Þjóðviljinn - 30.03.1989, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 30.03.1989, Blaðsíða 4
þJÓÐVIUINN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Kippt í spottana Fyrirtækið Flugleiðir hf. er nú komið í óopinberan skæru- hernað gegn orlofsferðum verkalýðsfélaganna með Arnar- flugi og Sterling. Annarsvegar hefur Flugleiðastjórnin ákveðið að hefja verðstríð á þeim orlofsleiðum sem Flug- leiðir fara líka, og skeyta þannig engu um tap til skamms tíma ef takast mætti að koma höggi á þennan óvænta keppi- naut. Hinsvegar ætla Flugleiðamenn sér Ijóslega að beita valdi sínu innan kerfisins til að bregða fæti fyrir orlofsferðaáætl- anir verkalýðsfélaganna. Embætti flugmálastjóra hefur til- kynnt að þaðan verði ekki gefið leyfi til leiguferða verkalýð- sfélaganna á leiðum sem Flugleiðir hafa á einkaleyfi, og innan Flugráðs virðast sterkar raddir um að feta sama veg- inn. Einkafyrirtækið Flugleiðir hefur byggt sér sterka aðstöðu í íslensku stjórnkerfi og ber ægishjálm yfir önnur flugfélög, bæði í innanlandsflugi og millilandaflugi þarsem því virðist vera að takast að ryðja eina innlenda keppinautnum úr vegi. Og nú á að kippa í alla spotta. Bakgrunn málsins þekkja menn, - átök Flugleiða með VSÍ að baki við verslunarmenn á Suðurnesjum um verkfalls- réttinn. Flugleiðir standa í málaferlum þarsem ætlunin er að beita lagakrókum til að útvatna verkfallsréttinn, meðal ann- ars með löghelgun á verkfallsbrotum. Flugmálastjóri segir ákvörðun sína byggja á skipunum fyrrverandi yfirmanns síns um þrönga lagatúlkun. Raddir um svipaða afgreiðslu innan Flugráðs styðja sig við þá venju að hygla einkaleyfishöfum með því að hamla framgangi leiguflugs á þeirra leiðum. Þessi regla kom þó ekki í veg fyrir samskonar leiguflug verkalýðssamtaka 1984, ‘85 og ‘87, einmitt með Sterling, einmitt milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar. Að auki hefur einokunarfyrirtækið brotið almennar sam- skiptareglur við starfsmenn sína, og stendur nú í pólitísku stríði sem illa hæfir stöðu hálfopinbers einkaleyfishafa. Getur verið að sjálft Flugráð sé svo bundið á klafa Flug- leiða að það taki pólitíska afstöðu gegn verkalýðshreyfing- unni í þessum orlofsferðamálum? Bregðist ráðsliðar hlýtur verkalýðsfélögunum að vera styrkur að því að síðan flugmálastjóri fékk skipanir sínar hafa orðið mannaskipti í samgönguráðuneytinu. Þar fer nú með ráðherravald Alþýðubandalagsmaðurinn Steingrímur J. Sigfússon. Og þar er ekki lengur hægt að kippa í spotta. 30. mars Fjörutíu ár eru langur tími í ævi manns, og er auðvitað að þeim sem starfað hefur þann tíma að settu marki og ekki unnist sem skyldi - honum þykir verkið á stundum til lítils. En fjörutíu ár eru skammur tími í lífi þjóðar. Og þegar frá líður verður ekki spurt hversu lengi var að verið heldur hver kvað. Þótt margt hafi breyst frá Natósamþykkt og hvítliðaárás 1949 og endurkomu hersins 1951 sýna nýjar uppákomur kringum heræfingu og varaflugvöll að í grundvellinum er staðan í sjálfstæðismálum sú sama og fyrir fjörutíu árum. íslendingar eru í varnarstöðu gagnvart ósvífinni ásælni er- lends herveldis, sem á víxl beitir hótunum og loforðum um gull. Það skiptir miklu fyrir íslenskt samfélag, sjálfstæði þess, þjóðernisvitund og menningu, að þessa fjóra áratugi hefur fjölmenn sveit haldið uppi andófi við hið erlenda vald og notið til þess stuðnings frá miklum hluta þjóðarinnar, oft yfirgnæfandi meirihluta hennar. Þegar þess er minnst að fjörutíu ár eru liðin frá því barátt- an gegn herstöðvum var skírð í táragasi á Austurvelli hafa þær ánægjulegar breytingar gerst að þessi sveit herstöðva- andstæðinga hefur eignast nýjan liðsmann. Það er sjálfur tíminn, sem nú hefur eindregið lagst gegn her og hernaðar- bandalögum, - og með hans hjálp skulum við hefja merkið enn hærra á loft en áður. Herstöðvaandstæðingar gangast í dag klukkan eitt fyrir athöfn á Austurvelli, og á sunnudag verður baráttudagskrá á þeirra vegum í Háskólabíói. -m KLIPPT OG SKORIÐ Hvers vegna ekki? Tilhlökkunin fyrir komandi þjóðhátíð hefur aldrei verið eins mikil í hugum landsmanna, frá því þeir hópuðust til Þingvalla í grenjandi rigningu fyrir réttum 45 árum. Þá vorum við ung, sjálfstæð en öryggislaus þjóð. Nú er hins vegar bjartara yfír. Glað- asólskin þann 17. júní samkvæmt langtímaspánni. Sjálfstæðis verður nú minnst undir öryggi og vernd hins hug- umprúða „varnarliðs“ frá Vín- landi, sem ætlar að fjölmenna á hátíðir á völlum og heiðum lands- ins, sjálfum sér og einkum lands- mönnum til yndisauka. Hvflík dýrð og hvflík sæla. Dagskrá nýja hernámsins hefur þegar verið kynnt rækilega fyrir Iandsmönnum í Morgunblöðum útvarps og sjónvarps og utanrík- isráðherrann, sem hefur lofað því að vera heima, á sjálfan hátíðis- daginn, hefur mælst til þess að borgarar landsins taki hlýlega á móti verndurunum og sýni þeim þakklæti fyrir vel unnin varnar- störf heima og heiman. Heiðursskot á holtinu Það má rétt ímynda sér hvort ekki verður tignarlegt að sjá her- fýlkinguna stilla sér upp fyrir framan styttu Leifs Eiríkssonar á Skólavörðuholti árdegis þann 17. Á sama tíma og forseti borgar- stjórnar leggur kransinn á leiði Jóns forseta í Suðurgötugarðin- um, mun bergmála um alla borg- ina, ómurinn af heiðursskotum af holtinu. Á eftir verður marsérað niður á Lækjartorg þar sem hald- in verður sýning fyrir borgarbúa og aðra gesti á þeim fjölbreytta tækjabúnaði sem fluttur verður yfir hafíð, til þess að sanna í verki elsku og umhyggju verndarans fyrir mörlandanum. Eftir að hafa þrammað í svo sem klukkustund eftir Lækjar- götu og meðfram Tjörninni munu herfylkingar skipta liði. Öryggissveit herliðsins ætlar að umkringja sendiráðslóðir austantjaldsríkjanna í Garðast- ræti og Túngötu og tryggja þann- ig að enginn verði til að spilla fyrir né halda uppi njósnum af hinni eiginlegu herverndaræ- fingu. Allir fái að vera með Til að tryggja jafnan rétt allra landsmanna til herverndar, munu liðsmenn víkingasveitanna frá Vínlandi reyna að koma sem víðast við á heræfingum sínum. Það mun vera mikill misskilning- ur sem eitthvert dagblaðið hélt fram að þessar æfingar eigi að fara fram fyrir luktum dyrum innan gaddavírsgirðinga á Mið- nesheiði. Slíkt þjónaði engum til- gangi, eins og áróðursmeistari herfylkingarinnar hefur lýst yfír opinberlega. Að sjálfsögðu eru þessar herverndaræfingar fyrir landsmenn og því ekki nema eðli- legt að landsmenn allir fái að fylgjast gjörla með og jafnvel þeir hugdjörfustu að taka þátt í hinum minni háttar æfingum. Hvaða vit er í því að ætla að æfa einhverjar varnir á grjótmelum á Suðurnesjum? Hvers eiga íbúar höfuðborgarinnar að gjalda? Eru þeir eitthvað minna virði en Suðurnesjamenn? Og hvað um jafnvægi í byggð landsins? Á kannski að gefa Sovétmönnum eða einhverjum öðrum misyndis- mönnum færi á því að eyða allri byggð annars staðar en á Suður- nesjum? Hvað verður þá um „norðlenskuna" og hvað er utan- ríkisráðherra að hugsa? Er það virkilega of „langur gangur" fyrir verndarann að fara vestur á firði og vernda það þjóðlegasta af öllu þjóðlegu í voru þjóðfélagi? Eining um þjóðlega þjóð Að sjálfsögðu ætlar verndarinn að koma við í öllum byggðum. Enginn verður skilinn útundan og þjóðinni mun nú loks gefast kostur á að berja augum glæsi- menni í glæsibúningum með glæsiverjur og glæsivopn. Hvort heldur eru aðalmenn eða vara- menn, skiptir ekki máli. Allir eru þeir reiðubúnir að verja okkur, okkar land og okkar þjóðtungu fyrir óæskilegum erlendum áhrif- um. Er það ekki þetta sem allir al- þingismenn og Jón Óttar að auki eru sífellt að prédika um? Þjóðar- einingu um þjóðlega þjóð. Við verðum að fórna öllu til að tryggja okkar þjóðlega arf og til mikillar blessunar eigum við góða vini í raun sem eru líka til- búnir að fórna öllu fyrir okkar þjóðararf. Á síðasfa „sjens“ Það er auðvitað ekki annað en kommalygi, að þetta æfinga- ferðalag verndaranna til okkar á sjálfan þjóðhátíðardaginn, sé ekki annað en skemmtiferð á norðurslóðir til að geta grillað og drukkið Budweiser í miðnætur- sólinni. Þeir sem tala af slíkri óvirðingu um bjargvætti okkar og verndara, sem eru að reyna að hætta við að hætta að kaupa af okkur fisk vegna hvalaveiðanna, vita alls ekki um hvað málið snýst. Þeir gera sér ekki grein fyrir því að það eru síðustu forv- öð fyrir „okkar menn“ að fá að æfa sig hér heima í friði. Þetta verður trúlega í síðasta sinn sem allir strákarnir fá tækifæri til að leika sér saman í miðnætursólinni einir og sér. Því það vita það allir sem vilja vita að eftir þessa eilífð- ar friðarsáttmála Reagans og Gorbatsjovs, þá liggur ljóst fyrir að hér eftir fá þeir ekki að æfa sig í að vernda okkur, nema að Rúss- arnir verði með og fái að leika óvininn. Nei, má ég þá heldur biðja um venjulegan 17. júní með rigningu og Ömari Ragnarssyni. -Jg- Þjóðviljinn Síðumúla 6 108 Reykjavík Sími 681333 Kvöldsími 681348 Útgefandi: Útgáfufólag Þjóðviljans. Ritstjórar: Árni Bergmann, MörðurÁrnason, Silja Aðalsteinsdóttir. Fróttastjóri: Lúðvík Geirsson, Aðrir blaðamenn: Dagur Þorleifsson, Elías Mar (pr.), Elísabet Brekkan, Guðmundur RúnarHeiðarsson, HildurFinnsdóttirjpr.), Jim Smart(ljósm.), KristóferSvavarsson, MagnúsH. Gíslason.Ólafúr Gíslason, Páll Hannesson, SigurðurÁ. Friðþjófsson (umsjm. Nýs Helgarblaðs), SaevarGuðbjörnsson, Þorfinnurömarsson(íþr.), ÞrösturHaraldsson. Framkvæmdastjóri: Hallur Páll Jónsson. ' Skrif stof ustjóri: Jóhanna Leópoldsdóttir. Skrifstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pótursdóttir. Auglýslngastjóri: Olga Clausen. Auglýsingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur Ágústsdóttir. Símavarsla: Sigríður Kristjánsdóttir, ÞorgerðurSigurðardóttir. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Húsmóðir: Erla Lárusdóttir Útbreiðslu- og afgreiðslustjóri: Björn Ingi Rafnsson. Afgreiðsla: Halla Pálsdóttir, HrefnaMagnúsdóttir. Innheimtumaður: Katrín Ðárðardóttir. Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, símar: 681333 & 681663. Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrotog setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasölu: 80 kr. NyttHelgarblað: 110kr. Áskriftarverð á mánuði: 900 kr. 4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Fimmtudagur 30. mars 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.