Þjóðviljinn - 30.11.1986, Blaðsíða 17

Þjóðviljinn - 30.11.1986, Blaðsíða 17
Nafn vikunnar okkar er orðin of löng Unnur Sólrún Bragadóttir Forvali Alþýðubandalagsins á Austurlandi er nú lokið og tvö efstu sætin skipa þau Hjör- leifur Guttormsson og Unnur Sólrún Bragadóttir. Bæði hlutu þau glæsilega kosn- ingu. Unnur Sólrún er nafn vikunnar að þessu sinni. Unnur Sólrún er Austfirðingur í húð og hár, fædd á Vopnafirði, uppalin á Eskifirði og hefur búið á Fáskrúðsfirði síðastliðin 4 ár. Hún kennir við Barnaskólann á Fáskrúðsfirði og eiginmaður hennar er Sigurður Gunnarsson sveitarstjóri. Þau eiga þrjú böm. Unnur hefur ekki verið mjög áberandi í stjórnmálunum áður og að eigin sögn hefur hún lítið skipt sér af þeim opinberlega í 15 ár. „Þetta kom mér ánægjulega á óvart,“ sagði hún þegar hún var spurð um fyrstu viðbrögð við úrslitunum. „Þetta sýnir mikinn styrk og samhug innan Alþýðubandalags- ins á Austfjörðum og ég er auðvitað mjög ánægð með þessar tölur. Það má segja að annað sæt- ið sé tryggt þingsæti og þegar ég gaf kost á mér þá gerðum við ráð fyrir því að allt ómögulegt gæti gerst. Þannig að við erum alveg tilbú- in til þess að umbreyta og um- bylta öllu lífí fjölskyldunnar fari svo að við höldum þingsætinu. Ég verð þingmaður Austfirð- inga og umboðsmaður kjósenda minna, þannig að þó að vinnu- staðurinn verði í Reykjavík þá má ég ekki yfirgefa kjördæmið alveg. Ég reyni að vera hér eins mikið og ég get.“ - Hverju þakkar þú þennan sigur? „Þetta hefur nú allt gengið mjög hljóðlega og ekkert okkar hafði sig neitt í frammi, þannig að ekki er það auglýsingum eða slíku að þakka. Ég þakka fyrst og fremst ötulu starfi félaga minna og vona að okkur takist að gera annað sætið sem sterkast." - Finnst þér skipta máli að Al- þýðubandalagið fái fleiri konur í þingflokkinn? „Þegar á hólminn er komið er það alltaf stefnumörkunin sem skiptir mestu máli en auðvitað er það æskilegt að reynsluheimur kvenna, sem er óneitanlega ólík- ur karlaheiminum, fái að komast að. Og maður samgleðst alltaf ef kynsystrum gengur vel. Það sem kemur til með að brenna mest á mér er einmitt verkakonan í sjáv- arþorpinu, og ég verð umboðs- maður fjölmargra af þeim. Sú áætlun ríkisstjómarinnar að draga sig út úr uppbyggingu dag- vistarheimila mun til dæmis hafa mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir verkakonur úti á landi. Svo eru launamálin í brennidepli hjá verkafólkinu og þau eiga alltaf að vera númer eitt. Verkafólkið veit alveg hve mikið er í launaumslögunum og það veit hvað það getur keypt fyrir þá peninga. Það er farið að líta á réttlætingarlínurit ríkis- stjórnarinnar sem afstraktmál- verk. Það er orðið þreytt á að bíða eftir því að fá að þukla á góðærinu og það er vitað mál að það er til meira til skiptanna. En bilið á milli fátækra og ríkra er orðið meira en áður var. Ef ég á að flokka mig innan Alþýðubandalagsins þá tel ég mig vera mjög róttæka og mér þykir brýnt að 68-kynslóðin fari að sýna sig á þingi. Ég óska til dæmis fólki eins og Olgu Guð- rúnu ofarlega á lista í Reykjavík, þetta er orðin alltof löng þögn hjá okkur.“ - Ertu kvíðin? „Já, auðvitað kvíðir maður alltaf fyrir því að skipta um starf og þingmennska er mjög ábyrgð- armikið starf. Nú verður maður að færa sig úr bæjarmálum yfir á. allt landið og maður er eign miklu fleira fólks en áður. Nú verður maður að bera allar sínar skoðan- ir opinberlega á borð. En ég reyni að gera mitt besta. Alþýðubandalagið er mjög sterkt á Austurlandi og á listan- um er margt nýtt og ungt fólk, flest af 68-kynslóðinni, nema Hjörleifur. Hann er mjög sterkur í kjördæminu og hlaut mjög góða kosningu. Það er mikill missir að Helga, hann átti miklu persónu- fylgi að fagna hér. En með mál- efnalegum og kröftugum undir- búningi þá fáum við inn nýtt fólk í staðinn og jafnvel yngra. Það má alveg yngja svolítið upp í þinginu og dusta af rykið.“ -vd I I 1 j _________________LEiÐARI_____________ Ábyrgðarlaus menningarpólitík Þjóðleikhúsið er að hrynja. Alþýðuleikhúsið og aðrir frjálsir leikhópar höfuðborgarinnar á vergangi. Rithöfundar bera minnst úr býtum þegar andvirði einnar bókar er deilt niður. Ríkis- stjórnin hefur ítrekað virt að vettugi samþykktar þingsályktunartillögur um að greiða lista- mönnum aftur meginhluta þess söluskatts, sem ríkið hefur fengið af listinni. Það dylst víst engum lengur að þjóðin lifir ekki af brauði einu saman, hinsvegar vita kannski ekki allir að listamönnum er oftast nær ætlað að lifa án brauðsins. Afturámóti nærast ýmsir milli- liðir vel á listinni og ríkissjóður sennilega best. Smámsaman hefur þjóðin verið að átta sig á því að án íslenskrar menningar er ekkert til sem heitir íslensk þjóð. Sjálfsvitund þjóðarinnar byggir á andlegri sköpun. Hér er ekki verið að kasta rýrð á þorskinn, en þjóð sem einvörðungu hugsar um að framleiða þorskblokkir í banda- ríska neytendur, hlýtur að tapa áttum og missa virðinguna fyrir sjálfri sér. Það er talað um menningararf og ræðumenn eru klökkir í röddinni þegar þeir minnast stór- brotinna afreka forfeðra okkar og mæðra fyrr á öldum við ræktun tungunnar. Ráðherra kallar saman hátíðaráðstefnu í Þjóðleikhúsi, sem er að hruni komið, og hvetur menn til dáða við að standa vörð um þessa tungu, sem varðveitt hefur verið, jDróuð og löguð að nýjum háttum. Fögur fyrirheit eru vakin í brjóstum manna, sem af einhverri óútskýranlegri þörf hafa helgað sig þessu markmiði, þrátt fyrir að þeir viti að eigi sé það vænlegt til sómasamlegrar lífsafkomu. Fyrirheit nægja ekki ef þau eru ekki efnd. Og því miður virðist andi Hannesar Hólmsteins svífa yfir vötnum á ríkisstjórnarfundum. Þrátt fyrir að þessir pólitíkusar berji sér á brjóst borg- inmannlega í ræðupúltum er ekkert til sem heitir menningarpólitík hjá þeim. Það er til eitthvað sem heitir Launasjóður rit- höfunda. Úr honum er rithöfundum skömmtuð tveggja til sex mánaða starfslaun og er þá mið- að við byrjendalaun menntaskólakennara, það þó þarna séu rithöfundar sem hafa helgað allt r sitt líf ritstörfum. Einhverntíma var forsætisráðherra spurður hvernig hann réttlætti launamismuninn hjá sér og verkamanni. Hann svaraði: Ég ber miklu meiri ábyrgð. En ábyrgð Steingríms er smá mið- að við þá ábyrgð sem listamenn landsins bera. Bandalag íslenskra listamanna samþykkti á- lyktun á aðalfundi sínum, sem haldinn var í síðustu viku, þar sem bent er á að ríkisvaldið hafi á undanförnum árum hyllst til að skerða framlög sín til lista og listamanna og er skorað á ríkisvaldið að snúa þessari þróun við. Segir í ályktuninni að þótt listræn störf séu frábrugðin hefðbundnum störfum eigi listamenn að geta lagt stund á störf sín án þess að við þeim blasi meiri efnahagsörðuleikar en öðrum einstak- lingum. Segir að launakjör flestra listamanna séu fyrir neðan það sem telja má viðunandi og sæmandi í menningarsamfélagi. Engilsaxnesk menning hefur að mestu yfir- tekið Ijósvakafjölmiðlana. Stöðugur glymjandi lystapopps frá bretum og könum ærir óstöðug- an af bylgjum og rásum. Það er bent á að hægt sé að skrúfa fyrir, en því miður þá er það ekki hægt vegna þess að músakið fyllir hlustir á vinnustöðum, í verslunum og almennings- vögnum. Það má jú hlaupa á fjöll upp til að upplifa kyrrðina. Stöð tvö gæti allt eins verið staðsett í miðríkj- um Bandaríkjanna, ef fréttireru undanskildarog einstaka dagskrárliðir, sem virðast í framtíðinni eiga að fá meira rúm í dagskránni. Sjónvarpið er með blandaðra efni en þrátt fyrir það er engil- saxneskt efni í miklum meirihluta. Það jákvæða við þetta mikla framboð á bandarískri framleiðslu erað íslendingarvirðast nú sólgnari í að fá að upplifa eigin veruleika gegnum röntgenaugu listamannsins. Það sýnir best sá áhugi sem nú er á nýjum íslenskum skáldverkum. Almenningur virðist vera að upp- götva að hinn íslenski veruleiki sé okkur meira virði en eltingaleikur í öngstrætum bandarískrar stórborgar. Það er vonandi að ríkisstjórn og Alþingi geri sér grein fyrir ábyrgð sinni og hlaupi ekki burt frá henni. Það eru ýmsar leiðir til að tryggja lista- mönnum mannsæmandi líf og okkur ber að gera það. íslensk þjóð hefur ekki efni á því að láta þá svelta. -Sáf Sunnudagur 30. nóvember 1986 ÞJÓÐVILJINN — SÍÐA 17

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.