Þjóðviljinn - 16.07.1988, Blaðsíða 5

Þjóðviljinn - 16.07.1988, Blaðsíða 5
i INNSÝN spilling, uppgjöf Þreföld afrekavika hjá samstjórn Sjálfstœðisflokks, Alþýðuflokks og Framsóknarflokks. Súrsun fjölmiðlagúrkna bíður betri tíma enþað er ekki víst að ríkisstjórn Þorsteins Pálssonar geri slíkt hið sama Það eru komnir hundadagar og hallar í verslunarmannahelgi, - samkvæmt almanakinu ætti að vera kominn sú árstíð á fjölmiðl- um sem kennd er við agúrkur, og á víst nafn að sækja til þess að þýskum bændum þykir ráð að fara að súrsa smágúrkur þegar sumarannir eru frá en veturinn ekki riðinn í hlað, - sumsé upp- haflega haft um haustið og mundi í íslenskri sveit samsvara tíman- um milli töðugjalda og rétta, - fyrir daga votheysins á bæjum án engjasláttu. En gúrkutíð er engin runnin upp í sumar, og þar er að þakka biessaðri ríkisstjórninni okkar. Vikan sem nú er að syngja út markast til dæmis af þrennskonar pólitískum stóratburðum sem hver um sig snýr fyrst og fremst að ráðherrunum í ráðuneytun- um, og hver þessara atburða fyrir sig er nægilegur til að fresta gúrkusúrsun. Háskóli gegn menntamálaráðherra Hinn fyrsti þessara atburða er auðvitað framhald Hannesar- málsins í Háskólanum: yfirlýsing háskólaráðs, blaðamannafundur dómnefndarinnar, „einvígi" há- skólarektors og menntamálaráð- herra á Stöð tvö. Viðbrögð háskólamanna hafa verið öll á einn veg, að fordæma menntamálaráðherra fyrir það einsdæmi í sögu íslenska lýðveld- isins að skipa í háskólastöðu mann sem eftir yfirlegu dómnefndar telst ekki hæfur til að gegna henni. Það er mjög ánægjulegt að sjá að í háskólan- um hafa menn ekki látið eigin pólitískar skoðanir villa sér sýn í þessu, - samstaðan þar hefur einnig verið einsdæmi. Enda er aðalatriðið augljóst: af þröngum flokkspólitískum ástæðum ryðst menntamálaráðherra einsog jarðýta yfir grundvallarkröfur akademíunnar um faglega hæfni, og gerir sjálfan sig þarmeð að við- undri sem yfirmaður háskólans. Það bjargar ekki menntamála- ráðherra þótt ýmislegt megi finna að vinnubrögðum og stöðu- veitingarreglum í skólanum, - ekki heldur þótt það hafi komist upp í leiðinni að rektor skólans var tilbúinn að versla með há- skólastöður til að bjarga háskól- anum, ráðherranum og umsækj- andanum úr klípunni. Pólitískt sjálfsmorð? Margt bendir til þess að með skipan Hannesar - beint ofaní Ölduselsmálið - hafi Birgir ís- leifur Gunnarsson framið pólit- ískt sjálfsmorð. Birgir ísleifur hefur raunar aldrei verið þéttur á hinum pólitíska velli. Hann komst til forystu í Flokknum með hefðbundnum hætti, - hætti silf- urskeiðarinnar: af rótgrónum íhaldsættum, nám í MR, lögfræði í HÍ, formaður Vöku og Stúdentaráðs, formaður Heimdallar og SUS, borgarfullt- rúi, borgarstjóri. Næst hefði átt að koma flokksformaður og for- sætisráðherra, ef hann hefði ekki lent í því - næstum óvart - að tapa borginni og lenda í nokkurra ára útskúfun. Birgir naut þess við að komast úr útskúfuninni að flokkurinn var þverklofinn og í basli. Birgir hafði ekki haft neinn sérstakan pólitískan prófíl frammað þessu nema helst prófíl kamelljónsins, - margir segja til dæmis að borg- arstjórn hans hafi á ýmsan hátt verið sósíaldemókratísk í nor- rænum stíl, vegna framsóknar róttækra hugmynda á áttunda áratugnum og vegna þrýstings frá andstöðunni í borgarstjórn. Við upprisu sína eftir áfallið ‘78 sá hann hinsvegar þann kost vænst- an að tengjast sem best boðber- um nýfrjálshyggjunnar í flokkn- um þannig að sú rísandi alda bæri Birgi líka. Þetta tókst, Birgir varð einn af herforingjum Þorsteins Pálssonar og hlaut úr hans hendi ráðherrastól sem hann hefði sennilega aldrei fengið með gamla laginu þegar þingflokkur- inn kaus. Þessa liðveislu er Birgir ísleifur nú að launa, - en hvílíku verði! Með því að lýsa yfir styrjöld við Háskólann, brjóta gegn grund- vallarreglum hans og vanvirða sjálfstæði hans er Birgir ísleifur nefnilega að styggja frá flokknum einn af traustustu fylgishópun- um. Einmitt stjórnmálafræðingar í félagsvísindadeild fundu það út í rannsóknum kringum síðustu kosningar að 41 prósent háskóla- menntaðra hefði kosið Sjálf- stæðisflokkinn (sem fékk 27% allra kjósenda), - og í þessum menntunarhópi var flóttinn sýni- lega minnstur yfir til Borgaranna, aðeins um 2 prósent háskóla- menntaðra fylgdi Júlíusi Sólnes yfrum. Það er einsog mennta- málaráðherra vilji sérstaklega ögra þessum fylgjendum flokks síns. Trúnaðarbrestur Fyrsta niðurstaða: Birgir er bú- inn að vera. Flokkurinn hefur ekki efni á að missa þetta fyigi og gerir Birgi að sökudólgnum, - hann fær að hanga sem menntamálaráðherra við illan leik meðan stjómin situr, en svo er allt búið. Þetta sést best á því að enginn þungaviktarmaður í Sjálfstæðisflokknum hefur kom- ið Birgi til aðstoðar í málinu, og Moggi þegir afar þunnu hljóði. Önnur niðurstaða: Jafnvel pól- itísk aftaka Birgis ísleifs dugir ekki til. Lektorsmálið hefur vald- ið meiriháttar trúnaðarbresti milli forystu Sjálfstæðisflokksins og háskólamenntaðra fylgis- manna, að ekki sé minnst á þá mynd sem aðrir þjóðfélagsþegn- ar hafa af málinu. Þetta er ósköp einfaldlega spilling í sinni nötur- legustu mynd, og Sjálfstæðis- flokknum á eftir að reynast erfitt að bæta fyrir það heimskulega strandhögg á sjálfstæðar háskóla- lendur sem Birgi ísleifi var þrýst til að ráðast í. Þriðja niðurstaða: Sinn hluta af ábyrgð í þessu máli bera þeir flokkar - Framsókn og kratar - sem hafa stutt Sjálfstæðismenn til valda í menntamálaráðuneytinu í fimm ár. Á síðasta áratug vom það einmitt nýfrjálshyggjumenn á borð við Hannes Hólmstein sem heimtuðu af Sjálfstæðis- flokknum að hann krækti í menntamálaráðuneytið til að nota það sem verkfæri í hug- myndafræðilegri baráttu. Þetta gerðist með þeim afleiðingum sem menn sjá til dæmis á Ríkisút- varpinu, í Lánasjóði náms- manna, uppí Ölduselsskóla - og nú í félagsvísindadeild háskólans. Valur í bankann Pólitísk stórtíðindi voru það líka, - þótt vitað væri fyrir -, að Valur Arnþórsson var ráðinn bankastjóri Landsbankans sam- kvæmt sérstöku samkomulagi stjórnarflokkanna, og gegn sér- stökum mótmælum starfsmanna bankans. Það efast enginn um hæfni Vals, þótt mörgum þyki skrítið að ráða til bankans yfir- mann jafn nákominn einu allra stærsta viðskiptafyrirtækinu. Landsmenn efast hinsvegar um rétt kerfisflokkanna þriggja til að deila á milli sín bankastjóra- stöðunum í ríkisbönkunum eins- og bankarnir séu persónuleg eign flokksformannanna. Flestir sjá að auðvitað á ríkis- stjórn og þarmeð stjórnmála- flokkar að hafa áhrif á megin- stefnu ríkisbankanna og peninga- pólitík þeirra í stærstu dráttum. Það er hinsvegar óþolandi að í æðstu stöðum skuli sitja menn sem ekki verða hafnir yfir grun um flokkspólitíska fyrirgreiðslu og vinargreiða í frímúrarastíl. Þeir sem eiga ísland Það bjargar engu þótt fleiri stjórnmálasamtök fengju aðild að þessari stöðusamtryggingar- klíku, - Alþýðubandalagið fengi „sinn“ banícastjóra í Útvegs- bankann, Kvennalistinn sinn í Búnaðarbankann... Svarið við spillingunni sem seinast birtist í ráðningu kaupfélagsstjórans í Framsóknarsætið er víðtæk stjórnkerfisbreyting þarsem skilið er á milli faglegs vettvangs og pólitísks einsog gerlegt er, - og þarsem tryggð eru umskipti í valdamiklum pólitískum stöðum eftir því sem vindur blæs. Það er svo einna athyglisverð- ast við Valsmálið og Sverrismálið að ef stjómin lifir nógu lengi fylg- ir Kjartansmálið í kjölfarið. Al- þýðuflokkurinn sem fóstraði Vil- mund Gylfason og sameinaðist í orði kveðnu samtökum hans í fyrravor hefur tekið fullan þátt í þessu frímúraríi samtryggingar, helmingaskipta og spillingar gömlu kerfisflokkanna, - hann fær í bankastjóramenúettinum endumýjaða fulla formlega aðild sína að fámennisklúbbnum sem á ísland. Jón, ó Jón Þriðji pólitíski stóratburðurinn í vikunni var síðan birting þjóð- hagsspár. I spánni var hver síða merk, - en menn vissu áður að viðskipta- hallinn var gríðarlegur og verð- bólgan miklum mun meiri en ráð- herrarnir höfðu sjálfir talað um. Það kom á óvart hversu iítt hinir þjóðhögu tóku undir kvein for- sætisráðherrans um vond ytri skilyrði. Samkvæmt Þjóðhagss- pánni eru þau dágóð: aflaverð- mæti eykst, viðskiptakjör standa nánast í stað, efnahagsþróun er hagstæð í grannlöndunum. Þann- ig að það sem er að hérna er vegna þess að eitthvað er að hérna og ekki annarstaðar. Stórtíðindi spárinnar voru hinsvegar þau að ríkisbúskapur- inn sjálfur er í hassi. Einn af kjarnaþáttunum í stefnu stjórnarinnar var að ná ríkissjóði hallalausum, - og það var sérstakt baráttumál fjármála- ■ráðherrans. Ríkissjóður halla- laus er slagorðið sem átti að rétt- læta matarskattinn fræga og aðr- ar skattaálögur, í nafni hallalauss ríkissjóðs voru sett bráðabirgða- lög um að banna kjarabaráttu, til að rétta ríkissjóð við er búið að innheimta 4,4 milljörðum króna meira í skatt en jafnvel fjárlög gerðu ráð fyrir. Og nú stendur keisari hins hallalausa ríkissjóðs uppi í ekki neinu, - og það er soldið hlálegt að fræðingar þjóðhagsstofnunar skuli taka að sér hlutverk litla barnsins úr ævintýrinu. Kannski það þurfi að fá þangað einhvern Hannesinn? Verðbólga, skattar, vextir með... „Kláravín, feiti og mergur með“ var boðskaður Alþýðuflokksins fyrir þingkosn- ingarnar síðustu: Jónarnir áttu að redda málunum, í stað úreltra sósíaldemókrata voru komnir klárir teknókratar, sérlærðir til að verða forsætisráðherrar og fjármálastjórar í samfélagi þar- sem allir yrðu glaðir ef í stólana kæmust þeir sem kynnu réttu fiff- in. Staðreyndin eftir eitt ár kemur best fram í þjóðhagsspánni: Upp- gjöf. Hallinn eftir fyrstu fimm mánuðina eru 3,7 miljarðar, 1,3 miljörðum meira en í fyrra þegar Jón Baldvin gekk framfyrir skjöldu við að gagnrýna halla- ráðherrann Þorstein Pálsson. Þessi halli veldur verulegri verðbólgu vegna þess að honum er mætt með yfirdrætti í Seðla- bankanum sem þýðir innistæðu- lausa seðlaprentun og eftirspurn- arspennu í hagkerfinu. Á sama hátt á hallinn á ríkissjóði mikinn þátt í því að vextirnir halda áfram að hækka þráttfyrir að allir séu í orði kveðnu sammála um að þeir eigi að lækka. Viðskiptahallinn, sem að hluta má rekja til ríkis- sjóðshallans, heldur áfram að aukast, og erlendar skuldir eru á leiðinni yfir 100 milljarða mark- ið. Samsæri? Fjármálaráðherrann brást við hart. Hann reyndi að læða putt- unum í plaggið frá Þjóðhags- stofnun áður en það komst fyrir almannasjónir, en forsætisráð- herrann hélt hlífiskildi yfir hinum þjóðhögu í þetta skiptið og þeir fengu að koma sínu fram. Það vakti reyndar athygli blaða- manna að aldrei hafa jafnmargir séríræðingar Þjóðhagsstofnunar komið á blaðamannafund til að kynna spána sína, og þótti engu líkara en staðinn væri vörður gegn árásarliði úr Arnarhváln- um. Fór nú örvæntingin að grípa fjármálaráðherrann sem dúndr- aði út til fjölmiðla þeirri leiðrétt- ingu við yfirlit hinna þjóðhögu að í það vantaði þau afrek sem ráðherrann hugðist vinna síðar á árinu en hefur enn ekki komið í verk. Þetta komst alla leið á for- síðuna á Alþýðublaðinu og það með að Þórður Friðjónsson og fé- lagar hefðu í frammi rangfærslur að yfirlögðu ráði. Sumsé: Samsæri gegn Jóni Baldvini. Tvöfalt gjaldþrot Þjóðhagsspáin nýja er auðvit- að fyrst og fremst til vitnis um tvöfalt gjaldþrot Jóns Baldvins sem fjármálaráðherra. í fyrsta lagi það peningalega gjaldþrot sem stefna hans í ríkisfjármálum er að leiða okkur til, og í öðru lagi hin pólitíska sjóðþurrð sem hall- atölurnar hafa sett ráðherrann í. Enda sýnir Alþýðuflokkurinn og forysta hans innan stjórnar og utan alvarleg þreytumerki, merki um slíkan lífsleiða að dauðinn og djöfullinn óskast taki við öllu saman, - að minnsta kosti ís- Iensku krónunni. Það má síðan spyrja af hverju Þorsteini Pálssyni er alltíeinu orðið svona annt um sjálfstæði og óhæði Þjóðhagsstofnunar eftir að hafa sjálfur staðið í því fyrir skömmu að fresta birtingu þjóð- hagsspár og ritskoða hana. Svarið er tiltölulega einfalt. Þorsteinn var fjármálaráðherra í síðustu stjórn og bar sem slíkur ábyrgð á voldugum hallarekstri hjá ríkissjóði. Fyrir þetta var hann mjög gagnrýndur, meðal annars af formanni Alþýðuflokksins, og er nú ekkert á móti skapi að landslýður sjái að Jóni Baldvini tekst engu betur upp. Það gerir svo útslagið hjá Þorsteini að það er afar erfitt fyrir Alþýðuflokkinn og Jón Baldvin að vera með derring eftir svona skýrslu um afrek fjármálaráð- herrans. Þorsteinn stendur eftir nýju þjóðhagsspána miklu betur að vígi gagnvart krötum ef alltíeinu kæmi til'kosninga, - og spáin tryggir líka að kratar verða enn síður spenntir fyrir að hitta kjós- endur en áður. Þessvegna kallar Jón Baldvin nýju spána samsæri. Það er rangt hjá Jóni að á ferð séu rangfærslur, - en rétt hjá honum að allt er þetta gert að yfirlögðu ráði. Gúrkan og stjórnin Ríkisstjórnin sér fjölmiðlum og almenningi þannig stöðugt fyrir glóðvolgum fréttum af spill- ingu, óstjórn og uppgjöf, þannig að súrsun gúrkna bíður betri tíma. Það er hinsvegar ekki víst að ríkisstjómin bíði betri tíma, þótt hún verði smámsaman súrari og súrari. Plaggið frá Þjóðhags- stofnun kynni að reynast fyrs^ta versið í útfararsálminum. Mörður Árnason Laugardag 16. júlí 1988 ÞJÓÐVILJINN — SÍÐA 5

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.