Þjóðviljinn - 28.06.1986, Blaðsíða 11

Þjóðviljinn - 28.06.1986, Blaðsíða 11
MINNING um í Bæjarhreppi lést þann 20. júní sl. á Sjúkrahúsinu á Hvammstanga, en þar dvaldi hann síðustu æviárin. Það þykir víst varla við hæfi að læknir skrifi um sjúkling sinn látinn en engin regla er án undan- tekninga. Við Skúli áttum það sameigin- legt að leiðast langar umræður um sjúkdóma og heilsufar. Þó vildi oft teygjast úr þeirri athöfn, sem á fínu sjúkrahúsamáli kallast stofugangur, þegar komið var að stofunni hans Skúla. Formsins vegna var auðvitað spurt um heilsufarið, en það afgreiddi Skúli með orðunum „status quo“ - óbreytt ástand. Síðan komu venjulega smáskot á báða bóga. Oftast gátum við komið okkur upp ágreiningi um landbúnað- armálin (sem Skúli taldi með réttu að ég hefði ekkert vit á) og læknavísindin, sem Skúli hélt fram - a. m. k. í mín eyru - að ættu stóran þátt í vanda landbúnaðar- ins. Þá var ritstjórnarstefna Þjóð- viljans okkur eilíft umræðuefni, en Skúla þótti lítið til blaðsins koma miðað við fyrri tíma. Og ég reyndi að verja „lýðræðisöflin" á Þjóðviljanum fram í rauðan dauðann, þótt ég væri á stundum í hjarta mínu alveg sammála Skúla. En hvað gerir maður ekki fyrir góðan ágreining og um- ræður? Skúli var afskiptalítill um ann- að fólk síðustu árin, en spurði gjarnan um líðan sveitunga sinna í Bæjarhreppnum, og um líðan Margrétar, sem var vinkona hans á sjúkrahúsinu og honum þótti vænt um. Þrátt fyrir blindu og hjarta- sjúkdóm var Skúli mikið á ferli kringum sjúkrahúsið og fór út í nánast hvaða veður sem var. Ein síðasta myndin sem kemur upp í huga mér er frá síðastlidnum vetri. Gamli maðurinn, blindur, situr á bekk fyrir utan sjúkrahús- ið að kvöldlagi og syngur „Tóta litla tindilfætt" - á dönsku - út í myrkrið og norðanstorminn. Þá læddist ég framhjá honum án þess að trufla. f bók sinni „Hver liðin stund er lögð í sjóð“ segir Skúli frá draumi sem hann gældi við þegar hann lagðist til hvfldar eða lá andvaka um nætur og beið komandi dags. Á dauðastundinni kemur Þura kona hans á móti honum og Herr- ann gefur þeim eina ósk. Síðan segir Skúli: „Við myndum aðeins biðja um að fá til umráða lítinn blett einhvers staðar í útjöðrum himnaríkis, helst í hæfilegri fjar- lægð frá öllum þessum fínu og lærðu, vitru og fróðu, sem höfðu, jafnvel meðan þeir voru enn í táradalnum, haldið sig vera búna að ráða lífsgátuna. Á þessum litla bletti myndum við Þura byggja okkur lítið hús, litla Ljótunnarstaði. Við mynd- um rækta lítið tún og heyja það. Við myndum jafnvel heyja litlar engjar og hafa eina eða tvær kýr og nokkrar kindur okkur til af- þreyingar og augnayndis. Og við myndum leggjast til hvfldar á hverju kvöldi ánægð og þreytt og vakna til nýrrar vinnu endurnærð og glöð eins og á Ljótunnarstöð- um forðum tíð. Og þannig myndi eilífðin líða. Einn dagur yrði sem þúsund ár og þúsund ár sem einn dagur.“ Matthías Halldórsson. Föstudaginn 20. júní sl. kvaddi snögglega þennan heim, sveitungi okkar Skúli Guðjóns- son frá Ljótunnarstöðum í Hrútafirði. Hann lést á sjúkra- húsinu á Hvammstanga þar sem hann hafði dvalið um nokkurt skeið. Skúli fæddist 30. júnúar 1903 að Ljótunnarstöðum, Bæj- arhreppi, Strandasýslu. Foreldrar hans voru Guðjón Guðmundsson bóndi þar og kona hans Björg Andrésdóttir. Skúli tók við búi foreldra sinna 1936 og bjó þar fram að árinu 1973, eða hátt í 40 ár. Kona hans var Þu- ríður Guðjónsdóttir frá Heydal í Bæjarhreppi, hún lést 1963. Þeirra böm em: Bragi, Björgvin, Ingibjörg og Heiðar, einn sonur þeirra, Björgvin, býr á föðurleifð sinni. Ekki er ætlunin að rekja lífshlaup Skúla í þessum orðum, það mun eflaust verða gert af öðmm. Félagsmál lét Skúli sig nokkuð skipta hér heima, sérstaklega meðan sjónin var í lagi. Hann var sannur sósíalisti alla tíð og í stjórn þess flokks um tíma og fylgdist grannt með stjórnmálum, sem og öðmm málum til hinstu stundar. Eins og fyrr segir bjó Skúli hartnær 40 ár. Meirihlutann af þeim tíma án þess að hafa sjón og gekk sjálfur að hirðingu á sauðfé og kúm. Það afrek undrar okkur, sem sjón höfum. Þó búskapur Skúla hafi verið afrek við þær að- stæður er hann bjó við, þá er hann þekktari af ritstörfum sín- um. Þar er efst í okkar huga bar- átta hans fyrir byggð þessa lands og skilningi á störfum þess fólks, er sveitirnar byggir. Þetta erindi úr kvæði Einars Benediktssonar „Til fánans" gætu hafa verið einkunnarorð Skúla. Gœtum hólmans. Vofi valur víðskyggn yfir storð og hlé. Enginn fjörður, enginn dalur auga hauksins gleymdur sé. Vakið, vakið, hrund og halur, heilög geymið íslands vé. Við flytjum Skúla þakkir fyrir góð kynni og fyrir að hafa með verkum sínum haldið nafni sveitar sinnar svo hátt á lofti. Hann var sannarlega einn af út- vörðum þessa lands. Aðstandendum sendum við innilegar samúðarkveðjur. Þökk sé þeim er áttu þátt í að gera hon- um kleift að vinna sitt dagsverk með slíkum sóma. Rósa og Jósep Fjarðarhorni „Er Hel í fangi minn hollvin ber þá sakna ég einhvers af sjálfum mér.“ St. G. St. Vinur minn, Skúli Guðjóns- son, fyrrum bóndi á Ljótunnar- stöðum í Hrútafirði, hvarf af vett- vangi þessa lífs laugardaginn 21. þ.m. Hann dvaldi á vistheimili sjúkrahússins á Hvammstanga síðustu árin og var að ræða við einn vistmanna þar, er kallið kom, hann hneig útaf og var strax örendur. Að deyja þannig mitt í dagsins önn er dýrleg gjöf þreyttum manni eftir langan og strangan vinnudag. Og vinnudag- ur Skúla var orðinn ærið langur, bæði við líkamleg og andleg störf. Það síðasta sem frá honum kom í rituðu máli voru minningar hans um fólkið í sveitinni hans, en fýrsti hluti þeirra birtist í Strand- póstinum, ársriti Átthagafélags Strandamanna, á síðasta ári. Margt af því sem þar kemur frarn er öðrum gleymt og því með öllu ómetanlegt að það skuli hafa ver- ið skráð. Skúli missti sjón árið 1946, þá 43 ára gamall. Hann var þá þegar þekktur fyrir skrif sín í blöð og tímarit, sem vakið höfðu verð- skuldaða athygli. En sjónleysið varð honum um hríð fjötur um fót í þeim efnum. En þrátt fyrir það kom honum aldrei til hugar að gefast upp. Hann hélt bú- skapnum áfram og byggði meira að segja fjós og hlöðu með aðstoð sonar, þótt blindur væri. Og hann lærði að skrifa á ritvél, og eftir að hann hafði leyst þá þraut hóf hann ritstörf á ný. En Skúli átti hauk í horni þar sem frændi hans, Pétur Sumar- liðason kennari, var. Hann var mikill drengskaparmaður og hann og kona hans, Guðrún Gísladóttir, studdu Skúla með ráðum og dáð og hjá þeim hjón- um dvaldi hann löngum, þegar hann kom til Reykjavíkur. Pétur bjó bækur Skúla undir prentun, vann að sjöttu og síðustu bók hans er hann féll frá 65 ára að aldri. Hann flutti og í útvarp hin bráðsnjöllu erindi Skúla um Dag- inn og veginn og gerði það á þann hátt, að unun var á að hlýða. Hann vann Skúla allt til þurftar sem hann mátti og varð því skarð fyrir skildi við fráfall hans. Eftir það hófst samvinna okkar Skúla og segja má að hún hafi staðið þar til yfir lauk. Jón Bjamason blaðamaður og ritstjóri við Þjóðviljann var mikill kunningi Skúla og um skeið birt- ust bréf Skúla til Jóns í blaðinu. Þann 24. des. 1953 birtist grein eftir Jón í Þjóðviijanum og var yfirskrift hennar: Það eru slíkir menn. Þar segir hann meðal ann- ars: „Jólin em hátíð friðar, og hér norður á íslandi þó fyrst og fremst ljósa. Fagnaðarhátíð þess að nú fer vaxandi birta í hönd, að í ekki allt of miklum fjarska hillir uppi að liðnum vetri nóttlausa voraldar veröld. Einmitt á þess- ari hátíð ljósanna ætla ég að ræða við ykkur um manninn sem dvel- ur í myrkrinu - og þó í ljósi er lýsir í gegnum allt myrkur.“ Eftir að hafa heimsótt Skúla á Ljótunnarstöðum lýkur Jón greininni með þessum orðum: „Á leiðinni suður yfir snæ- þakta heiðina er næði til að hugsa um þrek mannsins sem við höfum kvatt. Manninn sem ekkert myrkur, engin einangrun fær yfir- bugað. Blinda bóndann á strönd- inni, sem aldrei gefst upp en held- ur æðrulaus vöku sinni meðan „sjáandi" menn sofna eða örviln- ast og skríða í stundarskjól. Heldur vöku sinni og trú á mann- inn, þrátt fyrir allt, trú á sigur hins rétta málstaðar, sigur lífsins. Það eru slíkir menn sem sannfæra okkur hina um að ekkert fái bug- að né villt alþýðu þessa lands, að hve illa sem horfir á stundum muni hennar verða sigurinn að Iokum - og það fyrr en varir.“ Ég kveð svo vin minn, bóndann og rithöfundinn, Skúla Guðjónsson á Ljótunnarstöðum með orðum Sigurðar Sigurðs- sonar skálds frá Arnarholti: Þungt er tapið það er vissa - þó vil ég kjósa vorri móður: að œtíð megi hún minning kyssa manna er voru svona góðir - að œtíð eigi hún menn að missa meiri og betri en aðrar þjóðir. Þökk fyrir samfylgdina. Torfi Jónsson Sú var tíð, og ekki mjög langt undan, að lesendur Þjóðviljans könnuðust allir við Skúla Guð- jónsson á Ljótunnarstöðum og skoðanir hans á ýmsum fyrirbær- um mannlífsins. Um fjölda ára var þessi Hrúta- fjarðarbóndi einn beittasti penni Þjóðviljans og ritaði þá m.a. reglulega í blaðið um þau marg- víslegu efni, sem Ríkisútvarpið bar honum til eyrna. Á ritvelli var Skúli einn besti fulltrúi íslenskrar bændastéttar á 20. öld, meistari alþýðlegrar frásagnarlistar með sinn eigin stfl og skildi aldrei við sig kímnina þótt fjallað væri um alvörumál. Síðustu 40 ár ævi sinnar var Skúli á Ljótunnarstöðum al- blindur. Margur lagði árar í bát af minna tilefni en ekki Skúli. Lík- lega má segja, að sjónarsviptirinn hafi einmitt leitt í ljós hvað í manninum bjó. Að vísu hafði Skúli skrifað nokkuð í blöð og tímarit meðan hann hafði sjónina en engin bók hafði þá komið frá hans hendi og með öllu óvíst hvort svo hefði orðið, ef myrkrið hefði aldrei hindrað bóndamann þennan frá sinni daglegu önn í náttúrunnar ríki. Nú liggja eftir Skúla a.m.k. sex bækur, söfn rit- gerða og frásagna, allar skrifaðar af blindum manni, sem lærði á ritvél þegar sjónin var farin, - og að auki ótal greinar í blöðum og tímaritum. Auk Þjóðviljans er greinar og ritgerðir Skúla m.a. að finna í þessum blöðum og tímarit- um: Lögréttu, Skinfaxa, Iðunni, Rauðum pennum, Rétti, Sam- vinnunni og Tímariti Máls og menningar. Skúli Guðjónsson var fæddur 30. janúar 1903 á Ljótunnarstöð- um við Hrútafjörð vestanverðan og þar átti hann jafnan heima langa ævi. Foreldrar Skúla voru Björg Andrésdóttir Qg Guðjón Guðmundsson og áttu bæði Guð- mund gullsmið í Hundadal fyrir langafa. Þau hófu búskap sem húsmannshjón á einum þriðjungi Ljótunnarstaða vorið 1895 og var það í kot vísað en jörðin hafði þá verið í eyði í fjögur ár. Skúli var yngstur fimm barna foreldra sinna og tveim árum áður en hann fæddist tók hagur þeirra að vænkast er þau fengu lífstíðar- ábúð á Ljótunnarstöðum öllum og nokkrum árum síðar keyptu þau jörðina. Til 33ja ára aldurs var Skúli lausamaður og dvaldist þá stund- um utan heimahéraðs en 1936 gerðist hann bóndi á Ljótunnar- stöðum og stóð þar fyrir búi til 1973, bjó fyrst allmörg ár á móti föður sínum, síðan einn og loks tíu ár á móti syni sínum Björgvin. Skúli kvæntist 1936 Þuríði Guð- jónsdóttur og eru börn þeirra fjögur: Björgvin bóndi á Ljót- unnarstöðum, Bragi húsasmíða- meistari á Sauðárkróki, Ingi- björg húsfreyja í Norðurfirði í Árneshreppi og Heiðar, sem stundar sagnfræðinám við Há- skóla íslands. Konu sína missti Skúli árið 1963. Á fyrstu áratugum þessarar aldar áttu fæstir þess kost að ganga menntaveginn sem svo var kallað og stutt varð skólagangan hjá Skúla. Barnaskólalærdóm nam hann á árum heimsstyrjald- arinnar fyrri, þrjá vetrarparta, og kenndi honum þá sjálf Elskan hans Þórbergs, sem margir muna úr íslenskum aðli. í munni Skúla hét hún reyndar bara Dísa í Bæ og gekk á karlmannsbuxum um Bæjarhrepp. Skúli sagði mér, að Þórbergur hefði lýst höndunum hennar vel en aðrar lýsingar farið nokkuð á skjön við veruleikann. Þennan kennara sinn mat Skúli mikils og átti stöku sinnum við hana spjall á efri árum beggja. Þegar Dísa í Bæ útskrifaði Skúla á Ljótunnarstöðum vorið 1917 sagði hún við föður hans, að drengurinn þyrfti að læra eitthvað meira. Svar föðurins var Skúla minnisstætt: „Hann verður fyrst að fjölga kindunum sínum,“ - og hefur Guðjón á Ljótunnar- stöðum verið raunsæismaður. Liðu nú tíu ár uns Skúli settist aftur á skólabekk en ekki er mér kunnugt um hvað kindum hans fjölgaði á þeim tíma. Haustið 1927 kom Skúli í Samvinnu- skólann en skólastjórinn Jónas frá Hriflu var þá að komast á há- tind síns stjórnmálaferils og hafði reyndar það sama ár fengið lausn frá skólastjóraembættinu vegna ráðherrastarfa. En þó að Jónas ætti annríkt lét hann sig þó ekki muna um að skjótast úr stjórnar- ráðinu í Samvinnuskólann til að kenna þeim Skúla og félögum hans félagsfræði og samvinnu- sögu. Síðar sagði Skúli svo frá, að á þessum árum hafi hann sjálfur verið óforbetranlegur Framsókn- armaður. Það var þröngur efna- hagur sem meinaði Skúla að halda áfram námi í Samvinnu- skólanum haustið 1928 og tók hann þaðan í frá aldrei sæti á skólabekk. Skúla Guðjónssyni var nú Ijóst, að hvorki yrði hann prestur né kaupfélagsstjóri og má ætla að sú vissa hafi knúið hann til dýpri ígrundunar um mannlegt félag og ýtt undir sjálfstæð heilabrot. Einhver fyrstu skrif Skúla er" komu fyrir sjónir almennings voru greinar í Lögréttu árið 1929 en þar andmælti hann þeim boð- skap Jóhannesar skálds úr Kötlum, að íslendingar skyldu klæðast fornmannabúningum á hátíðum og tyllidögum, - og var ekki laust við að lærisveinn Dísu í Bæ gerði svolítið skop að háleitri hugsjón skáldsins úr Kötlum. Hvorugur vissi þá, að heimskreppan mikla var á næsta leiti og allt það umrót og endur- mat hugmynda, er henni fylgdi. Hjá Skúla urðu þó engin heljar- stökk í hugmyndalegum efnum, hann var svo jarðbundinn. Þeir voru margir og álitlegir ungu mennirnir, sem í hildarleik kreppunnar miklu tóku trú á boð- skap kommúnismans um nýtt jafnréttisþjóðfélag laust við kúg- un og arðrán manns á manni. Svo hlaut að fara eins og aðstæðum var þá háttað bæði hérlendis og um allan heim. Sumir meðtóku þetta fagnaðarerindi án fyrirvara en aðrir gengu til liðs og tóku full- an þátt í harðri baráttu fyrir bætt- um kjörum alþýðu og gegn þjóðfélagslegu misrétti án þeirrar ofbirtu í augum, sem trúin á framtíðarríkið gat leitt til. Skúli Guðjónsson var staddur í Reykjavík síðla vetrar 1932 og kom þá fyrst á fund hjá Komm- únistaflokknum. Það var Svavar Guðnason, félagi hans úr Sam- vinnuskólanum og síðar heimsfrægur listmálari, sem fékk hann með sér á fundinn. Skömmu síðar fór Skúli með þeim Svavari og Gunnari Bene- diktssyni, áður presti í Saurbæ, austur fyrir fjall til að halda kommúnistafund á Skeggjastöð- um í Flóa. Ferð þessa fór Skúli þó ekki í því skyni að prédika sjálfur bolsévisma yfir Flóamönnum heldur fremur til að njóta skemmtilegs félagsskapar þeirra Svavars og Gunnars. Þegar Skúli kom aftur norður í átthagana vor- ið 1932 var hann samt orðinn tengdur Kommúnistaflokknum en allt meö fullum fyrirvörum eins og hans var von og vísa. Félagið, sem Skúli á Ljótunn- arstöðum gekkst fyrir að stofna í Hrútafirðinum þetta vor, það var heldur ekki venjuleg sella í Kommúnistaflokknum heldur Félag róttækra alþýðumanna, og hafði breiðari grundvöll en Kommúnistaflokkurinn. Þetta ágæta félag gekkst m.a. fyrir kaupum á bókum Halldórs Lax- ness og Þórbergs Þórðarsonar, sem þá áttu ekki upp á pallborðið hjá lestrarfélagi sveitarinnar. En Marxisma kvaðst Skúli aldrei hafa skilið, ekki frekar en altaris- göngubænirnar í Helgakveri. Sjálfsagt hefur hann sagt þetta satt en hann var svo úr garði gerð- ur að sjá hvar réttlætið þurfti liðs við og hvaða þjóðfélagsöflum þurfti að andæfa. Þess vegna varð hann merkisberi óháður fræði- kenningum. Árið 1934 var stofn- að Verkalýðs- og smábændafé- lagi Hrútfirðinga og það sama ár var Borðeyrardeilan háð. Þá var heitt í kolunum við Hrútafjörð og barist víða um Norðurland. Það var skemmtilegt að heyra Skúla á Ljótunnarstöðum segja frá. Ég átti þess kost nokkrum sinnum síðustu 20 árin eða svo. Orðsins list lék honum á tungu og í svip þessa sérstæða bónda og sagnamanns var oftast hýra sem brá ljóma á andlitið allt, - líka augun þó blind væru. Margar af sögum Skúla eru í bókum hans en ekki allar. Hann hafði mörgu kynnst bæði heima og heiman. Sumarið 1932 var Skúli í vega- vinnu með föður sínum og komu þeir heim seint um kvöld. Systir Skúla kom á móti þeim út á tún og sagði tvo ferðamenn hafa komið um daginn og beðist gistingar. Væru þeir nú lagstir fyrir í her- bergi Skúla svo hann yrði að sofa annars staðar. Sá eldri ferða- mannanna var hálffimmtugur bóndi úr Dölum, hinn um 20 árum yngri, líka Dalamaður. Eitthvað höfðu þeir verið örir af víni, einkum sá eldri, og bætt á sig hjá brúarsmiðunum við Bakkaá. Þeir voru á skemmtiferð þessir Dalamenn með marga hesta og Frh. á bls. 12 Laugardagur 28. júní 1986 ÞJÓÐVILJINN - SÍÐA 11

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.