Þjóðviljinn - 16.12.1984, Blaðsíða 9

Þjóðviljinn - 16.12.1984, Blaðsíða 9
Minnst garmals félaga og hagyrðings Minningabrot um Jóhann Magnússon frá Gilhaga Við sem þykjumst hafa næmt eyra fyrir rími og stuðl- um, veitum vitanlega þeim einstaklingum nánari athygli, sem á vegi okkar verða og eiga þennan hæfileika í ríkum mæli. Á æskuheimili mínu var ferskeytlan mjög í heiðri höfð. Það mátti því segja að maður drykki þessa kennd í sig með móðurmjólkinni. Þaðvoru einkum tvær gamlar konur sem ég minnist er stóðu f ram- arlegaíljóðagerðinni. Eftir að ég kom til Reykjavíkur hitti ég einn slíkan, sem mér þótti sérstæður. Hann hét Jóhann Magnússon, frá Gilhaga í Skaga- firði. Um ætt hans og uppruna veit ég næsta fátt, en Skagfirðing- ur mun hann hafa verið í húð og hár. Mér er tjáð að hann hafi haft nokkur kynni af Símoni Dala- skáldi. Margir munu hafa heyrt mannsins getið, því segja má að hann hafi verið landskunnur hag- yrðingur. Jóhann fædist 2. mars 1892 og lést 9. maí 1979. Atvikin höguðu því þannig að ég kynntist Jóhanni ekki fyrr en hann var orðinn aldraður maður, kominn um sjötugt. Við bjuggum í sömu blokk um tíma og hittumst þá nærri daglega og ræddum þá um hin margvíslegustu efni. Við köstuðum stundum fram stökum að gamni okkar. Er Jóhann varð sjötugur sendi ég honum eftirfar- andi vísukorn: Allar stundir ertu klár orðs með bundið letur. Ekki er lundin orðin sár að neinn fundið getur. Aldrei þreyttur Engan mann hef ég þekkt, sem bar það jafn greinilega með sér að vera erfiðismaður. Enda vann hann hörðum höndum alla ævi og um lífsþægindi hugsaði hann lítt. Það mátti segja að það væri nærri ótrúlegt hvað hann gat lagt á sig. Þó hann væri kominn yfir sjötugt þá setti hann það ekki fyrir sig að vinna langt fram á kvöld flesta daga. Aldrei kom honum til hug- ar að nota strætisvagn, þó tók það um 40 mín. að ganga hvora leið. Undruðust margir þessa ótrúlegu hörku mannsins. Snemma mynd- uðust ýmsar sögur um Jóhann. Voru margar þeirra í þjóðsagna- stíl. Það var einkennilegt með Jó- hann, að það var eins og hann væri aldrei þreyttur. J?að var sama hvað hann lagði á sig, hann var alltaf glaður og reifur og full- ur af kímni. Ég hef fáa menn hitt, sem mér hafa þótt skemmtilegri sem viðræðufélagar. Bar margt til þess. Jóhann var víðlesinn. Hann var aldrei ólesandi, ef hann hafði einhverja stund. Minni hafði hann frábært svo undrun sætti. Allt sem hann las, las hann með gagnrýni. Skoðanir fjöldans höfðu lítil áhrif á hann. Hann var engin hópsál. Þó við bara þegðum saman En það sem mér fannst skemmtilegast í fari mannsins var hvað hann hafði sérkennilegan og góðan frásagnarstíl. Hvað hann sagði skýrt og lifandi frá. Menn og atburðir urðu ljóslif- andi. Að frásagnargáfu stóðu honum fáir á sporði, og í daglegri ræðu var málfar hans sjaldgæfi- lega vandað, litríkt og auðugt. Hann kunni einnig að hlusta á aðra. Hann var ekki einn af þeim sem sífellt krafðist þess að hafa orðið sjálfur. Það var eitthvað svo hlýlegt og notalegt að vera í nálægð mannsins, eða svo fannst mér. Einu sinni varð þessi staka til er ég hafði dvalið hjá honum kvöldstund: Hjá þér fann ég gleði og gaman, geisluðu vinahót. Þó við bara þegðum saman það var nokkur bót. Þá var það ekki síður eftirtekt- arvert hvað Jóhann hafði gott skopskyn. Bera margar stökur hans því glöggt vitni. Hann skrif- aði aldrei upp stökur sínar og því mikil hætta á að þær gleymist og týnist og væri það skaði. Þegar Jóhann fór úr nágrenninu kvaddi ég hann með þessari stöku: Oft ég sótti á þinn fund, eitt var það sem réði: Mér fannst alltaf styttast stund og stóðugt hlýna í geði. Jóhann svaraði: Nú mun fundum fækka um skeið, fyrr vió undum saman, þá gat lundin létt og heið lífgað stundargaman. Gerðu um mig eina stöku Þetta spjall á ekki að vera nein úttekt á stökum Jóhanns. Til þess skortir mig gögn, tíma og tæki- færi. Flestar stökur hans bera því glöggt vitni að hann gjörhugsaði þær. En hann gat einnig verið snöggfljótur, ef svo bar við. Kunningi hans á Akureyri ljóð- aði þannig á hann: Gerðu nú um mig eina stöku, elsku vinurinn: Jóhann svaraði: Svo að lífs á langri vöku léttist róðurinn. Vitanlega eru mér mörg atvik í föstu minni í sambandi við kynni mín af þessum sérstæða manni. Ég man t.d. eftir því er ég einu sinni heimsótti hann, síðla kvölds inn á Bergþórugötu. Mér var tekið eins og venjulega með þess- ari innilegri hlýju og þess getið hvað ég væri nú góður að koma. Það var kominn gestur til Jó- hanns, maður fríður sýnum og greindarlegur á svip. En maður- inn var drukkinn. Hálf brenni- vínsflaska á borðinu. Önnur full á gólfinu við stólinn, sem hann sat á. Drukkinn mann hafði ég ekki séð hjá Jóhanni fyrr. Hann hafði aldrei neytt áfengis og var ekki í neinu vinfengi við Bakkus kon- ung. Jóhann kynnti okkur og sagði: „Þetta er Þorbergur Þor- steinsson, bróðursonur minn". Bakkus og guðsmyndin Ég hafði heyrt mannsins getið og þá fyrst og fremst fyrir tvennt, að hann væri mikill drykkjumað- ur og að hann væri afburðasnjall hagyrðingur. Ég hafði einnig heyrt að hann ætti hvergi örugg- ara húsaskjól en hjá þeim Jó- hanni og hans ágætu konu Lovísu Sveinsdóttur. Þar var alltaf tekið vel á móti honum, hvernig sem ástatt var. Þorbergur mun áreið- anlega hafa fundið þetta og metið þau hjón umfram annað fólk. Er ég hafði staðið við nokkra stund segir Þorbergur: „Ert þú kunningi Jóhanns? Þetta er föð- urbróðir minn". „Já við erum kunningjar". „Eruð þið kannske vinir?" spyr Þorbergur. „Ég vildi nú helst segja það", sagði ég. „Jæja, þú um það. Ekki ertu vin- avandur", sagði Þorbergur. Gamli maðurinn glotti. Hann hefur sjálfsagt þekkt orðleikni frænda síns. Ég vík nú að Þorbergi og segi: „Mér er sagt að þú sért lands- kunnur hagyrðingur. Viltu nú ekki lofa mér að heyra eina eða tvær stökur eftir þig?" Þorbergur svaraði eftir nokkurn tíma: „Það er nú held ég ofmælt að ég sé landskunnur hagyrðingur og nú er ég ekki beinlínis upplagður að fara með eitt eða neitt". Síðan seildist hann eftir flöskunni og fékk sér vænan teyg. Þagði síðan góða stund. Sagði síðan: Mér er sama þó ég lofi þér að heyra þessa stöku: Alltaf versnar viðhorfið, viðbragðshraðinn dvínar. Ég er enn að eltast við æskusyndir mínar. Jóhann þagði meðan þessar orðræður fóru fram og velti vöng- um, en það var vani hans er hann var að koma saman stöku. Loks sagði hann: „Ég var að reyna að lemja saman stöku. Það er best að lofa þér að heyra hana". Það hefur mannleg meinin hert, og mörgum valdið sárum trega, hvernig Bakkus getur gert guðsmyndina hræðilega. Um leið og hann mæiti fram stökuna sýndist mér hann skotra augunum til frænda síns. Jóhann dáði mjög Þorstein bróður sinn og taldi að hann hefði verið spekingur að viti. Þorsteinn nefndi hús sitt hér í Reykjavík Gilhaga. Er Jóhann kom að Gil- haga í fyrsta skipti eftir lát Þor- steins var húsið autt og yfirgefið. Þá kvað Jóhann: Fræðagengi féll hér skjótt, fiðlustrengir drúpa hljóðir. Nú fær enginn oftar sótt, andans feng á þessar slóðir. Sigurður Hlíðar dýralæknir og Jóhann voru miklir kunningjar. Er Sigurður varð sjötugur sendi Jóhann honum eftirfarandi stöku: Ei þarf hann að leita lags, leika kann með snilli, einn sem vann í önnum dags allra manna hylli. Er Jóhann fór alfarinn úr Reykjavík norður í Skagafjörð kvaddi ég hann með eftirfarandi stöku: Alltaf hafa yljað mér, óður þinn og ríma. Því er skylt ég þakki þér þennan liðna tíma. Sól og frost Jóhann stundaði mörg störf um ævina. Hann var t.d. um tíma varðmaður á Kili ásamt öðrum Skagfirðingum. Það var skemmtun þeirra félaga að yrkja um daginn og veginn, er önn dagsins var lokið. Því fleiri voru hagyrtir en Jóhann. Hann lofaði mér að heyra nokkrar af þeim stökum, sem þar urðu til. Ég ætla hér að fara með tvær, sem geymst hafa í minni mínu. Það mun hafa verið ofsaveður er hann orti stökurnar: Allri tjöldin eyðast ró, enginn hölda sefur. Hér í köldum Kjalarmó Kári völdin hefur. Skýin vindur hrekur hratt, hátt í tindum lætur. Hylur strindi húmið svart, himinlindin grætur. Ég ætla hér að lokum að fara með nokkrar stökur eftir Jóhann: Heimþrá Sólin blandar skini skúr, skrýðist blómum jörðin. Hugur leitar útlegð úr inn í Skagafjörðinn. Vor Vekur blómin vorsins dís vinarrómi hlýjum. Upp í blóma röðull rís raddir óma í skýjum. Haust Tíminn kallar, lækka Ijós, lífs er fallvalt gengi. Þegar fjalla fögur rós, föl að hallast vengi. Vindar gjalla vítt um svið, veika hallast stráið. Frostin valla gefa grið, grösin falla i dáið. Vetur Freðin öll er hamrahöll, héluvóllinn stjörnur lýsa. Hæstu fjóllin földuð mjóll, fellur gjóll á milli ísa. Mannlíf og pólitík Jóhann orti fjölmargar tæki- færisvísur, sem margar urðu landskunnar. Þegar Hannibal Valdimarsson bauð sig fram í Reykjavík 1967 og í raun og veru klauf Alþýðubandalagið líkaði Jóhanni það stórum miður. Þá kvað hann: Þegar gott hann gera skyldi, gæðin hvergi fann. Það illa sem hann ekki vildi, alltaf gerir hann. Til eiginkonunnar Á þó líði ævikvöld eyðist húmið svarta. Við minn hlýja arineld á ég geisla bjarta. Ellin þó að mæði mig má ég vera glaður. Meðan aðeins á ég þig er ég gæfumaður. Ágúst Vigfússon. JÓLABLAÐ - ÞJÓOVILJINN - Sfc>A 9

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.