Þjóðviljinn - 22.09.1989, Blaðsíða 14

Þjóðviljinn - 22.09.1989, Blaðsíða 14
Fyrir framan augnaráö sfingsins Venus frá Miló. Nýskipun Louvre-safnsins Þegar ég var nýkominn til Par- ísar í fyrsta sinn, fór ég að skoða Louvre-safnið í fylgd með tveimur kunningjum mínum. Við gengum í gegnum deildina með grískum höggmyndum, stoppuð- um góða stund hjá Venusi frá Míló, sem stóð mitt í háum, fer- hyrndum sal, svo túrhestarnir gætu myndað hana frá öllum hliðum, en héldum svo áfram. Þá lá leiðin niður stiga og komum við allt í einu í langa neðanjarðar- hvelfingu þar sem þögnin ríkti og ekkert var nema stór, egypskur sfings úr dökkbrúnum steini sem horfði dulráðum augum á þá sem gengu fram hjá. Þessi óvænta sjón var svo mögnuð að við urð- um allir þrumu lostnir. Einn okkar hafði verið að færa að því ýmis rök, að egypsk list væri ein hin merkasta í gervallri sögunni, en þarna varð honum orðfall. Snemma í maí í vor stóð ég aft- ur á þessum sama stað, en nú hafði nokkur breyting orðið: þar sem áður hafði verið múrveggur fyrir framan sfingsinn voru nú stórar dyr og sást þar niður í ein- hverja undirheimaveröld með háreistum undirstöðum múranna kringum miðaldakastalann sem hafði staðið þarna á undan Louvre-höllinni. Óvíst er að nokkur hafi vitað umþ>essa múra fyrir aldarfjórðungi, þegar ég var þarna fyrst, og voru þeir þá faldir í jörðinni: myndbreytingin á þessum stað, beint fyrir framan augnaráð sfingsins, var eins og þegar stór leynihurð er dregin frá í James Bond mynd og dularfull salarkynni koma allt í einu í ljós... En í þessari sýn birtist ekki nema hluti breytinganna. Undan augnaráði sfingsins liggja leiðir til margra átta, þær hlykkjast á ýmsa vegu gegnum þau salar- kynni þar sem grísku höggmynd- irnar hafa verið til húsa áratugum saman og svo einnig gegnum „undirheimaveröldina“ nýju, en þær enda allar í þeirri voldugu mynd, sem eins líklegt er að sfingsinn dulráði hafi haft fyrir hugskotssjónum frá upphafi: glerpýramídanum mikla, sem er nú orðinn aðalinngangur Louvre- safnsins - og ekki aðeins það, heldur líka eins konar tákn um þá róttæku nýsköpun safnsins sem nú stendur yfir. En tæpast er of- mælt að segja, að þær fram- kvæmdir séu eitthvert merkasta framlag Mitterrands forseta -til menningarmála í landinu: með þeim breytist svo mjög aðstaða manna til að nálgast þau verk sem þar eru geymd, að það er nánast eins og verið sé að skapa nýtt safn við hæfi okkar tíma. En þessi ný- sköpun hefur samt kostað sögu- legar deilur, þar sem glerpýra- mídinn var í brennideplinum, og er fróðlegt að rifja þær upp. Safn í niöurníðslu Louvre-safnið er eitt stærsta og merkasta listasafn veraldar, ekki síst að því leyti að í því er engin „eyða“: þar er ekki aðeins mikill fjöldi heimsfrægra listaverka, heldur spannar það líka alla list- í París asöguna frá tímum Forn-Egypta og fram á 19. öld (fyrir yngri list eru önnur gagnmerk söfn í París, Orsay-safnið fyrir 19. öldina og byrjun hinnar 20., og svo Pompidou-safnið fyrir nútíma- list). En það hafði löngum verið í mikilli niðurníðslu, - svo mikilli að það vekur undrun nú á dögum, þegar menn rifja ástand- ið upp. Þegar á stjórnarárum de Gaulle var sýnt að til róttækra ráðstafana þyrfti að grípa, ef safnið ætti ekki að grotna endan- lega niður. Hluti af vandanum var efalaust fólgin í því hve óhentuglega safn- inu var fyrir komið. Louvre- höllin var byggð á löngum tíma án nokkurs heildarskipulags og hafði smám saman orðið að miklu völundarhúsi, þar sem samgöngur milli hinna ýmsu hluta voru erfiðar og vandasamt að hafa nokkra yfirsýn yfir heildina. Einn elsti hluti þess, sem var að miklu leyti frá endur- ’ reisnartímanum, var stór, fer- hyrnd bygging með húsagarð í miðjunni (hinn svonefnda „Fer- hyrnda garð“), sem stóð á Signu- bökkum. Út frá henni lágu svo tvær langar álmur: önnur, sem var frá 17. öld, lá í vestur með- fram Signu, en hin var samhliða henni og ofar (eða norðar), og hafði Napóleon 1. byggt hana að miklu leyti, en Napóleon 3. síðan aukið hana og endurbætt. í þess- ari yngri álmu hafði franska fjármálaráðuneytið verið til húsa um langt skeið, þannig að safnið hafði einungis til umráða hina álmuna, svo og ferhyrndu bygg- inguna, þó ekki að öllu leyti. Segja mátti, að þetta væru nokkuð rúmgóð húsakynni fyrir safn, þótt það væri að vísu baga- legt hve seinlegt var að fara frá ferhyrndu byggingunni og út á enda álmunnar, en það var eitthvað um 800 m vegalengd: voru í gangi ýmsar skrýtlur um Ameríkana sem reyndu að setja met í að skoða safnið á sem styst- um tíma og Frakka sem voru í harðri samkeppni við þá... En samt var húsrýmið hvergi nærri nóg fyrir safnið, þannig að veru- legur hluti listaverkanna varð að vera í geymslu, þar sem enginn gat séð þau, og annað var ekki síður bagalegt: það var nánast ekkert rúm fyrir alls kyns nauðsynlega þjónustu: bókasafn, veitingastaði, sölustaði fyrir eftir- prentanir, listaverkabækur og slíkt og annað af því tagi. De Gaulle setti því fram þá hugmynd að leggja alla Louvre-höllina undir safnið, en úr því varð þó ekki neitt. Ofan á þetta húsnæðisvanda- mál bættist líka annað, sem var kannske tengt því en gerði málið alla vega mun verra: það var með fádæmum hvað safnið var illa rekið og illa hirt. Vegna skorts á starfsfólki var mjög sjaldan hægt að hafa allar deildirnar opnar í senn og þurfti stundum að skipu- leggja opnunartímana á hverjum morgni eftir því hve margir starfs- menn voru mættir, eða eftir skyndiverkföllum sem alltaf voru að bresta á: sumar deildirnar voru kannske ekki opnar nema einn dagpart í viku, öðrum var lokað einum og hálfum tíma á undan venjulegum lokunartíma safnsins og þar fram eftir götun- um. Ef menn komust inn í þá deild sem þá langaði til að skoða, mætti þeim hryggileg sjón: verkin voru rykfallin, bæði málverk, rammar og höggmyndir, glugg- arnir voru aldrei hreinir, þar sem þeir voru á „landamærum" þeirra sem sáu um hreinsun safnsins að utan og innan, og lýsingin var næsta bágborin: stundum þurfti maður að rýna lengi í málverkin til að sjá nokkurn hlut... Um langt skeið voru veggirnir einnig mjög skítugir, en svo var gerð gangskör í að mála helstu sali og gera þá upp, og urðu þeir bjartari við það. Eins og þetta allt væri ekki nóg voru safnverðirnir víð- frægir fyrir það hvað þeir voru geðstirðir, og þurfti nokkuð til að öðlast slíkan orðstír. Nýsköpun boðuö Enginn hreyfði því nokkrum mótmælum, þegar Mitterrand forseti lýsti því yfir á sínum fyrsta blaðamannafundi í september 1981, að hann hefði tekið þá ákvörðun að leggja alla Louvre- höll undir safnið og endurskipu- leggja það: jafnvel þeir sem síðar börðust á móti hugmyndum hans töldu þetta skynsamlega hug- mynd og bera vott um hugrekki. Reyndar var þetta ein af mörgum áætlunum Mitterrands um fram- kvæmdir í París, og gustaði meira um ýmsar aðrar. En samt hófst þá nokkuð löng og furðuleg saga. Fljótlega var hafist handa um að kanna ástandið og leggja helstu línurnar um nýsköpun safnsins og var því verki íokið á útmánuðum 1983, en jafnframt var leitað að arkitekt sem gæti fundið snjalla lausn á þeim vandamálum sem verkinu fylgdu. Eftir nokkra leit og viðræður bak við tjöldin fól Mitterrand forseti kínversk- bandaríska arkitektinum Ieoh Ming Pei að gera tillögur, án þess að efna til nokkurrar samkeppni um verkið. Þessi arkitekt var fæddur í Kanton í Kína árið 1917, en rak mikla arkitektaskrifstofu í New York og var frægur fyrir skýjakljúfasmíðar í Ameríku og Asíu og svo ekki síst fyrir við- bótarbyggingu við safnið Natio- nal Gallery í Washington. Áður en hann tók að sér starfið opin- berlega vann hann í fjóra mánuði og kom þá margar ferðir til París- ar í algerri leynd og ræddi við Mitterrand forseta. I nóvember 1983 lagði hann loks fram fjórar mismunandi tillögur en mælti sér- lega með einni og var hún sam- þykkt. En það var ekki fyrr en í janúar 1984, sem hún var birt op- inberlega og lögð fyrir þá nefnd Parísarborgar sem sér um sögu- legar byggingar og slíkt. Þá var eins og sprengju hefði verið kast- að... Pýramídinn Kjarni málsins var vitanlega sá að finna einhverja lausn á „sam- gönguvanda" þessarar stóru hall- ar, því hvernig menn gætu komist sem greiðlegast inn í hvaða deild þess sem væri og síðan milli deildanna. En sá vandi hlaut að 14 SÍÐA - NÝTT HELGARBLAÐ Föstudagur 22. september 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.