Þjóðviljinn - 23.01.1986, Blaðsíða 9

Þjóðviljinn - 23.01.1986, Blaðsíða 9
MINNING 7 :l Jón Helgason 30. júní 1899 - 19. janúar 1986 Með Jóni Helgasyni er genginn hinn síðasti þeirra merku íslend- inga sem í hálfa aðra öld gegndu prófessorsembætti í norrænum og íslenskum fræðum við Hafn- arháskóla. Hans verður lengi minnst sem eins mesta skörungs og afreksmanns á því sviði, og ekki verða þeir færri sem muna hann fyrir skáldskap og ritsnilld. Hér er þess enginn kostur að minnast fræðistarfa Jóns sem vert væri. Það eitt skal nefnt að hann varð brautryðjandi nýrrar stefnu í útgáfuaðgerðum og textafræði, stefnu sem nú má heita einráð á því sviði. Hann setti sér frá upphafi það markmið að þær útgáfur sem hann sá um væru eins vandlega unnar og nokkur kostur var á, þar skyldi hvergi hvikað frá ýtrustu nákvæmni. Við það stóð hann til æviloka, ekki aðeins í sjálfs sín útgáfum heldur og í þeim fjölda rita sem aðrir gáfu út undir hans umsjá. Með þessum hætti skap- aðist eins konar skóli fræðimanna og útgefenda, þar sem andi Jóns Helgasonar hefur svifið yfir vötnunum, en lærisveinar hans eru nú dreifðir um mörg þjóð- lönd, auk allra starfsmanna Stofnunar Árna Magnússonar í Kaupmannahöfn og Reykjavík. Fásinna væri þó að ætla áhugi Jóns hafi framar öllu beinst að einhvers konar stafkrókafræði. Hitt var heldur að íslensk menn- ing allra alda var honum efst í huga, og því vildi hann hlúa sem vandlegast að öllum þeim minj- um sem fyrri menn höfðu eftir sig látið. Sá var grundvöllur kröf- unnar um afdráttarlausa vand- virkni og nákvæmni, jafnvel í smæstu atriðum, sem sumum virðist engu máli skipta. En Jón taldi að þeim sem skeyttu ekki um fulla nákvæmni í smáatriðum gæti ævinlega orðið á hirðuleysi um mikilvægari hluti, honum yrði aldrei fyllilega treystandi. Ég átti því láni að fagna að hafa náin kynni af Jóni Helgasyni um langan aldur. Af engum manni hef ég meira lært, enda þótt aldrei væri hann kennari minn í venjulegum skilningi. Hann ýtti mér af stað með mörg þau verk- efni sem ég fékkst við árum sam- an og var óþreytandi að leiðbeina mér um vinnubrögð og leysa úr margvíslegum vandamálum. Hann gat verið harður gagnrýn- andi, var afburða glöggskyggn á allar veilur í röksemdafærslu eða losaraleg vinnubrögð. En öll heiðarleg viðleitni til að standast kröfur hans átti jafnan stoð hans vísa. En nú, á kveðjustund, er mér þó efst í huga að hafa átt traustan vin þar sem Jón Helgason var, allt frá því ég kom fyrst á heimili hans ungur stúdent. Sú vinátta hélst æ síðan og bar aldrei á hana skugga. Því betur sem ég kynntist honum þeim mun fremur lærði ég að meta mannkosti hans og vitsmuni. Hann var dulur að eðl- isfari og bar ekki tilfinningar sínar á torg, faldi þær stundum undir grímu kaldlyndis eða spé- skapar. Þeir sem til þekktu fóru þó í engar grafgötur um hvað að baki bjó: virðing fyrir heiðarleik í starfi og öllu æði, fyrirlitning á uppskafningshætti og sýndar- mennsku og síðast en ekki síst sú hugsjón að vinna íslenskri menn- ingu það gagn sem hann framast mátti. Jakob Bcncdiktsson Jón Helgason, fyrrverandi pró- fessor, andaðist hér í Kaup- mannahöfn að morgni hins 19. þessa mánaðar á 87. aldursári. Honum auðnaðist lengri starfs- ævi en hliðstæð dæmi munu um; allt frá því er hann kom fyrst til Kaupmannahafnar 1916, þá ný- orðinn stúdent, og þangað til fyrir tæpu ári er hann fékk hjarta- áfall og neyddist til að leggja frá sér pennann, var hann sívinn- andi, enda voru afköst hans orðin geysimikil. Það er varla sá þáttur í sögu íslensks ritmáls eða ís- lenskra bókmennta fyrri alda sem hann hefur ekki kannað, og út- gáfur, ritgerðir og fræðirit frá hans hendi skipta hundruðum. Samt fannst honum aldrei nóg komið; hann var með ótal verk- efni í smíðum allt til hinstu stunda, og það var honum þung- bær raun síðustu mánuðina að hafa ekki líkamlegan þrótt til að halda fræðistörfum sínum áfram. Jón var síðastur í röð þeirra ís- lensku húmanista sem hlotið hafa há embætti í höfuðborg danska ríkisins og alið þar aldur sinn - í nánum tengslum við þau íslensku söfn sem þar var að finna: Árni Magnússon, Jón Eiríksson, Grímur Thorkelin, Finnur Magnússon, Konráð Gíslason og Finnur Jónsson. En þó að hann ætti heima í Kaupmannahöfn í allt að sjö áratugi, samlagaðist hann umhverfinu e.t.v. að minna leyti en flestir þessir menn. Hann umgekkst lítið Dani, jafnvel nán- ustu kollega sína í háskólanum, og hann talaði alla tíð dönsku með sínum íslenska hreim. Sem háskólakennari hefur hann vafa- laust goldið þess hve forníslenska var fjarlæg flestum dönskunem- um, en sá sérstæði húmor sem hann bjó yfir gerði kennslustund- irnar öðrum þræði að einskonar skemmtiþáttum. Fyrir bragðið var hann ekki óvinsæll kennari, en ég efast um að margur sá sem ekki hafði fyrir fram einhvern skilning eða áhuga á faginu hafi öðlast hann í þessum tímum. Hinsvegar reyndist hann mjög vel þeim fáu stúdentum er litu á norræn fræði sem annað en hvim- leitt skyldunám, fékk þeim snemma sjálfstæði verkefni og talaði við þá eins og jafningja - mörgum árum fyrir stúdentaupp- reisnina svokölluðu. Eitt einkenni Jóns var einmitt hve ungur hann var í anda, óhá- tíðlegur, jafnvel prakkaralegur, og hafði gaman af að skopast að allskonar fimbulfambi. Hér komu líka til ótvíræðir leikrænir hæfileikar. Hann átti það til að koma í Árnasafn beint af fundi í einhverju hálærðu félagi og endursegja okkur unga fólkinu (sem þá var) fyrirlestur um eitthvert annarlegt efni, svo sem t.d. kynlíf bananaflugna, sem hann var þá nýbúinn að heyra, en varð í hans munni að kómískum leikþætti. Með árunum fækkaði þeim stundum þegar Jón lék á als oddi í hópi yngra fólks, en ég hef stund- um þóst þekkja aftur fyrri tón í skrifum hans, jafnvel á síðustu árum, glettinn og írónískan tón ungs manns í virðulegu prófess- orsgervi. Sá tónn er nú þagnaður, en endurómur hans lifir með okkur sem vorum svo lánsöm að eiga Jón Helgason fyrir kennara. Jonna Louis-Jensen Með Jóni Helgasyni prófessor er hniginn að foldu einn mesti fræðimanna-öldungur og eitt Fimmtudagur 23. janúar 1986 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 9

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.