Þjóðviljinn - 29.08.1989, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 29.08.1989, Blaðsíða 4
þlÓÐVIUINN Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Hvað skal hún lengi lifa? Margir þeirra, sem fyrir tæpu ári voru fylgjandi því aö ríkisstjórn Framsóknar, Alþýðubandalags og Alþýðuflokks settist að völdum, láta sér nú fátt um finnast samstarf þess- araflokka. Gamlirbaráttujaxlarístjórnmálaflokkunum þegja margir hverjir þunnu hljóði, þega talið berst að ríkisstjórn- inni, og upp úr sumum stendur það eitt að hún sé vart á vetur setjandi. Best sé að rjúfa þing og efna til alþingiskosninga sem fyrst svo hægara verði að fylkja liði við sveitarstjórnar- kosningarnar næsta vor. Þetta má líka lesa úr skoðanakönnunum. Þær sýna að fylgi ríkisstjórnarinnar er minna en samanlagt fylgi stjórnar- flokkanna. Auðvitað eru skoðanakannanir háðar ýmsum takmörkunum og varast ber að líta á niðurstöður þeirra sem nákvæma lýsingu á vilja kjósenda. En hvað sem öllum takmörkunum líður, gefa þær nokkuð glögga mynd af því í hvaða átt almenningsálitið sveiflast hverju sinni. Það má því telja fullvíst að ríkisstjórnin njóti ekki fylgis hjá öllum stuðningsmönnum stjórnarflokkanna. Það er gömul saga og ný að jafnaðarmenn gera miklu meiri kröfur til sinna manna í ríkisstjórn en íhaldssamir kjós- endur. Þeir síðarnefndu hafa engan hug á róttækum upp- skurði á samfélaginu og ætlast fyrst og fremst til að ráðherr- ar og aðrir þeir, sem settir eru til valda í nafni lýðræðis, gæti þess að ekki komi til byltingarkennndra breytinga. Tíðum er meginkrafa íhaldsmanna til ráðherra sinna sú ein að þeir séu farsælir embættismenn, að þeir séu liprir verkstjórar innan þess ramma sem ríkjandi öfl í samfélaginu hafa mark- að starfsemi ráðuneyta, að þeir sjái um að daglegur rekstur gangi þar snurðulaust fyrir sig og láti það vera að fitja upp á nýjungum sem leitt geti til breytinga á ríkjandi ástandi. Jafnaðarmenn, sem setjast í ráðherrastól, mega að sjálf- sögðu ekki vera eftirbátar íhaldsmanna við daglega verk- stjórn í embættismannakerfinu. En þeir þurfa líka að sýna kjósendum sínum fram á að þeir ætli sér eitthvað annað og meira. Þeim nægir ekki að geta setið embættisfákinn fallega og haft á honum glæsilegt taumhald. Þeir verða að geta beint honum á aðrar brautir en farnar eru í útreiðartúrum íhaldsmánna. Kröfur íslenskra jafnaðarmanna um breytingar á sam- félaginu eru fjölmargar. Þær snerta öll svið stjórnsýslu. Það er kallað eftir betri skólum, skilvirkara heilbrigðiskerfi, aukinni menningarstarfsemi, uppstokkun í verslun, heil- brigðum viðskiptaháttum og endalokum þess pilsfalda- kapítalisma sem hér hefur fengið að blómstra allt of lengi. Eina kröfu ber þó hæst, það er krafan um aukinn jöfnuð. Meðaltöl hagfræðinga sýna að afkoma íslendinga er býsna góð. Stór floti glæsibíla og stríður straumur sólar- landafara er einnig til marks um að gríðarstór hluti þjóðar- tekna fer í einkaneyslu. Vandræðin eru bara þau að hluti þjóðarinnar er ekki með í neyslukapphlaupinu. Launafólk, sem ber ekki meira úr býtum fyrir vinnu sína en ömurlega lágt taxtakaup, hefur einfaldlega ekki efni á að eiga bíl. Það getur heldur ekki skoðað suðræn lönd nema í auglýsingum frá ferðaskrifstofum. Með einfaldri samlagningu getur hver sem er séð að húsnæðiskostnaður, matvara, kynding og venjuleg ígangs- klæði kosta það mikið að taxtakaup láglaunafólks hrekkur þar ekki til. Hluta láglaunamanna tekst að skrimta með því að vinna myrkranna á milli, en þeim fjölgar stöðugt sem ekki geta látið endana ná saman. Hafi ríkisstjórnin einhver áform á prjónunum um aukinn jöfnuð, þá á hún að sitja áfram. Þá ber henni skylda til að leita eftir stuðningi við þau áform hjá þeim flokkum sem ekki eiga aðild að ríkisstjórn. í raun skiptir ekki öllu hvaðan stuðn- ingur kemur við aðgerðir sem auka jöfnuð. Ef einhver flokkur vill ganga til góðra verka með ríkisstjórninni, ber að fagna því. Hafi ríkisstjórnin aftur á móti engin áform um að bæta hag þeirra, sem verst eru settir, skiptir engu máli hvort hún lifir eða deyr. KLIPPT OG SKORIÐ Klaustur í Auschwitz Talsverðar væringar hafa blossað upp í sumar milli gyðinga og kaþólsku kirkjunnar, og eftir ýmis konar mótmælaaðgerðir sem gyðingar stóðu fyrir hafa málin komist á það stig að einn af leiðtogum þeirra, Theo Klein, hvatti trúbræður sína til að hafa ekki nein opinber samskipti við kaþólsku kirkjuna fyrr en deilan væri leyst, taka ekki þátt í neinum sameiginlegum fundum eða ráð- stefnum og hundsa opinberar heimsóknir páfa. Við hliðina á þeim atburðum sem nú eru að gerast um heimsbyggðina, og reyndar á sömu slóðum, þykja þessi tíðindi kannske ekki merkileg, en þó eru þau athyglisvert tímanna tákn og sýna ýmislegt sem mönnum kann að sjást yfir. Forsaga málsins er sú, að árið 1984 settu karmelíta- nunnur upp klaustur við útrým- ingarbúðir nasista í Auschwitz með fullu leyfi erkibiskupsins f Kraká, en staðurinn er í hans um- dæmi. Var klaustrinu komið fyrir við múrinn illræmda, á sama stað og nasistar geymdu eiturgasið Zyclon B, sem notað var til fjöldamorða á miljónum manna. Um leið og þessi tíðindi spurð- ust reis upp mótmælaalda meðal gyðinga víða um heim. Bentu þeir á að Auschwitz væri sögu- staður þeirra og engra annarra: 99 af hundraði þeirra sem þar létu lífið hefðu verið gyðingar. Væri þessi staður þannig e.k. tákn um. kynþáttahatur nasista og grimmdaræði, - enda mátti vísa til þess að menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, Unesco, hefur lýst hann minnisvarða um fórnarlömb þjóðarmorða, - og því hefði kaþólska kirkjan enga heimild til að helga sér staðinn á einn eða annan hátt. Eftir nokk- urt þóf lyktaði þessum deilum í fyrstu umferð með því að leið- togar gyðinga og fulltrúar pólsku kirkjunnar gerðu með sér sam- komulag í Genf í febrúar 1987: samkvæmt því skyldu karmelíta- nunnurnar flytja frá Auschwitz innan tveggja ára, eða ekki síðar en 22. febrúar 1989, og setjast að í klaustri einhvers staðar lengra frá útrýmingarbúðunum, og jafn- framt skyldi komið fyrir í þessu klaustri „miðstöð gyðinga og kristinna manna“ fyrir upplýs- ingastarfsemi, sameiginlegt bæn- ahald og slíkt. Samkomulag ekki virt Virtist málið nú leyst, þannig að aliir ættu að geta verið ánægðir. En þegar fresturinn rann út 22. febrúar í vetur, sýndu nunnurnar ekki á sér neitt farar- snið, þvert á móti: þær hófu mikl- ar framkvæmdir í klaustrinu í Auschwitz, eins og til að koma sér þar betur fyrir, og til að kór- óna allt reistu þær sjö metra háan trékross við innganginn að út- rýmingarbúðunum. Talsmenn pólsku kirkjunnar lýstu því þó yfir að ekki yrði nema lítil töf, og myndu nunnurnar yfirgefa klaustrið ekki síðar en 22. júlí. Eftir þetta urðu gyðingar efins um að samkomulagið yrði virt, og 14. júlí fóru sjö bandarískir gyð- ingar undir forystu rabbína frá New York, Abrahams Weiss að nafni, til Auschwitz til að mót- mæla klaustrinu og krefjast þess að nunnurnar tuttugu yfirgæfu „stærsta gyðingagrafreit í heimi". Veifuðu þeir borðum sem á var letrað: „Systur, biðjið ekki fyrir píslarvottum gyðinga, þeir voru ekki kristnir". Nunnurnar neituðu að opna klaustrið, og lyktaði þessum atburðum með því, að verkamenn sem voru að fást við byggingarframkvæmdir í klaustrinu (en því hafði verið haldið fram að öllum slíkum framkvæmdum hefði verið hætt) réðust á gyðingana og lögðu á þá hendur. Síðan hröktu staðarbúar þá burt, og þegar þeir hugðust bera fram mótmæli við erkibi- skupinn í Kraká, Macharski kar- dínála, neitaði hann að tala við þá. Eftir það ákváðu framámenn gyðinga að efna til enn fleiri mót- mælaaðgerða við klaustrið í Auschwitz. Þessir atburðir qllu mikilli reiði meðal gyðinga um allan heim, og jókst ólgan mjög, þegar erkibi- skupinn í Kraká gaf út yfirlýsing- ar snemma í ágúst, þar sem hann fordæmdi „árásaraðgerðir" gyð- inga og hótaði því að „miðstöð gyðinga og kristinna manna" yrði ekki reist á þeim „óraunsæja" tíma sem ákveðinn hefði verið. Komust gyðingar á þá skoðun, að fulltrúar kaþólsku kirkjunnar hefðu verið falskir í samninga- viðræðunum í Genf og aldrei ætl- að að virða samkomulagið sem þeir undirrituðu. Ekki bætti það úr skák, að um sama leyti bárust þær fréttir að Jóhannes Páll páfi hefði fjallað um „ótryggð ísraels við guð sinn“ í hómilíum sínum þegar hann veitti mönnum áheyrn í páfagarði. Gyðingar gleymdust Þetta mál er ákaflega við- kvæmt. Eftir heimsstyrjöldina bar talsvert á þeirri tilhneigingu að gera lítið úr fólskuverkum nas- ista gegn gyðingum sem slíkum: það leið t.d. alllangur tími áður en Vesturevrópumenn hófust handa um að draga fyrir dóm þá stríðsglæpamenn, sem höfðu á annað borð sloppið við Núrnberg-réttarhöldin, og urðu gyðingar lengi vel að sjá um það sjálfir að fletta ofan af slíkum mönnum. í Austur-Evrópu var það lengi mikil lenska að tala um fjöldamorð nasista án þess að nefna gyðinga í því sambandi: lítil áhersla var t.d. lögð á það hverjir voru fórnarlömbin í Babí Jar, og árið 1947 samþykkti pólska þing- ið að gera Auschwitz að minnis- merki um píslarvætti pólsku þjóðarinnar. Það er mjög athygl- isvert hvernig þetta viðhorf hefur breyst undanfarin ár, a.m.k. á Vesturlöndum, og eru réttar- höldin yfir Klaus Barbie dæmi um það. En eðlilegt er að gyðing- ar séu viðkvæmir fyrir því sem getur naumast litið öðru vísi út en sem tilraun kaþólskra Pólverja til að „eigna sér“ Auschwitz. „Oremus et pro ludaeis perfidis Við þetta bætist það hve tví- bent kaþólska kirkjan var í af- stöðu sinni til gyðingaofsókna. Píus páfi ellefti fordæmdi að vísu gyðingahatur nasista í hirðisbréfi sínu „Mit brennender Sorge“ og víða lögðu kaþólskir menn sig fram við að bjarga gyðingum undan ofsóknum. En aðrir há- klerkar þögðu sem vendilegast, eða gengu jafnvel fram í ofsókn- unum sjálfír, einkum í Austur- Evrópu. Það kostaði líka tals- verða baráttu frjálslyndra ka- þólskra manna að nema burt úr messutextanum setningar eins og „oremus et pro perfidis Iudaeis“, „Látum oss einnig biðja fyrir hin- um svikulu Júðurn", og ýmsir hafa ekki sætt sig við þá breytingu enn í dag. Óttast gyðingar að með því að „hasla sér völl“ í Auschwitz vilji kaþólskir menn draga fjöður yfir fyrri afstöðu sína. í ljósi þessara atburða hefur sá grunur einnig kviknað, að Jó- hannes Páll páfi líti svo á, að sé það rétt að kaþólska kirkjan falli frá andúð fyrri tíma gegn gyðing- um eigi gyðingar sjálfir að stíga skref á móti og taka kristni. e.m.j. Þjóðviljinn Síðumúla 6'108 Reykjavík Sími: 68133 Kvöldsími:681348 Símfax:681935 Útgefandi: Útgáfufélag Þjóðviljans. Ritstjóri: Árni Bergmann. Fréttaatjórl: Lúðvík Geirsson. Aðrir blaðamenn: Dagur Þorleifsson, Elías Mar (pr.), Guðmundur Rúnar Heiðarsson, Hildur Finnsdóttir (pr.), Jim Smart (Ijósm.), Kristófer Svavarsson, Ólafur Gíslason. Sigurður A. Friðþjófsson (umsjm. Nýs Helgarblaðs), Þorf innur Ómarsson (íþr.), ÞrösturHar- aldsson. Framkvœmda8tjórl: Hallur Páll Jónsson. Skrifstofustjóri: Sigrún Gunnarsdóttir. Skrifstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pótursdóttir. Auglýsingastjóri: Olga Clausen. Auglýsingor: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur Ágústsdóttir. Símavarsla: Sigríður Kristjánsdóttir, ÞorgerðurSigurðardóttir. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Húsmóðir: Erla Lárusdóttir Útbreiðslu-og afgreiðslustjóri: GuðrúnGísladóttir. Afgreiðsla: Bára Sigurðardóttir, Halla Pálsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir. Innheimtumaður: Katrín Bárðardóttir. Útkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, símar: 68 13 33 & 68 16 63. Simfax:68 19 35 Auglýslngar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í Iau8a80lu: 90 kr. Nýtt Helgarblað: 140 kr. Askriftarverð á mánuði: 1000 kr. 4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Þrlðjudagur 29. ágúst 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.