Þjóðviljinn - 11.08.1988, Blaðsíða 8

Þjóðviljinn - 11.08.1988, Blaðsíða 8
MENNING Frillulífi og valdatafl ,Ósigur Oddaverja" eftir Jón Thór Haraldsson íslenskir sagnfræðingar hafa löngum notið þeirra sérstöku forréttinda að geta lært málfar og stíl í þeim besta sagnfræðiskóla sem völ er á, en það er lestur Sturlunga sögu: þar hafa þeir get- að numið hvasst og kjarnyrt orðalag og einnig þá fjarlægingu frá söguefninu og yfirburði gagnvart því sem teprulaus stíll og beinskeyttur veitir mönnum. Þetta kunnu sagnfræðingar áður fyrr að notfæra sér, en á síðari tímum hefur þessi lærdómur ekki átt jafnvel upp á pallborðið hjá öllum. Ýmislegt bendir nú til þess að þetta sé aftur að breytast og lesendur fari jafnvel almennt að sökkva sér niður í Sturlungu og er það vel. Vera má að útgáfa sú sem for- lagið Svart á hvítu hefur nýlega látið frá sér fara eigi hér nokkurn hlut að máli, en hún er a.m.k. verðugt tákn fyrir þennan nýja Sturlunguáhuga. Menn gætu einnig túlkað sem samskonar tákn rit Jóns Thórs Haraldssonar um „Ósigur Oddaverja", sem kom út fyrir skömmu á vegum Sagnfræðistofnunar Háskóla ís- lands, en þar er reynt að útskýra einn þátt hinnar dramatísku at- burðakeðju Sturlungaaldarinn- ar: algeran ósigur hinnar voldugu höfðingjaættar Oddaverja fyrir nágrönnum þeirra Haukdæium. Ritið er þó reyndar eldra, því eins og tekið er fram í formála var það upphaflega samið sem prófrit- gerð við Óslóarháskóla fyrir ein- um sex árum og þá á norsku. En eins og málin hafa þróast verður ekki annað sagt en að verk Jóns Thórs hitti nú vel í lið, það er gagnleg viðbót við þau rit sem til eru um Sturlungaöldina, og er rétt að taka fram sérstaklega, að þar koma að einu leyti fram þau áhrif sem maður vildi gjarnan að Sturlunga hefði á sagnfræðinga nútímans: verkið er mjög vel skrifað, á kjarnyrtu og tæpit- ungulausu máli. En hér er ekki aðeins um stíl að ræða, heldur er málið í samræmi við efnismeð- ferð höfundar, og er ekki úr vegi að líta betur á það. í verki sínu rekur Jón Thór í höfuðdráttum þá atburði sem leiddu til ósigurs Oddaverja fyrir Haukdælum, jafnframt gaum- gæfir hann skýringar eldri fræði- manna (og reyndar yngri líka) á þessum atburðum og hafnar þeim með öllu, og að lokum setur hann fram sína eigin skýringu. Hingað til hafa fræðimenn jafnan reynt að skýra hnignun og síðan ósigur Oddaverja með því sem þeir hafa talið vera lyndis- einkunnir ættarinnar, og var þessi kenning reyndar nánast því viðurkennd sannindi um langt skeið: hafi Oddaverjar yfirleitt verið siðfágaðir og dálítið kven- samir bókabéusar, sem byggðu á gömlum menningararfi sínum, og því hafi þeir ekki getað att kappi við harðsnúnari höfðingja sem sóttu fram og voru í meira sam- ræmi við tímann. Með því að skoða heimildir grannt sýnir Jón Thór fram á það að þessi „skýring" er alveg úr lausu lofti gripin: ekkert bendir til þess að Oddaverjar (eftir daga Sæmund- ar fróða) hafi verið svo miklu meiri bóka- og fræðimenn en ýmsir aðrir höfðingjar, og „friilu- lífi" þeirra var naumast meira en tíðkaðist á öðrum höfuðbólum, - og jafnvel þótt svo hefði verið, væri engin ástæða til að nota það sem skýringu á hnignun þeirra. Dæmi ítölsku endurreisnarfurst- anna sýnir svo ekki þarf fleiri vitna við, að menn geta verið bóksamir kvennabéusar og þó staðið sig með prýði í véla- brögðum heimsins. Viðhorf Jóns Thórs er heilsu- samlegt á margan hátt. Það ber alloft við í sagnfræði að menn endurtaka hver eftir öðrum alls kyns staðhæfingar, sem síðan er litið á sem öruggar staðreyndir, án þess að athugað sé hvort þær hvíli á einhverjum traustum heimildagrundvelli eða hvort ekki séu á bak við þær einhverjar forsendur, sem fallnar séu úr gildi. Því er ekki að neita að það hlýtur að koma mönnum heldur andkannalega fyrir sjónir nú á dögum þegar talað er um að höfðingjaættir hafi „úrkynjast" eða það hafi „dregið afl úr ætt- stofni höfðingja" að hann „átti börn með ýmsum konum og flest- um ókunnrarættar", eins og ýms- ir fyrri fræðimenn áttu til að gera (sbr. „Ósigur Oddaverja", bls. 35). Slíkar skýringar þóttu góð lenska fyrir mörgum áratugum, en virka nú á menn sem hreinir fordómar. Til þess að hreinsa burtu slíkai staðhæfingar er ekki til nema ein leið, og hún er sú að spyrja stöðugt: hvað er á bak við orðin og hvað benda heimildir til að hafi raunverulega gerst? Það þarf sem sé að nálgast menn og málefni fortíðarinnar eins beint og fordómalaust og heimildir frekast leyfa, og til að höndla þennan veruleika á ferskan hátt þarf einmitt sem skýrastan og beinskeyttastan stfl, eins og þann sem ýmsir Sturlunguhöfundanna höfðu á valdi sínu. Skýring sú sem Jón Thór setur fram um hnignun og ósigur Oddaverja, eftir að hafa vísað fyrri skýringum á bug, er í því fólgin, að valdagrundvöllur þeirra - sveitirnar sem þeir réðu beint yfir - svo og svigrúm þeirra til útfærslu veldisins hafi verið minni en sá valdagrundvöllur sem Haukdælir áttu völ á. Odda- verjar hafi sem sé orðið að láta í minni pokann af „geopólitísk- um" ástæðum, svo notað sé orða- lag höfundar: þeir hafi ekki haft bolmagn til að etja kappi við „alla Árnesinga". Skýringar af þessu tagi hafa nú löngum þótt mun „vísindalegri" en þær sem byggj- ast á einhverjum „lyndiseinkunn- um", sem er hvað sem öðru líður harla erfitt að festa hendur á. Höfundur færir líka allmörg rök fyrir þessari kenningu, og notar hana til að sýna deilur Sturlunga- aldarinnar í nýju ljósi. Samt er sitthvað við hana að athuga. Voru ekki allar aðstæður of „fljótandi" og óljósar á íslandi á þessum tíma til þess að unnt sé að tefla „öllum Arnesingum" á móti Rangæingum eins og um tvær þjóðir hafi verið að ræða, og beita „geopólitískum" skýring- um? Héruðin voru nátengd og höfðingjaættirnar líka og banda- lög og mægðir sem klókir menn komu á gátu breytt mjög miklu. Jón Thór kemur líka með nokkuð óvænta viðbót við kenningu sína, sem virkar eins og dálítil vofa í kerfinu: „Vitundin um þetta (að Haukdælir höfðu á bak við sig valdsvæði sem var stærra og þétt- býlla) ætti þá að hafa valdið nag- andi öryggisleysi með Sæmundi Jónssyni og hinum yngri Odda- verjum. Þetta þykir mér greini- lega mega lesa út úr Sturlunga sögu. Haukdælir aftur á móti, einkum Þorvaldur Gizurarson og Gizurr Þorvaldsson, koma lan- goftast fram með aðdáanlegri ró ogfestu" (bls. 53). Milliytri raun- veruleika - valdsvæðanna - og at- burðanna sjálfra og úrslita þeirra er sem sé kominn viðbótarliður, sem er tilfinningar og viðbrögð persónanna (en því má ekki rugla saman við einhverja „lyndis- einkunn"), og enginn getur hald- ið því fram að þetta standi í beinu sambandi við „vitundina" um stærð valdsvæða. Þótt peð Odda- verja væru færri hefði því maður sem var minna þjakaður af þessu „nagandi öryggisleysi" kannske getað beitt þeim á annan hátt í valdatafli Sturlungaaldarinnar. Skýring Jóns Thórs er því góð og gild, en hún virðist samt tak- mörkuð. e.m.j. Vopnbúnir miðaldamenn. Úr Jónsbók. 8 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Miðvikudagur 3. ágúst 1988

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.