Þjóðviljinn - 08.05.1988, Blaðsíða 5

Þjóðviljinn - 08.05.1988, Blaðsíða 5
SUNNUDAGSPISTILL „Brennivínið gefur anda og snilli" Blaðað ítímaritshefti um vímuna og menninguna Hvers vegna drekka Finnar öðruvísi en Danir? Hvers vegna sýnist víman hafa öðru hlutverki að genga á íslandi en í Frakklandi? Hvers vegna tengdist svonefnd uppreisn æskunnar árið 1968 við mikla hrifningu af hassi? - hass átti að vera friðsamlegur og skaðlitill þriðjaheimsvímugjafi og fullkomin andstæða við hið freka, árásargjarna og heimsvaldasinnaða alkóhól Vesturlanda. Þetta eru fáeinar spurningar aí ótal mörgum sem vakna þegar menn skoða samhengi milli vímu- gjafanotkunar og menningar- ástands (og menning er þá haft nokkuð svo opið hugtak). Þeir hlutir voru á dagskrá hjá sex ung- um fræðimönnum sem sátu sam- an á skrafi undir fundarstjórn Gests Guðmundssonar í janúar í fyrra, og hafa síðan notað það sem þeim fór í milli til að fylla heilt hefti af tímaritinu Alko- holpolitik, sem fjallar um alkó- hólrannsóknir á Norðurlöndum. Að stytta sér leið Öll höfum við einhverjar hug- myndir um þessa hluti. Við vitum til dæmis að uppi hefur verið hér á íslandi lífseig trú á alkóhólið, sem gerir hinn feimna mælskan, rýfur einangrun hins kvenmanns- lausa, málar gráan hvunndags- leikann rauðan og bláan og leysir kannski úr herfjötrum skáldskap og aðra snilld. „Brennivínið gef- ur anda og snilli" segir í þekktu kvæði, að vísu þýddu, en okkur fannst endilega að þetta væri um okkur og okkar vinskap við Bakkus. Við vitum líka að heldur hefur þessi brennivínstrú verið á und- anhaldi, hún er altént ekki eins sjálfsögð og áður. Eitthvað hefur gerst. Það er eins og fleiri okkar átti sig fyrr á því, að sá sem skraf- ar stíft við Baccho, hann er eins og Fást sem gerir samning við Djöfulinn um að stytta sér leið til ásta, visku og afreka og lætur svo sál sína í staðinn. Nema hvað Djöfsi - hér Bakkus karl - hefur rangt við - hann „skaffar" ekki rétt, viskan snýst í rugl og afrekin í afglöp og gamanið er gleymt um leið ef nokkuð var og svo heimtar sá skratti sálina alla löngu fyrir dánardægur manna. Og er þá ekki ráð að segja upp slíkum samningi sem fyrst? Frelsi til að auglýsa finnskan bjór Tímaritsgreinarnar í Alko- holpolitik eru um afmörkuð svið og ástæðulaust að geta þeirra allra eða reyna að spyrða þær saman í víðfeðmar ályktanir. Hér skal aðeins getið um tvær þeirra og eru báðar finnskar - ástæðan er m.a. sú að Finnar hafa mikið skrifað um brennivínsmál og hafa svipaða drykkjusiði og við ís- lendingar, eða eins og þeir heita á sérfræðingafrönsku: „hið finnska drykkkjumynstur einkennist af tiltölulega hóflegri heildarneyslu og sterkri ölvunarhneigð". Með öðrum orðum: menn drekka ekki upp á dag hvern en þeim mun meira þá drukkið er. Christofíer Tigelstedt heitir höfundur greinar um bjórauglýs- ingar í finnsku sjónvarpi: það er mál sem snýr að okkur af mörg- um ástæðum. Það hefur verið bannað í Finnlandi eins og á ís- landi að auglýsa áfengi (það er náttúrlega gert samt sem áður, en þá með þeim laumulega hætti að áfengis er neytt í svotil öllum bíó- myndum og framhaldsþáttum „í jákvæðu félagslegu samhengi"). Það er bannað að auglýsa áfengi - en ekki bannað að auglýsa létt öl eins og það sem hingað til hefur verið leyft að selja og auglýsa á íslandi. En nú kemur babb í bát: það eru sömu fyrirtækin sem framleiða létt öl sem má auglýsa og framleiða sterkt öl - vöru- merkin eru þau sömu, flöskurnar svipaðar, liturinn og froðan nátt- úrlega eins - þar með skilja allir að auglýsingar á léttu öli (innan við 2,25 % að styrkleika) eru um leið laumuauglýsingar á sterku öli. Það er semsagt verið að aug- lýsa hið fagra og góða bjórlif. (Þetta eigum við eftir að upplifa allt saman). Þar með er farið að tala um tvöfeldni og hræsni í Finnlandi og niðurstaðan er nátt- úrlega sú, að farið er að þrýsta á með að leyfa að auglýsa allt áfengi, annað sé „forræðis- hyggja" (menn kannast við tón- inn) - svo þurfi líka að gefa inn- lendum brugghúsum betri tæki- færi til að spjara sig í samkeppni við erlenda framleiðendur sem auglýsa í alþjóðlegum tímaritum. Bjór er betri karlmaður Menn komast kannski ekki ýkja „hátt upp“ af léttum bjór. En vegna þess samhengis sem að ofan greinir þarf engan að undra þótt hinar leyfðu bjórauglýsingar stefni fyrst og síðast að því að kitla ímyndunaraflið með tilvís- ununum til vímuheimsins, þar sem undur gerast og stórmerki: hlutirnir eru aðrir en þeir eru. Christoffer Tigerstedt segir að aðalefni finnskra bjórauglýsinga sé í rauninni það, að í hverjum karli (bjórheimur er karla- heimur) búi eitthvað villt og tryllt, að ekki væri nú úr vegi að hann stigi yfir einhver þau tak- mörk sem hvunndagsleikinn set- urhonum. í bjórauglýsingum, segirTiger- stadt, koma fram þrjú öfl sem leiða hið villta fram í manninum, skora það á hólm með einum eða öðrum hætti: þau eru konan, aðr- ir karlar og náttúran. Konan er stundum eins og hliðstæða bjórs- ins: hvorttveggja er partur af því að lifa flott og með stfl. En stund- um er bjór eins og staðgengill konunnar: sért þú einmana getur þú alltaf kysst munn flöskunnar fríðu, hún er innan handar þótt konur vanti. Stríðsævintýrið er enn algengara þema í bjórauglý- singum: menn ríða galvaskir yfir kastalabrýr í auglýsingum um Karjalabjór: bardaginn leiðir hetjuskapinn úr læðingi og bjór- inn og víma hans einnegin. Enn- fremur er ölið tákn friðar og sátta milli manna að aflokinni glímu strangri: drekkum allir sáttaskál úr horni stóru. Og í þriðja lagi eru ævintýri í glímu við náttúruna mikið þema í þeirri viðleitni að gera bjór sem mest aðlaðandi: menn eru óralangt frá sfnum hvunndagsleika, þeir klífa fjöll af garpskap, róa niður flúðir á ein- trjánungi eða temja ólma hesta - og laun afrekanna er krús af öli. Og niðurstaðan er... Þetta er allt nokkuð skemmti- legt. En þá kemur að öðru: einatt finnst manni þegar fjallað er með „fræðimannlegum" hætti um ým- islegt af því sem menn hafa svo- sem daglega fyrir augum í samfé- laginu, að áður en lýkur eins og detti botninn úr rannsókninni. Það er bent á skemmtilegt sam- hengi, sem menn hafa kannski ekki tekið eftir, sjálfsagðir hlutir eru færðir í hátíðlegan búning sérfræðingamáls (og er niður- staðan stundum eins og óvart spaugleg), en hvað svo? Ekki gott að vita. Til dæmis lýkur þeirri grein sem hér var um fjall- að á nokkuð svo afstrakt vanga- veltum um það, hvort „skemmti- legar og blæbrigðaríkar bjór- auglýsingar" muni ekki fara for- görðum ef slakað verður á auglýsingabanni og leyft að aug- lýsa sterkt öl, vín og líkjöra. Strókur ó skallanum Annar Finni, Tommi Hoikk- ala, leggur út af frásögn götu- stráksins Simo af föstudegi. í Helsinki. Hann ætlar að skemmta sér. Hann kaupir sér fimmtán (sterka) bjóra. Hann finnur lítið á sér eftir tíu bjóra. Eftir fimmtán er eitthvað farið að hrærast í skallanum á honum, hann fer á járnbrautarstöðina og húkkar stelpu. Þegar þær þarfir eru afgreiddar langar hann í meira brennivín: hann sér auman alka með brennivínsflösku, lem- ur hann í klessu og stelur brenni- víninu. Síðan fer hann að hitta vini sína og blása út á fullu: áður en lýkur þjarma þeir nokkrir saman að einhverjum djöfuls pönkara blátt áfram vegna þess að þeir kunna ekki við apafésið á honum. Þessi „asfalthetja" (svo heitir greinin) er tólf ára að aldri. Höfundur greinarinnar tekur saman margan fróðleik um „götumenninguna sem samhengi hetjunnar", um leiksvið hennar og búninga og tungutak. Hann kemur hinni dapurlegu eftiröpun stráksins (sem Simo heitir) eftir fullorðnum ölkum fyrir í settlegri formúlu: „Simo gerir sýnilega sérstæða víxlverkan æskulýðs- menningarinnar og heims full- orðinna, þar sem unglingarnir taka til notkunar tjáningarmáta heims fullorðinna, prófa sig í full- orðinnahlutverkum og hæðast að þeim stimplum sem fullorðnir setja á unglinga - um leið og þeir hæðast að sjálfum sér með því að skilgreina sig með aðstoð sörnu heita og hinir fullorðnu skilgreina sig með“. Jamm.það held ég. Til hvers að rannsaka? Tommi Hoikkala fer samt undir lokin að velta því fyrir sér, til hvers þetta sé allt saman og lýkur máli sínu á heldur svona dapurlegum vangaveltum m.a. um fræðimennina, þá sem rann- saka ástandið, og hann skiptir í hetjur og aumingja. Hann segir á þessa leið: „Fræðimaðurinn-hetjan trúir ekki endilega lengur á félags- fræðilega skynsemi sem ríkjandi afl í samfélaginu. ( Guð sé oss næstur, gerðu menn það ein- hverntíma? -áb). En hann telur það samt enn hafa mikla intell- ektúel þýðingu að afhjúpa menn- ingarlega lykla og merkingar, en það þýðir að útvegun efniviðar er barasta tæknilegt vandamál" Þetta þýðir líklega að félagsfræði- legar rannsóknir muni fáu breyta, en kannski geti þær bætt einhverju við skilning þess sem við þær vinnur og þeirra sem nið- urstöður lesa, sem eru náttúrlega oftast sama fólkið. En svo er það „fræðimaðurinn- vesalingurinn". Um hann segir greinarhöfundur, að hann „festist í siðferðilegum vandamálum, rannsóknarstarfið dregst á langinn og ekki tekst að ljúka neinu vegna þess að fræði- maðurinn veit ekki sjálfur hvað hann eða hún eru að rannsaka og hvers vegna". Ekki er það nógu gott. Stund- um þegar verið er að brýna fyrir manni að það eigi að skoða hlut- ina betur og rannsaka þá og út- skýra, þá setur að manni vissan óhug við tilhugsun um stóra sali og endalausa ranghala, fyllta með skjölum og gögnum sem enginn veit hvað við á að gera. Og þá læðist að eyranu langt úr fortíðinni þessi setning hér. „Heimspekingarnir hafa til þessa fengist við að útskýra heiminn. Nú er það komið á dagskrá að breyta honum“. Menn kannast við þann sem svo mælti, hann hét Karl Marx. Og þessi orð virðast eiga alveg sérstaklega vel við þann vímuheim, sem þenst svo ört út nú um stundir og gleypir menn og borgir og lönd og ríkis- stjórnir eins og fara gerir. Sunnudagur 8. maí 1988 ÞJÓÐVILJINN — SÍÐA 5

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.