Þjóðviljinn - 28.09.1989, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 28.09.1989, Blaðsíða 4
þJÓÐVIUINM Málgagn sósíalisma, þjóðfrelsis og verkalýðshreyfingar Skattlagning fjármagns- tekna Það eru þessa dagana á kreiki yfirlýsingar um að Morgun- blaðið og Sjalfstæðisflokkurinn komi hvort öðru ekkert við. En vitanlega eru þessir aðilar samstiga í flestum málaflokk- um, hvað sem persónulegum ýfingum dagsins líður. Til dæmis hafa þeir lagst mjög á eitt um að draga upp sem herfilegasta og skelfilegasta mynd af þeim áformum sem fjármálaráðherra og hans menn hafa kynnt að undanförnu um skattlagningu fjármagnstekna. Og þá er ýmist með stríðum tónum eða ámátlegum farið með þann söng, að nú eigi að ræna sparifjáreigendur bæði verðbótum og höfuð- stólnum sjálfum, nú muni sparnaður í landinu hrynja og þar fram eftir götum. í þessu moldroki öllu er farið óralangt frá réttu lagi. Eins og Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra og þeir sem til- lögurnar hafa undirbúið hafa margtekið fram, þá stendur ekki annað til en að skattleggja þær nýju tekjursem menn fá til ráðstöfunar með greiddum raunvöxtum - meira að segja verði raunvextir undir ákveðnu marki áfram skattfrjálsir. Dæmi er t.d. tekið af sparifé upp á miljón sem geymt er á verðtryggðum reikningi; með skattlagningunni gerðist ekki annað en að raunvextir þeir sem eigandi þessa sparifjárfær lækka um tæpt prósent. Ástæðulaust að láta sem slíkt og þvílíkt mundi leiða til þess að menn teldu ekki lengur ómaks- ins vert að spara sér fé. En fyrst og síðast er hér um réttlætismál að ræða. Fjár- málaráðherra segir í viðtali við Þjóðviljann í gær: „Grundvall- arviðhorfið er að launatekjur og fjármagnstekjur eiga að vera meðhöndlaðar eins í skattkerfinu. Það eigi ekki að hafa áhrif á skatta manna hvort þeir fá tekjur vegna vinnu sinnar eða vegna fjármagnseigna". Og þetta er einmitt það sem menn þurfa fyrst að spyrja sig um þegar þeir taka afstöðu til málsins. Ýmis dæmi hafa verið nefnd um það óréttlæti sem til verður í því ástandi sem ríkt hefur. Til dæmis getur það munað mjög miklu í ellilífeyrisgreiðslum, hvort menn hafi tekjur fyrir hlutastarf eða af verðbréfum. Það ætti líka að vera umhugsunarefni þeim oddvitum Sjálfstæðisflokksins sem mest hamast gegn áformum um að skattleggja fjármagns- tekjur, að núverandi ástand ýtir undir það að menn leggi frekar fé sitt í verðbréfasjóði en í atvinnufyrirtæki - en það á að heita mikið áhugaefni einmitt þess flokks að hlutafjár- kaup í fyrirtækjum verði freistandi kostur í fjármálum. Eins og fram hefur komið í fréttum hefur allvíðtæk pólitísk samstaða skapast um þetta mál: Sjálfstæðisflokkurinn er tiltölulega einangraður í því. Það hefur vakið furðu að Kvennalistinn telur sig samþykkan því að skattlagning fjár- magnstekna sé réttlætismál, en vísar henni samt frá vegna þess að hún sé ekki rétt tímasett og þá vegna þess að núverandi ríkisstjórn sé ekki trúandi fyrir þessari breytingu. Þetta er undarlegt ráðleysi: ef þetta er réttlætismál, hvenær gefst betra tækifæri til þess að framkvæma það en nú? Ætti að bíða með það þangað til Sjálfstæðisflokkurinn væri kom- inn í aðstöðu til að eyðileggja málið - eða getur ekkert jákvætt gerst fyrr en Kvennalistinn er kominn í meirihluta- stöðu eða amk ótvíræða forystu í stjórn landsins? Að öllu samanlögðu: skattlagning fjármagnstekna er þarft mál. Það er í samræmi við ýmis fyrirheit sem stjórnarflokk- arnir hafa gefið, það er um margt hagkvæmnismál og það er um flest ótvírætt réttlætsmál. Vonandi tekst útfærsla þeirra tillagna sem hér um ræðir sem best og skjótast. ÁB KLIPPT OG SKORIÐ Bjúgaldin Það er daglegur viðburður að heyra fregnir um alls kyns hryðjuverk og spillingu i sumum löndum hins svokallaða þriðja heims: valdhafarnir hugsa um það eitt að hreiðra sem best um sig til að safna sem allra mestum auði, þeir arðræna almenning, sem þeir reyna jafnframt að halda í sem mestri örbirgð og fá- fræði, þverbrjóta og fótumtroða einföldustu grundvallarreglur lýðræðisins, beita hryðjuverkum gegn andstæðingum sínum og þeim sem hugsanlega gætu orðið það, hafa kannske einhverjar „dauðasveitir“ í sinni þjónustu og þar fram eftir götunum. Erlend efnahagsaðstoð, lán og slíkt, duga hvergi til að bæta kjör landsmanna því allt þetta hverfur í spillingarhít valdhafanna, og reyndar verður góður hluti af auðæfum þeirra gagnslaus fyrir þjóðarheildina, þar sem honum er umsvifalaust komið undan í er- lenda banka. Eftir sitja svo kannske skuldir vegna lána, sem aldrei hafa komið til skila, en al- menningur á samt að borga. A vesturlöndum hefur þessu verið valið nafn: þau ríki þar sem ófremdarástandið er verst eru gjarnan kölluö „bananalýð- veldi“, og er þetta orð nánast orðið stjórnmáiahugtak, eins og orðið „velferðarríki“ á sínu sviði, þannig að það er haft til viðmið- unar þegar rætt er um ástand ann- ars staðar í heiminum, þar sem staðan er sem betur fer ekki alveg eins hörmuleg. Þessi lönd eru öll í fjarlægum heimshlutum, og er ástand af þessu tagi - guði sé lof segja víst allir - gersamlega óþekkt á okkar slóðum. Það væri því mikil misnotkun á tungunni, að kalla t.d. fsland „bananalýð- veldi“ í þeirri merkingu orðsins sem hér hefur verið höfð. En það eru til fleiri hliðar á málinu. Svo virðist sumsé gjarnan að í hinum svokölluðu bananalýðveldum ríki eitthvert annarlegt veruleika- skyn sem kemur þá t.d. fram í því að hlutunum er lýst og um þá er fjallað á einhvern hátt sem öðr- um finnst gersamlega út í hött, og á þessu er kannske byggð einhver röksemdafærsla, sem virðist nán- ast vera einhvers konar sjúkdóm- ur tungumálsins. Það heyrir t.d. til hversdags- legra atburða í bananalýðveldum að andstæðingar stjórnvalda farga sér með því að skjóta sig tveimur kúlum í hnakkann. Eða þá að tíu menn sem handteknir eru eftir óeirðir finnast látnir morguninn eftir, og rannsókn leiðir í ljós að þeir hafa allir dáið úr hjartaslagi ífangelsinu. Og við því má búast að fylgismönnum ríkjandi valdhafa finnist þetta í hæsta máta eðlilegt: á þessu má nefnilega sjá að málin eru rannsökuð, þannig að ekki er að efa að lýðræði ríkir í landinu, og þeir sem efast um niðurstöðurnar eru ekki annað en óeirðaseggir með hinar verstu hvatir. Annað er í þessum dúr. í bananalýðveld- um þykir það eðlilegt að valdhaf- ar setji ættmenn sína í æðstu stöð- ur eða sami maðurinn sé í tveimur hlutverkum sem annars staðar þættu ósamræmanleg, sé t.d. í yfirstjórn fjármála ríkisins og jafnframt með sjálfstæðan atvinnurekstur, því væri það ekki skerðing á mannréttindum, að leyfa ekki hæfileikum manna að njóta sín vegna ættartengsla og annarra slíkra smáræða? Það er líka segin saga í atburðum í ban- analýðveldum, að þar koma gjarnan fyrir raðir af alls kyns til- viljunum, sem menn ættu erfitt með að leggja trúnað á annars staðar. Og þar er höfð í frammi einhvers konar sísköpun rök- semda, allt eftir atvikum og þörf- um. Það má vera að mönnum finnist þetta allt saman lítilfjör- legt miðað við aðrar hörmungar, en samt er það snar þáttur af sjálfu kerfinu: ef þessar orðræður allar kæmu mönnum fyrir sjónir eins og þær eru, sem sé eins og helbert rugl, er hætt við að stutt væri í að valdhafarnir færu að verða valtir í sessi. Þótt þetta ein- kenni bananalýðveldin má finna svipuð fyrirbæri víðar í ýmsum myndum og í mismunandi ríkum mæli. Slys í banka Eftir þennan almenna pistil um tíðindi úr fjarlægum álfum heims víkur nú sögunni til íslands. í við- tali sem birtist í Morgunblaðinu síðastliðinn föstudag er Valur Arnþórsson, bankastjóri Lands- bankans, spurður vítt og breitt um kaup Landsbankans á Sam- vinnubankanum, og er þá m.a. vikið að því hvers vegna Lúðvík Jósepsson var ekki kallaður á þann samráðsfund sem haldinn var um kaupin áður en þau voru gerð og ýmsir aðrir bankaráðs- menn sátu. Um það segir Valur: „Lúðvík Jósepsson, bankar- áðsmaður um langa hríð og fyrr- verandi formaður bankaráðsins var kominn í bæinn án þess að viðkomandi bankastjóri og bankaráðsmennirnir sem hann ræddi við gerðu sér það ljóst. Þess vegna kölluðu þeir hann ekki á samráðsfund um málið sem var slys“. Vera má að ýmsum hafi hnykkt við að lesa þetta. Samkvæmt venjulegri íslenskri málvenju liggur nefnilega beinast við að skilja sem svo, að frumlag setn- ingarinnar „sem hanrt ræddi við“ sé Lúðvík sjálfur og ætti þá að túlka þetta þannig, að banka- ráðsmennirnir sem Lúðvík ræddi við hafi ekki gert sér það ljóst að hann var kominn í bæinn. Nú má til sanns vegar færa, að eitt sé að ræða við mann og svo annað að velta vöngum beinlínis yfir því hvar sá hinn sami maður sé eigin- lega staddur, og hafa höfundar gamanmynda stundum gert sér mat úr því að þetta tvennt þarf ekki að fara saman. Því gæti Val- ur ósköp vel aðskilið þetta og sett bankaráðsmenn í hlutverk Laurels og Hardys, sem séu í hrókasamræðum við Lúðvík án þess að þeim sé það ljóst að hann er kominn í bæinn. V æri þetta svo góð bananalýðveldis-röksemda- færsla, að hann ætti skilið að fá fyrir hana heiðurs-bananann. ís með vissu bragði Vitanlega er það ekki þetta sem Valur á við í þessum heldur klúðurslegu setningum: það voru „viðkomandi bankastjóri“ og vissir bankaráðsmenn sem ræddu saman um málið í þeirri frómu trú, að því er þeir segja, að Lúð- vík væri úti á landi. En er þá allt klappað og klárt og ljóst að öllum reglum hafi verið fylgt út í ystu æsar? Að sjálfsögðu ekki. í slík- um málum er ekkert til sem heitir að „gera sér ekki ljóst“: það þarf að fylgja ýmsum formsatriðum hvað sem menn halda eða halda ekki. Að halda því fram að það hafi verið einhver tilviljun að „viðkomandi bankastjóri" skýldi einungis ræða við þá bankaráðs- menn sem voru hlynntir kaupun- um, og þeir hafi síðan fyrir aðra tilviljun trúað því að Lúðvík væri fjarverandi þannig að það hafi verið „slys“ að ekki skyldi vera við hann talað er í rauninni jafn- mikil bananalýðveldis-rök- semdafærsla og hin fyrri. Mönnum kann að þykja þetta lítilfjörlegt, en áður en þeir fara að yppa öxlum gætu þeir litið í kringum sig og skoðað hvort ekki megi finna einhver önnur dæmi um „bananarök“ í þjóðlífinu. Hætt er við að þeirra sé ekki langt að leita. Nú komst sala Sam- vinnubankans í hámæli, ekki síst fyrir atbeina þess bankaráðs- manns sem fyrir „slys“ var ekki hafður með í ráðum í upphafi, og var þá farið að ræða ýmis mál, sem brýn þörf var á að taka til athugunar, ef opinber umræða er þá á annað borð til einhvers. En um það hefur Valur Arnþórsson þetta að segja í áðurnefndu við- tali: „Nú þurfum við um fram allt að fá góðan frið til að vinna málefna- lega að endanlegri samningagerð og skoða allar hliðar málsins til þess að þetta verði farsællega til lykta leitt.“ Á þá sem sé að frysta alla um- ræðu í einhverjum banana-ís? e.m.j. Þjoðviljinn Síðumúla 6 ■ 108 Reykjavík Sími: 68133 Kvöldsími: 681348 Símfax:681935 Útgefandi: Útgáfufélag Þjóðviljans. Framkvæmdastjóri: Hallur Páll Jónsson. Ritstjóri: Árni Bergmann. Fróttastjóri: SigurðurÁ. Friðþjófsson. Aðrir blaðamenn: Dagur Þorleifsson, Elías Mar (pr.), Guðmundur RúnarHeiðarsson, HeimirMár Pótursson, HildurFinnsdóttir(pr.), Jim Smart (Ijósm.), LiljaGunnarsdóttir, ÓlafurGíslason.ÞorfinnurÓmars- son (íþr.), Þröstur Haraldsson. Skrifstofustjóri: Sigrún Gunnarsdóttir. Skrlfstofa: Guðrún Geirsdóttir, Kristín Pétursdóttir. Auglýsingastjóri: OlgaClausen. Auglýsingar: Guðmunda Kristinsdóttir, Unnur Ágústsdóttir. Símavarsla: Sigríður Kristjánsdóttir, ÞorgerðurSigurðardóttir. Bílstjóri: Jóna Sigurdórsdóttir. Útbreiðslu- og afgreiðsiustjóri: Guðrún Gísladóttir. Afgreiðsla: Bára Sigurðardóttir, Halla Pálsdóttir, Hrefna Magnúsdóttir. Innheimtumaður: Katrín Bárðardóttir. Utkeyrsla, afgreiðsla, ritstjórn: Síðumúla 6, Reykjavík, símar: 68 13 33 & 68 16 63. Símfax:68 19 35 Auglýsingar: Síðumúla 6, símar 681331 og 681310. Umbrotog setning: Prentsmiðja Þjóðviljans hf. Prentun: Blaðaprent hf. Verð í lausasölu: 90 kr. Nýtt Helgarblað: 140kr. Askriftarverðámánuði: 1000kr. 4 SÍÐA — ÞJÓÐVILJINNFimmtudagur 28. september 1989

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.