Þjóðviljinn - 21.09.1989, Blaðsíða 3

Þjóðviljinn - 21.09.1989, Blaðsíða 3
Stóriðjudraumar á krepputímum Islendingar eru efnahagslega skringilega í sveit settir fyrir margra hluta sakir. Þjóðin lifir nær eingöngu á einni auðlind sem hefur nægt til að skapa henni lífsskilyrði á við það sem best ger- ist í heiminum. Þessi einhæfni í auðlindum hefur hins vegar í för með sér einhæft atvinnulíf og vegna þess að auðlindin er tak- mörkuð og fiskurinn í sjónum verður að fá næði til að vaxa og dafna, hafa alla tíð ríkt miklar sveiflur í íslensku efnahagslífi. Samkvæmt öllum spám verður næsta ár þriðja samdráttarárið í röð hvað varðar aflabrögð og um leið þjóðartekjur. Atvinnuleysi er fyrirbæri sem íslenska þjóðin hef- ur varla þekkt á undanförnum áratugum nema sem ástand sem ríkir úti í heimi, en síðustu miss- eri hafa verið teikn á lofti um breytingu þar á. Þegar svona er komið er ekki óeðlilegt að menn leiti nýrra leiða og auðlinda sem skapað geti þjóðinni auknar tekj- ur og um leið fleiri atvinnutæki- færi. Stysta leiðin í þessari leit er eðlile|a horft til stjórnmálamanna og rikisstjórn- ar og ætlast er til að þessir aðilar finni leið út úr þrengingunum. í lýðræðisþjóðfélagi, þar sem stjórnmálamenn eiga samkvæmt bókstafnum að eiga pólitíska framtíð sína undir vilja kjósenda sem dæmi þá af verkum þeirra, er hætt við að stjórnmálamennirnir kjósi auðveldustu og stystu leiðirnar til að kaupa sér tryggð kjósenda. Oft eru þessar stuttu leiðir einnig ágætar leiðir en það kemur líka fyrir að þær eru það ekki og kostnaðurinn við þær get- ur reynst þjóðinni afdrifaríkur. Síðustu misseri hefur verið reynt að fá erlenda aðila til að byggja nýtt álver á íslandi eða stækka það gamla í Straumsvík. Það getur ekki talist óeðlilegt að áhugi sé á því í landinu, sérstak- lega þegar hart er á dalnum eins og nú, að þær gífurlegu auðlindir sem liggja í fallvötnum og varma- orku landsins séu nýttar. Til skamms tíma skapa allar þær framkvæmdir sem fylgja upp- byggingu stóriðju fjölda manns vinnu og þegar stóriðjan er risin útvegar hún nokkrum fjölda manna varanlega vinnu. En það má ekki gleyma því að stóriðja og allt sem henni fylgir í virkjunarframkvæmdum og öðru, er mjög dýrt fyrirtæki. ís- lendingar hafa ekki notið nema örlítils brots af þeim hagnaði sem er af álbræðslu í Straumsvík. Sá alþjóðlegi auðhringur sem rekur þá verksmiðju hefur flutt megnið af hagnaðinum úr Iandinu. Auðvitað má færa rök fyrir því að álverið hafi auðveldað okkur að ráðast í virkjunarframkvæmdir en það er líka ljóst að álverið hef- ur ekki greitt fyrir raforkuna fullt verð. Eini raunverulegi ávinning- urinn af álverinu hafa verið þau atvinnutækifæri sem það hefur gefið. Fyrir um fjórum árum var gerð breyting á samningi um verð á raforku til álversins. Þessi breyting var gerð eftir að mikið hafði gengið á á milli íslenskra stjórnvalda og hins erlenda 'auðhrings. Fyrir breytinguna greiddi álverið svo smánarlágt verð fyrir raforkuna, að jafnvel hörðustu stuðningsmenn fyrir- tækisins á íslandi vilja helst gleyma því. í dag miðast orku- verðið við heimsmarkaðsverð á áli innan ákveðins ramma. Verð- ið getur lægst verið 12,5 mills fyrir hverja kílóvattstund, en eitt mills er einn þúsundasti úr Bandaríkjadollar. Hæst getur verðið orðið 18 mills. Sjaldan greitt toppverð Samkvæmt upplýsingum Arn- ar Marinóssonar hjá Landsvirkj- un hefur verðið aðeins á fjórum ársfjórðungum farið upp í topp, á þeim fjórum árum sem nýi samn- ingurinn hefur verið í gildi. Það var á fyrstu tveimur ársfjórðung- um þessa árs og síðustu tveimur á síðasta ári. Á árinu 1985 greiddi álverið að meðaltali 12,5 mills, 1986 12,6 mills og á árinu 1987 greiddi það að meðaltali 13,5 mills. Framleiðslukostnaður Landsvirkjunar á hverja kílóvatt- stund á síðasta ári var hins vegar 24 mills, þegar allur kostnaður fyrirtækisins hefur verið tekinn inn í myndina. Hagnaður Lands- virkjunar af orkusölu til álversins á síðasta ári var 1,09 miljarðar króna. Þegar íslensk stjórnvöld áttu í stríði við svissneska auðhringinn, var Hjörleifur Guttormsson, þingmaður Alþýðubandalagsins, iðnaðarráðherra. Hann sagði Þjóðviljanum að þrátt fyrir þær breytingar sem gerðar hefðu ver- ið á verðlagningu raforku til ál- versins væri það verð sem álverið greiddi með því lægsta sem þekktist. Sams konar samningar úti í heimi væru að vísu af mis- jöfnum toga, þar sem rekstur raf- orkuvera og iðnaðarvera væri að- skilinn. Þegar þessir hlutir væru ræddir væri mikilvægt að fram færi víðtækur samanburður á að- stæðum á milli landa. Alkan ál- fyrirtækið í Kanada ætti til dæmis sjálft nokkur raforkuver, þannig að verð á raforku væri einungis bókhaldsatriði hjá því og við gæt- um ekki borið okkur saman við slíkt. Hjörleifur sagði að þegar þessi mál hefðu verið skoðuð í hans ráðherratíð, hefði verið greint á milli skyldra og óskyldra aðila hvað varðar eignarhald á raf- orkuverum og iðnverum. Þetta hefði ekki verið gert með fullnægjandi hætti síðan. Sá hátt- ur sem hafður hefði verið á, að selja orkuna einangrað án þess að að íslendingar ættu í iðnverun- um, væri rangur. Núna teldu menn sig vera að keppa við Kana- da og Ástralíu og fleiri um verð á raforku en það væri ósköp ein- faldlega rangt að líta á eitthvert heimsmarkaðsverð á raforku í þessum efnum. Skoða yrði dæm- ið í heild, þ.e. stóriðjuna og ork- uframleiðsluna. Að mati Hjörleifs geta íslend- ingar sjálfir tvímælalaust komið upp orkufrekum iðnaði. Það hefðu ekki farið fram sjálfstæðar athuganir í þeim efnum frá því Alþýðubandalagið fór með iðn- aðarráðuneytið. Til að þetta mætti verða þyrfti að vera til þekking í landinu varðandi orku- frekan iðanað. Aðilar ættu að vera í því að vinna upp þessa þekkingu og við ættum að byggja fjárfestingar á þeirri vinnu. „Mér finnst allt of lítið gert í því að standa fyrir öflugri þróunar- og rannsóknarstarfsemi bæði hvað varðar þann iðnað sem fyrir er í landinu og varðandi nýjan iðn- að,“ sagði Hjörleifur. Menn væru algerlega háðir því að að erlendir fjárfestingaraðilar sæju sér hag í því að reisa hér stóriðju. Hjörleifur benti á að verðgildi samningsins við álverið hefði rýrnað um 430 miljónir króna á árunum 1985-1987, vegna þess að engin verðtrygging væri á í BRENNIDEPLI samningnsrammanum. Það væri hins vegar eitt af því sem nauðsynlegt væri að hafa í ramm- anum, ef menn ætluðu að hagnast á því að selja stóriðju raforku. Hann hefði enga trú á því að menn yrðu ríkir af því að selja raforkuna hráa. Þá sagði Hjör- leifur að því hefði verið haldið fram að stóriðja væri allt of flókið mál og sá heimur þar sem verslað væri með afurðir hennar væri of lokaður til þess að íslendingar ættu einhverja möguleika á þeim vettvangi. Þetta sagði Hjörleifur að væri ekki rétt. Engin stóriðja, ekkert virkjað Jón Sigurðsson iðnaðarráð- herra hefur viðrað hugmyndir sínar um stórfelldar stóriðju- framkvæmdir í náinni framtíð. Þjóðviljinn átti stutt viðtal við ráðherrann um þessi mál: Nú eru uppi hugmyndir um stóriðju og þú ert nýkominn af fundum úti á landi þar sem þú reifaðir hugmyndir um stóriðju á Austur- eða Norðurlandi. í Ijósi mögulegrar aukningar á stóriðju- verum hér á landi, þarf þá ekki annaðhvort að endurskoða raf- orkuverð eða skoða möguleika íslendinga sjálfra á að koma áfót stóriðju? „Þetta er náttúrlega stórt mál sem hér er hreyft. Ég hef á nokkr- um fundum á Norðurlandi og Austurlandi og með hluta verka- lýðshreyfingarinnar hér í Reykja- vík, reifað hugmyndir um virkj- anir og iðnaðaráform þeim tengd. Það er Ijóst að ef ekki kemur til nýr orkufrekur iðnaður þá er engin þörf fyrir frekari virkjanir fyrr en eftir aldamót. Ef við finnum þörf til að treysta undirstöður atvinnu í landinu hljótum við að horfa til orkulind- anna. Þetta eru ákaflega fjárfrekar framkvæmdir og þær koma í stór- um skömmtum. Ekki af því við viljum það, heldur vegna þess að tæknin er þannig. Það sem er langsamlega hagstæðast fjárhags- lega í stóriðju um þessar mundir og fyrirsjáanlega um næstu ár og áratugi, eftir því sem þeir menn telja sem hafa kannað markaðs- möguleikana, er áliðjan. Tæknin er þannig núna að ef gæta á fyllstu hagkvæmni og fylls- tu umhverfisverndarsjónarmiða, þarf mjög stórar og dýrar verks- miðjur sem geta framleitt 180- 200 þúsund tonn á ári, eða ef hægt er að bæta við stærri verk- smiðjur eins og í Straumsvík, þar sem verið er að tala um 120 þús- und tonna viðbót. Þetta þýðir að það þarf að stórauka raforku- framleiðsluna. Með þessu er ég aðeins að vekja athygli á því að ef við viljum beisla orkuna í fallvötnunum, verðum við líka að tryggja markaðinn fyrir orkuna. Það gerum við eingöngu með samningum við erlenda sam- starfsaðila um orkufrekan iðnað. Ég held að það sé óskynsam- legt fyrir okkur að fara út í þetta sjálfir. Ég held að við eigum að freista þess að fá erlent áhættufé í fjármagnskostnaðinn við verk- smiðjurnar, sem er afar hár. Svona verksmiðja kostar nokkra tugi miljarða. Við þurfum líka að fjármagna orkuverin og ég held að þar eigum við að halda okkur við regluna um íslenskt eignar- hald og fjármögnum þau með lántökum fyrir reikning íslenska ríkisins eða Landsvirkjunar og fé sem losnar úr rekstri þessara fyr- irtækja. En auðvitað er forsend- an fyrir því að taka slík lán að maður endurheimti þau með orkusölu og út á það gengur nátt- úrlega málið, að hafa tryggt sig sæmilega fyrir slíkar stórfram- kvæmdir og það hefur skort á meðBlöndu. Við verðum bara að játa að við erum ekki búnir að selja þá orku sem hún getur fram- leitt þegar henni verður lokið. Enda hefur framkvæmdatími orðið úr hófi fram langur og þar af leiðandi kostnaður hækkað. Ég held að það blandist engum hugur um, sem vill skoða þetta, að á tímum aflatakmarkana og atvinnuleysis eða hættu á því, verðum við að hugsa stórt í þess- um efnum. Við verðum líka að hugsa hvernig við getum sætt byggðasjónarmið í þessu máli. Ég held að við getum eingöngu gert þetta með því að stíga það skref að stækka í Straumsvík, ef við fáum samninga um það, cg ákveða að næsta stórvirkjun, þegar búið er að sjá um orku í þetta iðjuver, verði utan suðvest- ursvæðisins og næsta stóriðjuver sem við gerum samninga um, hvernig sem þeir verða, verði það líka. Þetta er mjög stórt viðfangs- efni og við eigum ekki bara við sjálfa okkur í því, við verðum að ná samningum við aðra til þess, hvernig sem við stöndum að því. Frumforsenda er auðvitað að það hafi tekist samstaða um það í stjórn landsins og á Alþingi og reyndar tel ég að byggðasátt sé mjög mikilvæg í málinu. Þetta er það sem ég vil vinna að. Þetta er engin allsherjarlausn en þetta er hins vegar mjög mikilvægt. Þegar maður gáir að því að 1 tonn af áli í útflutningi leggur álíka mikið í þjóðarbúið og 1 tonn af þorski upp úr sjó, þá er hægt að sjá hvað munar um 100 þúsund tonna ál- ver f okkar búskap. Og það eru bara blindir menn sem ekki sjá að þetta er eitt af því sem við hljót- um að horfa til.“ Ef við mönnum okkur upp Pegar horft er til þess að fram- leiðslukostnaður á raforku er hœrri en það sem álverið borgar hœst í dag, verðum við þá ekki að fá tryggingu fyrir því að fá hœrra verðfyrir raforkuna? „Jú, en að sjálfsögðu verðum við fyrst og fremst að horfa raun- sætt á málið og skoða hver er framleiðslukostnaðurinn á jaðr- inum í okkar raforkukerfi. Hvað getum við fengið á markaðnum fyrir hana? Þetta er ekki spurning um hvað við verðum að fá, heldur hvað er raunsætt að reikna með og hvort dæmið gangi þá upp. Ég er á þeirri skoðun að það geti gengið upp og það eru skýr ákvæði um það í lögum að samn- ingar um orkusölu til stóriðju megi ekki hækka orkuverð til al- mennings. Þeirra sjónarmiða verður að sjálfsögðu gætt í samn- ingum. En ég vil ekki nefna neinar tölur eða flétta þetta inní neitt net staðhæfinga sem fram « hafa komið í yfirlýsingum manna í fjölmiðlum og víða. Ég segi það eitt, að það er mjög nauðsynlegt til að ná góðum samningum, að það myndist um það almennt samkomulag að það eigi að fara þessa leið og að fram- kvæmdavaldið fái umboð frá þinginu til að vinna að slíkum málum og hafi til þess nægilegt svigrúm, sem er forsenda þess að góðir samningar með gagn- kvæmum hagsmunum geti náðst. Umboðslausir menn geta aldrei samið þannig að gagn sé að.“ Ertu bjartsýnn á að fá aðila til frekari stóriðju eftir að Straums- vík hefur verið stœkkuð? „ Já, ég er b j artsýnn á það ef við mönnum okkur upp og gerum upp hug okkar í málinu, skil- greinum umboð handa fram- kvæmdavaldinu til að ganga í málið.“ -hmp Á árinul985greiddi álverið að meðaltali 12,5 mills, 198612,6 mills og á árinu 1987greiddiþað að meðaltali 13,5 mills. Framleiðslukostnað- ur Landsvirkjunar á hverja kílóvattstund á síðasta ári var hins vegar24 mills Fimmtudagur 21. september 1989 ÞJÓÐVILJINN — SÍÐA 3

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.