Þjóðviljinn - 01.12.1988, Blaðsíða 7

Þjóðviljinn - 01.12.1988, Blaðsíða 7
VIÐHORF Hugsun er farsælli en trú (Um borgaralega fermingu) Helgi M. Sigurðsson skrifar Eins og kunnugt er starfa ýmis trúfélög hér á landi og kyrja nær öll eitthvert tilbrigði við sama kristilega stefið. Það fólk sem þarna á í hlut lætur mikið til sín heyra. Samt sem áður er trúleysi í hraðri sókn í landinu, sem fram kemur í því að einungis örlítið brot þjóðarinnar sækir kirkju reglulega. Þetta er þróun sem á sér stað alls staðar í Evrópu, einnig í kaþólsku löndunum þar sem trúarhiti var til skamms tíma heldur meiri. Það skýtur því nokkuð skökku við að aldrei heyrist neitt í hinum stóra trú- lausa meirihluta. Ein megin ástæða þess er vafalaust sú að margir telja það óþarft, tíminn vinni ótvírætt með þeim. Það er heldur mikil einföldun. Aðrir álíta að ekki sé hægt að ræða um trúarbrögð; trú byggist ekki á skynsamlegum rökum heldur til- finningu. En einmitt það er ekki síst umræðu vert. Getur einhver trúarsetning verið heilög, þ.e. hafin yfir mannlega skynsemi? Er einhvern tíma réttlætanlegt að troða dómgreind sinni ofan í skúffu? Nei, og sérstaklega ekki þegar um er að ræða jafn jarð- bundin trúarbrögð og kristnin er. Ekki hafa svo fáar styrjaldir verið háðar í hennar nafni. Og ef við lítum til íslands, þá mun þjóð- kirkjan og það sem henni til- heyrir kosta nálægt miljarði króna ár hvert. Hægt væri að gera ýmislegt við þá upphæð. Trúleysingjar hafa mjög merkilegan málstað fram að færa. Þeir leggja áherslu á mann- inn og möguleika hans í stað for- sjár þokukennds almættis. Það er miklu heilbrigðari og farsælli lífs- skoðun, sérstaklega á viðsjár- verðum tíma sem nú. Annars var þessari grein ekki ætlað að vera almennt trúmála- spjall, heldur að kynna fyrir- brigði sem nefnist borgaraleg ferming. Eins og nafnið bendir til er borgaraleg ferming hugsuð sem valkostur við kirkjulega fermingu, á sama hátt og borg- araleg gifting er valkostur við kirkjulega giftingu. Hingað til hefur hið rússneska kerfi verið við lýði, þ.e. maður getur valið prestinn eða sleppt öllu saman, og það er ekki raunverulegur valkostur að gera eitthvað ekki. í Noregi hefur borgaraleg ferming tíðkast í 35 ár og nú ferm- ast þar 10% barna borgaralega ár hvert, þ.e. nokkur þúsund börn, á um 90 stöðum. Þar er því sterk hefð komin á. í Danmörku er þetta einnig vel þekkt; þar er gengið milli unglinganna í skólum og þau spurð hvort þau vilji kirkjulega eða borgaralega fermingu. Svipaða sögu er að segja í ýmsum öðrum löndum. Því hefur verið slegið fram að ferming sé trúarleg athöfn og geti ekki verið borgaraleg. Það er misskilningur, við breytum inn- taki hennar úr kirkjulegu í borg- aralegt. Kirkjan breytti jólunum eftir sínu höfði, úr heiðinni hátíð ljóssins í fæðingarhátíð Krists. Ekki verður amast við því hér, fjarri því, fólk á að halda upp á jólin eins og það kýs, trúarlega eður ei, með eða án gjafa o.s.frv. - Athyglisvert er að orðið jól mun vera úr heiðni. íslenska kirkjan hafði ekki fyrir að breyta því eins og sú enska (Christmas). Giftingar eru einnig til í ýmsum tilbrigðum. Þær þekktust löngu fyrir tíð kristninnar og hafa verið tíðkaðar í samræmi við stund og stað, þ.e. á ótal vegu. Hér á ís- landi eru þær aðallega tvenns konar, kirkjuleg og borgaraleg. Orðið ferming er dregið úr lat- ínu, þar sem það merkir styrking. Borgaralegri fermingu er einmitt ætlað að styrkja einstaklinginn, en ekki í trú, heldur í því að lifa og starfa á sem heilbrigðastan og gæfuríkastan hátt í nútímasamfé- lagi. Unglingsárin eru valin til þess þar sem einstaklingurinn er þá að hverfa úr hinum verndaða heimi barnsins og taka á sig skyldur og réttindi fullorðins- áranna. Nú hefur dálítill hópur tekið sig saman um að efna til borgara- legrar fermingar í Reykjavík og verður sú fyrsta vorið 1989. I upphafi verður haldið námskeið fyrir unglingana, þar sem þau koma saman nokkrum sinnum, eina klukkustund í senn. Eftirtal- in umræðuefni verða á dagskrá: 1. Kynning - til hvers borgara- leg ferming. 2. Unglingar fyrr og nú. 3. Jafnrétti. 4. Samskipti foreldra og ung- linga. 5. Að vera saman. 6. Siðfræði. 7. Réttur unglinga í þjóðfélag- inu. 8. Stríð og friður. 9. Umhverfismál. 10. Mannréttindi. 11. Vímuefni. 12. Að vera virkur þátttakandi í þjóðfélaginu. Námskeiðið verður líkast til haldið í einhverri kennslustofu miðsvæðis í Reykjavík. Fyrst á dagskrá hvers fundar verður framsöguerindi, en síðan koma umræður þar sem lögð verður áhersla á þátttöku sem flestra. Alltaf verður nýr frummælandi við hvert umræðuefni og hefur valist til þess prýðilegt fólk, það besta sem okkur foreldrunum gat dottið í hug. Þeir koma úr ýmsum áttum (tveir af Alþingi, tveir úr háskólanum o.s.frv.) og hafa mismunandi lífsskoðanir. Hins vegar hafa þeir það sameiginlegt að vera velviljaðir borgaralegri fermingu og hafa unnið að sínum málaflokki. Að námskeiðinu loknu, í apríl 1989, verður síðan höfð lokaat- höfn í virðulegum húsakynnum. Lögð verður áhersla á að að- standendur fermingarbarnanna sæki hana, bæði foreldrar og aðr- ir. Við athöfnina verður hljóð- færaleikur, upplestur og einn eða fleiri leikmenn, valdir af foreldr- um, munu halda 5-8 mínútna ræðu. Að lokum verður ungling- unum afhent skírteini til staðfest- ingar á þátttöku þeirra. Eftir það fer hver til síns heima. Veisluhöld hafa menn eftir sínu höfði. Hér á íslandi hafa fermingar verið fyrst og fremst tilefni til veisluhalda. Það sést best á því að aðstandendur fermingarbarn- anna láta langfæstir sjá sig við at- höfnina sjálfa en fjölmenna í veisluna. Það þykir þeim fermdu „Hérá íslandi hafa fermingar veriðfyrst og fremst tilefni til veisluhalda. Það sést bestáþví að aðstandendur fermingarbarnanna láta langfœstir sjá sig við athöfnina sjálfa en fjölmenna í veisluna. Það þykirþeimfermdu allt ílagi, þvíþeirfá gjafirnar engu að síður og fyrirþeim eru þœr aðalatriðið. “ allt í lagi, því þeir fá gjafirnar engu að síður og fyrir þeim eru þær aðalatriðið. Ef teknir eru út hinir jákvæðu þættir í kirkjulegum fermingum þá eru þeir heillaóskirnar sem unglingurinn fær og þau vináttu- og ættarbönd sem styrkjast í veislunum. Hvort tveggja verður einnig til staðar í hinum borgara- legu fermingum. Hins vegar mætti ýmislegt vera á annan veg en verið hefur, auk boðskapar- irrs. Þar á meðal er samkeppni foreldranna um að hafa sem stærsta og íburðarmesta veislu og metingurinn milli fermingarbarn- anna um gjafir sínar. Einn fær kannski „bara“ 35 þúsund krónur þegar annar fær 100 þúsund og auk þess stereogræjur, sem hann hefur reyndar engan áhuga á að nota. Þá segir sá fyrrnefndi: „Fólkinu mínu finnst ég bara svonaannarsflokks." Hinn síðar- nefndi hugsar með sér: Ég hlýt að vera eitthvað merkilegur. Hvor- ugur hefur rétt fyrir sér að sjálf- sögðu. Nú, þegar ný hefð er að sjá dagsins ljós með borgaralegri fermingu, ætti að hvetja þátttak- endur í henni til að draga úr fjár- austrinum, bæði í veitingum og gjöfum. Jafnvel mætti ákveða hámarksupphæð sem gjöf ætti að kosta. Unglingarnir hafa ekkert við allt þetta dót og peninga að gera, hafa auk þess ekki unnið til þess. Ekki er heldur ástæða til að setja fjárhag fjölskyldna úr skorðum vegna fermingar. Þetta mikla tilstand þekkist yfirleitt hvergi annars staðar í heiminum og á ekkert frekar heima hér. En nóg um það, lesandinn er vonandi betur að sér um hvað borgaraleg ferming er. Þeir sem áhuga hafa á að vera með að þessu sinni skulu hringja í síma 73734 (það er enn ekki of seint). Helgi er sagnfræðingur í Reykja- vík og er í stýrinefnd fyrir borg- aralega fermingu. Gamlir MR-ingar skora á ráðamenn Bætið úr húsnæðisvandanum Nemendasamband Mennta- skólans í Reykjavík hefur sent frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu og fylgjandi undirskriftalista þar- sem ritað hafa nöfn sín allflestir þeir sem gegnt hafa störfum in- spectors scolae og forseta Fram- tíðarinnar í skólanum: Menntaskólinn í Reykjavík á við svo alvarlegan húsnæðis- vanda að stríða, að í algert óefni stefnir. Skólinn er tvísetinn, þrengsli eru mjög mikil, og víða neyðast menn til að kenna við óviðunandi aðstæður. Kennt er í 6 húsurn: skólahús- inu, sem reist var 1846, íþrótta- húsi frá því um aldamót, Casa Nova (25 ára „nýbyggingu"), Þrúðvangi, sem var íbúðarhús Einars skálds Benediktssonar, Bókhlöðustíg 7, sem var íbúðar- hús Elínar Briem skólastýru, og rektorsfjósi að baki skólans. Auk þess fer mikill hluti leikfimi- kennslu fram á götunum um- hverfis Tjörnina í beljandi um- ferð og koltvísýringsútblæstri. Á þeim 70 árum, sem íslend- ingar hafa verið fullvalda þjóð, hefur íslenzka ríkið aðeins reist eitt hús yfir skólann, þ.e. Casa Nova, sem ætlað var til sérkenns- lu, svo sem verklegrar kennslu í eðlisfræði, efnafræði, náttúru- fræði og tungumálum. Ekki er að vænta, að nemendur verði færri í skólanum í náinni framtíð, svo að hefjast þarf handa um úrbætur þegar í stað. Brýnast er að sjá skólanum fyrir kennslurými, sem taka mætti í notkun fyrir næsta skólaár. Jafnframt þarf að leggja drög að því að efna marggefin fyrirheit stjórnvalda um að reisa aðra nýbyggingu, sem sniðin væri að þörfum skólans og stæði í brekkunni fyrir ofan gamla skóla- húsið, sem Danir létu reisa af stórhug og framsýni fyrir hartnær hálfri annarri öld. Að tilhlutan Nemendasam- bands Menntaskólans í Reykja- vík, nemenda hans og kennara, hafa stúdentar, sem voru forvíg- ismenn nemenda á skólaárum sínum, heitið á Alþingi og stjórnvöld að bæta úr brýnum húsnæðisvanda skólans. ÁSKORUN Við undirrituð, stúdentar frá Menntaskólanum í Reykjavík, heitum á Alþingi og stjórnvöld að bæta þegar úr brýnum húsnæðis- vanda skólans og leggja drög að nýju varanlegu framtíðarhús- næði á lóð skólans. Kristján Albertsson rithöfundur, stúdent 1917, Einar Olgeirsson fyrrv. alþingismaður, 1921, Sigurkarl Stef- ánsson fyrrv. menntaskólakennari, 1922, Sigurjón Guðjónsson fyrrv. prófastur, 1925, Þorsteinn Ö. Steph- ensen leikari, 1925, Bcnjamín Eiríks- son fyrrv. bankastjóri, 1932, Halldór Jakobsson forstjóri, 1936, Sigurður Ólafsson lyfsali, 1936, Viggó Maack verkfræðingur, 1941, Björn Th. Björnsson rithöfundur, 1943, Skúli Guðmundsson verkfræðingur, 1943, Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, 1943, Magnús Magnússon prófessor, 1945, Einar Pálsson skólastjóri, 1945, Guðjón Hansen, tryggingafræðingur 1946, Jón H. Bergs aðalræðismaður, 1947, Stefanía Pétursdóttir ritari, 1947, Bjarni Bragi Jónsson aðstoðar- seðlabankastjóri, 1947, Steingrímur Hcrmannsson forsætisráðherra, 1948, Þór Vilhjálmsson hæstaréttar- dómari, 1949, Einar Jóhannsson eft- irlitsmaður, 1949, Ingibjörg Pálma- dóttir kennari, 1950, Aðalsteinn Guðjohnsen rafmagnsstjóri, 1951, Gunnar Jónsson landmælingamaður, 1953, Hjörtur Torfason hæstarét- tarlögmaður, 1954, Sveinbjörn Björnsson prófessor, 1956, Oddur Benediktsson prófessor, 1956, Bern- harður Guðmundsson fræðslustjóri, 1956, Höskuldur Jónsson forstjóri, 1957, Ólafur B. Thors forstjóri, 1957, Guðmundur Ágústsson hagfræðing- ur, 1959, Kjartan Jóhannsson alþing- ismaður, 1959, Pálmi R. Pálmason verkfræðingur, 1960, Þorsteinn Gylfason dósent, 1961, Tómas Zoéga framkvæmastóri L.R., 1962, Sigurg- eir Steingrímsson handritafræðingur, 1963, Markús Örn Antonsson út- varpsstjóri, 1965, Jón Sigurðsson skólastjóri, 1965, Hallgrímur Snorra- son hagstofustjóri, 1966, BaldurGuð- laugsson hæstaréttarlögmaður, 1967, Þorlákur Hclgason kennari, 1969, Hallgrímur B. Geirsson hæstaréttar- lögmaður, 1969, Kristján Auðunsson framkvæmdastjóri, 1970, Geir Haar- de alþingismaður, 1971, Jón Sveins- son aðstm. forsætisráðherra, 1971, Gylfi Kristinsson deildarstjóri, 1972, Markús Möller hagfræðingur, 1972, Bragi Guðbrandsson félagsmála- stjóri, 1973, Mörður Árnason rit- stjóri, 1973, Magnús Ólafsson hag- fræðingur, 1974, Sigrún Pálsdóttir verkfræðingur, 1975, Sigurður J. Grétarsson lektor, 1975, Benedikt Jó- hannsson stærðfræðingur, 1975, Gunnar Steinn Pálsson framkvæmda- stjóri, 1975, Skafti Harðarson fram- kvæmdastjóri, 1976, Jón Norland B.A, 1977, Gunnlaugur Ó. Johnson arkitekt, 1977, Ásgeir Jónsson gjald- heimtustjóri Suðurnesja, 1978, Sig- ríður Dóra Magnúsdóttir læknir, 1979, Sigurbjörn Magnússon fram- kvæmdastjóri, 1979, Halldór Þor- gcirsson kvikmyndagerðarmaður, 1979, Sigurður Jóhannesson hagfræð- ingur, 1981, Jón Óskar Sólnes íþrótta- fréttamaður, 1981. Jóhann Valbjörn Ólafsson sölufulltrúi, 1982, Jóhann Baldursson háskólanemi, 1982, Sveinn Andri Sveinsson laganemi 1983, Helga Guðrún Johnson frétta- maður, 1983, Tómas Guðbjartsson læknanemi, 1985, Úlfur H. Hró- bjartsson 1985, Gunnar Auðólfsson læknanemi, 1986, Birgir Ármannsson laganemi, 1988. Föstudagur 2. desember 1988 ÞJÓÐVILJINN — SÍÐA 7

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.