Þjóðviljinn - 19.02.1988, Blaðsíða 8

Þjóðviljinn - 19.02.1988, Blaðsíða 8
MINNING Guolaug Helgadóttir fædd 9. nóvember 1913 - dáin 8. febrúar 1988 í dag verður lögð til hinstu hvflu ástkær móðursystir mín, Guðlaug Helgadóttir eða Lauga eins og hún var kölluð. Mig lang- ar að minnast hennar með nokkr- um orðum. Margs er að minnast, margra ánægjustunda fyrir litla stúlku, síðar unga konu, síðar móður. Lauga var gift Ragnari Elíassyni, hinum mesta sómamanni, og átti með honum tvær dætur, þær Hönnu og Guðlaúgu (Lullu). Það er ekki hægt að minnast Laugu án þess að þau séu nefnd í sama orð- * inu Lauga og Raggi, svo samhent voru þau, og Raggi minn á nú erfiðar stundir að sjá á bak Laugu. Hanna, dóttir Laugu, fluttist til Kanada árið 1964 með manni sín- um Árna Jónssyni og þremur börnum, Lindu, Jóni Birni og Ragnari. Eftir að þau fóru vestur varð samband okkar Laugu nán- ara, því að Linda elsta barna- barnið var tveimur árum yngri en ég. Lauga sá trúlega margt sam- eiginlegt með okkur Lindu, svo sem börnin okkar, og þá er ég komin að því sem ég vil sérstak- lega þakka henni fyrir. Mínum börnum hefur hún reynst alveg sérstaklega vel. Oft er talað um ferðirnar í Sléttuhlíðina, þar sem Lauga og Raggi byggðu sér yndis- legan sælureit. Þá er ekki hægt að minnast Laugu án þess að tala um handa- vinnuna hennar, en heimili þeirra ber henni fagurt vitni. Að annarri handavinnu ólastaðri verð ég að minnast hér á „kóngateppin“, en það eru teppi sem hún saumaði og gaf öllum karlmönnum í fjöl- skyldunni, og fékk elsti sonur minn að njóta þess í fermingar- gjöf- Þar sem ég er einkabarn for- eldra minna (Fjóla móðir mín og Hulda eru tvíburasystur Laugu), þá er ekki mikið talað um systur á mínu heimili, en Lauga gekk aldrei undir öðru nafni en Lauga systir. Og mér er minnisstætt, þegar ég og maðurinn minn fór- um á aðfangadag til þeirra Laugu og Ragga með yngstu börnin okkar tvö, þá settu þau upp sér- stakan englasvip um leið og dyra- bjöllunni var hringt. Lauga hafði svo góð áhrif á þau, þau voru svo miklar persónur í hennar augum og hjá þeim fann ég það sem Lauga hafði alltaf verið mér. Elsku Raggi minn, Hanna, Árni og börn, Lulla og dætur. Söknuður ykkar er sár en minn- ingin um góða konu og móður lifir. Innilegustu samúðarkveðjur frá okkur Sigga og börnunum. Erna Björnsdóttir Systir mín, Guðlaug Helga- dóttir, verður til moldar borin í dag, en hún lést 8. febrúar s.l. Ég vil minnast hennar hér með nokkrum orðum og flytja fram þakkir. Guðlaug, sem oftast var kölluð Lauga og heitin eftir föðurömmu sinni, fæddist 9. nóvember 1913 í Reykjavík, dóttir hjónanna Eyrúnar Helgadóttur (d. 1980) og Helga Guðmundssonar (d. 1937). Systkini Guðlaugar eru, auk mín, Guðmundur, Sigdór, Hulda og Fjóla. Guðlaug fluttist með foreldrum sínum til Vest- mannaeyja 1919 og ólst þar upp sem unglingur til haustsins 1930, er hún fluttist með fjölskyldunni aftur til Reykjavíkur, nýorðin 17 ára, og hér hefur hún átt heima síðan. Þessi uppvaxtarár í Vest- mannaeyjum settu hins vegar það mark á Guðlaugu, að ævinlega taldi hún sig Vestmannaeying. Ung að árum trúlofaðist Guð- laug Ragnari Elíassyni, vélstjóra og síðar afgreiðslustjóra á Bif- reiðastöð Steindórs, en þau giftu sig 16. júní 1934. Þeim varð tveggja barna auðið. Eldri telp- an, Hanna, f. 1932, giftist Árna S. Jónssyni skipstjóra og fluttist með honum til Kanada 1964 og stendur heimili þeirra í Bridge- water í Nova Scotia. Árni og Hanna eiga þrjú börn, Rögnu Lindu (f. 1953), Jón Björn (f. 1959) og Ragnar (f. 1962) og fóru þau öll ineð þeim vestur. Ragna Linda á tvær dætur með Ralph Joudrey, þær Lísu og Michelle og stendur heimili þeirra mæðgna einnig í Bridgewater. Yngri telpan, Guðlaug, f. 1940, giftist dr. Ásgeiri B. Ell- ertssyni lækni, og eiga þau 3 dæt- ur, Guðlaugu Helgu (f. 1961) og tvíburana Steinunni og Ragnhildi (f. 1966). Guðlaug Helga er gift Lárusi Marinussyni og Ragnhild- ur er gift Andrési Jónssyni. Guð- laug og Ásgeir dvöldust í Svíþjóð í 7 ár, en skildu 1981. Guðlaug er sú fyrsta úr systkinahópnum sem fellur frá, og er þar rofið stórt skarð, svo styrkur bakhjarl sem hún var fyrir hópinn. Henni var mjög lagið að snúa öllum vanda til betri vegar, koma til hjálpar ef á bját- aði og gleðjast með okkur á gleði- stundum. Við systkinin eigum henni stóra skuld að gjalda fyrir allt sem hún var okkur og hversu vel hún studdi mömmu þegar pabbi veiktist. Fyrir þetta vil ég nú þakka og mæli fyrir munn okkar allra. Þá vil ég líka þakka fyrir börnin okkar Rögnu, sem hún lét sér mjög annt um. Þau hændust að henni sakir hlýju og umhyggju og stóð faðmur hennar þeim ævin- lega opinn. Henni var lagið að vinna sér traust barna, talaði ekki við þau á barnamáli, þau voru henni jafningjar. Þau minnast hennar nú með söknuði. Guðlaug var fríðleiksstúlka og strax í æsku komu þeir eiginleikar fram hjá henni, sem mest máttu sín þegar út í lífið kom, einurðin, dugnaðurinn og hjálpsemin. Þótt hún stæði jafnan fast á sínu, sýndi hún aldrei yfirgang, heldur var hún einkar blíð í öllu viðmóti. Eitt fékk hún í vöggugjöf, sem gaf henni sjálfri mikla gleði og öllum í kringum hana, en það var undurfögur sópranrödd. Mjög ung tók hún að syngja í Kirkjukór Landakirkju í Vestmannaeyjum undir stjórn Brynjólfs Sigfús- sonar og þegar til Reykjavíkur kom söng hún í Fríkirkjunni í rúman áratug, undir handleiðslu Sigurðar ísólfssonar. Kona sú í Vestmannaeyjum, sem ég er heitinn eftir seinna nafni, Ragnhildur Þórðardóttir, móðir Guðna Ingvarssonar, sagði mér að hún léti aldrei messu í Fríkirkjunni fram hjá sér fara í útvarpinu, því að hún greindi alltaf rödd Guðlaugar í söngnum. Ekki fékk Guðlaug notið ann- arrar menntunar en barnaskóla- náms og eins vetrar í unglinga- skóla, og ung að árum byrjaði hún að vinna til að létta undir með heimilinu. Ég má segja að hún hafi byrjað verslunarstörf í Verslun Gísla Johnsen í Eyjum, og eftir að til Reykjavíkur kom vann hún að verslunarstörfum hér í ein 30 ár og þar af lengst í versluninni „Áklæði og gluggatj- öld“. Henni fórust þessi störf vel úr hendi, var virt af yfirboðurum sem viðskiptavinum, enda kunn- áttusöm og lipur í afgreiðslu og sérstaklega samviskusöm. Sjálf var hún hannyrðakona af guðs náð og sjaldan féll henni verk úr hendi. Hún saumaði m.a. margar stórar gobelinmyndir, sem urðu fyrirmyndir annarra, og ekki færri en 50 ábreiður, svo- kölluð „kóngateppi", saumaði hún og gaf ættingjum og vinum og eru hinar mestu gersemar. Það var ást við fyrstu sýn, er hún leit eftirlifandi eiginmann sinn, Ragnar Elíasson, um borð í gömlu Esju, milli lands og Eyja sumarið Í928, en þá var hún á 16. aldursári. Tveimur árum seinna voru heitin unnin, árið 1931 var byrjað að búa, en þau giftu sig ekki fyrr en 1934, þegar Ragnar fékk fastráðningu í skipsrúm á togaranum Max Pemperton. Þeim auðnaðist að vera saman í 57 ár og sambúð þeirra var ein- stök. Þau voru fram á síðasta dag eins og nýtrúlofað par og unun var að vera samvistum við þau og heyra hvernig þau töluðu saman. Samstilling huga þeirra og hjartna var svo sterk, að ekkert náði að skyggja á eða skapa mis- klíð. Líf þeirra var þó ekki alltaf dans á rósum, en samhygðin var engu minni í mótlætinu en á gleðistundum. Ragnar sigldi á togurum öll stríðsárin og hlut- skipti Guðlaugar voru hin erfiðu vandamál sjómannskonunnar með börnin bíðandi heima. For- sjónin skildi Ragnar eftir heima, þegar Max Pemperton fór í síð- ustu veiðiferðina og fórst í af- takaveðri í janúar 1943. Það lýsir Guðlaugu vel, að hún hafði það fyrir reglu meðan telpurnar þeirra báðar voru að alast upp, að fara með þær út fyrir húsdyr klukkan 12 á miðnætti á gamlárs- kvöld til að þakka Guði fyrir að á liðnu ári skyldi faðir þeirra hafa haldið lífi og heilsu og biðja fyrir honum á næsta ári. Guðlaug bjó fjölskyldu sinni fagurt heimili og Ragnar sagði mér um daginn, þegar við vorum að rifja upp gamlar minningar, að það hefðu alltaf verið jól á heimili hans, þegar hann kom heim af sjónum. Þau skópu sér mikinn sælureit í Sléttuhlíðinni suður við Kaldár- sel, byggðu sér þar sumarbústað og ræktuðu blóm, grænmeti og tré á erfðafestulandi sem þau keyptu 1959. Þar áttu þau saman dýrðardaga og þangað var gott að heimsækja þau. Með Guðlaugu Helgadóttur er genginn drengur góður, framúr- skarandi hlýrpersónuleiki, trygg- lyndur og ráðhollur vinur, réttsýn og góð kona. Elsku Raggi, missir þinn er mikill en ég vona að minningarn- ar um Laugu auki þér kraft í því sem framundan er. Við Ragna sendum þér okkar innilegustu samúðarkveðjur, svo og dætrum ykkar og barnabörnum. Ingi R. Helgason Guðlaug Helgadóttir var fædd 9. nóvember 1913 í Reykjavík, foreldrar hennar voru sæmdar- hjónin Eyrún Helgadóttir og Helgi Guðmundsson sjómaður, Helgi lést fyrir aldur fram 30. mars 1937 en Eyrún lést 31. maí 1980 tæplega níræð að aldri. Börn þeirra Eyrúnar og Helga voru sex, Guðmundur, Guðlaug, Sigdór, Ingi R. og tvíburadæturn- ar Fjóla og Hulda. Á uppvaxtarárum þeirra systkina var íbúðarhúsnæði fjöl- skyldna almennt ekki stórt í Reykjavík, en fjölskyldur voru þá yfirleitt stórar, því að börn voru oft mörg, ekki var þá hægt að leita til gæsluvalla um pössun barna. Því var það að heimilin urðu börnum allt, og einmitt í frumbernsku komu fram þau sterku uppeldislegu áhrif foreld- ranna sem mótuðu börnin með hinum kristilegu siðgæðisáh- rifum, sem dugað hafa þeim í lífshlaupi þeirra, allt til þessa dags. Svo stórum barnahópi fylgir ávallt glaðværð og saklaus gáski. Því var það að margar voru hinar björtu bernskuminningar, sem systkinin áttu frá þeim árum þeg- ar þau voru heima hjá mömmu og pabba. Oft hafa þær minningar verið rifjaðar upp á góðum stund- um og yljað um hjartarætur. Þótt fátækt og atvinnuleysi hafi verið mikið á fyrrihluta þessarar aldar hér í Reykjavík og á alþýðu- heimilum hafi ríkt kvíði og von- leysi, því að ekki var vitað hvort heimilisfeður fengju vinnu næsta dag, þá var heimilið, þótt fátæk- legt væri, eini vettvangurinn sem börn höfðu til margvíslegra leikja eða barnslegrar tjáningar, heimilin voru þá hinn góði og mikilvægi skóli í uppeldislegu til- liti. Börnin lærðu það er foreldrar þeirra kenndu þeim bæði til munns og handa, enda kom það þeim vel síðar á lífsleiðinni. Þau námu það af foreldrum sínum sem aldrei verður lært af bókum, þótt í langskólanámi væru. Fimmtudagurinn4. febrúars.l. var fagur vetrardagur, heiðríkja og kyrrt veður. Guðlaug sagði þá við eiginmann sinn Ragnar Elíasson að hana langaði að skreppa í bæinn í innkaupaferð, þau kvöddust eins og þeirra var vani og gert var ráð fyrir að hún yrði komin aftur heim eigi síðar en um klukkan fjögur, en um það leyti hringdi síminn og Ragnari var tjáð að Guðlaug hefði misst meðvitund og hnigið niður á Hverfisgötunni og hefði verið flutt á Landspítalann, hún kom ekki til meðvitundar aftur og lést mánudaginn 8. febrúar s.l., 74 ára að aldri. Ragnar eiginmaður hennar fékk að vera við sjúkrabeð henn- ar allt frá því að honum var kunn- ugt um að hún hefði verið flutt á Landspítalann og þar til hún andaðist 8. febrúar s.l. Á þeirri stundu var hún umvafin nærveru og ástúð eiginmanns síns, dætra og annarra nánustu ættingja. Lífshamingja þeirra Guð- laugar og Ragnars var mikil, þau höfðu fengið að vera saman langa ævi. Þau gengi í hjónaband 16. júní 1934, hjónaband þeirra hef- ur því varað í tæp 54 ár og var alveg sérstaklega gott, umhyggja þeirra hvort fyrir öðru, næmleiki, virðing, hlýja og tillitssemi var öllum augljós er þeim kynntust. Þau voru sameinuð { því að styrkja hvort annað og styðja til góðra verka allt lífsgengi þeirra var í þá veru. Ekki var veraldarauður þeirra mikill, þegar þau hófu búskap í einu litlu herbergi með eldunar- aðstöðu í leiguhúsnæði, en ham- ingja þeirra var mikil. Þau áttu hvort annað heil og óskipt og hinn dýrmæti arfur þeirra sem þau hlutu frá foreldrum sínum í uppeldinu hafði svo mjög mót- andi áhrif á þau og allt þeirra líf og lífsgengi, en sá arfur var ein- mitt samviskusemi, trúmennska, skyldurækni og trúin á Guð. Slíkt veganesti varir sem betur fer gegnum allt lífið. Oll styrjaldarárin sigldi Ragn- ar á fiskiskipum, lengst af var hann vélstjóri á togaranum Max Pemberton hjá Pétri Maack skip- stjóra. íslenskir sjómenn sigldu fiskiskipum sínum til Englands, færandi þeirri þjóð björg í bú. Oft blikuðu tár í augum Guðlaugar og Ragnars þegar þau kvöddust og haldið var úr höfn, enginn vissi hvort þeir næðu heilir í höfn aftur, því að kafbátar og tundur- dufl voru um allan sjó, leitandi að skipum og mönnum til þess að granda. Margar voru því næturnar sem hin unga eiginkona vakti í óvissu og kvíða með dætrum sínum. En þá var beðið til Guðs, traustið sett á hann og bænin heyrð, þeir komu heilir að landi. Glaður var hugurinn og hlýtt þakklæti til Guðs, þegar Guðlaug og dæturn- ar fögnuðu heimkomu eigin- manns og föður, það var líkast því að jól væru ávallt þegar hann kom heim af sjónum. Guðlaug Helgadóttir var vin- sæl og góð kona og allir þeir er til hennar þekktu fundu það vel. Það var gott að mega leita til hennar, hún átti auðvelt með að ræða við fólk og gaf þá fólki af lífsreynslu sinni. Hún var mikil hannyrðakona, enda ber heimili þeirra hjóna vott um smekkvísi og listrænt yfir- bragð. Guðlaug hafði yndi af því að gefa öðrum af því sem hún hafði unnið sjálf í höndunum. Guðlaug vann við verslunar- störf í Reykjavík hjá ýmsum að- ilum um 30 ára skeið en lengst af hjá Áklæðum og gluggatjöldum. Hún var vel metin af öllum þeim störfum sem hún vann. Hún var heilsteypt og hreinskilin kona með hlýtt hjarta og vildi öllum hjálpa sem voru hjálpar þurfi. f vöggugjöf hafði Guðlaug fengið fagra söngrödd og næmt tóneyra, enda söng hún á sínum yngri árum í kór Fríkirkjusafn- aðarins í Reykjavík og hafði mikla gleði og ánægju af að syngja undir stjórn bræðranna Páls og Sigurðar ísólfssona sem hún bar mikla virðingu fyrir. Guðlaug og Ragnar höfðu komið sér upp fögrum unaðsreit í sumarbústaðalandi sínum við Sléttuhlíð skammt frá Hafnar- firði. Þau höfðu breytt grýtta hrauninu í fagran blómum skreyttan lund. Það er með ólík- indum hvernig þau breyttu þessu hrauni í blómlegt land. Þau lögðu á sig mikið erfiði til þess að svo mætti verða. Sú gleði og ánægja sem þau höfðu bæði af þessu erf- iði veitti þeim mikla lífsfyllingu. Gleði þeirra var augljós þegar gesti bar að garði og unaðsríkar voru þær stundir þegar setið var yfir kaffibollum og spjallað sam- an og skoðaður hinn fagri róður sem umlykur bústaðinn. Nú er Guðlaug horfin frá þessu jarðneska lífi og ekkert verður eins og áður, en við megum halda okkur við hina kristnu lífstrú, því að við vitum að látinn lifir. Ég veit að Ragnar bróðir minn hefir misst mikið við fráfall hinn- ar ágætu eiginkonu sinnar sem hann mat mikils og var honum mikil stoð í gegnum allt lífið, traustur vinur í baráttu lífsins. Söknuður hans og dætra þeirra er djúpur og sár, engin mannleg orð lækna þau sorgarsár, en minning- in um góða eiginkonu, móður og ömmu varpar birtu inn í myrkan huga sorgarinnar. Tvær dætur eignuðust þau Guðlaug og Ragnar. Eldri dóttir- in Jóhanna (Hanna) en hún býr í Kanada er gift Árna S. Jónssyni skipstjóra, börn þeirra eru Ragna Linda, Jón Björn og Ragnar. Yngri dóttirin Guðlaug giftist Ásgeiri B. Ellertssyni lækni, en þau slitu samvistum, börn þeirra eru Guðlaug Helga og tvíbura- dæturnar Steinunn og Ragnhild- ur. Um leið og við hjónin þökkum alla vináttu liðinna ára og allar hinar mörgu góðu samverustund- ir á heimili Guðlaugar og Ragn- ars og hvar sem við nutum sam- vista þeirra er efst í huga okkar er þakklæti fyrir allt. Við drúpum höfði í þökk og virðingu til hinnar látnu og biðj- um góðan Guð að blessa og styrkja eiginmann hennar og dæt- urnar ásamt öðrum ættingjum í söknuði þeirra. Útför Guðlaugar fer fram frá Bústaðakirkju föstudagin 19. fe- brúar kl. 13.30. Guðrún og Helgi Eliasson 8 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Föstudagur 19. febrúar 1988

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.