Þjóðviljinn - 12.04.1989, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 12.04.1989, Blaðsíða 4
Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Skandall í Sigló „Algjör skandall“ er einkunnin sem Siguröur Hlöðversson bæjarráðsmaður á Siglufirði gefur gjaldþrotamáli Sigló hf. í Þjóðviljanum í gær, og lýsir þar á kjarnyrtan hátt áliti Siglfirðinga á því máli. Ekki nema von. Jón Guðlaugur Magnússon bissnessmaður í Kópavogi og aðrir hluthafar Sigló ákveða að hlaupa frá ábyrgð á fyrirtæk- inu og losa sig við 300 miljóna skuld. Sömu menn stofna tveimur dögum áður nýtt fyrirtæki, Siglunes hf., beinlínis í þeim tilgangi að taka yfir rekstur þrotabúsins. Þeir leita síðan til fógeta, Erlings Óskarssonar. Hann tekur þeim opnum örmum, fellst á gjaldþrotsbeiðnina, skipar sam- dægurs bústjóra, og um kvöldið er búið að leigja Siglunesi, hinu nýja fyrirtæki gjaldþrotsmanna, þrotabú gamla Sigló með manni og mús. Svo sannarlega snöfurmannleg af- greiðsla hjá fógeta í viðkvæmu máli og hlýtur svo röggsamur og vikalipur embættismaður að vera bæjarfélaginu mikill máttarstólpi. Raunar er erfitt að tala um að rækjuvinnslan hafi sér eigendur í þeim Jón Guðlaugi. Fjármálaráðherrann Albert Guðmundsson seldi þessum nokkru Framsóknar- og Sjálf- stæðismönnum ríkisfyrirtækið Siglósíld árið 1984 fyrir um 18 miljónir. Þetta verð hafa Jón Guðlaugur og vinir hans ein- faldlega aldrei greitt, og er skuld þrotabúsins við ríkið vegna kaupverðsins nú 60 miljónir. Þessir félegu „eigendur" - flestallir utanbæjarmenn - skilja að auki eftir sig tugmiljónaskuldir við Siglufjarðarbæ, sjóði verkalýðshreyfingarinnar á Siglufirði og önnur atvinnu- fyrirtæki í bænum. Og þeir hafa á þeim tíma sem liðinn er síðan þeir „keyptu" Siglósíld afrekað að fækka atvinnutæki- færum við fyrirtækið með því að selja í annan landshluta svokallaða gaffalbitalínu, sem varð mikið hitamál nyrðra á sínum tíma. Hvert framantalinna málsatvika er eitt og sér þess eðlis að réttlæti ásökun Sigurðar Hlöðverssonar og annarra Siglfirðinga. Allra alvarlegast er þó ef til vill það að „eigendurnir" hafa ekki sinnt réttmætum óskum heimamanna um áhrif í þessari erfiðu stöðu rækjuvinnslunnar. Fyrirtæki, einstaklingar, op- inberir aðilar og félagsleg hreyfing í kaupstaðnum hefur beðið um að geta tekið þátt í björgunaraðgerðum, og jafnvel viljað fá að taka yfir fyrirtækið. Þessu hefur verið hafnað. „Eigendurnir" að sunnan vildu frekar fara á hausinn, enda tapaði enginn á því nema Siglfirðingar og ríkissjóður. Jafnvel þegar allt var komið í kring óskuðu heimamenn eftir því að taka þrotabúið á leigu, en fógeti sá til þess að gjaldþrotsliðið að sunnan héldi áfram. Þetta mál er ótrúlegt og stangast á við alla almenna siðferðisvitund þótt það sé raunar alls ekki einsdæmi. Lög eru meira en lítið gölluð ef þeir Sigló-kumpánar sleppa. Fyrir almenningi í landinu er skandallinn í Sigló glöggt dæmi um ábyrgðarlaust einkakapítalsbrall, án tangurs af félagslegri ábyrgð og án teturs af siðferðisvitund. Lífshætta í noröurhöfum Þingmenn úr fjórum flokkum, þau Hjörleifur Guttormsson, Kristín Einarsdóttir, Guðmundur G. Þórarinsson og Aðal- heiður Bjarnfreðsdóttir hafa lagt fram á alþingi tillögu um að íslendingar beiti sér fyrir alþjóðaráðstefnu um afvopnun á norðurslóðum. Áður hefur Olafur Ragnar Grímsson lagt þetta til á norrænum vettvangi, en Þórarinn Þórarinsson setti hugmyndina fram í vetur í grein í Tímanum um varaflugvall- aráform. Þetta eru þörf viðbrögð við válegum tíðindum, og óskandi að þingmenn geti nú losað sig úr gömlu kaldastríðs- fjötrunum. Slysið í Barentshafi sýnir vel að afvopnunarmál eru okkur íslendingum miklu mikilvægari en svo að við getum látið þau risaveldunum eftir. -m Þeir eru ekki glaðir Þið munið að mikið gekk á þeg- ar verið var að ræða um þá breytingu á útvarpslögum sem opnaði fyrir Stöð tvö og einkaút- varpsstöðvarnar. Málum var þannig upp stillt, að annarsvegar fóru skelfílegir einokunarsinnar og forræðishyggjumenn sem trúðu á forsjá ríkisins, á ófrelsið sem ekki tekur tillit til þess „sem fólkið vill“ - að öllum líkindum voru þeir kommar eða laumu- kommar. Hinsvegar fóru sannir vinir frelsisins sem trúðu á sam- keppnina sem bætir dagskrárnar og eykur úrvalið og fjölbreytnina svo allir una glaðir við sitt. Það er í rauninni einhver merkilegasta breyting sem orðið hefur á þjóðmálaumræðunni, að. á skömmum tíma er eins og fögn- uður frelsisvinanna hafi snúist upp í allsherjarvonbrigði og ráð- leysi. Það verður kannski ekki það sama sagt um ríkiseinokun á ljósvakafjölmiðlum og and- skotann, sem tekinn var úr sálm- abókinni og settur svo inn í hana aftur „vegna þess að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hef- ur“. En hitt er víst, að hrifningin af sjónvarps- og útvarpsfrelsinu er í lágmarki. Þeir sem harðast fyrir því börðust eru í svipaðri stöðu og Magnús í Bræðratungu þegar hann hafði loks fengið það sem hjarta hans heitast þráði: brennivínskútinn. Þeir eru ekki glaðir. Það hefur myndast feikna- lega breið samstaða um að kvarta og kveina yfír „síbyljunni" í út- varpsstöðvunum - hvort sem menn nú eiga við mas út og suður um allt og ekkert eða hina til- breytingarlausu dynki poppsins. Það er eiginlega komin svo mikil síbylja á móti síbyljunni að mað- ur krossar sig í bak og fyrir og hleypur á fjöll - þar sem hvorki heyrist frjálst útvarp né heldur andmæli gegn því. Mogginn klórar sér í höfði Einn þáttur í þessum áherslu- breytingum er sá, að Morgun- blaðið, sem mjög brosti í átt til útvarpsfrelsisins, hefur í vaxandi mæli kallað á „ríkisforsjá“ í einni eða annarri mynd til að hægt sé að rétta hlut menningarinnar og tungunnar gagnvart fjölmiðla- frelsinu og þá ekki síst því, sem menn hafa sameinast um að kalla „holskeflu engilsaxneskra á- hrifa“. Þetta kemur fram með margvíslegu móti - til dæmis hjá þeirri moggasálarloftvog sem Víkverji er. Það var Víkverji sem um daginn stundi yfir því að Stöð tvö bauð upp á þrjár glæpamynd- ir á páskum: er það nú ekki full- mikið, sagði hann rétt sisona og ofur kurteislega. Svo kom þessi fróðlega klausa hér í Víkverja í gær: Reglur um sjónvarpsefni „Hér í blaðinu var frá því skýrt sl. laugardag að innan Evrópu- bandalagsins væri nú unnið að því að setja ákveðnar reglur um sjón- varpsefni íEvrópu. Meðal annars er stefnt að reglum um að sjón- varpsstöðvarnar verði að senda út efni sem er að minnsta kosti að helmingi evrópskt. Þetta er umhugsunarefni fyrir okkur íslendinga, sem eigum í vök að verjast vegna erlends sjónvarpsefnis. Eru menn tilbún- ir að setja slíkar reglur hér? Eða a.m.k. að setja reglur sem koma í veg fyrir að amerískt efni verði óeðlilega stór hluti útsendrar dagskrár? Það er mikil hvíld í að horfa á danska þáttinn Matador og þýska þáttinn Derrick". Þetta er nokkuð fróðleg klausa fyrir ýmissa hluta sakir. í fyrsta lagi skuli menn taka eftir því, að Víkverji á í nokkru sálarstríði um það, hvort hann eigi að leggja það til að gripið verði fram fyrir hendurnar á „frelsinu“ með „reglum". Hann spyr hvort „menn“ séu reiðubúnir að setja reglur um hlutföll á því efni sem íslenskar sjónvarpsstöðvar flytja. Hann mælir ekki beinlínis með því - enda gengi það þvert á það sem frjálshyggjuskólinn heldur fram. En hann hallast mjög að þeirri „miðstýringu" og þeirri „forræðishyggju“ sem kæmi að minnsta kosti í veg fyrir að hér sé varla annað á boðstólum í sjón- varpi en bandarískt efni á enda- lausu færibandi. Neyðin kennir... Ekki vegna þess að Víkverji (eða ýmsir menn miklu skárri) endilega „vilji boð og bönn“ eins og það heitir. Heldur blátt áfram vegna þess að þeir hafa fengið nóg. Og þegar menn hafa fengið nóg, þá verða þeir kannski nógu gramir til að fara að hugsa sitt upp á nýtt. Og þá kemur kannski að því að menn skilja, að þótt samkeppni geti virkað sæmilega vel á bílamarkað og sé hentug fyrir kaupendur skófatnaðar og kremkexætur, þá verður allt ann- að uppi þegar spurt er um það hvort menning lítillar þjóðar lifir eða deyr í fjölmiðladansinum æð- islega. Sá sem ætlar að afhenda til dæmis jafn mikilvægan menning- argeira og íslenska dagskrárgerð markaðslögmálunum til varð- veislu, hann vísar blátt áfram á það að íslensku framtaki á þessu sviði verði útrýmt eða svo gott sem. Svo einfalt er það. Aumlegt þvaður Ljúkum þessu svo á því að geta um það ámátlega fjölmiðlaspil sem leikið hefur verið dögum saman. Það snýst um hann Al- bert. Um Albert sem er svo góð- ur og ósérplæginn og er alltaf að þjóna öðrum og hugsar aldrei um eigin hag og má ekki sitt hafskips- vamm vita og allir Frakkar elska og þekkja og hann elskar sinn hund og Sjálfstæðisflokkinn og svo eru allir vondir við hann í staðinn og verstir þeir sem hann unni mest, Borgaraflokksmenn. Hvenær hafa menn fengið nóg af þessu auma þvaðri? ÁB Þjóðviljinn Síðumúla 6 * 108 Reykjavík Sími 681333 Kvöldsími 681348 Útgefandi: Útgáfufólag Þjóðviljans. Ritstjórar: Árni Bergmann, Möröur Árnason, Silja Aðalsteinsdóttir. Fróttastjóri: LúðvíkGeirsson. Aðrir blaðamenn: Dagur Þorleifsson, Elías Mar (pr.), Elísabet Brekkan, Guðmundur Rúnar Heiðarsson, Hildur Finnsdóttir fpr.), Jim Smart (Ijósm.), Kristófer Svavarsson, Magnús H. Gíslason, Ólafur Gíslason, Páll Hannesson, SigurðurÁ. Friðþjófsson (umsjm. Nýs Helgarblaðs), Sævar Guðbjörnsson, Þorfinnur ómarsson (íþr.), Þröstur Haraldsson. (Framkvæmdastjóri: Hallur Páll Jónsson. ' Skrifstofustjóri: Jóhanna Leópoldsdóttir. Skrifstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pótursdóttir. Auglysingastjóri: Olga Clausen. Auglýsingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur Ágústsdóttir. Símavarsla: Sigríður Kristjánsdóttir, ÞorgerðurSigurðardóttir. * Bílstjóri: JónaSigurdórsdóttir. Húsmóðir: Eria Lárusdóttir Útbreiðslu-og afgreiðslustjóri: Björn Ingi Rafnsson. Afgreiðsla: Halla Pálsdóttir, HrefnaMagnúsdóttir. Innheimtumaður: Katrín Bárðardóttir. Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, símar: 681333 & 681663. Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasöiu: 80 kr. Nýtt Helgarblað: 110kr. Áskriftarverð á mónuði: 900 kr. 4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Ml&vikudagur 12. apríl 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.