Þjóðviljinn - 07.04.1989, Blaðsíða 11

Þjóðviljinn - 07.04.1989, Blaðsíða 11
Tilviljun hvert maður fer Sigrid Valtingojer í Gallerí Borg Sigrid Valtingojer opnaði sína sjöttu einkasýningu í Gallerí Borg í gær eftir tals- vert hlé. Hún fæddist í Þýskalandi 1935, en hefur búið á íslandi frá 1961. Hvers vegna? „Ja, það er auðvitað tilvilj un hvert maður fer þegar maður er ungur og ævintýra- gjarn,“ svarar Sigrid, „en það er engin til- viljun hvar maður dvelur. ísland var af- skaplega spennandi land árið 1961, allt öðruvísi en það er núna. Ég var hér lengur og lengur og svo uppgötvaði ég allt í einu að ég átti ekki lengur heima í Þýskalandi held- ur hér.“ Á sýningunni eru sautján myndir, grafík- myndir og myndir gerðar með blýanti og olíukrít. Þetta eru fíngerðar myndir og minna margar á landslag sem lætur lítið yfir sér. „Það sem myndirnar eiga að sýna eru tilfinningar,“ segir hún, „formin í landinu hjálpa mér til að túlka þær.“ Sigrid er fyrst og fremst grafíklistamaður og hefur fengið alþjóðlegar viðurkenningar fyrir myndir sínar. Síðast hlaut hún ítölsku Biella verðlaunin sem veitt eru einum lista- manni hverju sinni. Dómnefnd kunnra listfræðinga sagðist veita henni verðlaunin fyrir „ágætt vald á tækni sem gerir henni kleift að skapa myndir sem valda sterkum hughrifum og eru þó fallegar á kyrrlátan hátt.“ Verðlaunin hlaut hún fyrir grafík- mynd, en hún einskorðar sig ekki við þá tækni. „Nei, blýanturinn hentar stundum mjög vel til að vinna sig áfram og olíukrítin sem ég gerði Ferð til jarðar með er eins og krakkar nota. Þá er hægt að vinna alveg spontant! Það er gaman til tilbreytingar vegna þess að grafíkin er svo hæg. Það tekur mig mánuð að fullgera málmplötuna sem þrykkt er af á pappírinn. Hvert stig þarf að hugsa fyrirfram, gera prufur við og við til að finna leiðina áfram. Það er miklu frjálsara að teikna og mála, og þá sér maður árangur um leið og maður dregur línuna. Grafíkin krefst þolinmæði, maður er alltaf að bíða.“ Stíll þinn hefur breyst mikið síðan þú myndskreyttir bækur upp úr 1970. Fólkið er mikið til horfið úr myndunum á sýning- unni... „Maður vinnur sig áfram, bætir við tækni, nær betri tökum á því sem maður vill að komi fram. Verður öruggari. Svo er um- heimurinn líka stöðugt að breytast. Þegar ég teiknaði fólk þurfti ég þess með vegna þess hvar ég var stödd sjálf. En þegar ég var búin að afgreiða það opnaðist lands- lagið fyrir mér, og íslenskt landslag er svo stórkostlegt að maður getur verið í því ævi- langt. Þó langar mig til að setja fólk inn í það eins og tilraunir sjást með á nokkrum myndum á sýningunni. Þarna eru til dæmis tvær fígúrur, einhvers konar vélmenni og svo maður með refshaus. Verur úr goð- sögnum og þjóðsögum sem eru hálfur mað- ur og hálft dýr höfða sterkt til mín.“ Flestar myndirnar eru svarthvítar, eða gráhvítar, fáeinar eru í lit. Tvær eru fagur- grænar og skera sig úr, kalla á vetrarþreytt augu skoðandans. „Grænu myndirnar geri ég á veturna, þá langar mann svo að sjá eitthvað sem lifir.“ En þær gráu? „Fyrir mér eru þær líka ísland, eins og það er mestan hluta ársins - drungalegt en dularfullt." SA Sigrid Valtingojer. Mynd Jim Smart. Föstudagur 7. apríl 1989 NÝTT HELGARBLAÐ - SÍÐA 11

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.