Þjóðviljinn - 14.01.1989, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 14.01.1989, Blaðsíða 4
þJÓOVILJINN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Örstutt auðnuspor í fyrstu greina fórnarlömbin daufa lykt sem gæti verið af hvítlauk. Svo fer húðin að brenna. Fólk svíður í augun, klæjar óskaplega og kreistir þau aftur. Það hóstar og hnerrar látlaust. Næst kemur ógleðin, fórnarlömbin kúgast og kúg- ast, líkamshitinn hækkar og andardrátturinn verður örari, húðin dökknar, blöðrur myndast á hálsi, andliti og mjöðm- um, húð flagnar af... Þannig var áhrifum sinnepsgass lýst í þessu blaði meðan eiturhernaður írakshers gegn Kúrdum stóð sem hæst, þeg- ar eiturgas var notað til að fremja þjóðarmorð. Nú hillir undir lok eiturhernaðar þó að ráðstefna 149 ríkja um efnavopn sem haldin var í París hafi einungis haft álykt- unarrétt, ekki vald til að banna. Eftir lofsvert frumkvæði Sovétmanna samþykktu fulltrúar að beina þeirri áskorun til Genfarráðstefnunnar um afvopnunarmál að hún samþykki sem fyrst algert bann við framleiðslu, varðveislu og notkun eiturgass. Raunar átti alþjóðlegt bann við notkun eiturgass að hafa verið í gildi allt frá 1925, en þegar upp komst hvernig íraks- her eitraði fyrir Kúrda þótti Ijóst að farið væri að fyrnast yfir reglurnar. Um skeið var að vísu eins og öllum stæði á sama um þjóðarmorð á Kúrdum, en það hefur vafalaust verið ástæðan til þess að ráðstefnan var kölluð saman. Svo kurteisir voru ráðstefnugestir þó við íraka að eitur- hernaður þeirra er ekki nefndur á nafn í yfirlýsingunni, að- eins ýjað að honum með óljósum orðum. Ef menn eru undrandi á því má minna á að Saddam Hussein á mikinn olíuauð og ætlarað fara að byggja upp borgir eftir stríðið við írani. Þá þarf hann verktaka, tækniaðstoð, vélar og hráefni sem stjórnvöld á Vesturlöndum vilja ólm selja honum. Þess vegna má ekki styggja hann. Vald peninganna er mikið. Það var ekki fyrr en á blaóamannafundi í lok ráðstefnunn- ar að kúrdneskur blaðamaður gat komið fram kvörtunum yfir því að ekki skyldi hafa verið rætt um þjáningar þjóðar hans á ráðstefnunni. Ef hægvirk Genfarráðstefnan tekur áskorun Parísarráð- stefnunnar og setur ný alþjóðalög sem banna framleiðslu og notkun efnavopna þá er það eitt skref enn í átt til friðar. En raunar verður erfitt að fylgjast með hvernig banninu yrði framfylgt því efnavopn er hægt að framleiða nánast í kjallar- anum hjá sér. Þriðja heims þjóðir kalla eiturgas „fælingar- vopn fátæka mannsins" vegna þess hvað þau eru handhæg og ódýr í framleiðslu miðað við kjarnorkuvopn. Raunar virðist fráleitt að takmarka bann við ákveðnar tegundir af vopnum sem hafa ekki aðeins þau viðurstyggi- legu áhrif á mannslíkamann sem lýst var hér í upphafi heldur auka enn á mengun andrúmsloftsins. Það er furðuleg skammsýni að selja öðrum efni í eiturbras og græða á viðskiptum sem fyrr eða síðar koma niður á seljandanum sjálfum og afkomendum hans. Einnig virðist fráleitt að fjöldi fulltrúa margra þjóða skuli þurfa að sitja á löngum og kostn- aðarsömum ráðstefnum til að ræða málefni sem virðist svo sjálfsagt: að okkur beri að varðveita jörðina og andrúmsloft- ið en ekki eitra fyrir okkur sjálf og komandi kynslóðir. Bæði fælingarvopn ríka mannsins og fælingarvopn fá- tæka mannsins eru háskaleg lífinu á jörðinni. Menn sem stuðla að framleiðslu þeirra á einhvern hátt „hafa orðið viðskila við líf sitt“ eins og Hannes Sigfússon segir: Jafnvel hjörtu þeirra slá annarsstaöar eins og tifandi klukkur í vítisvél SA KLIPPT OG SKORIÐ Heiðurskrans úr höfgu gulli Pegar ort er um byggðir og bæi skiptir mjög í tvö horn. Annað- hvort fara menn að lýsa sælunnar reit þar sem hamingj an, farsældin og dugnaðurinn búa - eða þá þeir hleypa sér í illan ham og hafa aldrei í annað eins helvíti komið. Því kemur það ekkert á óvart að menn geta á einni og sömu bók lesið til dæmis um Siglufjörð jafn- ólíkan kveðskap og þessi dæmi hér sýna: Siglufjörður, Siglufjörður! Happasœla, sumarfagra, blíða sveitin góð í skjóli fjallahlíða þú við hafið breiðir faðminn blíða fram á djúpið bendir vaskri drótt. Gjöfla hönd þér Rán og Ægir rétta rausnargjafir bjóða dag og nótt heiðurskrans úr höfgu gulli flétta hverjum þeim er sýnir vit og þrótt. Satan býr þar Og svo kemur níðið í hefð- bundnum heiftarsálmastíl: Siglufjörður er svínastía, Satan býr þar og árar hans. Ómenni þangað ótal flýja úr ýmsum héruðum þessa lands. Lygi og svik þar lifa flott, úr lýðnum sanngirni víkur brott. Maður hefur tilhneigingu til að ætla að það sé ekki alltof mikið mark á hvorugri skáldskaparteg- und takandi. Annarsvegar yrkja menn sig inn í helgisiði lofsins, hinsvegar renna þeir sér eftir margtroðinni braut flímsins. En í þeirri bók sem hér er um að ræða lifa reyndar sterku lífi merkileg sárindi fyrir hönd plássins. Hún heitir „Síldarævintýrið á Siglu- firði“ og er eftir Björn Dúason. Þar eru ýmsir þættir um það fræga „gullæði", sem tengdist síldarútvegi frá Siglufirði á fyrri hluta aldarinnar, og segir ekki nánar frá þeim hér. Nema hvað höfundurinn er í einum þættinum mjög með hugann við það, að það mannfélag sem hann var fæddur til hafi orðið fyrir barðinu á feiknarlegum rógi. Hann segir: Morðingjar og hórur „Enginn staður hérlendis var rægður jafn geipilega. Enginn staður var jafn vendilega níddur niður í skarnið eins og hann... Sögurnar flugu á vængjum lyg- innar í bundnu og óbundnu mnáli landshorna á milli. Þær komust líka örugglega inn á hvert heimili, samhliða hugvekjum og Helga- kveri. Þar margfölduðust þær og urðu svo ægilegar, að dyggðum ærukrýnda borgara hryllti við.... Þarna í bæ áttu manndráp að vera daglegir viðburðir. Sögumennina munaði ekkert um þótt þeir dræpu tvo og upp í þrjá á sérstök- um tyllidögum. Allan sólarhring- inn linnti ekki blóðugum ölæðis- bardögunum. En verst varð þó kvenþjóðin úti. Siglfirskar konur og aðkomustúlkur, sem stund- uðu sfldarsöltun, voru hispurs- laust stimplaðar hórur, eða væg- ast skækjur. Þær er til Siglufjarð- ar sóttu í atvinnuleit voru að al- mannarómi óumflýjanlega barnshafandi eftir vertíðina og löðrandi í kynsjúkdómum“. Öfund? Maður verður náttúrlega dá- lítið hissa á að lesa þetta. Var í raun og veru talað á þessa vegu um sfldarplássið mikla? Ein- hvernveginn höfðu önnur skila- boð komist inn í minnið frá sfld- arárunum - kannski einhver rómantík úr dægurtextum, en eitthvað allt annað en þetta. Björn Dúason segir á þá leið, að öfund hafi ráðið miklu um það hvernig talað var um Siglufjörð - þeir sem þangað fóru „báru margfalt meira úr býtum en al- mennt tíðkaðist hérlendis." Þetta hafi þeir ekki síst litið hornauga sem höfðu auðgast á striti og úr- ræðaleysi hjúa sinna „gamlir afturhaldskurfar og ríkir fjárp- lógsmenn“. Og það er sjálfsagt nokkuð til í þessu. En þá rifjast annað upp fyrir þessum Klippara hér. En það eru skáldsögur Theó- dórs Friðrikssonar, sem þek- ktastur er fyrir sjálfsævisögu sína „í verum“. Theódór í sollinum Theódór var sístritandi öreigi og græddi aldrei á þrautpíndu vinnufólki. En enginn hefur farið með hremmilegri lýsingar á þeim ósköpum sem einu nafni nefndist Sollurinn á árunum milli heimsstyrjaldanna. Og þessi soll- ur með skelfilegu fylliríi og kvennafari og fjárplógsstarfsemi og brjálaðri vinnuþrælkun, hann var ekki barasta á Siglufirði í sög- um hans, heldur líka í Vest- mannaeyjum og í Reykjavík. Theódór fylltist blátt áfram spámannlegri heift og mælsku þegar hann slengdi sinni fordæm- ingu yfir þetta þéttbýli allt. Og það var, sem fyrr segir, ekki öfund sem honum gekk til. Það var líkast til ótti hins gróna ís- lenska sveitamanns við nýjan tíma sem hafði barið upp á hjá honum með miklu brauki og bramli. Sveitamannsins sem þekkti vitanlega fátækt og harð- ræði, en gat samt átt sér visst ör- yggi í umhverfi sem hann þekkti eins og fingurna á sér og gat treyst á í hinum snauða óbreytanleika þess. Allt í einu var þessi sveita- maður margra alda staddur í allt öðrum heimi, rótlaus og ringlað- ur og fannst að hvergi væri lengur í heimi hæli tryggt og allar dyggð- ir sem á hafði verið byggt foknar út í veður og vind og sæjust aldrei meir. ÁB Þjóðviljinn Síðumúla 6 108 Reykjavík Sími 681333 Kvöldsími 681348 Útgefandi: Útgáfufólag Þjóöviljans. Ritstjórar: Árni Bergmann, MörðurÁrnason, Silja Aðalsteinsdóttir. Fróttastjóri: Lúðvík Geirsson. Blaðamenn: Dagur Þorleifsson, Guðmundur RúnarHeiðarsson, Heimir Már Pótursson, Kristófer Svavarsson, Magnús H. Gíslason, Ólafur Gíslason, Páll Hannesson, SigurðurÁ. Friðþjófsson (Umsjón- arm. NýsHelgarb.), SævarGuðbjörnsson, ÞorfinnurÓmarsson(íþr.). Handrita-og prófarkalestur: Elías Mar, Hildur Finnsdóttir. Ljósmy ndarar: Jim Smart, Þorf innur ómarsson. Útlitsteiknarar: Kristján Kristjánsson, Kristbergur Ó. Pétursson Framkvæmdastjóri: Hallur Páll Jónsson. Skrif stof ust jóri: Jóhanna Leópoldsdóttir. Skrífstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pétursdóttir. Auglýsingastjóri: Olga Clausen. Auglýsingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur Ágústsdóttir. Símavarsla: Sigríður Kristjánsdóttir, ÞorgerðurSigurðardóttir. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Húsmóðir: Anna Benediktsdóttir Útbreiðslu- og afgreiðsiustjóri: Björn Ingi Rafnsson. Afgreiðsla: Halla Pálsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir. Innheimtumaður: Katrín Bárðardóttir. Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, símar: 681333 & 681663. Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrotog setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasölu: 70 kr. Nýtt helgarblað: 100 kr. Áskriftarverð ó mánuði: 800 kr. 4 SlÐA — ÞJÓÐVILJINN Laugardagur 14. janúar 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.