Þjóðviljinn - 04.11.1988, Blaðsíða 2

Þjóðviljinn - 04.11.1988, Blaðsíða 2
SKAÐI SKRIFAR Samtal við frænku mína um Kvendjöfulinn Ég, Skaði, er karlmaður, eins og þið vitið og ég hefi þá hugprýði til að bera á kvennaöld að ég skammast min hreint ekkert fyrir það. Og þó hefur frænka mín, hún Villa litla, reynt vel og lengi að svipta mig mínum íhaldssama formfasta og stefnutrygga karlmennskukjarna með allskonar stríðni og gaspri. Þetta hefur hún lært af pipruðum rauðsokkum sem svo hétu áður en þær höfnuðu rauða litnum og fóru að kenna sig við allan regnbogann. Þetta með hana Villu er reyndar ein af stórum sorgum lífs míns, því að hún var svo indælt barn og ekki meira um það. Eigi skal sýta. Ég var á dögunum aö Ijúka við að horfa á þennan framhaldsþátt um Kvendjöfulinn í sjónvarpinu þegar Villa barði upp á hjá mér. Hún var mjög æst og uppveðruð eitthvað og ég spurði hvort Kvendjöfullinn væri að sprikla í henni. Já, sagði hún. Svo sannarlega. Og hvað fannst þér? spurði ég. Þessir þættir voru alveg ógeðslegt æði, sagði hún og ég skildi af okkar fyrri tjáskiptareynslu að hún var mjög hrifin. Hvað var svona mikið æði? spurði ég. Sástu ekki hvernig hún tók hann í gegn þennan karlfjanda? Malaði hann og klessti. Þetta var algjört kjaftshögg á karlaveldið, enda hefi ég frétt að ballræðismenn sitji emjandi um allan bæ og haldi um magann eða ég veít ekki hvað. Það held óg ekki, sagði ég. Hvað heldurðu ekki? spurði Villa. Ég held þetta sé ekki kjaftshögg fyrir fimm aura. Ég held að þessi saga sé barasta ósköp saklaust huggunarævintýri fyrir konur sem karlar hafa farið illa með. En þeir eru nokkrirtil ennþá og sumsstaðar, því miður. Nokkrir til! sagði Villa hneyksluð. Olræt, sagði ég sáttfús eins og alltaf. Þeir eru altént of margir. Huggunarævintýri! hélt Villa áfram að hneykslast. Já einmitt. Hlustaðu nú á mig frænka mín góð. Þú veist að ævintýri fyrir börn eru um einhverja litla manneskju sem fer úr foreldrahúsum út í heiminn og lendir í úlfsklóm og tröllahöndum en sleppur með heppni og áræðni og óvæntri aðstoð og galdri. Þessi ævintýri eiga að sætta börnin við það að þeirra bíði lífsbarátta án foreldraverndar og þeim til huggunar er því laumað að þeim að þau muni ráða við öll skrýmsli. Allt fer vel að lokum, ekki satt. Kvendjöfullinn er alveg eins. Þar er verið að segja við misheppnaðar, nei fyrirgefðu við konur sem karlar hafa móðgað: Þú ræður við þetta. Þú getur náð tökum á tölvugaldri og galdrað til þín alla andskotans peninga frá karlinum. Og þú getur notað þessa peninga til að öðlast hylli galdramannanna - það er að segja fegrunarlæknanna sem saga þig í sundur forljóta og setja þig saman aftur fallega. Köttur úti í mýri... Mér þykir þú orðinn fræðilegur frændi, sagði Villa háðsk. Takk fyrir, sagði ég. Maður reynir að fylgjast með. En þetta sem þú sagðir, sagði Villa og skrúfaði sig upp, er ekki annað en fals og afskræming á kvenlegum sannleika. Kvendjöfullinn er snjöll lofgjörð til þess krafts sem býr í konum, þess krafts sem ekki aðeins leyfir ykkur að skríða inn í heiminn, heldur þess krafts til að breyta sjálfri sér, hafa endaskipti á eigin tilveru, sem býr í konum ef þær hremma sitt augnablik á réttri stundu. Rísa upp... Rísa upp, hehe, sagði ég - og til hvers? Til að krækja aftur í þessa hundleiðinlegu skrifstofublók sem Kvendjöfullinn var gift. Það var þá upprisa, jesúsminn. Skaði, sagði hún. Kvendjöfullinn vill bara réttlæti, karlinn getur átt sig Óekki elskan mín, sagði ég. Til hvers er hún þá að láta saga sig. í sundur? Til að verða akkúrat eins og þessi sæta, rómantíska pía sem karlinn stakk af til. Og er reyndar eina manneskjan í þessari svínastíu Fay Wldon sem hefur eitthvert hjarta, þótt ruglað sé! Villa hleypti brúnum, en leit svo á mig með vorkunnsemi. Skaði minn, sagði hún. Þú hefur aldrei skilið hið tviræða táknsnið kvennabókmenntanna. Enda ertu ekki kona þótt skömm sé frá að segja. Mér finnst eiginlega tími til kominn að þú hættir þessari bjána- legu línulaga rökhugsun þinni og hverfir aftur inn á hringhverft yfirráða- svæði móðurinnar þar sem þú ert best geymdur í þögn og gleymsku góðri... 2 SÍÐA - NÝTT HELGARBLAÐ Föstudagur 4. nóvember 1988 í RÓSA- GARÐINUM Líkingarnar fara fjöld... Hér verður sviðin jörð ef skipin fara burt. Fyrirsögn í DV Kvótaregluna burt? Það hefur aldrei verið gæfumerki að hampa konum um of í stjórn- unarstöðum hjá Alþýðubanda- laginu og getur Þjóðviljinn varla verið undantekning þar á. Lesendabréf í DV Maður getur nú gleymt sér Hengdi rollu af gáleysi. Fyrirsögn i DV Eitt er nauðsynlegt Brýnast að koma vitinu fyrir ráðamenn þjóðarinnar. Formaður BSfíB í Mbl Á refilstigum dýrafræðinnar Stolnar fjaðrir utanríkisráðherra. Geir H. Haarde í Mbl Stéttasamvinna borgar sig ekki Er hjúkrunarfólkið sakað um að hafa tekið sérstaka þóknun fyrir sjálfsagða og eðlilega þjónustu við sjúklinga og staðið í leyni- makki við útfararstjóra um að út- vega þeim verkefni. FréttíMbl Aumingja ríka fólkið Vinir Jade segja hana indælis- stúlku, bara ofdekraða. Hún sé vön að fá allt sem hún bendi á og slíkt sé öllum slæmt. Auk þess hefur líf hennar ekki verið dans á rósum. Foreldrar hennar hnakk- rífast alltaf þegar þau tala saman. Spegill Tímans Ekkert má nú lengur Lífshættir Björns urðu Mariönu ofviða, því hún er sú kvengerð sem kýs að fórna sér fyrir eigin- manninn. Spegill Tímans Hliðstæðar plágur Einhvern tíma var sagt að frönsk kona komin yfir 35 ára aldur ætti álíka mikla möguleika á að gifta sig aftur og að verða fyrir sprengjuárás. Pressan Sósíalrealisminn blífur Vildum fá svitann og táfýluna með. Fyrirsögn í Pressunni Kannski samnorrænt ráðunaut? Norræna ráðherranefndin, fram- kvæmdanefndin, auglýsir’ stöðu ráðunauts á rannsóknarsviði. Úr blaöaauglýslngu

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.