Þjóðviljinn - 28.07.1988, Blaðsíða 6

Þjóðviljinn - 28.07.1988, Blaðsíða 6
þJÓÐVIUINN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Jafnrétti til þroska Dálítið hefur dregið úr andúð íhaldsmanna á dagvistar- stofnunum fyrir börn. Langir biðlistar eru þó til vitnis um að ekki er litið á byggingu og rekstur barnaheimila sem forgangsverkefni. Og ýmiss konar þrætur um barnaheim- ili munu enn vera furðanlega algengar í sveitarstjórnum vítt og breitt um landið. Skortur á plássi á barnaheimilum er sums staðar svo mikill að ekki þýðir að sækja um fyrir þau börn sem ekki tilheyra svokölluðum forgangshópum. Þá er alveg til- gangslaust að sækja um dagheimilisvist fyrir barn ef foreldrar þess búa saman og eru hvorki sjúklingar né námsmenn. Langur vinnutími foreldra eykur mjög þörfina fyrir barn- aheimili. Það þarf engar rannsóknir til að segja íslensku þjóðinni að það er að verða regla að báðir foreldrar séu á bólakafi í vinnu. Fólk þekkir þetta af eigin raun. Þeir eru líklega fáir sem ekki þekkja dæmi þess að foreldrar eigi í basli með að finna samastað fyrir börn sín meðan þeir eru að afla hins daglega brauðs. Taxtakaup hjá stórum hluta launamanna byggist á það ævintýralega lágum tölum að þeir, sem þurfa að verðleggja vinnu sína samkvæmt því, hljóta að vera stöðugt á höttunum eftir meiri yfirvinnu. Því mæti halda að áætlanir um fjölgun barnaheimila væru ofarlega á blaði, en því miður er þar mikill misbrest- ur á. Borið er við peningaleysi. Umræðan um barna- heimilisskortinn kemst sjaldan eða aldrei upp úr eymdar- dal blankheitanna, þar vantar þann hressandi og frjóvg- andi blæ sem einkennir tal um nýjar ráðhúsbyggingar eða svifgarða í veitingastofum sem snarsnúast um sjálfar sig, hvað þá að náð sé því frelsi undan oki peninganna sem veitist ráðamönnum þegar ræða þeirra víkur að hraðbrautum og öðrum umferðarmannvirkjum. Aukið framboð af barnaheimilisplássum getur að sjálf- sögðu ekki komið í staðinn fyrir eðlilegan vinnutíma, en það getur gert langan vinnudag foreldra bærilegri fyrir börnin. Fyrirskömmu birtist í Þjóðviljanum viðtal við Gyðu Sigvaldadótturfóstru en hún hefur um 40 ára skeið unnið með börnum. Hún bendir á að mikil vinna foreldra geti komið niður á uppeldi barna. Barnaheimili geti auðvitað aldrei svarað þörf barna fyrir öryggiskennd og tilfinninga- leg tengsl en þau geti aðstoðað fjölskylduna og gert henni betur kleift að sinna uppeldishlutverki sínu. Gyða Sigvaldadóttir bendir á að barnaheimili geti gegnt mikilvægu hlutverki við að jafna aðstöðumun barna þannig að þau standi jafnar að vígi en ella þegar þau komast á skólaaldur. Hér er að sjálfsögðu ekki átt við að reynt sé að draga öll börn niður í þá lágkúru meðal- mennskunar sem íhaldsmönnum verður stundum tíðrætt um og virðast álíta að sé tæki félagshyggjumanna til að gera alla eins. Hér er verið að tala um að fjölga mögu- leikum barna til að taka út þroska. Mannlegur fjölbreyti- leiki er það mikill að þjóðfélagið mun ávallt samanstanda af mjög mismunandi einstaklingum þótt ekki sé svo um hnútana búið að sumum börnum gefist færri tækifæri til þroska en vera þyrfti. Það fer ekki milli mála að foreldrar, sem neyðast til að vinna myrkranna á milli, hafa að loknum vinnudegi oft litla orku til að veita þá örvun sem nauðsynleg er þroskaferli barnsins. En þeir, sem hafa meira en nóg að bíta og brenna, geta einfaldlega skammtað sér tíma til að sinna börnum sínum. Barnaheimili, sem er rekið á þann veg að í leik og starfi er markvisst reynt að örva börnin bæði til huga og handar, slíkt barnaheimili getur komið öllum til nokkurs þroska. ÓP ivjLirr i wvjr ðjvwmn Hí á framleiðendur Kapítalisminn hefur verið að breytast mikið á undanförnum árum. Engu líkara reyndar en virðulegustu höfðingjar hans, iðjuhöldarnir svonefndu, séu fyrir bí, rétt eins og barúnar og greifar lénsveldisins. Þeirra í stað koma útsmognir og galvaskir uppar sem hafa vit á því að koma hvergi nálægt framleiðslu af neinu tagi en raka saman fé og áhrifum með því að versla með peninga. Mörgum gömlum og góðum íhaldsmanni blöskrar þessi þróun sem vonlegt er. Klippari sá fyrir nokkru raunatölur í virðulegu bresku íhaldsblaði, sem furðaði sig á því og hneykslaðist um leið, að uppar í City, sem pranga með verðbréf, hefðu tífalt meiri tekjur en þeir sem veljast til þess skelfi- lega hlutverks að stjórna fram- leiðslu. Þeirra er mátturinn og dýrðin, meðan hver sá sem fram- leiðir bfla eða kjöt eða skyrtur má draga þann djöful, að enginn spyrji eftir hans vamingi, að allir markaðir séu yfirfullir og að aðrir hafi þegar gert miklu betur. Verðbréfa- spekúlantar, hin nýja stétt Þessi umræða er að sjálfsögðu komin til íslands eftir að sú bylt- ing varð á peningamarkaði sem öðru hverju er verið að lofa í Reykjavíkurbréfum Morgun- blaðsins. En það lof er nokkrum ugg blandið stundum, því sú bylt- ing líkist að því leyti ýmsum þeim byltingum sem áður voru gerðar í sögunni, að hún étur börnin sín, eða kannski öllu heldur foreldra sína. Um þetta fjallar Ragnar Tómasson fasteignasali í grein í Morgunblaðinu í gær sem heitir „Af bláeygum bjartsýnis- mönnum“. Og segir hann einmitt frá því hvemig aðstæður á pen- ingamarkaði reka menn á flótta frá þeim atvinnurekstri sem hefð- ir eru fyrir á fslandi, vegna þess margvíslegs vaxta- og lífsháska sem honum fylgir, og yfir í spegl- asjónir með verðbréf. Ragnar nær sér stundum í anga af spá- mannlegri reiði í þessum lestri sínum eins og í þessari klausu hér: „Meðal okkar er risin upp ný stétt, verðbréfaspekúlantar. Þar er lífið ekki saltfiskur, heldur verðbréf. Þar er lífssýnin afföll og vextir, skattfrjáls arður, tvöföld- un á raungildi höfuðstóls á 5 ára fresti. Lífsgleðin er þar mæld með lánskjaravísitölu. Hamingj- an felst í vaxandi höfuðstól. Hefðbundin uppbygging at- vinnulífs telst hégóminn einn.“ Þetta er merkileg lesning. Það er eins og í henni eimi eftir af fomri kristinni kenningu sem bannar að taka rentu af dauðu fé en lítur með nokkurri velþóknun til þess athafnamanns sem hjálp- ar almættinu til að gera táradal mannlífsins byggilegan með því að reisa hús og sá í aukur Miklar eignatilfærslur Manni kemur það líka í hug um leið, að furðu lítið er um það rætt í þjóðfélaginu hvað gerist þegar framleiðslufyrirtækin tapa eins og þau leggja sig, eða svo gott sem, en þeir sem hafa forðað sér inn í verðbréfahallir tvöfalda höfuðstól sinn á fimm árum með skattfrjálsum hætti, eins og Ragnar Tómasson talar um. Hann víkur reyndar að þessu sjálfur með nokkmm orðum: „Nú er svo komið að íslenskir verðbréfasjóðir eiga nánast hundmð fyrirtækja með húð og hári. Þar koma til bæði kaupleigusamningar vegna tækj- akosts fyrirtækjanna og fast- eignatryggð skuldabréf seld sjóð- unum til að afla rekstrarfjár. Þá er nú farið að kárna gamanið og eins gott að fyrirtækin fari ekki öll á hausinn, Hvað verður þá um ávöxtunina?" Já, hvað skyldi verða um hana? Kenningar og veruleiki Þessi spurning leiðir hugann að þeim boðskap, sem oft hefur heyrst, að það eigi að efla sparn- að (með hávaxtastefnu) sem síð- an muni skila sér til framfara góðra með því að þeir sem pen- inga eiga muni fjárfesta í fýrir- tækjum. En þetta gengur barasta ekki eftir. Þið munið hvernig fór fyrir Reaganhagfræðunum í Bandaríkjunum? Ein helsta for- sendan sem sú stjórnsýsla gaf sér var einmitt þessi: Léttum sköttum af þeim sem betur mega sín, og þeir munu fjárfesta meira í fyrirtækjum, sem síðan munu skila okkur meira í sameiginlegan sjóð þegar upp er staðið en áður. Þetta þótti fagur sálmur í hægri- byggðum - en einhvernveginn gufaði hann upp í heimssinfóní- unni. Þeir ríku fengu að greiða lægri skatta - en við það hljóp ekki líf í annan atvinnurekstur en þann sem tengist mjög dýrri lúx- usneyslu: skemmtisnekkjur, við- hafnarbflar, rekstur lítilla íburð- arhótela og þar fram eftir götum. Þeir sem stússa í félagsfræðum hafa sankað að sér mörgum fróð- leik að undanförnu um tóm- stundavenjur og vinnutíma og sjónvarpsnotkun og sveiflur á kjörfylgi flokka í landinu. Mikið væri gaman ef einhverjir þeirra reyndu að skoða hinn merkilega feril peninganna frá lífshættu- legum atvinnurekstri og til hinna grunnmúruðu virkja verðbréf- amarkaðarins og efldu með sér dirfsku til að spá í það hvað gerist svo „ef öll fyrirtækin fara á haus- inn“. Úr nógu efni er að moða: Var ekki birt í Morgunblaðinu eindálka frétt á laugardaginn þar sem segir: „Gjaldþrotin eru kom- in langt yfir eðlileg takmörk“. Og megum við spyrja í leiðinni: Hver er mælistikan á það hve mörg gjaldþrot megi vera til að „eðlilegt“ teljist? ÁB Þjóðviljinn Síðumúla 6 * 108 Reykjavík Sími 681333 Kvöldsími 681348 Utgefandi: Útgáfufélag Þjóðviljans. Rltstjórar: Árni Bergmann, Mörður Árnason, Óttar Proppé. Frótta8tjóri: Lúðvík Geirsson. Blaðamenn: Guðmundur Rúnar Heiðarsson, Hjörleifur Sveinbjörnsson, Kristófer Svavarsson, MagnfríðurJúlíusdóttir, Magnús H. Gíslason, Lilja Gunnarsdóttir, Ólafur Gíslason, Ragnar Karlsson, Sigurður Á. Friðþjófsson, Stefán Stefánsson (íþr.), Sævar Guðbjörnsson, Tómas Tómasson, Þorfinnur Ómarsson (íþr.). Handrita- og prófarkalestur: Elías Mar, Hildur Finnsdóttir. Ljósmyndarar: EinarÓlason, Sigurður MarHalldórsson. Útlitsteiknarar: Kristján Kristjánsson, KristbergurÓ. Pétursson Framkvæmdastjór I: Hallur Páll Jónsson. Skrlf8tofustjórl: Jóhanna Leópoldsdóttir. Skrifstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pétursdóttir. Auglýslnga8tjóri: Olga Clausen. Auglýsingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur Agústsdóttir, Sigurrós Kristinsdóttir. Sfmavarsia: Sigríður Kristjánsdóttir, ÞorgerðurSigurðardóttir. Bílatjórl: Jóna Sigurdórsdóttir. Utbrelðslu-og afgreiðslustjórl: Bjöm Ingi Rafnsson. Afgrelðsla: Halla Pálsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir. Innheimtumonn: Katrín Bárðardóttir, ÓlafurBjömsson. Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, símar. 681333 & 681663. Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setnlng: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasölu: 70 kr. Helgarblöð: 80 kr. Áskrlftarverð á mánuði: 800 kr. 6 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Fimmtudagur 28. júlí 1988

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.