Þjóðviljinn - 25.10.1988, Blaðsíða 6

Þjóðviljinn - 25.10.1988, Blaðsíða 6
þJÓÐVIUIHN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Furður í borgarstjóm Níu Sjálfstæðismenn samþykktu á borgarstjórnarfundi í síðustu viku að lækka verulega styrk frá borginni til barna- heimila sem rekin eru af foreldrum og öðru framkvæmda- fólki utan opinbera kerfisins. Þessi samþykkt borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins snertir foreldra barna á heimilunum Ósi og Sælukoti til dæmis þannig að nú blasir við þeim að borga 24 þúsund fyrir barn á mánuði í stað 16 þúsund áður. Með ákvörðun sinni eru Sjálfstæðismennirnir í borgar- stjórn Reykjavíkur raunar ekki aðeins að gera foreldrum barna á tveimur heimilum eða þremur slæman óleik. Þeir eru líka að skella hurðum á eina af þeim leiðum sem halda þarf opnum til að nálgast einhverskonar lausn á hallærinu í dagvistarmálum. Aðstandendur á þeim barnaheimilum sem hér um ræðir helst hafa miðað við að kostnaður foreldra yrði ekki meiri en hjá dagmæðrum, - sumsé um sextán þúsund. Ákvörðun Sjálfstæðismannanna kippir nú undan því fótun- um að foreldrar í vandræðum geti hugað að sjálfstæðum rekstrarkosti frammyfir dagmæðrakerfið, og er raunar verð- ugt verkefni fyrir nýju hugmyndafræðinefndina í Sjálfstæðis- flokknum að átta sig á hinu röklega samhengi þessarar flokksstefnu. Heimatökin eru hæg, formaður hugmynda- fræðinefndarinnar er einmitt Davíð Oddsson, leiðtogi Sjálf- stæðismannanna í borgarstjórninni. Þetta er satt að segja stórfurðuleg ráðstöfun. Árlegur sparnaður við breytingarnar sem samþykktar voru í dagvist- armálunum mun vera um miljón krónur. Það er nánast ekki neitt á mælikvarða borgarinnar - til dæmis aðeins um einn fimmhundruðasti af kostnaðinum við skopparakringluna -, og þessvegna ekki furðulegt þótt borgarbúar spyrji hvort stjórn dagvistar í borginni fari eftir persónulegri heift ein- hverskonar í garð aðstandenda þeirra barnaheimila sem fyrir verða, eða hvort Sjálfstæðisfulltrúarnir níu þjáist af einhverri hingaðtil ókunnri tegund mannfjandsamlegrar geðsóttar. Þegar litið er á frásagnir af því sem sagt var og gert á borgarstjórnarfundinum á fimmtudagskvöldið kemur í Ijós að sennilega er það ekki mannvonska eða barnhatur sem ræður gerðum Sjálfstæðismannanna og borgarstjórans í málinu, heldur miklu frekar þekkingarleysi og þröngsýni. Þar sagöi Anna K. Jónsdóttir, sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur sett til að stjórna dagvistarmálum fyrir borgarbúa, til dæmis frá því að niðurskurðurinn á rekstrarstyrkjunum væri liður í að beina börnum á leikskóla þarsem þau væru aðeins rúman hálfan daginn í stað heilsdagsvistunar. Anna K. Jónsdóttir og félagar hennar úr Sjálfstæðis- flokknum telja einnig að með því að skera niður styrk til heilsdagsheimila sé verið að stemma stigu við vinnuþrælk- un ungra foreldra, bæta samskipti foreldra og barna og stuðla að fyllra og ástúðlegra heimilislífi á Reykjavíkursvæð- inu. Það eru sumsé fagrar hugsjónir sem ráða aðförinni að börnum og foreldrum á Ósi, Sælukoti og víðar. Anna K. Jónsdóttir virðist sumsé ekki haldin mannvonsku á mjög háu stigi, og full ástæða til að óska henni og félögum hennar til hamingju með það. Gallinn við Önnu K. Jónsdóttur og flokksfélaga hennar í borgarstjórn Reykjavíkur er hinsvegar sá að veruleiki þeirra er annar en meginþorra íbúa í borginni. Veruleiki Önnu K. Jónsdóttur er greinilega ekki sá sami og þeirra foreldra sem tugþúsundum saman vilja eiga kost á góðu og traustu dag- heimilisrými allan daginn, bæði vegna nauðsynlegrar at- vinnu og til að firra börn sín flandri og þeytingi. Veruleiki Önnu K. Jónsdóttur og félaga hennar er veru- leiki forréttinda og ríkidæmis, veruleiki yfirstéttarklíkunnar. Þetta lið skilur einfaldlega ekki hvernig daglegt líf er í landinu, og þessvegna heldur Anna K. og kó að það sé snjallt ráð til að bæta samskipti foreldra og barna að loka bara dagheimilunum. Þessi skilningur á högum fólksins í borginni minnir eigin- lega helst á söguna frægu af drottningunni Maríu Antonettu þegar hún horfði fyrir tvö hundruð árum tæpum á þegna sína biðja um brauð og spurði afhverju aumingjans mennirnir fengju sér ekki kökur. _m ivijir x x wvj oivuiviir Samræmdur hugsunarháttur Þjóðfélög eru náttúrlega hvert öðru ólík. En hvort sem okkur líkar betur eða verr, þá stækkar jafnt og þétt sá samnefnari sem stundum er kallaður „alheims- þorpið". Þetta á ekki síst við í pólitík. Menn hafa fjasað tölvert um það í sambandi við kosningaslag í Bandaríkjunum nú, að forseta- efnin forðast sem mest þau mega að tala um leiðindamál eins og gífurlegan halla á fjárlögum. Greinarhöfundur í Time sagði að þetta væri ósköp eðlilegt: Repú- blikanar vildu ekki hækka skatta og Demókratar vildu ekki draga úr útgjöldum ríkisins. Og kjós- endur væru á sama máli og báðir aðilar. Þetta er að breyttu breytanda ósköp íslensk staða mála - eða þá dönsk eða frönsk. Dæmið gengur náttúrlega ekki upp - og því fara menn að tala um eitthvað annað. Sá sem ætlar að taka á málunum - hann verður áreiðanlega brennd- ur. Áhrifamáttur auglýsinga Áhrifamáttur auglýsinga teygir margar rætur niður í samfélagið og greinast þær vítt og breitt. Ein slík rót nærist á þeirri hugmynd manna að þeir eigi gott skilið eftir unna þraut. Þess vegna sýna margar auglýsingar vinnugarp nokkurn sem hefur plægt stóran akur eða ausið upp mörgum tonnum með vélskóflu. Hann strýkur hörðum höndum yfir sveitt enni sitt og fær sér sígarettu með hreinum svip hinnar góðu samvisku, því skrifað stendur: Nú á hann skilið að fá Camel. Aðrar auglýsingar eru eins- konar hermigaldur. Kvikmynd- astjörnur nota Lúxsápu og því skalt þú kaupa hana til að líkjast þeim - í anda ef ekki sannleika. I rauninni er sú aðferð að tengja fræg nöfn við það sem selja þarf ein sú útsmognasta og öruggasta sem til er. Þess vegna kemur eng- um mjög á óvart frétt í Morgun- blaðinu á dögunum þar sem þetta hér kemur fram: Nancy í lánsflíkum „Bandaríska vikuritið Time segir frá því í þessari viku að Nancy Reagan, eiginkona Ron- alds Reagans Bandaríkjaforseta, hafi brotið loforð sitt frá árinu 1982 um að hætta að fá lánuð dýr föt og skartgripi hjá þekktum tískuhönnuðum... Fyrir sex árum hét Nancy Re- agan því að hætta að þiggja dýrar tískuvörur að láni eftir að sú venja hennar komst í hámæli og olli pólitísku hneyksli.Time vitn- ar í David Hayes, tískuhönnuð í Los Angeles, sem segist hafa lán- að Nancy milli 60 og 80 kjóla und- anfarin átta ár og hafi það haft mjög góð áhrif á söluna hjá hon- um. Starfsmenn hjá tískufyrir- tæki James Galamos hafa svipaða sögu að segja.“ Frú Reagan skilaði svo þessum lánsfötum sjaldnast, en það er önnur saga. Það sem skiptir máli í því dæmi sem nú var nefnt er bar- asta þetta: salan óx að miklum mun um leið og húsfreyjan í Hvíta húsinu lét sjá sig í flíkum tiltekins fyrirtækis. Og það gerist vegna þess, að menn draga ekki ótilneyddir dám af sínum sessun- aut - helst vilja þeir (og þær) draga dám af höfðingjum. Hvað höfðingjarnir hafast að... Viltu gefa mér einn gráfeldinn? Allt er þetta löngu vitað og væri ekki upp rifjað hér, ef ekki væri hægt að sýna fram á það með skýru dæmi, að íslenskir menn hafi ótrúlega snemma áttað sig á mætti auglýsinganna, og þá ein- mitt þess auglýsingagaldurs sem í nafni er fólginn. Dæmið er að finna í Heimskringlu Snorra Sturlusonar og fer sú saga hér á eftir: „Haraldur konungur sat oftast á Hörðalandi og Rogalandi og svo þeir fleiri bræður. Þeir sátu oftliga í Harðangri. Það var á einu sumri að hafskip kom af ís- landi er áttu íslenskir menn. Það var hlaðið af vararfeldum og héldu þeir skipinu til Harðan- gurs, því að þeir spurðu að þar var fjölmenni mest fyrir. En er menn komu til kaupa við þá, þá vildi engi kaupa vararfeldina. Þá fer stýrimaður á fund Haralds konungs, því að honum var hann áður málkunnugur, og segir hon- um til þessa vandræða. Konung- ur segir, að hann muni koma til þeirra og gerir hann svo. Harald- ur konungur var maður lítillátur og gleðimaður mikill. Hann leit á vaming þeirra og mælti við stýri- mann. Viltu gefa mér einn grá- feldinn? Gjarna, segir stýrimað- ur, þótt fleiri sé. Þá tók konungur einn feldinn og skikkti. Síðan gekk hann ofan í skútuna. En áður þeir röru á brot, hafði hver hans manna feld keyptan. Fám dögum síðar kom þar svo margt manna, þeirra er hver vildi feld kaupa, að eigi fengu hálfir þeir er hafa vildu. Síðan var hann kallað- ur Haraldur gráfeldur.“ Víða má fá efni í þjóðarstolt, ef menn kæra sig um. Armenskur blaðamaður sagði eitt sinn í þjóðajöfnuði við rússneska starfsbræður sína, sem ekki nenntu að hlusta á það hve merkilega sögu land hans ætti: Já - og við áttum lækna á þeim tíma þegar þið áttuð ekki einu sinni sjúklinga. Við gætum okkur til huggunar í hvalaraunum og öðru viðskiptafári sagt við þá í Amer- íkunni: við kunnum markaðs- setningu jafnvel áður en við fund- um þetta land ykkar, sem aldrei skyldi verið hafa. Eða þannig. -ÁB Þjóðviljinn Síðumúla 6 • 108 Reykjavík Sími 681333 Kvöldsími 681348 Útgefandi: Útgáfufélag Þjóðviljans. Ritstjórar: Árni Bergmann, Mörður Árnason, Óttar Proppé. Fróttastjóri: Lúðvík Geirsson. Blaðamenn: Dagur Þorleifsson, Guðmundur Rúnar Heiðarsson, Heimir Már Pétursson, Hjörleifur Sveinbjörnsson, Kristófer Svavarsson, Magnús H. Gíslason, LiliaGunnarsdóttir, Olafur Gíslason, Páll Hannesson. Sigurður A. Friðþjófsson, Sævar Guðbjörnsson, Þorfinnur Omarsson (íþr.). Handrita-og prófarkalestur: ElíasMar, HildurFinnsdóttir. Ljósmyndarar: Einar Ólason, Jim Smart. Útlitsteiknarar: Kristján Kristjánsson, KristbergurO.Pétursson Framkvæmdast jóri: Hallur Páll Jónsson. Skrifstofustjóri: Jóhanna Leópoldsdóttir. Skrifstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pétursdóttir. Auglýsingast jóri: Olga Clausen. Auglysingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur Ágústsdóttir, Sigurrós Kristinsdóttir. Símavarsla: Sigríður Kristjánsdóttir, ÞorgerðurSigurðardóttir. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Húsmóðir: Anna Benediktsdóttir Útbreiðslu-og afgreiðslustjóri: Björn Ingi Rafnsson. Afgreiðsla: Halla Pálsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir. Innheimtumaður: Katrín Bárðardóttir. Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, símar: 681333 & 681663. Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasolu: 70 kr. Nýtt helgarblað: 100 kr. Áskriftarverð á mánuði: 800 kr. .6 SÍÐA — ÞJÓÐVILJINN Þriðjudagur 25. október 1988

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.