Þjóðviljinn - 04.08.1989, Blaðsíða 21

Þjóðviljinn - 04.08.1989, Blaðsíða 21
I Þykist hann ætla aö fara aö skrifa um hamingjuna, mann- skrattinn? Er það ekki alveg út í hött? Er nokkur leið að fóta sig á svo hálu viðfangsefni? Ætli það séu ekki tvær skoðanir á hamingunni sem útbreiddastar eru. Önnur er sú að hamingjan sé eitthvað prívat og persónulegt. Ham- ingjan er að óskir rætast, segir einn. Hamingjan er að ætlast ekki til neins, segir annar. Jón getur ekki talið sig hamingjusaman nema hann eigi bensa og sumarbústað. Guðjón er aftur á móti alsæll með tvo fætur sem ekki bila ef honum dettur í hug að labba upp á fjall í góðu veðri. Hún er annarsstaöar Hin skoðunin er sú, að ham- ingjan sé einhversstaðar annars- staðar. Hvar líður okkur vel? er spurt í frægu rússnesku leikriti og svarið er: Þar sem við ekki erum. Þegar Steinn Steinarr hafði í sjálfhæðnu ljóði náð tökum á norðlenskum framburði ham- ingjunnar eftir langa mæðu þá tók ekki betra við - hún var þá orðin „sunnlensk í sínum“. Og svo kemur Bertolt Brecht og minnir okkur á það hvflíkir asnar við erum öll: denti alle rennen nach dem Glúck das Gluck rennt hinterher.. Allir eltast við hamingjuna en hamingjan hleypur á eftir okkur. Eða hvað? Ibsen lætur að því liggja í Villiöndinni að í lífslyg- inni sé hamingja hvers venjulegs manns fólgin - taktu hana frá honum og hann á óhamingjuna vísa. Annað leikskáld, Bernard Shaw, hæðist aftur á móti að þeim sem endilega vilja vera hamingjusamir. Ævilöng ham- ingja, segir hann í Man and Superman, það er meira en nokk- ur maður fái þolað. Það ástand væri helvíti á jörðu. Ekkert „mér finnst“ með það Þetta og annað er nú tínt til hér vegna þess að fyrir skömmu kom hingað heimspekingur ágætur, Philippa Eoot, prófessor í sið- fræði, og hélt erindi í Háskólan- um um hamingjuna og dyggðina. Nú ætla ég mér ekki þá dul að endursegja slíkt erindi né heldur það sem fram kemur á eftir því í spurningum og svörum, enda má reiða sig á það að sitthvað týnist eða skolist til á leiðinni frá fyrir- lesara til skilningsins þegar um flókin efni er að ræða. En í stuttu máli sagt var Philippa Foot að reyna að tosa áheyrendur sína frá þeim hugmyndum að hamingja væri eitthvað sem „mér finnst“, finna henni einhverja áreið- anlegri samnefnara en það sem hverjum og einum gott þykir eða æskilegt. Þess vegna vildi hún ekki sætta sig við að hamingja væri vellíðan, safn góðra stunda - eins þótt vellíðan kæmi hamingj- unni vissulega við. Þess vegna vildi hún ekki sætta sig við að hamingja væri „bara“ hugar- ástand. Heldur vildi hún tengja hamingjuna við dyggðina, þótt erfitt kynni að sýnast, við það að menn lifðu því lífi sem sómi væri að, legðu stund á eitthvað það sem er mikils virði (án þess þó að gleyma óendanlegum marg- breytileika slíkrar hamingju). Þú færð ekki að vera með Hún vildi ekki síst taka frá röktum illmennum tilkallið til hamingjunnar. Hún tók dæmi af Gústaf nokkrum Wagner, sem verið hafði fangabúðastjóri hjá Hitler, falið sig í Brasilíu eftir stríð, en náðist eftir langa mæðu. Wagner var vel sáttur við sitt líf, hann hafði þjónað Hitler af sannfæringu og sjálfsagt talið sjálfur að hann væri að vinna þarfaverk fyrir sína þjóð - og hann kvaðst einnig hafa notið vel lífsins í Brasilíu. Philippa Foot vildi helst koma hamingjunni fyrir þar uppi í hæðum, sem slíkir þrjótar sem Wagner næðu ekki í hana. Það skilur maður líka vel. Ekki síst ef hugsað er til annarra dæma sem siðfræðingurinn nefndi. Til bréfa frá fólki sem var í andófi gegn nasistum, var handtekið og dæmt til dauða, en fékk að skrifa sínum nánustu kveðjubréf fyrir aftökuna. Þetta fólk var ekki hamingjufólk, það átti í mesta lagi tvo kosti og hvorugan góðan - að láta lífið (með sæmd) eða kaupa sér líf (t.d. með því að af- neita skoðunum sínum, svíkja fé- laga sína) og lifa í vansæmd. Samt var hið erfiða val, að deyja, eitthvað í átt við þá hamingju sem Philippa Foot lét sér annt um. Kröfur hennar eru reyndar mjög strangar. Hún vildi ekki að- eins efast um „hamingjusama nasistann“ - heldur og „ham- ingju“J.þeirra sem ættu margra kosta völ en létu neyð viðgangast allt í kringum sig (og þar með hafði þessi ágæta heimspeki- kona, sem okkur er sagt að sé trúlaus með öllu, tekið upp þráðinn frá sögunni um ríka manninn og Lasarus). Að Ijúga að sjálfum sér Þetta er nú það helsta sem eftir situr hjá einum áheyranda, lítt heimspekivönum. Og hann hugs- ar sem svo: Víst er það merkilegt og virðingarvert að reyna að koma dýru hnossi eins og ham- ingjan er út úr geðþóttameðferð og allskonar lágkúru. En það er erfitt, það skal mikið til að hrekja okkur úr vana hlutdrægninnar í hamingjudómum okkar, það er líka víst og satt. Skoðum til dæmis þetta hér: Manneskjan veit að hún á skammt eftir ólifað eða að minnsta kosti að flest hefur þegar gerst sem miklu varðar í ævi hennar. Og þá sest hún niður og reynir að svara stórri spurningu eins og þessari: Var ég hamingju- söm? Þegar við heyrum svarið verðum við að gæta okkar vel. Við höfum fyllstu ástæðu til að ætla að uppgjörssálin sé að ljúga að sjálfri sér og öðrum. Ég vil ekki bíða ósigur Við erum vönust því að ham- ingjan sé hið mesta hnoss. Að eignast hana er sigur í lifinu, það er hinsvegar ósigur að láta sér hana úr hendi sleppa. Því hlýtur það að vera hverjum manni mikil freisting, þegar hann horfir yfir farinn veg, að kalla hlutskipti sitt hamingju, hvernig sem það hefur verið. Telja sér og öðrum trú um að hann hafi lifað góðu (skemmtilegu, merkilegu) lífi. í því geta þeir sameinast stríðs- glæpamaðurinn Wagner og þeir andfasistar ungir sem eiga að deyja á morgun - að maður ekki tali um alla þá mergð sem að leiðarlokum er stödd einhvers- staðar á milli þessara póla. Ég sé ekki eftir neinu, segja menn. Ég var hamingjusamur. Að öðrum kosti væru þeir að viðurkenna ósigur sinn, viðurkenna að þeim hefði mistekist að vinna það úr lífi sínu sem þeir helst vildu. Illt var það allt En nú gætu menn sagt sem svo: Ekki eru það allir sem bera bratt sinn hala við ferðalok sín á jörð- unni. Hvað um þá sem kveðja í bölmóð miklum og kannski með þankann fullan af iðrun vegna dáða (eða synda!) sem aldrei voru drýgðar? Líkast til verðum við að segja um þá rétt eins og þá sem töldu sig hafa búið við ham- ingju: Við eigum erfitt með að vita hvenær þeir segja satt og hve- nær þeir ljúga að sjálfum sér og öðrum og í hvaða mæli. Við get- um til dæmis vel hugsað okkar mann (og kannski þekkjum við slíkan mann) sem almannarómur mundi telja gæfumann bæði í einkalífi og merku starfi - samt finnst honum allt illt og bölvað að leiðarlokum, skítt veri með það og svei því. Hvers vegna? Kann- ski vegna þess að hann er ósáttur við eilífðina. Kannski vegna þess að byrðar ellinnar, hrörnunar- innar, geta orðið svo þungar að sólin skín ekki lengur á þann sem þær verður að bera. Hugurinn myrkvast. Amen eftir efninu Þetta er víst orðið meira en nógu langt og engin fæst niður- staðan. En því var þetta hér á blað sett, að vfst var það fróðlegt þakkarefni að hlusta á siðfræði- prófesorinn Philippu Foot glíma við hamingjuna á dögunum. Líka vegna þess, að við fengum að heyra það eftir skoðanakönnun ■ ekki alls fyrir löngu að íslending- ar teldu sig hamingjusama þjóð. Ég man bara ekki hvers vegna þeir töldu sig hamingjusama. Var það vegna þess sem segir á einum stað hjá Jane Austen, að „góðar tekjur eru besta uppskrift að hamingjunni sem ég þekki“? Eða var það vegna þess að þeir áttu . von á bjórnum - sagði ekki sá góði Samuel Johnson að „engin uppáfinning mannsins hefur framleitt meiri hamingju en góð krá“? NÝTT HELGARBLAÐ - SÍÐA 21 HELGARPISTILL ÁRNI BERGMANN Raus um hamingjuna Skrifað í tilefni erindis Philippu Foot um dyggðinaog hamingjuna

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.