Þjóðviljinn - 22.09.1989, Blaðsíða 11

Þjóðviljinn - 22.09.1989, Blaðsíða 11
Þegar maður fæst við að hug- leiða rök tilverunnar pikkandi fyrir framan skjáinn, finnst honum gjarnan að sú iðja sé því líkust að tala við sjálfan sig sub specie aeternitatis, og þá á hann frekar von á því að mæta Þorgeirsbola en fá einhver viðbrögð við skrif- unum. Þó kemur það fyrir, og núna síðast gerðist það fyrir þremur vikum að hörð mótmæli bárust hvaðanæva, jafnt ofan úr Breiðholti sem utan af lands- byggðinni, vegna þess að sú spurning hafði verið borin upp hvers vegna unglingar væru svo heimskir. Luku menn upp einum rómi um það, að þetta væri hin mesta fjarstæða, - þvert á móti væru unglingar oft á tíðum mun skarpari og glöggskyggnari en margir fullorðnir menn. Þeir hefðu svo næman skilning á stundlegum straumum mannlífs- ins að í bráðlæti sínu væru þeir gjarnan langt á undan samtím - anum.Því væri það engin furða, þótt sagan bæri oft skýrt vitni um að þeir hefðu haft rétt fyrir sér í viðskiptum sínum við samfélag öldunganna, þrátt fyrir ofstopa- fullan uppreisnaranda, ogkann- ske einmitt vegna hans,- þeir hefðu jafnvel haft þeim mun rétt- ara fyrir sér sem uppreisnarand- inn var meiri. Og þá lá beint við að vitna í orð þjóðskáldsins, svona rétt eins og unglingur myndi kannske hafa þau yfir ef hann legði slíkan samsetning yfirleitt á minnið: kynslóð „Ef æskan vill rétta þér urrandi hund, þá er hún á framfaravegi.“ Ég varð svo áttavilltur af þess- um gagnrýnisorðum, að ég sló á þráðinn til kunningja míns sem er öðrum meiri lífsspekúlant, og bar þau undir hann: Skyldi það vera rétt að heimska unglinganna sé ímyndun okkar og stafi af því að þeir séu á undan okkar tíma, kannske þegar komnir á 21. öld- ina? Það heyrðist mikill hlátur í sím- anum. „Klukka sem flýtir sér sýnir oss einnig það sem koma skal, og ætti hún þá ekki sam- kvæmt þessu að hafa rétt fyrir sér?“ sagði lífsspekúlantinn. „En því má ekki gleyma að þetta er dálítið skilgreiningaratriði, því hvort skyldi vera betra að hafa klukku sem stendur eða klukku sem seinkar sér um eina mínútu á sólarhring? Frá strangvísinda- legu sjónarmiði liggur í augum uppi að klukkan sem stendur er mun nákvæmari, því hún er rétt tvisvar á sólarhring, þar sem hin er ekki rétt nema einu sinni á hverjum sjö hundruð og tuttugu döggum, eða er ekki svo?“ Og spekúlantinn hló áfram. „En kannske þarf að skoða fleiri vídd- ir í þessu dæmi en tímavíddina eina, og því ekki úr vegi að teikna þrætueplið upp í þrívíðu rúmi.“ Meira fékk ég svo ekki upp úr honum í þetta sinn. En ég fór að velta málinu fyrir mér frá þessu nýja sjónarmiði, og þótt fræðikenningar af ýmsu tagi dygðu skammt, kom þá sitthvað í ljós. Mönnum hættir nefnilega til að missa sjónir á þeirri staðreynd - og þá einkum og sér í lagi ef þeir hafa kafað djúpt í alls kyns fræðum - að aldrei er hægt að gera ráð fyrir því að lögmál, sem eru allsráðandi víðast hvar á byggðu bóli, gildi yfirleitt á fs- landi, og því verður hugsunin að fylgja öðrum mynstrum, ef menn vilja rýna í margvísleg fyrirbæri á þessu vindum skekna skeri. í löndunum í kringum okkur, og áreiðanlega miklu víðar, hefur þjóðlífið um óralangt skeið mót- ast af alls kyns stéttaandstæðum og stéttabaráttu, þar sem stéttir tala jafnvel ekki sama málið og elda saman grátt silfur af því meiri þvermóðsku, og hefur þetta mikið verið rannsakað og margt um það skrifað. Hvort sem það er rétt eða ekki að stéttabar- áttan sé það afl sem knýi áfram framvindu sögunnar, hafa þessar rannsóknir mjög orðið til að auka skilning vorn á samfélaginu. En þegar komið er upp á skerið er hætta á því að þær flækist meira fyrir en hitt, ef fræðimenn og aðr- ir ætla að reyna að staðsetja helstu mótsagnir þjóðlífsins. Hér hafa önnur átök verið djúpstæð- ari um skeið en stéttabaráttan, en það er það sem kalla mætti „kyn- slóðabaráttan". Á íslandi eru vitanlega til stétt- ir manna, sem eiga fjármagn og fyrirtæki og láta aðra vinna fyrir sig með góðum hagnaði, en í þjóðfélagskerfinu skiptir það enn meira máli, að upp reis kynslóð sem uppgötvaði þann nýja sann- leik að þótt hlutabréf væri betra meðal til að auðgast en kúbein, eins og kapítalistar vissu, gat samt annað verið ennþá betra en þetta hvort tveggja, en það voru bankabækur og sjóðir, - sem ein- hverjir aðrir áttu. Og þá jafn- framt þann sannleik, sem hægt var að leiða beint af fyrri upp- götvuninni, að þótt meiri ábóta- von væri í því að ráða mann í vinnu en ráða hann af dögum, var samt enn betra að fá hann til að spara og leggja fé til hliðar. Á sama hátt og það þurfti á sínum tíma að hanna nýtt kerfi fyrir hlutabréfin,sem sé kapítalism- ann, þurfti síðan að skapa ann- að hagkerfi og þróaðra til að unnt væri að beita þessum nýju tækj- um til auðgunar. Gætu menn kallað það „verðbólgubú- skapinn" meðan ekki finnst neitt annað orð og liprara, en þegar það var komið í gagnið byggðist það á því að við hliðina á því sem áður var kallað fjármagnseignir var búin til ný tegund af eignum, sem var eins konar neikvæð hlið kerfisins, rétt eins og andefni er , til við hliðina á efni í alheiminum, - en það voru skuldirnar. Síðan var búið þannig um hnútana, að skuldirnar urðu afl þeirra hluta sem menn vildu gera, en þær uxu þessari kynslóð ekki yfir höfuð, því að jákvæða og neikvæða hlið- in, fjármagnseignir og skuldir, voru látnar eyðast upp samtímis, eins og andefni eyðir efni í al- heiminum, ef það kemst á annað borð í snertingu við það. Á þennan hátt rak kynslóðin fyrirtæki, byggði yfir sig hallir og lifði í vellystingum, með því að hirða sparifé foreldranna og síð- an afkvæmanna. Þetta kerfi var óneitanlega eitt hið fullkomn- asta, sem upp hefur verið fundið: kúbein hefur vitanlega þann meinlega ókost að á því sjást fingraför,og hlutabréf verða menn að geyma í sinni eigin skúffu eða bankahólfi, þannig að verkfærið verður jafnan rakið til þeirra sem á því hagnast. Bankabókin liggur hins vegar niðri í skúffu hjá þeim sem stendur með sparnaði sínum undir þessu kerfi og hann er sá eini sem setur fingraför sín á hana: sá sem lætur kerfið vinna fyrir sig og hirðir gróðann kemur hins vegar aldrei nálægt henni og er stikkfrí. Eins og önnur hagkerfi þurfti þessi „verðbólgubúskapur" að hafa einhvern hugmyndafræði- legan bakhjarl og réttlætingu, sem forsprakkar hans, þessi sér- staka kynslóð, gat stutt sig við og beitt fyrir sig, en vegna eðlis kerf- isins gat hann ekki túlkað það nema með einhverjum öfugum formerkjum. Og kynslóðin fann þennan bakhjarl, þar sem kann- ske var síst við því að búast: í hinni fornu sveitamenningu: Þetta var nefnilega síðasta kyn- slóð borgarbúa, sem hafði ein- hver bein tengsl við sveitirnar, og ekki síst af því að sá arfur var yngri borgarbúum framandi og orðinn þeim eins og lokuð bók, beitti hún honum óspart fyrir sig, einkum í byrjun meðan kerfið var að komast á. Hef ég hugljúfar endurminningar um athafna- mennina, sem gættu þess vendi- lega að skulda sem mest og borga aldrei krónu fyrr en húsið var komið undir hamarinn, en lásu á meðan sveitasögur og sungu ætt- jarðarljóð um blómin og vorið með tárin í augunum, og prédik- uðu svo af ákefð og sannfæringarkrafti dyggðir sveitalífsins, - vinnusemi, ráð- deild og sparsemi. „Það er þeirra vegna að ég hef komist svona langt,“ sögðu þeir og borðuðu kalda kjötsúpu, af því að þeim fannst það svo þjóðlegt. En þetta var vitanlega alveg satt: það voru bara hinir sem þurftu að hafa þessar dyggðir svo að kerfið gæti gengið. Gegn þessum mönnum voru unglingarnir í heiftúðugum upp- reisnarham: þegar þessi eldri kynslóð athafnamannanna um- vafði sig í kvöldroða horfinnar sveitarómantíkur og þakkaði samt sínum eigin dugnaði fyrir að hafa komist nógu langt frá henni, sögðu unglingarnir „amma þín hvað?“ og sungu útlenda slagara með flámæltri rödd. Og þegar eldri kynslóðin var farin að hafa áhyggjur af því að sparifé annarra hrykki ekki til að eyða hennar eigin skuldum og prédikaði. fyrir unglingunum „græddur er geymdur eyrir“ (sem var náttúr- lega alveg dagsatt, en ekki í þeirri merkingu sem venjulega var í orðin lögð), flýttu þeir sér að eyða fénu hið fyrsta. Kerfið átti eftir að breytast eftir breytilegum hagsmunum kynslóðarinnar, en uppreisnarhamur unglinganna hélst samur og jafn. Þegar komið var á skyldusparnaði, af því að kynslóð athafnamannanna fór að hafa sárar áhyggjur af því að ann-, að sparifé væri þegar uppurið, fundu þeir upp alls kyns kátleg ráð til að sleppa undan honum. Baráttan heldur reyndar stöðugt áfram, þegar þessi kynslóð reynir að hagræða kerfinu til að atleið- ingar þess fari nú ekki að bitna á henni sjálfri, en munurinn er þó sá að nú eru það ekki lengur ung- lingar sem eru í framvarða- sveitinni, og er bardagastíllinn því annar. Þannig mætti kannske líkja uppreisnaranda unglinganna í þessu kynslóðastríði við andóf leiguliða gegn aðalsmönnum á sínum tíma. En þá vaknaði spurningin: Voru unglingarnir á móti ráðdeild og sparsemi af því að þeir skildu svo greipilega vel eðli kerfisins, eða kannske af ein- hverjum allt öðrum ástæðum sem hafa ekkert með skarpskyggni að gera? f von um að fá einhverja skýringu á þessu hringdi ég aftur í lífsspekúlantinn. „Er ekki líklegt, að þarna slái ýmsu saman?“ sagði hann, „og skyldu menn ekki geta risið upp á móti kerfinu án þess að vera langt á undan tímanum? Til þess þarf naumast miklar gáfur, - það var þá frekar eldri kynslóðin sem sýndi skapandi gáfur í því að finna upp þetta hugvitsamlega kerfi... En heldurðu annars ekki að margir unglingar væru hvort sem er á móti ráðdeild og spar- semi, hvernig sem kerfið væri? Þessi kynslóðabarátta, sem þú nefnir svo, stafar af sérstökum og stundlegum aðstæðum, en bak við hana og óháð henni er kann- ske einhver önnur mótsögn". „Ertu þá kannske að ýja að heimskunni eftir allt sarnan?" „Segja má að hér sé fyrst og fremst um einhvers konar mun á skynjun að ræða. Það er sem sé eins og unglingar sjái allan heim- inn í litum, sem eru svo sterkir að þeir fá nánast ofbirtu, og því hafi þeir litla yfirsýn og enga dýpt, heldur dragist athyglin að litun- um sem slíkum og reyndar mjög ákveðnum blettum í allri dýrð- inni. Getur þá eftirtektin orðið býsna takmörkuð og hugsunin líka, eða er þetta ekki það sem þú varst að reyna að segja? Þegar menn eldast er hins vegar eins og þeir glati þessari skynjun - og gleymi því jafnvel að þeir hafi nokkurn tíma séð litina - en sjái þá heiminn í svart-hvítu. Þeir missa þannig, að því er virðist, sjónar á einstökum atriðum en fá í staðinn einhverja nýja heildar- sýn. En er víst að þessi munur hafi nokkuð með gáfur að gera?“ e.m.j. HUGVEKJA E.M.J Föstudagur 22. september 1989 NÝTT HELGARBLAÐ — SÍÐA 11

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.