Þjóðviljinn - 09.07.1988, Blaðsíða 7

Þjóðviljinn - 09.07.1988, Blaðsíða 7
Haustið 1968 fluttist undirrit- aður frá Vopnafirði til Seyðis- fjarðar, þar sem hann gerðist sálusorgari staðarins. Veturlagð- ist snemma að þetta haust, rigndi í byggð en snjóaði á fjallvegum. Því varð ég að fá far með skipi þennan spöl milli fjarða í mitt nýja prestakall, og ég man glöggt hversu dimmur og dapurlegur himinninn yfir Seyðisfirði var þennan haustdag þegar skipið skreið inn á lygnan og djúpan fjörðinn. Hér þekkti ég fáa utan Stein skólastjóra Stefánsson, en hann var líka betri en enginn. Það er með ólíkindum hve haustregn getur daprað sálu manns, maður hefur á tilfinning- unni að aldrei muni stytta upp framar og öllu muni áður yfir lík- ur skola burt og til sjávar - ekkert muni eftir standa utan naktir klettar og sandurinn í fjörunni, og hvað á prestur að gera á slík- um stað? Nokkrum dögum eftir að ég kom til Seyðisfjarðar stóð ég yfir moldum heiðursmanns er þar var látinn og enn rigndi þindarlaust, það drundi í Bjólfinum þegar aurskriður spruttu fram eða steinkast hrærði við fjallinu. Úr gröfinni varð að dæla vatni svo kistan sykki til botns og er rekun- um hafði verið kastað upphófst þessi forni hetjuóður til lífsins sem geymdur er í Sálminum um blómið er hann sr. Hallgrímur í Saurbæ orti. Á þeirri stundu vissi ég að ýmislegt fleira en naktir klettar og sandur í fjöru mundi eftir standa á Seyðisfirði þegar upp stytti. Og Steinn Stefánsson gekk til mín og bauð mér heim með sér upp á kaffibolla og hress- ingu. Hann var skólameistari staðarins og organisti kirkjunnar, mikill ræktunarmaður og átti sér andlegan urtagarð sem ég vissi síðar að seint mundi verða jarð- vegslaus og ekkert haustregn fengi neinu lífvænlegu skolað burt úr þeim garði. Hann hafði óbifanlega trú á æskufólki því sem hann hafði verið að mennta allt sitt líf, þessum unga gróðri staðarins, og ekki bara æskufólki Seyðisfjarðar heldur íslensku æskufólki almennt. Hann bar djúpa virðingu fyrir menningar- arfi þjóðarinnar og trúði á hlut- verk hennar á komandi tímum í samfélagi þjóðanna. í garði Steins vaxa ótal tegundir frjórra hugmynda og draumsýna, það var gott að koma í þennan garð hans Steins frá kirkjugarðinum undir Bjólfi sem var að sökkva í táraflóði himinsins þennan dimma haustdag. Ég kenndi hjá Steini þennan vetur og kynntist honum sem skólastjóra og kennara. Hann átti virðingu allra jafnt kennara sem nemenda. Með heilindum sínum og fullkominni einlægni í öllu sínu starfi komst enginn hjá því að virða hann og ekki síður þykja vænt um hann. Djúpstæður áhugi hans fyrir hverju einasta barni skólans var honum jafn- eðlilegur og andardrátturinn í vit- um hans, þar var engin mæða eða sjálfsmeðaumkun í för og aldrei talað um þessa frægu starfsað- stöðu sem alltaf er jafnerfið nú á tímum og allt raunverulegt starf virðist kafna undir fargi hennar á svo mörgum sviðum. Steinn var ekki sífellt að leita uppi nýjustu tækni og vísindi í skólastarfi, ég á við það að hann hafði enga sérstaka trú á tækjum til kennslunnar, hans tæki var andinn, allt gaddgett annað mátti sigla sinn sjó, skolast burt í öllu heimsins haustregni fyrir honum. Og hann var svo heppinn að hafa sér við hlið frábæra kennara, en kannski var það ekki nein heppni eða tilviljun, menn eins og Steinn laða að sér góða samstarfsmenn, menn sem eru sama anda og þeir sjálfir. Veturnir sem ég kenndi hjá Steini verða mér minnisstæðir og það er gott að leiða í hugann þær liðnu stundir. Steinn var organisti við Seyðis- fjarðarkirkju löngu áður en mig bar þar að garði og hélt því starfi áfram meðan hann dvaldist þar eystra. Hér eins og í skólanum var hann heill og óskiptur. Eftir langan og strangan dag við kennslu og stjórnunarstörf við alla staðarins skóla (því hann var einnig með Iðnskólann auk barna- og gagnfræðaskólans á herðum sér) kom hann reifur og glaður að æfa kirkjukórinn og sýndi þar sömu virðingu verki sínu sem í skólastarfinu. Steinn er að náttúrufari tónmenntamaður, hefur tekið það í arf frá feðrunum eins og systkin hans, og hann hef- ur sent frá sér tónsmíðar sem munu minna á þennan sérstæða mann, Stein Stefánsson, löngu eftir að hann er allur. Hann er upprunninn í Austur-Skaftafellssýslu eins og svo margir aðrir snilldarmenn okkar fámennu þjóðar, af fólki kominn sem geymdi í genum sín- um marga snilligáfu, náfrændi Svavars Guðnasonar listmálara og Þórbergs Þórðarsonar rithöf- undar (svo aðeins tveir séu nefndir) en um forfeður Steins er hvergi betra að fræðast en í bókum Þórbergs af uppvexti sín- um í Suðursveit. Við Steinn höfðum verið kunn- ingjar um árabil áður en okkar raunverulegu kynni upphófust haustið 1968 á Seyðisfirði. Það gerðu sameiginleg hugðarmál og draumar beggja um samfélags- legt réttlæti og herlaust land. Og enn eigum við Steinn þessa gömlu drauma um landið og þjóðina, sömu óskir og vonir og þá, þrátt fyrir alla þessa dimmu haustdaga sem runnið hafa yfir óskir okkar og regnið dapra sem ætlar á stundum að sópa þeim öllum út á hafsauga. Þegar við kvöddumst eystra var það á kyrrum haustdegi uppi í Fjarðarheiðinni þar sem úðann leggur yfir veginn af Gufufossi í sunnan andvara. Og það var kominn fölvi í lyngið og himinn og jörð að draga úr pússi sínu dimmrauða liti haustsins og þennan fjarbláa lit himinsins sem aðeins er til á himnum. Og nú 18 árum síðar heilsa ég þér á ný, gamli vin, og óska þér til ham- ingju með daginn, til hamingju með þín gáfuðu og velgerðu börn, bæði þau sem þú áttir með þinni góðu konu Arnþrúði Ing- ólfsdóttur frá Vakursstöðum í Vopnafirði og hin öll sem þú lést þér jafnannt um í skólanum eystra. Guð blessi þér ævikvöld- ið, góði vin. Rögnvaldur Finnbogason Staðarstað Mig langar í tilefni áttræðis- afmælis Steins Stefánssonar, sem reyndar verður á morgun, að senda honum og fólki hans kveðju héðan að austan, undan bröttum hlíðum Bjólfs og Strand- artinds. í upphafi vil ég reyna að geta uppruna þessa sómamanns að svo miklu leyti sem ég til þekki. Steinn fæddist 11. júlí 1908, að Reynivöllum í þeirri einu og sönnu Suðursveit. Foreldrar hans voru hjónin Stefán Jónsson hreppstjóri og Kristín Eyjólfs- dóttir. Nafnið mun vera frá ein- um forföður hans sem nefndur var Steinn í Eskey, sem er og nafn Gamla-Steins sem þekkt er úr verkum meistara Þórbergs, frænda Steins. Að Kálfafelli flutt- ist fjölskyldan þá sveinninn var fjögurra vetra, þar sem bernsku- ár hans liðu. Innan við tvítugt yfirgaf hann heimaslóðir og hélt út í hinn stóra heim, til að búa sig frekar undir lífsstarfið. Hann hóf nám við Kennaraskólann, og lauk þaðan prófi 1931. Hingað til Seyðisfjarðar kom hann til starfa sama ár, og kenndi við barna- og unglingaskólann til ársins 1945, en það ár varð hann skólastjóri. Því erilsama starfi gegndi hann síðan í 30 ár. Árið 1937 leyfi ég mér að telja til tímamóta í lífi Steins, þegar hann gekk að eiga hina ágætustu konu, Arnþrúði Ingólfsdóttur Hrólfssonar frá Vakursstöðum í Vopnafirði, sem hér bjó. Það kann máske að hljóma nokkuð væmnislega þegar ég segi hér, að þá hafi hann stigið stærsta gæfu- spor, en það var sannarlega svo. Fremur vildi ég orða það svo, að þá hafi hann stokkið sitt lengsta lífsgæfustökk. Það vita allir sem þekktu hjónin Stein og Öddu. í Tungu hér á Seyðisfirði bjuggu þau nær allan sinn búskap, og eignuðust 5 börn, þau Heimi, Ið- unni, Kristínu, Ingólf og Stefán. Þau hlutu mikið barnalán. Á ann- an hátt kann ég ekki að lýsa því. í Tungu var lifað einstöku menn- ingarlífi. Öll fjölskyldan söng við orgelundirleik húsbóndans. Hygg ég að allar bókmenntir hafi þar verið í hávegum hafðar. Man ég það glöggt eitt sinn þegar ég kom við í Tungu, að yngsta barnið, Stefán sem þá var að mig minnir 5-6 ára, sat með Hávamál eða gríska goðafræði í höndum, en Steinn útskýrði efni verksins. Þar var faðirinn ekki að „troða“ í soninn, hann var að svara spurn- ingum hans. Á þennan hátt mót- uðust börnin fimm í Tungu, sem var einnig sannkallað söngfugla- hreiður. Enda hafa ungar þeir sem úr því flugu, flogið hátt og sungið þýtt, hver og einn á flugi sínu í lífinu: Heimir prestur, nú þjóðgarðsvörður á Þingvöllum, Iðunn rithöfundur og kennari, Kristín rithöfundur og kennari, Ingólfur kennari og Stefán lækn- ir. Árið 1964 réðust örlaganorn- irnar harkalega, ég vil segja aftan að Steini. Trúi ég að þær hafi far- ið mannavillt, því þetta átti Steinn ekki skilið. Þær hrifsuðu Öddu frá honum, sem þá var í blóma lífsins og hann sannarlega henni háður. Enda annaðist hún hann bæði af ástúð og umhyggju, næstum eins og barnið sitt. Eitt sinn lýsti Adda Steini sínum spaugilega á þá leið, að stundum þegar hann kæmi heim í mat, þá yrði hún að hreinsa roð og bein frá fiskinum, því annars æti hann þetta allt, þar sem hugur hans væri langt frá diskinum, ýmist við kennsluna, tónlist eða stjórnmál. Svo ég víki aftur að upphafi Steins á Seyðisfirði, þá kenndi hann hér hartnær í 45 ár. Hann þótti stundum dálítið strangur kennari. Það var þó að ég held aðeins álit þeirra sem reyndu að komast sem léttast frá kennsl- unni. Undirritaður var því miður of oft í þeim hópi. Athyglisvert er þó að flestir hinna böldnustu í skólanum urðu síðar þegar þeir áttuðu sig á kostum Steins, góðir vinir hans. Söngtímarnir í yngri bekkjum eru mér og öðrum þeim sem þeirra nutu ógleymanlegir. Hann hafði sérstakt lag á að hrífa nemendurna með sér á vængjum söngsins, jafnvel svo að „hrafn- ar“ og „gamlir símastaurar" sungu af hjartans list. Ég trúi jafnvel að Steinn muni enn þessa daga. Sjálfur dáist ég enn að eld- móði þeim sem hann geislaði frá sér við alla kennslu. Sérstaklega þó þegar móðurmálið var á dag- skrá. Stundum gerðist það þegar leið á kennslustund og Steinn bú- inn að fylla töfluna af skýringum um uppruna og skyldleika orða, að hann fann á sér að tíminn væri að renna út. Þá fylltist hann því- líkum krafti að hann bókstaflega stökk milli enda töflunnar til að nýta sem best þær fáu sekúndur sem eftir voru. Stundum gerðist það að hann bókstaflega gat ekki stansað, og „stal“ þá af okkur ör- litlum tíma af frímínútunum. Ekki var það vel séð af öllum, en þó voru þeir nægilega margir sem hrifust með Steini í kennslunni, að þetta var hægt. Frá þessum stundum eigum við sem þeirra nutu, góðar minningar. Teljum við okkur hafa fengið þar frábæra tilsögn og um leið nokkra ást á móðurmálinu, sem mér finnst nú því miður eiga nokkuð í vök að verjast fyrir árásum bæði utan- og innanfrá. Væri betur ef kennarar á borð við Stein væru fleiri, því móðurmálið er stærri hluti sjálf- stæðis okkar en margur gerir sér grein fyrir. Tel ég jafnvel nokkra íhaldssemi nauðsynlega í þessum efnum, svo ekki fari illa, eins og mér sýnist stundum stefna að. I störfum sínum hér á Seyðis- firði varð Steinn þeirrar gæfu njótandi að öðlast mikla lífsfyllingu. Bæði í „vinnu“ og tómstundastarfi. Satt að segja á ég erfitt með að skilja hvernig hann komst yfir allt það sem hann starfaði hér. Hann gat að vísu drýgt tímann með því að hugsa á meðan hann nærðist. Adda sá um að fiskibeinin sköðuðu hann ekki, eins og áður er að vikið. Tónlistarlíf bæjarins hvíldi á herðum Steins í áratugi. Hann var kirkjuorganisti, kórstjóri og tónskáld. Ég minnist hans einnig á „fjölunum" í þjónustu við Þal- íu. Ekki er hægt að skrifa afmælis- grein um Stein, án þess að minnst sé afskipta hans af stjórnmálum. Þar var hann sami eldhuginn og á öðrum sviðum. í bæjarstjórn sat hann sem aðalmaður 1942-1954, en varamaður 1938-1942 og 1958- 1962. Hann var og er mikill fél- agshyggjumaður og skrifaði ótal greinar í blöð og tímarit um þau mál, þar sem hann barðist ávallt fyrir málstað þeirra sem minna máttu sín, gegn þeim öflum sem dýrkuðu Mammon sem sinn guð. Steinn trúði á allt annan guð. Enda safnaði hann ekki auði sem mölur og ryð fá grandað. Auðug- ur er hann engu að síður. Satt að segja er það með ólík- indum hve mikið Steinn hefur komist yfir í lífi sínu. Hann er einn þeirra sem markað hafa djúp spor sem enn eru öllum sjáanleg, í menningar- og atvinnusögu Seyðisfjarðar. Þau spor hafa gert mannlífið hér betra. Meðal annars var Steinn fyrstur manna að bera fram þá tillögu í bæjarstjórn, stuttu eftir stríð, að byggja hraðfrystihús hér á Seyðisfirði. Það var gert, og hefur það síðan verið burðarás atvinnulífs og þá jafnframt byggðar hér á staðnum. Þá Lilju atvinnusögu Seyðisfjarðar, sem þar var kveðin, vildi margur kveðið hafa, og hafa reyndar eignað sér. Hún er samt engu að síður Steins. Sem ég sit hér og róta í því liðna, leitar svo ótal margt á hug- ann, að ógerlegt er að koma því öllu að í stuttri afmælisgrein. Skal því hér látið staðar numið. Ég sendi þér gamli góði fræðari, vin- ur og félagi, þakkir og kveðju frá Bjólfi og Strandartindi og þeim sem þar undir búa, með tilvitnun í gamla latneska máltækið Ubi bene ibi patria, sem ég vil út- leggja á minn hátt: Rætur slitna ekki. Jóhann Sveinbjörnsson Útboð Vesturlandsvegur í Mosfellsbæ 1988 f Vegagerð ríkisins óskar ettir tilboðum í ofangreint verk. Um er að rasða gerð tveggja hringtorga og undir- ganga fyrir fótgangandi umferð. Verki skal lokið 1. október 1988. Útboðsgögn verða afhent hjá Vegagerð ríkisins í Reykajvík (aðalgjaldkera) frá og með 12. júlí nk. Skila skal tilboðum á sama stað fyrir kl. 14.00 bann 25 júlí 1988. Vegamálastjóri Útboð - gatnagerð Hafnarfjarðarbær leitar tilboða í gerð gatna og lagna í Setbergi. Helstu magntölur eru: Uppúrtekt: 25.500 m3 Fylling: 29.700 m3 Holræsalögn D= 300 mm: 1030 Im Holræsalögn D= 450 mm: 365 Im Útboðsgögn eru afhent á skrifstofu bæjarverk- fræðings, Strandgötu 6 gegn 10.000.- kr. skila- tryggingu. Tilboð verða opnuð á sama stað þriðjudaginn 19. júlí kl. 11.00. Bæjarverkfræðingur Laugardagur 9. júlí 1988 ÞJÓÐVILJINN — SÍÐA 7

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.