Þjóðviljinn - 07.03.1989, Blaðsíða 9

Þjóðviljinn - 07.03.1989, Blaðsíða 9
MINNING Ingibjörg Gunnlaugsdóttir F.5. 4.1953-D. 28.2.1989 „Vinur þinn er þér allt.“ „Þegar vinur þinn talar, þá and- mælir þú honum óttalaust eöa ert honum samþykkur af heilum hug. Og þegar hann þegir, skiljið þið hvor annan. Því að í þögulli vináttu ykkar verða allar hugsanir, allar langanir og allar vonir ykkar til, og þeirra er notið í gleði, sem krefst einskis. Þú skalt ekki hryggjast, þegar þú skilur við vin þinn, því að það, sem þér þykir vænst um í fari hans, getur orðið þér ljósara í fjarveru hans, eins og fjallgöngumaður sér fjallið best af sléttunni. Og láttu vináttuna ekki eiga sér neinn tilgang annan en að auðga anda þinn, því að sú vinátta, sem leitar ein- hvers annars en síns eigin leyndar- dóms, er ekki vinátta, heldur net, sem kastað er í vatn og veiddir í tómir undirmálsfiskar." Kahlil Gibran Flestar okkar kynntumst Ingu haustið 1980, þegar hún réð sig til starfa við Snælandsskóla. í Snæ- landsskóla var unnið að ný- breytni í kennsluháttum og réði Inga sig gagngert til skólans til að taka þátt í mótunarstarfinu. Hún lagði sig alla fram, enda var hún hugsjónakona, búin eiginleikum sem við teljum einstaka. „Heyriði stelpur, mér var að detta svolítið í hug... “. Þessi setn- ing heyrðist oft á kennarastof- unni og hafði þau áhrif að allir lögðu við hlustir, íhuguðu og endurskoðuðu hugmyndir sínar. Því Inga hafði ákveðnar skoðanir og var ófeimin að láta þær í ljósi. Hún var eldhugi sem hreif fólk með sér. Hugmyndir hennar um bætta og betri kennsluhætti voru skýrar og settar fram á lifandi og skemmtilegan hátt. Hún sá hlut- ina í víðara samhengi en margir og þess vegna gátum við sótt svo margt í hennar smiðju. Um kennarann segir Kahlil Gi- bran: „Ef hann er í sannleika vitur, þá býður hann ykkur ekki inn í hús vísdóms síns, heldur leiðir hann ykkur að dyrum ykkar eigin sálar.“ Þannig kennari var Inga. Hún leiðbeindi, benti á, hreif nemendur með sér og gerði kröf- ur til þeirra sem hún vissi að voru raunhæfar, en mörgum þóttu strangar. Við söknum Ingu sárt. Hún var okkur svo mikils virði og það er svo margs að minnast. Efst í huga okkar er gleðin og hláturinn í kringum Ingu, sem alltaf kom auga á spaugilegar hliðar tilver- unnar. Hún gat ávallt hlegið að sjálfri sér og kringumstæðum sín- um, jafnvel þó sársaukinn væri ekki langt undan. Þá kom fram hve sterk og heilsteypt hún var. Þessir eiginleikar Ingu ásamt hin- um mikla baráttuhug hennar hafa eflaust hjálpað henni mikið á þessum síðustu og erfiðu tímum. Það var aldrei ládeyða í kring- um Ingu og mun hún og hug- myndir hennar lifa áfram í hugum okkar. Við sendum Bjarna Ómari, Rósu, Ragnheiði, Rósu móður Ingu og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðj- ur. Kristrún, Iialla, Vala, Ella, Sigga og Guðbjörg Kveðja frá Snælandsskóla Sú harmafregn barst okkur, starfsfólki Snælandsskóla í Kópa- vogi, að morgni þess 28. febrúar s.l. að Ingibjörg Gumilaugsdóttir fyrrum samkennari okkar væri látin. Ingibjörg eða Inga eins og hún var kölluð í daglegu tali var fædd á Akureyri hinn 5. apríl 1953. Þar átti hún heima til tuttugu ára aldurs. Hún lauk stúdentsprófi frá MA árið 1973 og kennaraprófi frá Kennaraháskóla íslands árið 1978. Næstu tvö árin þar á eftir kenndi hún við Álftanesskóla en haustið 1980 réðst hún til starfa við Snælandsskóla í Kópavogi. Inga skipaði sér strax í hóp virt- ustu og farsælustu kennara skólans. Hún var einstaklega heilsteypt manneskja, hreinlynd og góður félagi og varð fljótt trúnaðarmaður kennara í skólan- um. Hún var glöggskyggn, hug- myndarík og vel lesin á hinu fag- lega sviði. Sívakandi yfir því sem betur mátti fara og ávallt reiðu- búin að takast á við ný viðfangs- efni sem hún taldi geta bætt skólastarfið. Inga var í fararbroddi í þeim hópi kennara sem stóðu að ýmsu nýbreytnistarfi í skólanum bæði á yngra og eldra stigi, elskuð af nemendum sínum og virt af sam- kennurum og foreldrum. Fyrir um það bil þremur árum hófst barátta hennar við krabb- amein og varð sú barátta bæði löng og ströng. Þrátt fyrir alla þá reynslu var Inga ævinlega bjartsýn. Barðist hetjulega fyrir lífi sínu og gerði á stundum góðlátlegt gaman að fötlun sinni. í hennar orðaforða var uppgjöf ekki til. Þótt við gerðum okkur grein fyrir þeirri sálarkvöl sem inni fyrir bjó þrátt fyrir ytri glaðværð getur enginn sett sig í annarra spor. Þrátt fyrir langa baráttu og á stundum óvægna kom dauði Ingu okkur á óvart svo skjótt bar hann að. Við, starfsfólk Snælandsskóla, viljum með þessum fáu línum votta minningu Ingu virðingu okkar og þökk fyrir samstarf lið- inna ára. Ómari, dætrunum tveim og öllum ástvinum og venslafólki sendum við innilegar samúðar- kveðjur. Reynir Guðsteinsson Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér, hvert andartak er tafðir þú hjá mér var sólskinsstund og sæludraumur hár, minn sáttmáli við guð um þúsund ár. (Halldór Laxness) „Að hryggjast og gleðjast hér um fáa daga, að heilsast og kveðj- ast, það er lífsins saga“. Mörg minningabrot líða í gegnum hug- ann þegar vinir kveðj a, og þannig er því farið nú þegar Ingibjörg hefur kvatt okkur svo langt fyrir aldur fram. Við áttum eftir að gera svo margt. Við sem eftir erum stöndum hljóð, niðurlút og vanmegnug og okkur verður ljóst hve lítið við skiljum og skynjum. Það er á svona stundum sem ljóst verður að vegir guðs eru órann- sakanlegir. Sumir þurfa að hittast oft og lengi til að kynnast að einhverju ráði. Aðrir kynnast aldrei þó þeir umgangist hver annan daglega í mörg ár. Svo eru þeir sem hittast fyrsta sinni og finnst eins og þeir hafi þekkst alla ævi. Þannig var því farið með okkur Ingu. Við þekktumst ekki lengi en okkur fannst eins og við hefðum þekkst alla ævi, svo lík voru áhugamálin og lífsviðhorfin. „Hvers vegna kynntumst við ekki fyrr?“ var setning sem flaug oft á milli okk- ar. Þegar Inga hóf störf á Fræðslu- skrifstofu Reykjanesumdæmis fyrir tæpum tveimur árum var ljóst að þar fór afar sérstæður persónuleiki. Inga hreif hugi og hjörtu okkar allra með skarp- skyggni sinni, dugnaði, ljúfri framkomu, eilífri bjartsýni og smitandi hlátri. Hún var óhrædd við að hafa sínar eigin skoðanir á málum og tjá þær. Hún tók ekk- ert sem sjálfsagðan hlut og varp- aði oft fram spurningum sem fékk okkur, sem unnum með henni til að skoða hlutina út frá öðrum sjónarhornum. Það var mikið lán fyrir okkur öll að fá að kynnast Ingu. Hennar er sárt saknað og minningin um hana mun fylgja mér hvert ógengið fót- spor. „Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess, sem var gleði þín.“ (Kahlil Gibran) Ég sendi Bjarna Ómari, Rósu og Ragnheiði, móður Ingu, bróður og öðrum aðstandendum, mínar innilegustu samúðarkveðj- ur og bið góðan guð að blessa minningu þessarar einstöku konu sem var uppspretta gleði hjá okk- ur svo ótal mörgum. Far þú í friði friður Guðs þig blessi, hafðu þökk fyrir allt og allt. Gekkst þú með Guði, Guð þér nú fylgi, hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt. (Valdimar Briem) Valgerður Snæland Jónsdóttir „Víðsýnn andi hefur samúð með öllu. I samúðinni finnst konungdómurinn, í konungdómnum himinninn, og í himnirram Alvaldið. Sá, sem dvelur með Alvaldinu, líður ekki undir lok; þó að líkaminn leysist sundur, er eng- in hætta á ferðum.“ Samstarfsmaður minn og vinur Ingibjörg Gunnlaugsdóttir er látin. Ótrúlegt og erfitt að skilja. Þrátt fyrir þá staðreynd að dauðinn er sjálfsagður og óum- flýjanlegur og hluti tilveru okkar allra, er hann alltaf jafnóskiljan- legur. Hann er óviðsættanlegur og jafnvel óréttlátur þegar hann ber niður nálægt okkur sjálfum og hrífur einhvern á brott sem okkur þykir vænt um og við metum. Það fer ekki hjá því að við svona tíðindi staldri maður við og spyrji spurninga og berjist við til- finningar sem ekki er vaninn að glíma við í dagsins önn. Hvað er eilífð, hvað er almætti, hvers vegna hún, er þetta réttlátt, er einhver sem stjórnar þessu öllu? Á slíkum stundum þráum við svör. En eru til svör, eða eru svörin ef til vill svo augljós að við sjáum þau ekki? Við Ingibjörg hittumst í fyrsta sinni er ég heimsótti systur mína og unga frænku til Lundar í Sví- þjóð fyrir tæpum tveimur árum. Ingibjörg hafði þá verið í Svíþjóð í u. þ. b. eitt ár vegna sjúkdóms síns og var á förum heim. Það var yndisleg sumarbyrjun og allt lék í lyndi. Mér varð strax ljóst við þessi fyrstu kynni að Ingibjörg var mikil mannkosta manneskja og að mikill fengur yrði fyrir okkur að fá hana til starfa á Fræðslu- skrifstofu Reykjaness við skóla- þróun. Ég lagði því á ráðin við yfirmann minn strax og ég kom heim að við legðum að Ingi- björgu að koma og vinna með okkur. Hún hóf síðan störf hjá okkur á haustmánuðum 1987. Fyrstu verkefni Ingibjargar á skrifstofunni voru að skipuleggja og ákveða fyrirkomulag kennslu- gagnasafns stofnunarinnar. Hún skilaði þessu verki fljótt og vel og sýndi að hún bjó yfir miklum skipulagshæfileikum og næmu auga á gæðum verkefna og fyrir- komulagi öllu. Það leið því ekki á löngu að verksvið hennar víkk- aði. Áður en varði biðu verkefni í röðum og fleiri samstarfsmenn en gátu vildu fá hana til samvinnu við hin margvíslegu verkefni. Samt sagði Inga svo oft: „Mér finnst ég ekkert hafa gert“. Það voru ekki skipulagshæfi- leikar, dugnaður og óþrjótandi áhugi sem fyrst og fremst standa upp úr í minningunni um Ingu sem samstarfsmann. Það eru aðr- ir kostir og að mínu viti miklu mikilvægari og sjaldgæfari en þeir sem áður eru taldir. Ingi- björg var hógvær, lítillát og tróð sér aldrei fram fyrir aðra með sínar skoðanir. Hún hreykti sér aldrei og gaf alltaf öðrum tæki- færi á að viðra skoðanir sínar og hugmyndir. Hún sýndi í verki að hún bjó yfir þeim þroska og því mannviti að þora að efast og taka gagnrýni, án þess að fyrtast eða taka það nærri sér. Ekkert verk- efni var svo lítið og svo óvirðulegt að henni þætti sér það ósamboð- ið. Þá var hún oftast fyrst til að segja: „Ég skal gera það.“ Hógværð, lítillæti, einlægni og efi eru eiginleikar sem eru allt of sjaldgæfir í mannlegum sam- skiptum í dag. Ingibjörg hafði samúð með öllum og virti allar skoðanir. „Sá, sem veit hve ljóminn gengur í augun, en heldur sig þó í skugganum, verður fyrirmynd allra að hógværð." Lao-Tse Ingibjörg er ekki farin og er aldrei öll. Hún sáði frjókornum velvildar og hógværðar og vin- semdar, og hefur það haft djúp áhrif á okkur öll sem með henni störfuðum. Vonandi ber sú sán- ing ávöxt í bættri framkomu okk- ar hvert við annað og þá sem okk- ur erfa. Á þann hátt er Ingibjörg með okkur, hún hefur bætt heim- inn og er því hluti af honum áfram. Ég er innilega þakklátur fyrir að hafa fengið tækifæri til að vera samvistum við Ingibjörgu þó stutt væri og læra af henni og fá að hafa hana með mér áfram í minn- ingunni, hlýja, sanngjarna og vel- viljaða. Ég votta Bjarna Ómari, Rósu litlu og Ragnheiði og fjölskyld- unni allri mína dýpstu samúð og vona að allir góðir vættir styrki þau og styðji á þesum erfiðu tím- um. Guðjón E. Ólafsson Lao-Tse AÐAL- FUNDUR Aðalfundur Iðnaðarbanka íslands hf. árið 1989 verður haldinn í Súlnasal Hótel Sögu föstudaginn 17. mars 1989oghefstkl. 14:00. Dagskrá: 1. Aðalfundarstörf skv. ákvæðum 35. gr. samþykkta bankans. 2. Tillaga um útgáfu jöfnunarhlutabréfa. 3. Tillaga um breytingu á samþykktum bankans vegna breytinga á skattlagningu veðdeilda 4 Önnur mál, löglega upp borin. Aðgöngumiðar að fundinum verða afhentir hluthöfum eða umboðsmönnum þeirra í Iðnaðarbankanum, Lækjargötu 12,2. hæð frá 10. mars nk. Reikningar bankans fyrir árið 1988, ásamt tillögum þeim sem fyrir fundinum liggja, verða hluthöfum til sýnis á sama stað. Tillögur, sem hluthafar vilja leggja fyrir fundinn, þurfa að hafa borist bankaráðinu skriflega í síðasta lagi 9. mars nk. Reykjavík 15. febrúar 1989 Bankaráð Iðnaðarbanka íslands hf. © Þriðjudagur 7. mars 1989 ÞJÓÐVILJINN — SÍÐA 9

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.