Þjóðviljinn - 06.09.1989, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 06.09.1989, Blaðsíða 4
Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar KLIPPT QG SKQRIÐ Ný og þróttmeiri byggðastefna Atburöirnir á Patreksfirði, þegar lífsbjörg þúsund manna byggðarlags var seld á uppboði, hljóta að vekja margar spurningar. Spurningar sem ekki verður vikist undan að svara. Spurningar sem reyndar verður að svara áður en fleiri „Patreksfjarðarmál” koma upp, því að það mega menn vita að enn er ekki séð fyrir endann á skipasölum í þessu landi og þar með flutningi á veiðikvóta milli byggðarlaga. Það virðist vera útbreidd skoðun að það sem beri að gera í fiskveiðistjórnun íslendinga sé að festa aflakvóta, sem bundinn er skipum, til langs tíma. Þetta beri að gera með það fyrir augum m.a. að þangað renni stór hluti kvótans sem útgerð er hagkvæmust. Með þessu móti muni taka fyrir fjölgun skipa og þá fyrst verði unnt að ná því marki, sem sett hefur verið fram í töfraformúlunni um 10% minnkun fiski- skipastólsins og á að leiða af sér stóraukna hagkvæmni í útgerð. En hvað sem líður aðgerðum, sem minnka heildar- kostnað útgerðar í landinu, þá stendur hitt áfram, að „Patreksfjarðarmálum” á eftir að fjölga. Þessu dæmi má að sjálfsögðu stilla upp í einfaldri mynd og segja sem svo að þjóðarhagur krefjist þess að þeir einir hafi fiskveiðikvóta sem til þess hafa unnið. Hinir geti étið það sem úti frýs. Þar með talin heilu byggðarlögin sem af ýmsum ástæðum sjá á eftir skipum sínum ásamt tilheyrandi kvóta. Eigendur fiskiskipa eru hinir nýju lénsherrar þessa lands og í því sambandi skiptir form eignarhaldsins engu. Það að skip er selt ásamt meðfylgjandi aflakvóta frá byggðarlagi á borð við Patreksfjörð, verður trúlega eðlilegur atburður í því kerfi sem áætlað er að festa hér í sessi. En hvað verður um atvinnu og lífsbjörg manna á Patreks- firði? Er þetta sú byggðastefna sem Islendingar vilja fylgja? Erum við tilbúin að segja sem svo: Já, þetta skulum við láta yfir okkur ganga af því að það er þjóðhagslega hagkvæmt? Teljum við það eðlilegt að pláss á borð við Patreksfjörð gangi á vit sögunnar í slóð Djúpavíkur og Ingólfsfjarðar? Má vera að við séum ekki tilbúin að svara slíkum spurn- ingum játandi. Þeir eru ugglaust býsna margir sem telja að leita eigi leiða til að halda uppi byggðastefnu sem tekur tillit til þess að það getur verið þjóðhagslega arðbært að byggðir eins og Patreksfjörður leggist ekki í auðn. Og víst er að þeim fjölgar stöðugt sem vilja að tekin sé ákvörðun um hvaða stefna skuli vera uppi um byggð á slíkum stöðum. Sé það í raun og veru talið óhagkvæmt að styrkja byggð í stórum hluta íslenskra sjávarplássa, ber að sjálfsögðu að láta þá skoðun í Ijós skýrt og skorinort og haga síðan stjórn landsins í samræmi við hana. Við skulum þá endilega merkja þá staði á landinu sem eiga að fá að lifa en gera þá líka skynsamlegar ráðstafanirtil að sálga hinum á mannúð- legan hátt. Sé aftur á móti ekki almennur vilji fyrir því meðal íslend- inga að láta sérfræðinga, sem sitja við teikniborð sitt með reglustiku og kvarða, taka um það ákvarðanir hvernig byggð eigi að þróast, er nauðsynlegt að upp verði tekin ný og þróttmeiri byggðastefna en fylgt hefur verið um hríð. Ný byggðastefna verður að byggjast á öðru en því að veita auknu verðtryggðu lánsfé á himinháum vöxtum til lands- byggðarinnar. Lánsfé upp átugi og jafnvel hundrað miljónir króna, sem notað er til að kaupa veiðikvóta, getur ekki skilað neinu nema tapi eins og í pottinn er búið með útgerð og fiskvinnslu í flestum sjávarplássum þessa lands. Alþýðubandalagið hefur hvað eftir annað vakið athygli á þeirri hættu sem núverandi fyrirkomulag á kvótamálum í sjávarútvegi hefur í för með sér og hefur nú birst íbúum Patreksfjarðar á heldur nöturlegan máta. Einhliða tenging kvóta og veiðiskips er fráleit. Ef menn hafa ekki trúað því fyrr, mega þeir trúa því nú. Hugsjónir frönsku byltingarinnar Á þessu ári hefur þess verið minnst víða um heim með alls kyns hátíðahöldum, bókaútgáfu og greinaskrifum að tvær aldir eru liðnar síðan alþýða Parísar- borgar tók á sitt vald Bastilluna og franska stjórnarbyltingin hófst, og hefur þetta afmæli naumast farið fram hjá nokkrum manni. Hins vegar er ekki víst að menn geri sér almennt fulla grein fyrir því, að vera má að þegar fram líða stundir verði árið 1989 ekki talið minna tímamótaár en árið 1789, vegna þeirra róttæku og nánast ótrúlegu umskipta sem eru að verða í löndum Austur- Evrópu - eða hverjum hefði dott- ið í hug að spá slíkum tíðindum fyrir aðeins fáum árum? Þetta skammhlaup ártalanna er á sinn hátt tákn fyrir merkilega þróun sem ekki er heldur víst að allir komi auga á. Eftir rússnesku byltinguna 1917 var það lenska meðal þeirra, sem litu svo á að hún hefði verið sams konar skref fram á við í sögunni og franska byltingin á sínum tíma og reyndar verið framhald af henni, að boða þá kenningu að hugsjónirnar frá 1789 um lýðræði, jafnrétti og önnur mannréttindi hefðu ein- ungis verið „borgaralegt fyrir- bæri“: giltu þær ekki nema á valdatíma borgarastéttarinnar og síðan myndu aðrar hugsjónir leysa þær af hólmi. Var þá bent á ýmsa þætti stjórnarfarsins austantjaids sem dæmi um það sem koma skyldi. Frá því er skemmst að segja, að þau um- skipti sem eru að verða í Austur- Evrópu afsanna þessa kenningu eins rækilega og auðið er: enginn getur haldið því fram lengur að hugsjónir frönsku byltingarinnar hafi verið eitthvert stéttarfyrir- bæri - eða „formlegt lýðræði" eins og einu sinni var sagt til að kasta rýrð á þær - og ekkert hefur komið fram sem dragi úr gildi þeirra. Á þessu tveggja alda af- mæli hefur það hins vegar komið skýrt í Ijós að mannréttindahug- sjón byltingarinnar hefur al- mennt gildi og þar sem hún hefur ekki verið framkvæmd er fyrsta lausnin á vandanum sú að hverfa til hennar. Kardínáli svarar fullum hálsi Samt skyldi enginn halda því fram að leiðin til lýðræðis og mannréttinda í Austur-Evrópu sé auðveld og rósum stráð eða kenna fyrra stjórnarfari einu um þau vandamál sem kunna að koma upp, - og hljóta að koma upp. Nýlega var hér sagt frá þeim deilum sem gosið hafa upp milli kaþólsku kirkjunnar í Póllandi og gyðingasamtaka víða um heim vegna Karmelítaklaustursins í Auschwitz. Síðan sú grein var skrifuð hefur það gerst að Glemp kardínáli, höfuð pólsku kirkj- unnar, hefur svarað gyðingum fullum hálsi: hefur hann talið þá vera árásaraðilann og gefið greinilega í skyn að ekki sé á dag- skrá í bráð að flytja klaustrið. Jafnframt hefur hann látið hafa eftir sér að gyðingar telji sig hafna yfir aðra dauðlega menn, en slík ummæli geta þeir naumast túlkað öðru vísi en sem grófa kynþáttafordóma. Pví hafa þeir sniðgengið minningarathafnir um upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari. Þessar deilur hafa komið leiðtogum Samstöðu í slæma klípu, og þótt þeir forðist jafnan að gagnrýna kaþólsku kirkjuna hafa þeir sýnt gyðingum vinsemd í málinu. En leiðtogar komm- únistaflokksins standa hjá og dilla sér af kæti: allur ágreiningur milli Samstöðu og kaþólsku kirkjunnar hljómar sem sætasti englasöngur í þeirra eyrum og liggur við að fyrir bragðið hafi þeir gleymt hve mjög er nú farið að halla undan fæti fyrir þeim. Landslag undir jökli Þegar menn horfa á slétta og hvelfda jökulbungu dettur þeim gjarnan í hug, að undir henni sé kannske tígulegt fjall eða þá jöfn háslétta. En slíkar hugmyndir eru oft alrangar: undir jöklinum get- ur verið fjölskrúðugt landslag með alls kyns fjöllum, dölum og sléttum sem öllum er hulið með- an íshellan þekur það. Á sama hátt hafa margir haldið að ekki þurfi annað en koma á lýðræði, prentfrelsi og öðrum slíkum mannréttindum í löndum Austur-Evrópu - létta þar af „ís- öldinni" - til að þar komist á svip- að þjóðskipulag og er við lýði um norðanverða Evrópu. En glögg- skyggnir fréttaskýrendur hafa stundum bent á, að stjórnarfarið austantjalds hafi til þessa breitt yfir eða jafnvel „fryst“ fjölmörg vandamál, sem Vesturlandabúar hafa litlar spurnir af - enda ekki á dagskrá í löndum þeirra - en myndu blossa upp um leið og lin- að væri á tökunum. Meðal þessara vandamála eru þjóðernismál af ýmsu tagi. í ýms- um löndum austantjalds hafa stjórnvöld gripið til þess ráðs að æsa upp gyðingahatur meðal al- mennings sér sjálfum til fram- dráttar og hefur kommúnistum verið kennt um þetta. En atburð- irnir í Póllandi benda nú til þess að gyðingahatrið þar eigi miklu dýpri rætur og kunni að grafa um sig á síst betri hátt en áður þegar einokun kommúnista á stjórn landsins er lokið og valda skaða: það kemur a.m.k. í ljós nú að viðhorf kaþólsku kirkjunnar og Samstöðu þurfa ekki alltaf að fara saman. En ágreiningur milli þessara tveggja aðila getur sett strik í reikninginn í þeirri þróun sem nú er rétt að hefjast. Deilur í uppsiglingu Hvert sem litið er austantjalds blasa við keimlík vandamál og stundum enn illvígari. Það er t.d. ógerningur að draga nokkur ótví- ræð landamæri milli Rúmena og Ungverja: byggðir Rúmena mynda n.k. hring í Karpatafjöll- um, en Transsylvanía, sem er í miðjunni, er að miklu leyti byggð Ungverjum sem eru mjög stór „þjóðernisminnihluti“ í Rúmen- íu eins og hún er nú. Meðan bæði ríkin voru undir járnaga í Var- sjárbandalaginu var öllum deilum haldið niðri. Nú ganga hins vegar klögumálin á víxl og hvernig halda menn að Ungverj- um í Rúmeníu muni líða undir stjórn Ceausescus, hins guðum- líka snillings Karpatafjalla sem hefur komið landi sínu í kalda- kol, ef sú þróun sem nú er hafin í Ungverjalandi heldur áfram, og hvernig væru Ungverjar báðum megin landamæranna líklegir til að bregðast við? En hætt er við að slíkar deilur í þessum hluta Evr- ópu myndu gera stjórnvöldum Ungverjalands erfiðara fyrir og setja þar líka strik í reikninginn. Þannig mætti lengi halda áfram, en einu má bæta við að lokum: Áratugum saman hvöttu stjórnvöld Sovétríkjanna Rússa til að flytjast til Eystrasaltsland- anna í þeim augljósa tilgangi að stuðla að forrússun þeirra, og nú eru þeir sums staðar orðnir um helmingur íbúanna: Hætt er við að þessir menn muni ekki una sérlega vel þeirri stöðu sem þeir lenda í við aukna sjálfstjórn Eystrasaltsþjóðanna og hafa þeir reyndar þegar látið í ljós óánægju með þróunina. e.m.j. Þjóðviljinn Síðumúla 6 • 108 Reykjavík Sími: 681333 KVöldsími: 681348 Símfax:681935 Utgefandi: Útgáfufélag Þjóöviljans. Ritstjór I: Arni Bergmann. Fróttaatjóri: Lúðvík Geirsson. Aórir blaðamenn: Dagur Þorleifsson, Elías Mar (pr.), Guðmundur Rúnar Heiðarsson, Hildur Finnsdóttir (pr.), Jim Smart (Ijósm.), Kristófer Svavarsson, Ólafur Gíslasorr Sigurður Á. Friðþjófsson (umsjm. Nýs Helgarblaðs), Þorfinnur Ómarsson (íþr.), ÞrösturHar- aldsson. Framkvœmda8t jóri: Hallur Páll Jónsson. Skrifstofu8tjóri: Sigrún Gunnarsdóttir. Skrif8tofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pétursdóttir. Auglýsingastjóri: Olga Clausen. Auglýsingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur Ágústsdóttir. Símavarsia: Sigríður Kristjánsdóttir, ÞorgerðurSigurðardóttir. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Húsmóðir: Eria Lárusdóttir Útbreiðslu-og afgrelðslustjóri: Guðrún Gísladóttir. Afgreið8la: Bára Sigurðardóttir, Halla Pálsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir. Innheimtumaður: Katrín Bárðardóttir. Útkeyrsla, afgreiðsia, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, símar: 68 13 33 & 68 16 63. Símfax:68 19 35 Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrot og setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasölu: 90 kr. Nýtt Helgarbiaö: 140 kr. Á8kriftarverð á mánuði: 1000 kr. 4 SÍÐA - ÞJÓÐVILJINN Miðvlkudagur 6. september 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.