt að hún verði til að leysa sjálfsmyndarkreppu stjórnmálaflokkanna, en hún verður áreiðanlega algeng í bóka- skápum heimilanna, þar sem stjórnmálaá- hugi er mikill og fólk ann íslandssögunni. Áreiðanlega eru líka flestir nokkuð sam- mála vali ritstjóra bókarinnar á stjórnmála- mönnum sem settu svip sinn á öldina. Einn er sá kostur bókarinnar að hin ólíku viðhorf höfunda og stjórnmálamannanna kalla á virkan lestur. Bókin kveikir í manni. -óg.

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.