Þjóðviljinn - 03.05.1989, Page 9

Þjóðviljinn - 03.05.1989, Page 9
MINNING Helga Finnsdóttir 28. september 1895 - 25. apríl 1989 Brenndur af brandi brenn uns brunninn er, funi kveikist af funa. Maður af manni verður af máli kunnur en til dœlskur af dul. Þessi spakmæli Hávamála eiga við, er ég minnist tengdamóður minnar, Helgu Finnsdóttur, en útför hennar verður gerð frá Fossvogskapellu í dag 3. maí. Helga fæddist að Stóru-Borg undir Eyjafjöllum, hún var dóttir hjónanna Ólafar Þórðardóttur og Finns Sigurfinnssonar, er þar bjuggu. Föður sinn missti hún árið 1901. Hann var ásamt fleira fólki, flestu undan Fjöllunum, í kaupstaðarferð þegar bátur þeirra fórst við innsiglinguna í Vestmannaeyjahöfn. Þá var Helga á 6. ári. Átta ára gömul var hún send til Vestmannaeyja og ólst þar upp. Árið 1920 þann 20. maí giftist hún Sigurjóni Pálssyni frá Hjörts- bæ í Keflavík. Helga lifði mann sinn, en hann lést árið 1975. Mér er bæði ljúft og skylt að minnast hennar nokkrum orðum, því hún var ekki einungis góð tengdamóðir og amma barnanna minna heldur var hún mér sem besta móðir. Helga átti heimili hjá okkur hér í Mosfellsbæ í 8 ár og var það ánægjulegur tími, sem skilur eftir ljúfar minningar og við erum þakklát fyrir að hafa átt þessi ár með henni. Hún átti gott með að færa hugs- anir sínar í orð og talaði fallegt mál, hafði á takteinum mörg gömul orð og orðtök, sem eru að hverfa úr talmáli okkar. Minni hennar var ótrúlegt, því hún var hafsjór fróðleiks um menn og málefni liðinna tíma. Þennan fróðleik var hún óspör á að miðla öðrum, m.a. var hún áhugasöm um að taka þátt í upp- lýsingasöfnun þjóðháttastofn- unar, um líf og störf fyrri tíma. Það er athyglisvert og rétt að hugleiða, hvað hennar kynslóð, hin svokallaða aldamótakynslóð, upplifði róttækar breytingar, sem orðið hafa í lífi þessarar þjóðar. Lærdómsríkt var að fylgjast með hversu eiginlegt það var Helgu að laga sig að breytingum án þess þó að missa rótfestu sína. Helga var mjög fróðleiksfús, las mikið og fylgdist með því sem var að gerast í þjóðlífinu og hafði ákveðnar skoðanir á mönnum og málefnum. Stjórnmálaáhugi hennar hafði þó dvínað frá fyrri tíð, þegar hún skipaði sér í raðir þeirra, sem börðust fyrir bættum hag verkafólks og tók þátt í störf- um Kvenfélags Sósíalista. Snar þáttur í lífi Helgu var saumaskapur, en hún fór til Kaupmannahafnar árið 1915 til náms í kjólasaum. Þegar hún kom aftur heim til íslands 1917, tók hún til við sauma. Fyrst gekk hún í hús og saumaði þar á ann- arra manna saumavélar, eins og hún orðaði það sjálf. Seinna kom hún sér upp saumastofu, tók lærlinga og hélt auk þess nám- skeið bæði hér í Reykjavík og í Vestmannaeyjum. Gat hún þannig á erfiðum tímum aflað heimilinu lífsviðurværis þegar ekki var annað að hafa. Eftir dvöl hennar í Danmörku hafði hún sterkar taugar til þess lands, þar átti hún marga góða vini og ferðaðist oft þangað á seinni árum. Auk þess fór hún oft til yngstu dóttur sinnar og hennar fjölskyldu í Bandaríkjunum. Þessar siglingar hennar eru kannski fyrst og fremst merkileg- ar fyrir þær sakir að hún var á 87unda ári þegar hún fór síðast til útlanda. Hún lét því aldrei deigan síga meðan hún mátti. Einnig ferðaðist hún mikið innanlands, bæði hringferðir á sjó og landi, að ég tali nú ekki um ferðir hennar til Eyja, það væri að bera í bakkafullan lækinn að telja þær upp. Til Vestmannaeyja bar hún sterkar taugar í brjósti og í henn- ar augum voru tveir fegurstu staðir landsins Eyjarnar og Eyja- fjöllin. Á seinni árum hafði Helga mikla ánægju af því að taka þátt í félagsstarfi aldraðra, bæði í Reykjavík og eins í Mosfellsbæ eftir að hún flutti þangað. Hún eignaðist marga góða vini í gegn- um það starf og ekki síst hér í Mosfellsbæ, hvar hún mætti vin- semd og alúð. Helga var fríð kona og reisn yfir henni alla tíð, hún hélt and- legu atgervi sínu uns hún veiktist á síðastliðnu hausti. Nú er hún horfin yfir móðuna miklu þessi elskulega kona. Hafi hún þökk fyrir allt, sem hún gerði og var okkur sem eftir stöndum. Þau Helga og Sigurjón eignuð- ust 6 börn: Finn, bókavörð Bóka- safns Seltjarnarness og tvíbura- bróður hans Sigurjón Helga, en hann lést 17 ára að aldri, Hennýju Dagnýju, sem var gift Einari Þorsteinssyni rakarameist- ara, en hann lést 1978, Ólöfu Ingibjörgu, sem er gift Helga Eiríkssyni aðalbókara, Pálínu Þuríði hjúkrunarforstjóra, sem er gift undirrituðum og Jóhönnu Kristínu, sem er gift Froda Eller- up vélstjóra. Þakkir og kveðjur eru færðar starfsfólki þjónustuíbúða aldr- aðra við Dalbraut, læknum og hjúkrunarfólki Landspítalans, deild II-A og Skjóls við Klepps- veg. Trú á eigin dug og dáð drengskap, vit og bjargarráð, trú á íslands tign og auð trú á meir en þrœldómsbrauð. (M. Jochumsson). Með þessum ljóðlínum kveð ég elskulega tengdamóður mína. Sigmundur R. Helgason Helga Finnsdóttir, langamma barnanna minna, er látin. Helgu kynntist ég fyrir fimm árum og skildi þá fljótt, að hér var á ferð- inni einstök kona fyrir margra hluta sakir. Hún var sérstaklega glæsileg og svipfalleg gömul kona, þá 88 ára að aldri. Við nán- ari kynni fann ég að hún var skarpgreind og ótrúlega ern. Allt milli himins og jarðar mátti ræða við Helgu, viska hennar og þekk- ing á mörgum sviðum var alveg sérstök og viðmót hennar allt ein- kenndist af einstakri hlýju. Það verður að segjast eins og er, að ég féll algerlega fyrir þessari öldr- uðu konu. Manni leið vel í návist Helgu Finnsdóttur. Helga var mjög skemmtileg í samræðum við fólk og þegar hún sagði frá. Þær voru ófáar sögurn- ar skemmtilegu sem byrjuðu: „Það var einusinni maður úr Vestmannaeyjum...“ og við- staddir brostu góðlátlega, vegna þess að þessar sögur virtust ótelj- andi. Helga naut þess að segja frá, enda hafði hún frá mörgu að segja frá löngum æviferli. Kom þar skýrt fram hversu gott vald hún hafði á móðurmálinu. Þegar minnst er einhvers ná- komins, hrannast minningarnar upp, oft í skýrum myndum. Af miklu er að taka, þegar Helgu er minnst, þrátt fyrir stutt kynni. Ein myndin er af Helgu við stofuborðið á Arnartanga. Heimilisfólkið er í spurningaleik. Auðvitað er Helga miðpunktur- inn við borðið, hrókur alls fagn- aðar, stóð sig oft langbest, sér- staklega þegar spurt var um þjóð- legan fróðleik. Við skemmtum okkur konunglega - og sérstak- lega Helga, þvf hún hafði hið mesta yndi af hverskyns spila- mennsku og hugarleikfimi. Önnur mynd tengist því er upp komst um fákunnáttu undirritaðs í íslenskri ljóðlist og ýmsu því sem þjóðlegt var, bæði í sögu landsins og menningu. „Og þú, langskólagenginn maðurinn og kennari að auki...!!“ sagði hún gjarnan með glettnisglampa í augum. Stríðni hennar var góð- látleg og notaleg og bar ekki vott um annað en hlýju of væntum- þykju - og svo fannst henni þetta auðvitað skemmtilegt. Það eru engin ný sannindi, að menntun mælist ekki einvörðungu í skóla- göngu. Helga var okkur ljóslif- andi sönnun þessa. Með þessum fáu línum vil ég kveðja góða vinkonu, sem kenndi mér margt. Guð blessi minningu hennar. Valdemar Pálsson í dag er til moldar borin frá Fossvogskirkju Helga Finnsdótt- ir, sem lést 25. apríl s.l. á Hjúkr- unarheimilinu Skjóli, Reykjavík. Helga fæddist 28. september 1895 á Stóruborg, Austur- Eyjafjallahr., Rang. Foreldrar hennar voru: Finnur Sigurfinns- son f. 15. nóv. 1855, d. 16. maí 1901, bóndi á Stóruborg og k.h. Ólöf Þórðardóttir f. 20. jan. 1863, d. 1935. Finnur, er fimmti maður í beinan karllegg frá Högna Sigurðssyni presti f. 11. ágúst 1693, d. 7. júlí 1770, þekkt- ur fyrir að eiga átta syni, er allir urðu prestar. Finnur fórst í sjó- slysinu mikla á Uppstigningardag 1901, er Eyjafjallabáturinn Björgólfur hvolfdi í innsiglingu- nni til Vestmannaeyja, með 28 manns úr sömu sveit innanborðs og aðeins einn maður komst lífs af. Helga var aðeins fimm ára, þegar faðir hennar drukknaði og móðir hennar gekk þá með 13. barnið, sem fæddist sjö mánuð- um síðar. Af systkinahópnum dóu 5 í frumbernsku, en 8 komust til fullorðinsára, þau voru: Jón- ína, Jóhann Kristinn, Þórfinna, Sigrún, Helga, Ingibjörg, Finn- bogi og Friðfinnur. Jóhann, Ingi- björg og Finnbogi náðu ekki þrí- tugs aldri og nú er Friðfinnur einn eftir á lífi. Eftir lát Finns reyndi Ólöf að búa áfram á Stóruborg, en gafst upp eftir eitt ár og varð að láta flest börnin frá sér, Helga ólst upp hjá vandalausum, fyrst á Hlíð undir Eyjafjöllum, síðar í Vestmannaeyjum. Skömmu eftir fermingu réðst hún í vist til læknishjónanna þar, Halldórs Gunnlaugssonar og Önnu Sigrid (fædd Therp) og hefur vinátta og tryggð haldist með fjölskyldu Helgu og þeirri fjölskyldu æ síð- an. Á þeirra vegum fór Helga til Kaupmannahafnar árið 1915 til náms í kjólasaum og dvaldi þar við nám og störf í tvö ár hjá Mag- asin de Nord. Helga giftist í Vestmanna- eyjum 20. maí 1920, Sigurjóni Pálssynif. 12. ágúst 1896íHjörts- bæ í Keflavík. Foreldrar hans voru Páll Magnússon f. 12. apríl 1851 í Hjörtsbæ, d. í maí 1934 og seinni k.h. Þuríður Nikulásdóttir f. 18. sept. 1855 í Berjaneskoti, A-Eyjafjallahr., d. 30. sept. 1940 í Keflavík. Fyrsta árið bjuggu Helga og Sigurjón í Vestmanna- eyjum, en fluttu þá til Keflavíkur og bjuggu þar í tæp þrjú ár, fluttu síðan aftur til Vestmannaeyja og bjuggu þar til ársins 1930, er þau fluttu til Reykjavíkur. Sigurjón var sjómaður framan af ævi, en vann einnig öll almenn störf er til féllu í landi, síðustu 25 árin var hann vélgæslumaður hjá Grjót- námi Reykjavíkurborgar. Sigur- jón lést 15. ágúst 1975 á Borgar- spítalanum í Reykjavík. Helga og Sigurjón voru komin yfir sjötugt þegar þau eignuðust eigin íbúð, að Ferjubakka 10 í Reykjavík, fram að því bjuggu þau í ýmsum leiguíbúðum. Þótt húsakynni væru ekki alltaf mikil voru Helga og Sigurjón mjög samhent í því að gera heimili sitt hlýtt og notalegt, meðal annars kom Helga sér upp blómagarði þar sem því var við komið, þau voru mjög gestrisin og góð heim að sækja og sannaðist á þeim hið fornkveðna, að nóg er húsrými þar sem hjartarými er. Þá var oft þröng á þingi, þegar börnin voru öll heima og Helga með sauma- stofu inn á heimilinu, því á kreppuárunum upp úr 1930 var oft litla vinnu að fá og kom því saumakunnátta Helgu að góðum notum við að afla heimilinu líf- sviðurværis. Auk þess að starf- rækja saumastofu hafði Helga sníða- og saumanámskeið fyrir Húsmæðrafélag Reykjavíkur í fjölda mörg ár. Helga var sauma- kona af Guðs náð,hún var smekk- vís og lagin og svo nýtin á efni að undrun sætti, nóg var að koma með til hennar mynd í blaði af einhverri flík, hún mældi út mest með augunum keypti efni og flík- in var tilbúin á skömmum tíma og það sem merkilegast var af- gangur af efninu var enginn, ég gleymi því aldrei er hún einu sinni sem oftar saumaði kjól á dóttur- dóttur sína að efnið var í knapp- ara lagi, engin sáust þess þó merki á kjólnum fullgerðum, en ef kraganum var snúið við mátti sjá að neðra byrði hans var samansett úr sjö pjötlum. Helga og Sigurjón eignuðust sex börn og eru fimm þeirra á lífi: a) Finnur f. 14. nóv. 1919 í Vestmannaeyjum, bókavörður á Seltjarnarnesi, ókvæntur og barnlaus, hann lét sér mjög annt um móður sína og reyndist henni hlýr og góður sonur þar til yfir lauk. b) Sigurjón Helgi f. 14. nóv. 1919 í Vestmannaeyjum, d. 24. des. 1936 í Reykjavík, aðeins 17 ára mikill efnispiltur og hvers manns hugljúfi, varð hann for- eldrum sínum og ástvinum hinn mesti harmdauði. c) Henný f. 29. apríl 1922 í Keflavík, maður hennar var Einar Þorsteinsson rakarameistari f. 19. ágúst 1921, d. 14. apríl 1978, þau eiga tvö börn og eitt barnabarn. d) Ólöf f. 4. okt. 1923 í Keflavík, maður hennar er Helgi Eiríksson aðal- bókarif. 13. febr. 1922 í Sandfelli A-Skaft., þau eiga sex börn, níu barnabörn og fimm barnabarna- börn. e) Pálína f. 17. júní 1931 í Reykjavík, hjúkrunarfræðingur, maður hennar er Sigmundur Ragnar Helgason f. 7. des. 1927 í Reykjavík, skrifstofustjóri, þau eiga þrjú börn og fjögur barna- börn f) Jóhanna Kristín f. 31. maí 1935 í Reykjavík, húsmóðir í New York, maður hennar er Fróði Ellerup f. 17. febr. á Seyðisfirði, vélfræðingur, þau eiga tvö börn. Heima hjá Helgu og Sigurjóni fæddist einnig dótt- urdóttir þeirra, Sigrún Dúfa 25. okt. 1942 og átti þar heima fimm fyrstu æviár sín og var ætíð tekin sem ein af dætrunum og báru þau alla tíð mikla umhyggju fyrir henni. Afkomendur Helgu eru í dag 38. Fjórum árum eftir lát Sigur- jóns flutti Helga til Pálínu dóttur sinnar í Mosfellsbæ og bjó þar við umhyggju og hlýju, þar til hún flutti í þjónustuíbúðir aldraðra við Dalbraut í Reykjavík. Helga var þrekmikil og heilsuhraust fram á síðasta ár, sístarfandi og þurfti alltaf að láta eitthvað vera að gerast í kringum sig, hún hafði yndi af ferðalögum og lét ekki aldurinn aftra sler, komin á tí- ræðisaldur fór hún ein í stórferða- lög jafnvel til útlanda. Helga tók mikinn þátt í félagsstarfi aldr- aðra, einkum spilamennsku sem hún hafði sérstakt yndi af, all- broslegt þótti manni að heyra þegar hún var að býsnast yfir sljó- leika og athafnaleysi gamla fólks- ins, sem í mörgum tilfellum var allt að tuttugu árum yngra en hún sjálf. Þannig fannst mér, allt frá því að ég kom inn í fjölskyldu hennar fyrir þrjátíu árum, að Helga væri tuttugu árum yngri, bæði í útliti og anda, en árin segðu til um. Hún fékk litla skólagöngu í bernsku eins og títt var á þeim árum, en minnisstætt var henni, að hún örvhent var lamin til þess að skrifa með hægri hendinni og taldi hún það koma niður á því að rithönd sín væri ekki í samræmi við aðra hand- lagni hennar. Helga var þvílík uppspretta af fróðleik að undrun sætir, má því þakka mikilli eðlis- greind, miklum bókalestri og stálminni. Þessum eiginleikum hélt hún fram á síðasta ár og er mér sagt að þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins hafi notið að- stoðar hennar við að skrásetja ýmislegt, sem óðum er að falla í gleymsku. Helga var mjög róttæk í skoðunum og þrátt fyrir trú á eilífan sósfalisma og alræði ör- eiganna var Guðstrúin sterk og einlæg, hún gat verið dómhörð og sagt eitt og annað, sem ekki féll öllum jafn vel í geð. Góð kona er gengin, kona sem öllum þótti vænt um, er henni kynntust. Megi minning hennar lifa. Loftur Baldvinsson Miftvlkudagur 3. maí 1989 ÞJÓÐVILJINN — SÍÐA 9

x

Þjóðviljinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.