Þjóðviljinn - 10.01.1989, Blaðsíða 11

Þjóðviljinn - 10.01.1989, Blaðsíða 11
VIÐHORF Upphlaup í kjölfar heiðurslauna Hjörleifur Guttormsson skrifar „Listahneyksli á Alþingi“. - „Thor og Atla hafnað" - Þetta eru dæmi um fyrirsagnir sem lesa mátti í Þjóðviíjanum sl. laugar- dag af tilefni úthlutunar heiðurs- launa til listamanna við af- greiðslu fjárlaga 1989. í rit- stjórnargrein blaðsins þennan sama dag stendur m.a. undir fyrirsögninni „Hneyksli": „mál er til komið að taka þetta verkefni úr höndum þingmanna og fela það aðilum sem ekki hengja sig í kvótakerfi". Og sökudólgurinn er afhjúpaður í bak og fyrir í blaðinu: „Það strandaði á Kvennalistanum,“ - „Kvennalistakonur hindruðu áform um að bæta Thor Vil- hjálmssyni og Atla Heimi Sveinssyni í hóp heiðurslauna- þega Alþingis." - „Kvennalista- konur sögðu þvert nei.“ Það er ekki lítil uppskera hjá Þjóðviljan- um að geta afhjúpað þessi ósköp og bent á sökudólga með svo ótvíræðuin hætti! í sama blaði gefur að líta yfir- lýsingu frá Einari Kárasyni, for- manni Rithöfundasambandsins, sem byggir mál sitt á sömu for- sendum og er pistill hans einhver sérkennilegasti ruðningur sem ég hef séð frá trúnaðarmanni í hagsmunasamtökum. Vegna þessara furðuskrifa vil ég vesall þingmaður biðja rit- stjórn Þjóðviljans um að birta þetta greinarkorn til að lesendur fái að sjá önnur viðhorf og hvern- ig mál þetta kemur mér fyrir sjón- ir. Mikilvægast tel ég að fram komi, að aldrei reyndi á það á Alþingi þá daga sem þingið starf- aði eftir áramótin, hvort þingvilji væri fyrir því að breyta samhljóða tillögu frá menntamálanefndum þingsins varðandi úthlutun heiðurslauna að þessu sinni. Mér er ekki kunnugt um að þing- mönnum utan nefndanna hafi gefist kostur á að segja álit sitt á því, hvort bæta ætti einum eða fleiri við þann lista sem fyrir lá síðdegis sl. föstudag. Hvaða þingmanni sem er og ekki á sæti í menntamálanefndum var í lófa lagið að flytja breytingar- eða viðaukatillögu þessarar úthlutun- ar. Engin slík tillaga kom fram. Kvennalistinn felldi enga tillögu á þinginu, enda eru aðeins 6 þing- menn af 63 honum tilheyrandi á Alþingi. Það er nýtilkomið ef menn leggja ekki í að flytja til- lögur án uppáskriftar Kvennalist- ans. Aldrei var leitað áliís þess sem þetta skrifar á hugsanlegri breytingartillögu og svo mun hafa verið um marga þingmenn, bæði úr Alþýðubandalagi og öðr- um flokkum. Þegar ég frétti á skotspónum eftir miðnætti aðfar- anótt föstudags um áþreifingar varðandi slíkan tillöguflutning sagði ég bæði fjármálaráðherra og menntamálaráðherra, að ég teldi mikið álitamál, hvort leggja ætti slíka tillögu fram. Það mætti því með sömu röksemdafærslu og Þjóðviljinn beitir staðhæfa að ég hafi brugðið fæti fyrir að Thor og Atii nytu nú maklegra heiðurs- launa. í mínum huga snerist mál þetta ekki um einstaklinga. Það hefur gerst oftar en ekki að hugsanlegir verðlaunahafar hafa talið brotið á sér við úthlutun heiðurslauna. Á árum áður kvað stundum svo rammt að hrossakaupum og handahófi við tilnefningu verð- launahafa að menn gátu jafnvel litið á það sem bærilegt píslar- vætti að vera ekki teknir með á tillögulista menntamálanefnd- anna. Hvað sem því líður þurfa menn að koma sér saman um annað og kannski betra kerfi til að velja heiðurslaunahafa, áður en breytt er út frá þeirri aðferð sem notuð hefur verið um áratugi og ásættanleg hefur verið talin af þingflokkum fyrirfram, einnig í þetta sinn. Það er ekki vandalaust að út- hluta heiðurslaunum til takmark- aðs fjölda listamanna á fjárlögum Alþingis. Fyrir því er löng hef að fela fulltrúum menntamála- nefnda þingsins að ráða frarn úr málinu hverju sinni. Ég veit ekki til þess að ágreiningur hafi verið gerður um sameiginlega niður- stöðu nefndanna allan. þennan tíma, a.nt.k. ekki á þeim 10 þing- um sem ég hef setið. Þetta þýðir hins vegar ekki að alþingismenn hafi upp til hópa verið sáttir við niðurstöðu hverju sinni. Trúlega væru engir tveir með samhljóða uppástungu, ef eftir væri leitað eða skoðana- könnun gerð án samráðs fyrir- fram. Það sama yrði eflaust uppi á teningnum, hvaða hópur sem fengi það hlutverk að tilnefna 15- 20 listamenn til viðtöku heiðurs- launa. Þar með er ég ekki að halda því fram, að Alþingi eigi endilega að ráða slíku máli til úr- slita, hvað þá að það sé eindreg- inn vilji þingmanna að ríghalda í þessa aðferð. Ég ætlaði mér ekki að þessu sinni frekar en áður að gera at- hugasemdir við niðurstöðu nefndanna, eins og hún lá fyrir síðla fimmtudags 5. janúar. Mér sýndist að þar hefði ekki betur né verr til tekist en oft endranær og gladdist í hljóði yfir að sjá þar komin í hópinn listamenn á borð við Jakobínu Sigurðardóttur og Þorstein Ö. Stephensen, hvoru- tveggja einstaklinga sem ég hafði reynt að styðja til heiðurslauna þegar ég átti sæti í menntamála- nefnd Neðri deildar fyrir nokkr- unt árum. Svo oft var búið að hafna þessum öldnu lista- ntönnum að mér er til efs að ein- stakir þingmenn eða ráðherrar hefðu farið að efna í breytingar- tillögur, þótt þeir hefðu áfram legið óbættir hjá garði. Sem betur fer gerðist það ekki í þetta sinn og hafa ntargir orðið til að lýsa ánægju sinni með þá niðurstöðu. Ég harma þær rangtúlkanir sem fram kornu hér í blaðinu 7. janúar og endurómað hafa víðar um þetta mál. Ég tel ósæmilegt að reyna að stimpla þingflokk Kvennalistans og aðra alþingis- menn sem andstæðinga tiltekinna listamanna, þótt þeir háfi talið vafasamt að ganga gegn sam- hljóða tillögu menntamála- nefnda þingsins. Reykjavík, 7. janúar 1989 Hjörleifur Guttormsson „Pað er ekki lítil uppskera hjá Pjóðviljanum að getaafhjúpað þessi ósköp og bent á sökudólga með svo ótvírœðum hætti“ _________________MINNING________ Albertína Jóhannesdóttir frá Botni, Súgandafirði f 17. 9. 1893 - d. 2. 1. 1989 Þriðjudaginn 10. janúar verður gerð frá Suðureyrarkirkju útför ömmu minnar, Albertínu Jó- hannesdóttur, en hún lést þann 2. janúar á sjúkrahúsinu á lsafirði, níutíu og fimm ára gömul. Albertína fæddist að Kvíanesi í Súgandafirði 17. september 1893, barn hjónanna Jóhannesár Guðmundssonar og Guðrúnar Jónsdóttur sem þar bjuggu. Árið 1914 giftist hún afa mínum, Guðna Jóni Þorleifssyni frá Norðureyri, og bjuggu þau alla sína tíð í Súgandafirði. Þau stunduðu búskap fyrst í Kvíanesi og síðan í Botni lengst af, þar til þau brugðu búi 1945 og fluttu út á Suðureyri. Þau nytjuðu þó áfram jörðina og dvöldu þar öllum sumrum. Guðni dó árið 1970. Guðni og Albertína eignuðust ellefu börn. Tvö þeirra eru látin, Sigurður sjómaður á Akranesi, kvæntur Sveinbjörgu Eyvinds- dóttur, en hann fórst með togar- anum Júlí árið 1959, og Sólveig Dalrós, sem lést fintm ára gömul í foreldrahúsum. Hin eru: Guð- rún, fiskverkakona á Flateyri, gift Kjartani Sigurðssyni sem látinn er fyrir all mörgum árum og nú hin seinni ár sambýliskona Sörla Ágústssonar frá Kjós í Strandasýslu, en hann er ný- látinn, Þorleifur, sem lengi var bóndi á Norðureyri, en er nú bú- settur á Suðureyri með sambýlis- konu sinni Marianne Jensen, Sveinn, leigubflstjóri í Reykja- vík, kvæntur Signði Finnboga- dótturfrá Bolungavík, Jóhannes, eldavélasmiður í Reykjavík, kvæntur Aldísi Jónu Ásmunds- dóttur, Guðmundur Arnaldur, sjómaður á Suðureyri, Einar, skipstjóri á Suðureyri, kvæntur Guðnýju Guðnadóttur, Guðni Albert, ýtustjóri á Flateyri, kvæntur Stellu Jónsdóttur, Gróa, kjólameistari í Reykjavík, gift Páli Guðmundssyni málarameist- ara og María, einnig búsett í Reykjavík, gift Leifi Sigurðssyni rafvirk j ameistara. Þótt dofni yfir frjóseminni, að því er virðist, með hverjum nýj- um ættlið þá eru margföldunar- áhrifin sterk og mér telst til að afkomendur Guðna og Albertínu séu nú á níunda tug og Albertína varð reyndar langalangamma fyrir fjórum árum. Þegar ég hitti ömmu og afa fyrst í Botni voru þau komin á efri ár og börn þeirra öll komin vel til manns. Gamla timburhúsið í Botni var þá miðpunktur sumar- landsins, þangað streymdum við frændsystkinin úr öllum áttum. Margt var framandi og spenn- andi, surtarbrandsnáman í hlíð- inni, grettinn steinbítur á seil í bæjargilinu, hjallur með magál og reyktum rauðmaga og ekki síst tungutak heimamanna, verst- firskara en allt sem vestfirskt er. Afi var þá farinn að tapa heilsu, var samt mikið á ferðinni við bústörfin, sem snerust þá orðið mest um eina belju og nokkur hænsni. Amma stjórnaði hús- haldinu af mikilli röggsemi og hafði vakandi auga á velferð okk- ar ungmennanna sem vorum sólgin í hvers kyns hættulegar svaðilfarir sem umhverfið og landslagið bauð upp á í öllum átt- um. Allt hennar fas einkenndist af rausn og umhyggju gagnvart okkur barnabörnunum, heima- bakað brauð með kanelkrydd- aðri rabbabarasultu gat læknað dýpstu sorgir. Óábyrgt tal og galgopaháttur var henni hins veg- ar lítt að skapi og þegar henni fannst ástæða til þess að taka í taumana talaði hún þannig að skildist. Það er að sjálfsögðu fullkom- lega ógerlegt fyrir mína kynslóð að setja sig inn í þau kjör sem búin hafa verið ungum hjónum með slíkt barnalán á fyrrihluta aldarinnar í afskekktri byggð. Oft hljóta erfiðleikarnir að hafa verið miklir, en það mætti verða til umhugsunar, að þrátt fyrir allt baslið sem hlýtur að hafa fylgt þessu þá segir sú nterka heimild, Súgfirðingabók Gunnars M. Magnúss, að Albertína hafi verið „létt og kát, mælsk og haft gaman af ljóðum og aldrei slegið slöku við til viðhalds heimilinu." Ræktun skrautblóma var henni mikið áhugamál og blómastofan hennar á Suðureyri var eins og undraheimur með fágætum plöntum, sem margar báru aldin. Börnum þótti líka fengur að fá að skoða smágarðana hennar, en þar nýtti hún mosa og afklippur af blómum og trjám til þess að búa til ævintýralega skrautgarða í smáum stfl. Á tjörnum úr speg- ilbrotum syntu fuglar úr ýsubeini og allt var þetta svo raunverulegt að það var eins og Dimmalimm væri rétt ókomin eða nýfarin. Listfengi hennar lýsti sér þó ekki síður í prjónlesi því sem hún um hver jól sendi afkomendum sín- um, alveg fram á síðustu ár. Handbragðið og litavalið var ein- stakt og þótt hún hafi ekki ætlast til annars en að þessum flíkum væri slitið út í starfi og leik þá vonum við, að sem mest af þess- ari nytjalist hafi varðveist. Síðustu fjögur árin var Albert- ína rúmföst á sjúkrahúsinu á ísa- firði. Þegar ég fór til fundar við hana seinni árin fór hún ekki dult með það að hún væri nú södd líf- daga og þráði heitt endurfundina við þá sem geiignir væru á undan henni og frelsara sinn, en barna- trúna hafði henni tekist að varð- veita á langri vegferð. Ellin settist að henni, sjónin bilaði og heyrnin dapraðist, en alveg undir það síð- asta var hugsunin skýr. Starfsfólk sjúkrahússins á þakkir skildar fyrir fórnfúst starf, en á gamla sjúkrahúsinu á ísafirði ríkti heimilislegur andi þrátt fyrir um margt erfiðar aðstæður. Ekki munaði þó mjnna um þátt alls óskyldrar konij, Kristjönu Samú- elsdóttur, sem tók að venja kom- ur sínar á sjúkrahúsið til Albert- ínu næstum daglega og stytta henni stundirnar í þessari löngu og erfiðu sjúkralegu. En nú er þessu stríði lokið og leiðin liggur aftur heim í Súg- andafjörð, út fyrir Spillinn og inn í Staðardal, þar sem henni verður búið leg hjá eiginmanni sínum og dóttur. Við afkomendur hennar minnumst hennar með þakklæti og virðingu. Guðni Albert Jóhannesson Þriðjudagur 10. janúar 1989 ÞJÓÐVILJiNN - SÍÐA 11

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.