Þjóðviljinn - 03.01.1987, Blaðsíða 12

Þjóðviljinn - 03.01.1987, Blaðsíða 12
í dyragœtt hins nýja árs Nýjársávarp Vigdísar Finnbogadóttur forseta fslands Góðir landsmenn, góðan dag, gleðilegtár. Enn á ný sem svo oft áður höfum við verið minnt á það hversu óblíð náttúruöfl þjóð okkar þarf einatt við að etja. Skuggi hefur hvílt yfir hátíðar- höldum okkar við fregnir af miklum sjóslysum undan ströndum landsins. Áslíkum raunastundum kemur ávallt í Ijós hinn mikli samhugur sem býrmeð íslendingum. Missir eins er missir fyrir alla. Samúð okkar er einhuga um þessar mundir með fjölskyldum lát- inna sjómanna og allra ann- arra sem að hefur verið hög- gvið. - Að því mæltu flyt ég héðan frá Bessastöðum þær hugleiðingar sem ég vildi fá samtíðarmenn mína til að eiga hlutdeild í við þessi ára- mót. ★ ★ ★ „Vér stöndum nú í dyrum nýs árs. í dag er fyrsti dagur hins fyrsta mánaðar í nýju ári, fyrsti janúar. Mörgum er kunnugt að þetta mánaðarnafn er úr latínu- máli og dregið af orði sem merkir bogi eða hlið og einnig er það nafn hinna fornu Rómverja á goðmagni dyra og hliða, sem sýnt var á myndum í líki mannveru með andlit í tvær öndverðar áttir, aftan og framan á höfði. Eins og guðinn horfa dyr bæði út og inn, aftur og fram í senn. Pað gera áramótin einnig, mánaðarnafnið minniross á það, dyramánuður." Þannig hóf Kristján Eldjárn ávarp sitt til þjóðarinnar í árs- byrjun 1978. Þau orð hef ég kosið að gera að mínum nú af ýmsum ástæðum. Á árinu sem nú er ný- liðið hefði Kristján Eldjárn orðið sjötugur og það rifjaðist enn upp fyrir okkur hve allt of snemma við máttum sjá á bak svo dýr- mætum manni sem hann var. Kristján Eldjárn hafði gert það að ævistarfi sínu að rýna í fortíð- ina og grandskoða hana. Engu að síður horfði hann ávallt til fram- tíðar þegar hann tók til máls fyrir hönd þjóðar sinnar og las í fram- tíðina í krafti þekkingar sinnar á fortíð og sögu. Og hann tók jafn- an til máls með þeim hætti að rækilega var tekið eftir. í framhaldi af þeim orðum sem ég vitnaði til úr ávarpi Kristjáns Eldjárns vék hann að því að það að skyggnast um, horfa til átta, væri ríkur þáttur í mannlegu eðli en hins vegar misjafnt til hverrar áttar væri fastast horft. Orð hans voru hvatning til þjóðarinnar um að halda jafnan vöku sinni og gleyma engri áttinni, gleyma hvorki fortíð né framtíð í kappinu eftir stundargæðum. Hver sá sem stendur í dyrum er jafnan staddur á tímamótum. Hann þarf að taka ákvörðun og oft nokkra áhættu. Víst getur hann kosið að snúast á hæli á þröskuldi sínum og hverfa aftur inn í húsið, una við hið þekkta og heimakunna, fullviss þess að það sé rétt sem í Hávamálum segir að „dælt er heima hvat“. Allt sýnist mun auðveldara heima fyrir því þar þekkjum við allar aðstæður, vitum hvað getur gerst. Oftar en ella er þó nauðsynlegt að taka aðra ákvörðun: að stíga yfir þröskuldinn, ganga út til móts við hið ókunna, út í það land þar sem fen og foröð kunna að leynast. í dyragætt nýs árs eigum við ekki þessara kosta völ. Okkur stendur ekki til boða að snúa aft- ur inn í það hús sem var í fyrra heldur er okkur nauðugur sá kosturinn að ganga yfir þröskuld- inn. Undan því verður ekki vikist en hins vegar kann það að varða alla heill okkar, alinna og óbor- inna, með hvaða hugarfari og hverskonar ásetningi við stígum skrefin. Þær kynslóðir sem nú byggja þetta land, ísland, hafa stigið stærri skref út í óvissuna en nokkrar fyrri kynslóðir. Á hálfri öld höfum við orðið vitni að því- líkum breytingum að umhverfi okkar væri óþekkjanlegt fyrri tíð- ar fólki. Vissulega hefur tækni- byltingin breytt mörgu fyrir öðr- um þjóðum en við getum hæglega leitt að því rök að hér á landi hafi umskiptin orðið miklu stórfelld- ari og sneggri en víðast annars staðar. Þegar við horfum á mynd- ir af fátækt og neyð með öðrum þjóðum hættir okkur til að gleyma hve örskammt er liðið frá því forfeður okkar stóðu and- spænis þeim aðstæðum að þeir gerðust landflótta hundruðum og þúsundum saman. Því það er ekki einu sinni full öld liðin frá Vesturferðum {slendinga, flótt- anum mikla frá örbirgðinni, þeg- ar sárafátæku og matarlitlu fólki var beinlínis ýtt úr landi til að létta bagga hinna sem eftir sátu. I dyragætt hins nýja árs skiptir miklu að halda áttum, að kunna að skyggnast um áður en lengra er gengið, þá ríður á að kunna að horfa á allt í senn aftur og fram og til höfuðátta. Hverjum manni er það nauð- syn að staldra við öðru hvoru og freista þess að skilgreina og skilja sjálfan sig, að gera sér grein fyrir eigin verðleikum og hlutverki í samfélagi mannanna. Þá sem endranær verður hann meðal annars að gera sér grein fyrir sið- ferðilegri ábyrgð sinni á sjálfum sér. Þá mun hann jafnframt geta gert sér grein fyrir því að næst því að gæta sjálfs sín hlýtur hann að gæta bróður síns. Á sama hátt er hverri þjóð nauðsyn að vita deili á sjálfri sér, vita hvað það er sem hún hefur til mála að leggja í samfélagi þjóð- anna, hvenær það er sem hún get- ur stolt lagt fram sinn skerf án tillits til stærðar og veraldlegs auðs á heimsvísu, hvenær hún getur krafist þess að menn leggi eyru við rödd hennar, - að á hana sé hlýtt. Það getur ekki sú þjóð sem gleymir að horfa til baka vegna þess að henni er ofbirta í augum af nútíð og framtíð. Það getur heldur ekki sú þjóð sem gleymir að taka siðferðilega ábyrgð á sjálfri sér. Þegar Átli Ásmundarson á Bjargi, bróðir Grettis, gekk um dyr heimilis síns til móts við bana- menn sína þótti honum nokkuð til spjótanna koma sem að hon- um beindust og hafði um þau orð að „þau tíðkast nú hin breiðu sp]ötin“. Þar sem við stöndum nú, íslendingar, í dyrum nýrra tíma beinast að okkur mörg spjót og sum breið. Aldrei hafa menningaráhrif frá öðrum þjóð- um átt j afngreiða leið til okkar og nú um stundir og eru þó smáræði ein í samanburði við það sem framtíðin virðist boða. Það er okkur mörgum áhyggjuefni hvort þjóðin muni við þær aðstæður gæta uppruna síns, og geyma þau ómetanlegu verðmæti sem þarf til þess að hún megi kallast sjálfstæð og sérstök þjóð um ókomin ár, því einmitt án menningararfsins og þeirra andlegu verðmæta sem fyrri kynslóðir hafa skapað virð- ist hverri þjóð hætta búin. Um það vitna mörg dæmi í reynslu- sögu mannkynsins. Með þessum orðum er ég ekki að taka afstöðu með þeim sem jafnan berjast gegn öllu öðru en heimafengnum böggum. Ég er ekki að segja að öll erlend áhrif á menningu okkar og lífshætti séu hættuleg. Því fer fjarri. Það er eðli okkar allra að taka við áhrif- um, læra af öðrum. Stórmenni sögu okkar voru gagnkunnug er- lendum menningarstraumum sinnar tíðar. En þau kunnu líka að fella þá strauma að íslenskum veruleika. Vitanlega þurfum við enn sem fyrr að vera viðtakendur áhrifa - einfaldlega vegna þess að við erum hluti af mannkyni og mannheimi. En hins vegar megum við aldrei vera svo áköf í nýjungagirni okkar að við gleymum eigin sérkennum, því sem gert hefur okkur að þjóð og gera mun um ókomna tíð ef rétt er á haldið. Við þurfum að vera sjálfstæðir viðtakendur og kunna enn sem fyrr að laga hið nýja og erlenda að íslenskum aðstæðum. í því felast töfrar okkar meðal þjóða heims að vera eilítið öðru- vísi, en með okkar eigin sniði, þannig getum við komið færandi hendi með sitthvað sem öðrum þykir bragð að. Á hitt ber einnig að líta að jafn- hættulegt menningu og þjóðerni væri að horfa einasta til hins liðna, gleyma vökunni í nútíð vegna draumanna um fortíð. Því hverri hugsandi veru, hverri hugsandi þjóð, er nauðsyn á ögr- andi viðfangsefnum, nauðsyn á einhverju nýju að glíma við. Vopn hennar í glímunni við hið nýja og ókunna eru þekking og menntun. Gleymist ekki að afla þekkingar, skipuleggja hana og hlú að henni munum við ávallt geta tekist á við hið óþekkta og vonandi jafnan hafa nokkurn sigur í þeirri glímu. Án þekkingar og reynslu verður hætt við þungri byltu. Af þeim sökum er okkur svo brýnt að gæta vel að skólum okkar og menningarstofnunum. Þar eru gróðrareitir þekkingar- innar og þar verður að leggja grundvöll að skilningi okkar á sjálfum okkur, eðli þjóðar okkar og hlutverki. Þannig tryggjum við einnig þekkingu á því menn- ingarsamhengi sem við stöndum í. Og samhenginu má íslensk þjóð aldrei gleyma. Hvorki hinu sögulega samhengi við fortíðina né heldur samhenginu milli ver- aldlegra gæða og andlegra gæða, samhenginu milli framleiðslu- vöru okkar, þeirrar sem við selj- um á markaðstorgum og hinnar sem fólgin er í listum okkar og menningarlífi á öðru sviði. Því aðeins að þetta samhengi sé ljóst getum við gert okkur og öðrum grein fyrir því hvað það er að vera Islendingur, hvers vegna við get- um hiklaust sagt að íslendingar viljum við öll vera. Það er ekki af því að hér sé betra að sitja við kjötkatlana en annars staðar. Úr dyragætt áramótanna horf- um við til framtíðar og fortíðar í senn. Þekking okkar á fortíðinni verður undirstaða framtíðarsýn- arinnar. Og hvernig er framtíðar- sýn íslendinga? Hvernig viljum við til dæmis að aðrar þjóðir líti til okkar og á okkur í framtíðinni? Hver er sú ímynd, sem við viljum sjálf skapa? Svörin verða eflaust misjöfn. Þó ætla ég að nokkuð verði þeim öllum sameiginlegt. Við munum áreiðanlega öll komast að þeirri niðurstöðu að við viljum að aðrir geti horft til okkar sem sjálf- stæðrar menningarþjóðar. Þjóð- ar sem hefur hiklaust axlað þá ábyrgð sem felst í því að vera hluti mannkyns. Við viljum geta verið stolt af því sem við höfum til þekkingar og menningar heimsins að leggja. Við viljum geta glaðst yfir sigrum okkar á sem flestum sviðum, hvort heldur er í iþróttum hugar eða líkamans. Við viljum um hver áramót geta horft svipdjörf fram á veg og sagt: Hér komum við, fullgildir þátt- takendur í samfélagi þjóðanna. Um undanfarin misseri hafa lærdómsmenn okkar unnið að því að reyna að átta sig á framtíðinni og lýsa ytri ramma framtíðarsýn- arinnar. Margt er þar sem ekkert verður um vitað en þó ber ölium saman um sumt. Þannig er ljóst að hlutföll kynslóðanna rasicast svo um munar; miklu fleiri en nokkru sinni fyrr verða í elsta aldursflokknum þar sem fyrirséð er að aldraðir verða full 17% þjóðarinnar uppúr aldamótum og þá um leið mun færri sem sjá þurfa öldruðum, sem skilað hafa sínum hlut til samfélags þjóðar- innar, fyrir góðu og sómaríku ævikvöldi. Óþarfi ætti að vera að vekja athygli á því að þeir sem ungir eru á þessari stundu eldast samtíma öðrum og verða einnig gamlir einn góðan veðurdag, ef þeim auðnast líf sem við öll von- um. Þeir vilja eins og aðrir geta gengið að umhyggju nýrra kyn- slóða í eigin elli. Hér er um að ræða þátt kom- andi tíma sem við vitum um og getum þess vegna búið okkur undir. Þeirra tíma vegna megum við einskis láta ófreistað til að efla menntun og þekkingu barna okkar og búa þau þannig undir þá framtíð sem við viljum eiga með þeim. Því mennt er máttur til að takast á við þær að- stæður sem skapast hverju sinni. Sú þjóð sem gengur til móts við tæknivædda tíma án þess að vera brynjuð þekkingu og almennri menntun hún mun ekki aðeins tapa fyrstu orrustunni heldur stríðinu öllu. Framtíðin spyr ekki um veraldarauð sem auðvelt er að sóa heldur þekkingu til að skapa auðsæld. Á nýju ári er gott að minnast mikils sannleika sem felst í skoðun Einars skálds Benedikts- sonar og hann setti fram í DAG- SKRÁ sinni fyrir réttum hundrað árum, í tilefni þess hve fólk var vanbúið til að mæta framtíðinni á ættjörð sinni og neyddist til að segja skilið við hana. „... Mesti og besti auður hvers lands,“ ritar hann, „er fólkið sjálft, sem lifir þar, hugsar og starfar ..." Þessi orð skáldsins brýna okkur til að búa æsku íslands sem best undir að eiga hér heima með víðsýni yfir heimsbyggðina, til fyrir- myndaríhagleik ogkunnáttu. Til þessa markmiðs megum við aldrei spara sameiginlega fjár- muni okkar, því þannig er þeim varið til þjóðarheilla, - til heilla okkur sjálfum hverju og einu. Því beini ég þeim orðum til þeirra sem ábyrgð bera á nánasta umhverfi sínu eða heildinni allri að láta það aldrei úr huganum hverfa að við eigum engan auð meiri en mannfólkið sjálft og að við skuldum hverri mannveru að rækta hana til þeirra verðmæta sem enginn getur frá henni tekið - og það eru þekking og menntun: meginatriði sem í framtíðinni verða höfuðundir- staða þess sem í askana verður látið. Gleðilegt nýár, gleðiríka framtíð. 12 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Laugardagur 3. janúar 1987

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.