Þjóðviljinn - 25.10.1988, Blaðsíða 7

Þjóðviljinn - 25.10.1988, Blaðsíða 7
VIÐHORF Það er greinilegt, að stjórnar- skiptin nýlega hafa komið heldur betur við peningahjarta þeirra er við kjötkatlana sitja og það svo að margir þeirra fá nú málið á ný eftir að hafa þagað í þaula, enda þokkalegt um að litast á eigin bæjarhlaði í öllu góðærinu. Nú er það einlægust ósk mín til hinnar nýju ríkisstjórnar, að henni takist að koma rækilega og rösklega við þetta peningahjarta og krenki sem allra mest að auð- söfnun þess lýðs, sem mest hefur makað krókinn á umliðnum árum. Já, menn hafa fengið málið á ný og jafnvel vinnuveitendur og ginnheilagt verzlunarráðið eru farin að fjargviðrast út í vexti og fjármagnskostnað, sem þeir voru nánast búnir að gleyma að væri til. Ef mig misminnir ekki því meira, voru húskarlar á þessum hokurbýlum með þá kenningu kvölds og morguns og um miðjan dag, að hið alltumlykjandi „frelsi" ætti að láta gróðakynd- ilinn loga glatt og lýsa mönnum - les: auðmönnum - fram til betri og bjartari tíðar. Nú heyrist mér heldur betur hafa orðið umskipti og kvartanir og kveinstafir ymja nú í eyrum okkar frá þessum allslausa ölm- usulýð um vextina - alltof háa og fjármagnskostnaðinn færandi allt í kaf. Ja, öðru vísi mér áður brá hjá þeim blessuðum meðan íhaldsyl- urinn úr stjórnarráðinu streymdi um gullæðar gæðinganna. Nú „svífur að haustið og svalviðrið gnýr“ um sálir þeirra sem áður töldu sig útvalda. Þegar svo er komið er von að menn fari að barma sér og bera sig illa - mannlegt er það en ekki stórmannlegt, enda vart við að búast úr þessari átt. Já, „hvar er í heimi hæli tryggt?" þegar svo er komið að því er jafnvel af alvöru- lausum illþýðum hótað harðlega að ganga skuli af gæsinni góðu dauðri sem gulleggjum hefur ótæpilega verpt að undanförnu. Já, það eru meiri blessuð bágind- in sem borið hafa að svo ótrúlega snöggt. Og ekki gerir það myndina gæfulegri, þegar höfuðpostular einkarekstrar og hatursmenn ríkisafskiptanna illu ganga bón- leiðir til búðar hjá rauðleitum ráðherrum sem ekki vilja láta þá hafa svo sem nokkur hundruð miljónir af almannafé til eigin nota og Marokkómannanna þeirra. Að ekki sé nú talað um ábyrgðir þessa sama illa ríkis, „Að verma sitt hræ við annaira eld“ Helgi Seljan skrifar „Og ekki gerir það myndina gœfulegri, þegar höfuðpostular einkarekstrar og hatursmenn ríkisafskiptanna illu ganga bónleiðir til búðar hjá rauðleitum ráðherrum sem ekki vilja láta þá hafa svo sem nokkur hundruð miljónir af almannafé til eigin nota og Marokkómannanna þeirra. “ sem voru svo sem ekkert til að tala um, enda í miljörðum, en ekki fengust í þetta frábæra verk- efni og arðbæra inn í framtíðina. Eins og þarna var talað um topp- inn á ísjakanum þá er von að menn spyrji: Fyrst þessir ráða- menn vilja ekki treysta toppinn, hvað verður þá um undirstöðu- na? Svona mætti áfram halda enda- laust og ég sé mér til mikillar ánægju að fjölmiðlagleði er aftur orðin aðaleinkenni þessa aðals ís- lensku þjóðarinnar, sem í einu orði sagt lifir og hrærist í „bisn- iss“, og verður ekki lengra náð í fórnfýsi og atorku að ógleymdri ráðdeildinni. Á meðan Þorsteinn ríkti og réð talaði hann og túlkaði viðhorf og innstu hjartans mál þeirra allra og engu þurfti við að bæta. En löng og ljót er krumla kommanna og ekkert er henni heilagt eins og þeir best vita sem mikið eiga undir sér. Og allir vita hversu leiðitöm Framsókn getur orðið við ólukkans kommana, enda með gæðastimpil skoðana- leysisins á sér. Sömuleiðis er lítil von um kratana á meðan Halldór Blöndal hefur ekki fengið kær- komið tækifæri til að berja þá til hlýðni og íhaldsauðsveipni. Það er því von að uggur og órói ríki í sálartötrum þeirra, sem baksað hafa í aurasveita síns and- litis við að bjarga þjóðarbúinu með bisnissnum sínum og virðast nú fá vanþakklæti eitt að launum. Fésmálaráðherrann nýi (löggilt starfsheiti skráð af íhaldinu) hristi gullinn makkann og vildi fá meira í ríkishítina römmu (sem ekki má lengur reka sem Thor- valdsenfélag eða Hjálpræðisher fyrir fátæka pilsfaldakapítalista) og reyndist luma á alls kyns belli- brögðum og brjálkenndum hug- myndum um það að einhverjir hefðu náð að sanka að sér ein- hverju umfram allra brýnustu nauðþurftir. Þessu atorku- og ráðdeildarfólki vildi fóli þessi refsa - talaði um einhvern áður óþekktan fjármagnsgróða, sem hvorki Þorsteinn né bjargræðisn- efndin hans höfðu nokkurn tím- ann haft af nokkurn pata og áttu þó að vera kunnugir á bestu bæ- jum. Auðvitað voru þetta einber hugarfóstur illra manna, þeirra sem spakmælið góða segir að alltaf og ævinlega sjái „auð í ann- ars garði.“ Nú voru góð ráð dýr og hinn gullslegni guð þeirra Mammon ákaft ákallaður um úrlausn í sárri neyð. En þetta allt leiddi til þess að hinir grandvörustu bisnissmenn fóru að hugsa. Hvar skyldi nú féð að finna, sem fólar vilja til sín taka? Ekki höfðu þeir orðið þess varir og þá kom uppljómunin, uppgötvuð á hinum eðlu kontór- um ávöxtunarfyrirtækjanna, sem alltaf eru önnum kafin við að gera þá fátæku ríkari og öfugt. Sparifé gamla fólksins átti það auðvitað að vera, sem á yrði nú ráðist og ruplað og rænt meðan nokkur eyrir stæði þar uppi. Að sjálfsögðu var það ráðdeild og sparnaður hinna öldruðu, sem átti nú að fara að refsa fyrir með harðri ríkiskrumlu kommanna. Og það var blásið í lúðra og menn tóku gleði sína á ný og bjuggust til varnar mætum mál- stað: Aldrei skyldi það að Ólafur Ragnar og allt hans hyski hefði á því minnstu möguleika að stela sfðasta eyri ekkjunnar, enda marga hægt að múgsefja, svo ekki yrði nú farið að grufla út í það að einhvers staðar annars staðar kynni að vera fé að finna. Og fjölmiðlarnir fengu sína fylli og fundað var í hvelli og dregin upp hin dökka mynd al- ræðishyggjunnar, sem öllu vildi yfir gína og alveg sér í lagi því litla sem erfiðisfólk hafði önglað sam- an í gegnum annasama lífstíð. Það var að vísu svolítið sér- kennilegt að sjá einn „ávöxtunar“-bróðurinn fara fyrir liðinu, en hann var þá bara bless- aður á eigin vegum og máske guðs til bjargar og hjálpar á hættustund og miljarðafyrir- tækið, sem hann stóð fyrir, var utan og ofan við þetta allt saman og það var nú göfugt og gott. Það væri að æra óstöðugan að ætla að halda áfram í sama dúr og hér hefur verið gert og mörgum kann að þykja alvöruleysið mikið, en ég hreinlega veit ekki hvernig á í raun að taka þeim ásköpum, sem yfir hafa dunið. Auðvitað er römm alvara á bak við allt þetta. Auðvitað rís alltaf upp ótti þeirra sem græða á annarra erf- iði, þegar íhaldið, verndari þeirra og vörður, er ekki í brúnni. Auðvitað vita þeir ofurvel að ekki verða með veikum meiri- hluta - ósamstæðum um margt - ekki síst um þetta - gerð nein þau býsn sem sköpum skipta. En þó kynni að vera að þeir misstu spón úr aski sínum og þá er ekki amalegt að geta skýlt illa fengnum auði sínum bak við aldr- aða fólkið í landinu og fá það til að trúa þeirri firru í leiðinni, að það sé verið að tala um það og þess sparnað, þegar rætt er um fjármagnsgróðann, góðæris- gróða undangenginna ára. Og vissulega hafa margir aldnir orðið órólegir og afætulýðurinn glottir við kalt. Máske tekst moldviðrið svo að ekki verði við þeim hreyft. Því hver hefur í al- vöru heyrt einhvern lýsa því yfir eða ýja að því að til standi að skattleggja almennar sparifjár- innistæður fólks - eðlilegar upp- hæðir sem raunveruleg ráðdeild hefur myndað? Ég spyr enn. Hver hefur ýjað að þessu, hvað þá lagt það til? Það er hins vegar upplagt fyrir „gróðapungana“ (Matthías Bjamason á nafngiftina) að reyna að beita öldmðum spari- fjáreigendum fyrir sinn eigin hagsmunavagn og komast þannig með auðveldum hætti hjá því að greiða til samfélagsins það sem þeir ætla öðrum að gera. Umræðuna á að færa niður á það stig rangfærslna og út- úrsnúninga að stjórnvöld hiki við og haldi að sér höndum. Ég ætla að vona, og það gera margir, að ekki verði slíkt uppi á teningnum og féð verði virkilega sótt til þeirra sem sannarlega eiga slíka gnótt að út úr flóir. Ég veit líka að þá kemur það glögglega fram, að venjulegt launafólk þarf ekkert að óttast um sparifé sitt. En það er von, að þeir sem með ránshendi hafa farið um arðinn af annarra striti æpi hátt um rán ríkiskrumlunnar. En grannt skoðað gerir fólk sér það ljóst að ríkið það erum við sjálf og þar er að yfirgnæfandi hluta fjármagni varið til þarfra og brýnna verka í allra þágu, ekki síst þeirra sem lakast eiga. Þótt meðferð fjármuna mætti þar eflaust oft vera betri og mark- vissari breytir það ekki þeirri höfuðnauðsyn sem á því er að unnt sé að standa vel að heilbrigðismálum, tryggingamál- um, menntunar- og uppeldismál- um, málefnum fatlaðra og aldr- aðra og búa á hverju sviði svo í haginn sem bezt hentar sem flest- um. Til þess þarf fé og það fé þarf og á að sækja til þeirra sem nú æpa hæst með aldraðra velferð og hag að yfirskini af því að þeir vita vel upp á sig skömmina. Þeim má einfaldlega ekki verða kápan úr því klæðinu að „verma sitt hræ við annarra eld“. Helgi Seljan, fyrrverandl alþingis- maður, er nú félagsmálafulltrúi Ór- yrkjabandalags fslands. Bætt við greinaskrif Mig langar til að bæta ofurlitlu atriði við grein mína „Mistökin á Landspítalanum“ sem birtist í Þjóðviljanum 8. október. Við höfum orð landlæknis fyrir því að það sem olli ungbörnum varanlegu heilsutjóni voru þau „mistök" að fara ekki að settum reglum við meðferð þurrmjólk- ur. Hvað varðar hugsanlega ábyrgð í slíkum tilvikum, þegar ef til vill er ekki unnt að benda á tiltekna einstaklinga er ekki virtu reglur, vil ég vitna í Lög um heilbrigðisþjónustu nr. 59/1983. Þar segir í IV kafla Um sjúkra- hús, grein 29.2.: Á svæðis- og deildarsjúkrahúsum skulu vera yfirlæknar sérdeilda, sem bera ábyrgð á lækningum, sem þar fara fram. Yfirlæknir hefur eftir- lit með starfsemi deildarinnar og skal stuðla að því að hún sé ávallt sem hagkvæmust og markviss- ust.“ (Leturbreytingar mínar.) Samkvæmt þessu ber yfir- læknir einfaldlega ábyrgð á Sigurður Þór Guðjónsson skrifar „Ég trúiþví að lögséu tilþess að virða þau og þeir verði látnir gjaldaþess sem brjótaþau. Annars vœri betra að hafa engin lög. Þetta vona ég að landsmenn hugleiði, ekki sístþeir embœttismenn sem lœsireru. “ „lækningum“ sem á deild hans valda örkumlum sjúklinga. Þá liggur það einnig í augum uppi, að „mistök“ sem skaða sjúklinga vegna agaleysis við að fylgja regl- um bera ekki vott um fullnægjandi „eftirlit" sem geri starfsemi deildarinnar „hag- kvæma og markvissa“. Þar af leiðandi verður varla annað séð en hinir sorglegu atburðir á sæng- urkvennadeild Landspítalans sýni beinlínis brot á 29.2. grein heilbrigðislaganna - yfirlækni- rinn ekki sinni eftirlitsskyldu að gagni. Og mig langar til að halda að enn þyki lögbrot ekki svo sjálf- sögð hér á landi að menn séu sammála um að láta sem ekkert sé ef mikilvægir hagsmunir eru í húfi. Nu má enginn skilja skrif mín þannig að ég heimti hörku og þungar refsingar. Þvert á móti vil ég mildi, skilning og „endurhæf- ingu“ í afbrotamálum yfirleitt. En mér finnst fyrir neðan allar hellur ef voldugar forréttinda- stéttir eiga að vera hafnar yfir lög og rétt. Eg trúi því að lög séu til þess að virða þau og þeir verði látnir gjalda þess sem brjóta þau. Annars væri betra að hafa engin lög. Þetta vona ég að landsmenn hugleiði, ekki síst þeir embættis- menn sem læsir eru. Þess vegna vil ég í óumræðilegri einfeldni og auðmýkt stinga upp á því að ræki- leg opinber rannsókn fari fram á þessum atburðum á Landspítal- anum. Ég vek loks athygli á úrfeilingu er varð í grein minni „Lögguhas- ar“ um helgina. Þar vantar fyrstu málsgreinina í upphafi samtalsins við Þröst Eyvinds. Það á að byrja svona: „Mig langar til að leggja fram kæru á Strætisvagna Reykjavíkur fyrir ónæði og trufl- un af völdum útvarpstækja. -Huh. Það getur nú ekki verið að það valdi neinu ónæði. Það er ekki svo mörg desíbel.“ O.s.frv. Sigurður Þór Guðjónsson Þriðjudagur 25. október 1988 ÞJÓÐVIUINN — SÍOA 7

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.