Þjóðviljinn - 14.06.1989, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 14.06.1989, Blaðsíða 4
þJÓÐVILJINN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Mannalæti í ráöleysinu miðju Borgarablöðin tala vitanlega margt þessa daga um lágt gengi ríkisstjórnarinnar meðal þjóðarinnar. Og hafa þá með- al annars fyrir sér skoðanakönnun sem birtist í DV á dögun- um og sýndi að fylgi hennar var komið niður fyrir velsæmi. Morgunblaðið notar tækifærið sem slíkar fréttir gefa til að blása í lúðra og boða undirbúning að því að ný stjórn verði til handan við fall þeirrar sem nú situr. En ef marka má til dæmis síðasta Reykjavíkurbréf, þar sem einmitt var um þessa hluti fjallað, gera þeir Morgunblaðsmenn sér nokkra grein fyrir því, að góð ráð eru dýr í íslenskum stjórnmálum og efnahagsstýringu. Þar ertalað um mikla undirbúningsvinnu og stranga sem gæti tekið mánuði og jafnvel misseri. Það er talað um að miklir og sterkir hagsmunir standi í vegi fyrir því að það verði gert sem blaðið telur helst þurfa að gera. En það er í stuttu máli á þá leið, að markaðslögmálin verði látin aflífa fyrirtæki eða gefa þeim líf eftir því sem fara gerir og öll opinber stýring, millifærslur og bjargráð verði gefin upp á bátinn. Þá geta menn spurt, hvað svo? Hvers eiga íbúar heils pláss að gjalda ef að það er dæmt til að fara í eyði vegna þess að fjárfestingar útgerðarmanna og hraðfrystistjóra hafa verið óheppilegri hjá þeim en í næsta plássi? Því hafa Morgunblaðsmenn náttúrlega ekki svarað - kannski vitna þeir barasta í sinn Hayek sem sagði: Ekkert félagslegt rétt- læti er til. En til þess fræðimanns er einmitt vitnað í ritdómi í sama tölublaði og Reykjavíkurbréfið var birt. Hitt er svo vafasamt, að þeir sem taka þó ekki þyngri ábyrgðir á örlögum manna en þær sem felast í því að setja orð á blað fyrir Morgunblaðið, að þeir þori að standa við það sem þeir eru að segja. Gott dæmi um þetta má einmitt finna í fyrrnefndu Reykjavíkurbréfi. í áður birtu bréfi hafði því verið haldið fram að eina leiðin til að bæta lífskjör á íslandi væri að flytja inn matvæli. Nú þykist blaðið undrandi á því að bændur skildu þetta sem fjandskap við bændur og landbúnaðinn! Þetta er mikill misskilningur, segir höfundur Reykjavíkur- bréfs, rétt eins og væri hann orðinn annar Steingrímur Her- mannsson. Við ætluðum alls ekki að gera bændum neitt illt, barasta að draga úr framleiðslu í landbúnaðinum - eins og allir eru sammála um! Þetta er undarlegurtvískinningur: Eitt er nú að vinna sig út úr þeirri offramleiðslu t.d. á kjöti sem menn nú búa við - allt annað er að dauðrota íslenskan landbúnað og stóran hluta dreifbýlis með innflutningi á mat- vselum. Önnur vandræði sem Morgunblaðsmenn lenda strax í eru þau, að þeir vita að ekki einusinni þeirra flokkur, Sjálfstæðis- flokkurinn, treystir sér í þann grimma markaðsleik sem þeir boða. Þeir láta að því liggja, að það sé erfitt að byrja hann af krafti vegna þess að stjórnmálaforystan í landinu sé svo veik. Þess vegna er spurt að því, hvort ekki sé hægt að leysa stjórnmálakreppuna með því að stjórnmálamenn kalli „menn úr atvinnulífinu til samstarfs við sig“ - m.a. með því móti að einhver forstjórinn væri gerður að fjármálaráðherra. Draumurinn er sem sagt um einhverskonar viðreisnarstjórn blandaða utanþingsráðherrum úr forstjórastéttinni. Eitthvað í þessa átt reyndi Þorsteinn Pálsson á síðasta hausti. Og fékk frá sinni forstjóranefnd meðmæli með niður- færslu - sem var reyndar ekki ávísun á frjálst spil markaðs- aflanna, heldur á heilmikla „handstýringu11 ríkisvaldsins. Rikisstjórn Þorsteins Pálssonar treysti sér ekki til að fara að ráðum þessarar nefndar „manna úr atvinnulífinu", heldur hvarf hún úr sögunni. Og undarlegt má það heita ef takast mætti núna að finna mikinn pólitískan slagkraft í hagsmunahópi atvinnurekenda, sem er í reynd klofinn í þá sem vilja gengisfellingar og óttast þær - og hver einstakur í sínu sálartetri teygður á milli strangs markaðsbúskapar í orði og þæginda pilsfaldakapítalismans á borði. áb. KLIPPT,., OG SKORIÐ Á lækna viljum vér trúa Læknar eru sú stétt í samfé- laginu sem menn vilja helst trúa á. Það er heldur ekki nema von: Flest hefur orðið fyrir miklu gengisfalli í almenningsálitinu: stjórnmálin eru þreytt og dösuð, hagfræðingar falsspámenn, guð er á tali, skólinn veit ekki sitt rjúkandi ráð og fjölmiðlar eins og allir vita. Og hvað er þá til ráða annað en halla sér að þeim sem fara með umboð vísindanna til að hressa upp á líkama og sál eftir margan löðrung í lífsins þræl- mengaða ólgusjó? Hver veit nema sá dagur komi að við eigum undir lækni komið hvort við lifum næsta dag eða næsta ár? Samt er afstaða manna til lækna undarlega tvíbent. Sumar kannanir benda til þess að al- menningur skiptist í þrjá hópa, nokkuð svo jafna að stærð, í af- stöðu sinni til lækna og heilbrigð- isþjónustu yfirleitt. Einn þriðj- ungur, það eru þeir sem helst vilja aldrei við lækni tala. Annar þriðjungur eru menn sem hafa nokkurnveginn eðlilega afstöðu til þess' hvenær þeir eru læknis þurfi og hvenær ekki. Og síðan kemur sá þriðjungur sem fær aldrei nóg af læknum og resept- um og lyfjum, hefur látið fróð- leiksmola um krankleika og heilsufar fara einhvernveginn þannig í sig að vansæla og óvissa fyllir allt þeirra líf nema að læknir sé sífellt innan seilingar. Maðurinn sem dó Læknar sitja á nokkuð háum palli í almenningsálitinu - en því er heldur ekki að leyna að upp á síðkastið hefur varið vaxandi gagnrýni á þeirra stétt og þá ekki síst sjálfa stöðu hennar. Og þá er átt við þá sérstöðu með launhelg- um og fleiru sem geri lækna að einskonar „prestatétt“ nútímans. Þessi sérstaða kemur til tals með fróðlegum hætti nú í fyrri viku eftir að menn höfðu skoðað grein sem Guðjón Magnússon aðstoð- arlandlæknir skrifaði í Lækna- blaðið undir fyrirsögninni „Saga úr klínikinni“. En þar er greint frá harmsögu aldraðs sjúklings sem kom til meðferðar á slysa- deild Borgarspítalans með mar á höfði eftir fall. Þeir sem við hon- um tóku áttuðu sig ekki á því hvað að var: maðurinn var háls- brotinn - og beið af því bana skömmu eftir að það kom í Ijós. Aðstoðarlandlæknir lét þess get- ið að þetta mál væri eitt af hátt í tvö hundruð kvörtunum sem landlæknisembættinu hefðu bor- ist á síðasta ári. Að tala eða þegja Út af þessari grein spinnast nokkur skrif: Framkvæmdar- stjóri Borgarspítalans fer á flot með mikla óánægju - honum finnst ekki við hæfi að aðstoðarl- andlæknir fari með málið „á op- inberan vettvang". Framkvæmd- astjórinn segir aðferð Guðjóns Magnússonar ranga - með þess- um röksemdum hér: „Ég tel að þarna sé stutt í það að hann hafi jafnvel brotið trún- að, þann trúnað að skýra almenn- ingi ekki frá högum sjúklinga sem liggja á spítölum.“ Aðstoðarlandlæknir vísar þessu hinsvegar á bug: Hann ber fyrir sig sígilda röksemdafærslu opinnar umræðu (sem nú er farið að kalla rússnesku nafni, glas- nost): Það verður að taka alvar- leg mistök fyrir til að þau endur- taki sig ekki, til að menn læri af reynslunni. Þetta hér er haft eftir honum í Morgunblaðinu á dög- unum: „Ef ekki væri hægt að koma faglegum upplýsingum til lækna á framfæri við þá í eigin fréttabréfi án þess að það væri gert að æsifregn, þá væri verið að ýta undir það sem að hans mati hefði verið tilhneigingin: að sópa öllum viðkvæmum málum undir teppið. Tilhneigingin hefur verið að tala ekki um neitt, vegna þess að það gæti orðið verra með því að tala um það en með því að þegja yfir því,“ sagði Guðjón.“ Hauðsyn gagnrýninnar Menn beri þessi ummæli sam- an - og er ekki erfitt að kjósa sér hlut í málinu. Vitanlega á ekki að rjúfa trúnað að því er varðar upp- lýsingar um einstaka sjúklinga, (NB - aðstandendur mannsins sem lést á Borgarspítalanum vildu sjálfir að um málið væri fjallað), vitanlega eiga t.d. að vera í gildi strangar reglur um það hvernig nota má heilsufarsskýrsl- ur í rannsóknum. Og allt er það í lagi að vara við „æsifregnum“ - m.ö.o. ósmekklegri framgöngu fjölmiðla. En hitt er jafnljóst, að aðstoðarlandlæknir hefur full- komlega rétt fyrir sér þegar hann talar um nauðsyn þess að yfirstíga þá hneigð að sópa öllu undir teppi, að þegja yfir mistökum eða misferli. Það er nefnilega ekki lióst hverju slík þögn á að þjóna: A hún að vernda læknastéttina í heild, passa að blettur falli ekki á múndírinn? Eða á hún að koma í veg fyrir að nokkrir aðrir en læknar sjálfir fái að æmta eða skræmta yfir störfum þeirra? Gegn sjálfsafgreiðslu Það er uppi gagnrýni á sér- stöðu lækna á háum stalli, eða kannski ætti maður heldur að segja: á ýmsar afleiðingar þeirrar sérstöðu. Þessi gagnrýni hlýtur bæði að ná til mála sem þeirra er aðstoðarlandlæknir fitjaði upp á og svo til þeirrar „sjálfvirkni" í heilsukerfinu, sem mikið er rædd í mörgum löndum þessi misserin. Allir vita að heilsugæsla er dýr og að það þykir beinlinis siðferði- lega rangt að sýna henni nísku. En menn gera sér líka grein fyrir því, að hvort sem heilsukerfið er ríkisrekið að öllu leyti, nokkru leyti eða einkavætt - menn standa allsstaðar frammi fyrir þeim vanda, að það getur þanist út óendanlega m.a. með allskon- ar „óþörfum“ rannsóknum og að- gerðum - um leið og allsstaðar verður erfitt að svara því hver er þess umkominn að segja til um það hvað er „óþarft" eða „of- gert“ í heilsugæslu og hvað ekki. Svo mikið er víst, að það er vax- andi tregða á því að ganga út frá einskonar sjálfdæmi lækna í þeim málum - eins gott reyndar að allir hlutaðeigendur viðurkenni þá tregðu og gangi út frá henni í skynsamlegri umræðu og hreinskiptinni. Þjóðviljinn Síðumúla 6 * 108 Reykjavík Sími 681333 Kvöldsími 681348 Útgefandi: Útgáfufólag Þjóðviljans. Rltstjóri: Árni Bergmann. Frótta8tjóri: Lúövík Geirsson. Aðrir blaðamenn: Dagur Þorleifsson, Elías Mar (pr.), Guðmundur Rúnar Heiðarsson, Hildur Finnsdóttir (pr.), Jim Smart (Ijósm.), Kristófer Svavarsson, ÓlafurGíslason, Páll Hannesson, SigurðurÁ. Friðþjófsson (umsjm. Nýs Helgarblaðs), Þorfinnur Ómarsson (íþr.), Þröstur Haraldsson. Framkvœmdastjóri: Hallur Páll Jónsson. Skrif8tofustjórÍ: Sigrún Gunnarsdóttir. Skrifstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pótursdóttir. Auglýsingastjóri: Olga Clausen. Auglýsingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur Ágústsdóttir. Símavarsla: Sigríður Kristjánsdóttir, Þorgerður Sigurðardóttir. Bflstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Húsmóðir: Erla Lárusdóttir Útbreiðslu-og afgreiðslustjórl: Björn Ingi Rafnsson. Afgroiðsla: Halla Pálsdóttir, HrefnaMagnúsdóttir. Innheimtumaður: Katrín Bárðardóttir. Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Sfðumúla 6, Reykjavík, símar: 681333 & 681663. Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð f lausasölu: 90 kr. Nýtt Helgarblað: 140 kr. Áskriftarverð á mánuðl: 1000 kr. 4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Mi&vlkudagur 14. ]úní 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.