Þjóðviljinn - 01.12.1989, Blaðsíða 4

Þjóðviljinn - 01.12.1989, Blaðsíða 4
Ólafur Ragnar Grímsson er á beininu Vantraust á slökkviliöiö Ólafur Ragnar Grímsson fjármálaráðherra hefur staöið í ströngu undanfarna viku þegar útlit var fyrir að samstaöa um viröisaukaskatt væri að rofna innan ríkisstjórnarinnar. Þá var í gærkveldi borin upp vantrauststillaga á ríkisstjórnina, sem Ólafur segir að hafi ekki getað komið á betri tíma. En hefur ráðherrann ekki áhyggjur af vinsældum ríkisstjórnarinnar eftir uppákomu sem þessa og finnst honum að utanríkisráðherra og flokkur hans hafi komið aftan að sér í þessu máli? Nú hefur verið óvissa um virð- isaukaskattinn í nokkurn tíma, er þessi niðurstaða sem ríkisstjórnin hefur komið sér niður á, ásættan- leg? Já, hún er það vissulega. Þessi niðurstaða felur í sér að virðis- aukaskatturinn verður 24,5% sem er aðeins lægra hlutfall en ég lagði upphaflega til í sumar. Síð- an verður endurgreiðslukerfi á algengum innlendum matvælum, sem setur þau í ígildi 14% þreps. Þetta lægra almenna hlutfall mun hafa í för með sér rúmlega 2% lækkun á öllum matvælum í landinu þegar virðisaukaskattur- inn tekur gildi, vegna þess að þetta er lægri prósenta en í sölu- skattskerfinu. Lækkunin kemur í veg fyrir að verslunin geti réttlætt hækkun á vöruverði eins og hefði ef til vill orðið með hærra virðis- aukaskattsþrepi og eðliseigin- leikar virðisaukaskattskerfisins til að stuðla að lægra vöruverði munu fá að njóta sín betur. Þess vegna mun breytingin yfir í virðisauka með þessum hætti verða til hagsbóta öllum almenn- ingi og láglaunafólki sérstaklega. Þar sem matvæli almennt lækka í verði og algeng innlend matvæli lækka sérstaklega eða um 8-9%. Við leysum fjárhagsvanda þess- arar breytingar frá fyrri tillögum með því að hækka tekjuskattinn um 2%, en þó þannig að helming- ur þeirrar hækkunar verður not- aður til þess að hækka skattleysis- mörk og barnabætur, svo þessi skattbyrði mun fyrst og fremst koma á hátekjufólk en ekki á lág- tekjufólk. Þannig að fólk með lágar tekjur og lágar miðlungs- tekjur verður ekki fyrir aukinni skattbyrði en mun njóta lækkaðs vöruverðs. Þegar þú talar um lágar tekjur og lágar miðlungstekjur, hvaða tekjur ertu þá að tala um? Þá er ég að tala um tekjur ein- staklinga á bilinu 50-80 þúsund og fyrir hjón með tvö börn á bil-, inu 150-190 þúsund. Skattbyrði þessa fólks mun ýmist lækka lítil- lega eða standa í stað. En það er fyrst og fremst hátekjufólkið sem kemur til með að bera þessa skattbreytingu. Við munum einnig leggja tekjuskatt á orkufyrirtækin sem hafa verið skattlaus í tekjuskatti fram að þessu og tökum þau inn í tekjuskattinn með sama hætti og bankana. Stórgróðaorkufyrir- tækin, sem meðal annars hafa verið að byggja glæsihús fyrir gróða sinn, koma inn í tekju- skattskerfið. Síðan munum við leggja sérstakt mengunargjald á bifreiðar. það er mikil hreyfing fyrir því víða um lönd að breyta skattkerfinu yfir í umhverfissinn- aða skatta og flytja byrðina frá lífsgæðum sem eru góð og holl yfir á þætti í daglegu lifi sem eru mengunarvaldandi. Þetta hefur verið kallað umhverfisskatta- breyting í skattkerfi Vesturlanda. Með þessu erum við að stíga fyrsta skrefið í þessa átt hér á Is- landi. Síðan var einnig ákveðið í ríkisstjórninni að eftir áramót hefjist mjög rækileg könnun og útfærsla á tveggja þrepa virðis- aukaskatti þar sem matvæli færu í lægra þrep og það verði skoðað hvernig tekjutap ríkissjóðs af þeim sökum verði vegið upp með minni ríkisútgjöldum. Einnig verði kannaður undanþágulaus virðisaukaskattur í einu þrepi sem verði þá miklu lægra og þess- ar tvær breytingar hugsanlega bornar saman. Ég er þess vegna mjög ánægð- ur með þessa niðurstöðu. Hún er í heild sinni mjög svipuð þeim hugmyndum sem ég lagði fram í byrjun septembermánaðar í að- draganda fjárlagagerðarinnar, en náði ekki fram þá. Ég er mjög ánægður með að þær samræður sem við forystumenn stjórnar- flokkanna áttum á miðvikudags- kvöld og aðfaranótt fimmtudags skiluðu þessum árangri. Ríkis- stjórnin mætti þess vegna til leiks í vantraustsumræðuna með sterkt prógramm, með eina rödd og með skattkerfisbreytingu sem mun um næstu áramót hafa víð- tækar afleiðingar í för með sér til hagsbóta fyrir atvinnulífið í landinu og fyrir allan almenning. Breytir þessi ákvörðun ein- hverju um þær undanþágur sem kvcðið er á um í frumvarpi um breytingar á virðisaukalögum nú liggur fyrir þinginu? Nei, hún breytir því ekki. Áfram er haldið til haga að menningarstarfsemi, íþrótta- starfsemi og önnur slík starfsemi verður ekki með virðisauka- skatti, orka til húshitunar verður undanþegin og bækur bera ekki virðisaukaskatt frá og með nóv- ember á næsta ári. Á fyrstu mánuðum þessarar ríkisstjórnar var talað um að þið Jón Baldvin stæðuð vel saman og Jón Baldvin sagðist nánast hafa það á tilfinningunni að hann væri að tala við sjálfan sig þegar hann talaði við Ólaf Ragnar Grímsson. En nú er talað um að kólnað hafi á milli ykkar vegna þess að Jón Baldvin og Alþýðuflokkurinn hefðu komið aftan að þér með ál- yktun sinni rétt fyrir gildistöku virðisaukalaganna. Hvernig lítur þú á þetta? Ályktanir Alþýðuflokks- manna - bæði sú sem þeir gerðu fyrir rúmum tveimur vikum þeg- ar þeir lögðu til frestun sem þeir rökstuddu með því að ekki væri fyrir hendi nægjanlegur tækni- legur undirbúningur og ályktunin fyrir viku - komu mér báðar á óvart. Ég vil hins vegar alls ekki segja að þar með hafi verið kom- ið aftan að mér. Þetta voru að mörgu leyti eðlileg viðbrögð mið- að við stjórnmálaástandið á þeim tíma. Ég held að sameiginleg vinna okkar, sérstaklega síðustu sólar- hringana, að þessari sterku lausn sem nú er fengin og sá afdráttar- Iausi skilningur sem hún fékk í öllum þingflokkum stjórnar- flokkanna, sýni árangur sam- starfsins í verki og það segi meira um veruleikann en einhver lýs- ingarorð. Þannig að það hefur ekki kóln- að á milli ykkar formannanna? Nei, alls ekki. Þvert á móti held ég að hin traustu bönd okkar hafi gert okkur kleift að leysa þessa erfiðu flækju á mjög skömmum tíma, á sérstaklega árangursríkan hátt þar sem lausnin er til hags- bóta fyrir allan almenning vegna almennrar lækkunar á vöruverði, sérstaklega lágtekjufólki og fólki með miðlungstekjur. Þar að auki er stigið skref sem er efnahags- lega skynsamlegt og felst í því að flytja áhersluna í skattkerfinu frá óbeinum sköttum yfir í beina skatta, en það var einmitt eitt af því sem landsfundur Alþýðu- bandalagsins ályktaði um að ætti að gera. Það er þess vegna mikil- vægt svo fljótt eftir þann fund að geta stigið skref að þessu tagi. En hefur þú ekki áhyggjur af uppákomum sem þessum fyrir ríkisstjórn sem ekki er vinsælli en raun ber vitni samkvæmt skoð- anakönnunum? Lýðræðið er nú það skemmti- legt form, að þar eru uppákomur sjálfsagðir hlutir. Það sem margir kalla uppákomur er bara birting hins lýðræðislega vilja, vegna þess að flokkarnir eru fjöldavett- vangur. Þar hafa menn mismun- andi skoðanir og óvænt tilefni hljóta alltaf að koma þar upp og það er reyndar eitt það skemmti- lega við að fást við þessi verk. Ég held að á þessum mánuðum sé einmitt að koma í ljós sá mikli árangur sem ríkisstjórnin hefur náð í efnahagsmálum. Niðurstað- an í virðisaukanum mun hjálpa okkur að styrkja þann stöðug- leika í sessi frá og með næstu ára- mótum. Við höfum skilað út- flutningsatvinnuvegunum inn á hagnaðarbraut en tókum við þeim í kaldakoli, fullkominni rúst. Við höfum á rúmu ári snúið óheillaþróun við, þannig að nú viðurkenna forsvarsmenn út- flutningsatvinnuveganna að það hefur orðið gjörbreyting á. Við höfum eytt þeirri þenslu sem var að brenna upp hagkerfið. Við höfum slökkt vaxtabálið og fært vextina niður mjög víða í hag- kerfinu, þeir hafa hrunið á gráa markaðnum, stórkostlega lækk- að á verðtryggðum lánum og þurfa núna að fylgja á eftir á óverðtryggðum lánum í banka- kerfinu. Við höfum skapað já- kvæðan vöruskiptajöfnuð við út- lönd í fyrsta skipti síðan 1986, flytjum nú meira út en inn. Þannig höfum við skapað stöðugleika sem gerir það að verkum að um næstu áramót verður hægt í fyrsta sinn í mörg ár að segja með réttu, að við íslend- ingar höfum tækifæri til að skapa hagkerfi þar sem verðlag er til- tölulega stöðugt eins og í ná- grannalöndunum, verðbólgan fari á næsta ári undir 10%, það verði jafnvægi í hagkerfinu og lífskjörin eigi þess vegna að geta batnað stig af stigi. Það er mjög fróðlegt og ánægjulegt að heyra þessar vikurnar í talsmönnum bæði launafólks og þeirra at- vinnurekenda sem vilja hafa heilbrigð sjónarmið atvinnulífs- ins í huga en eru ekki hluti af áróðursmaskínu Sjálfstæðis- flokksins, - að ríkisstjórnin hefur einmitt náð þeim árangri að nú standi íslendingar á þeim tíma- mótum að geta valið, hvort þeir Mynd: Kristinn. vilji halda inn á nýtt jafnvægis- skeið með lítilli verðbólgu, stöðugleika í efnhagsmálum og lífskjör sem batna jafnt og þétt, eða hvort menn vilji stíga nýjan hrunadans eins og stigin var á síð- ustu árum valdaskeiðs Sjálfstæð- isflokksins. Þetta er valið sem menn standa frammi fyrir. Þess vegna er það auðvitað fagnaðarefni að Þor- steinn Pálsson skuli einmitt velja þennan dag til að flytja vantraust á ríkisstjórnina. Er ríkisstjórnin að hunsa AI- þingi með ákvörðun sinni um á- framhaldandi viðræður við EB í gegnum EFTA og er þingflokkur Alþýðubandalagsins að ýta til hliðar þeim varnöglum sem Iandsfundur vildi slá í málinu? Hvorugt er nú rétt. Ríkis- stjórnin hefur haft mjög náið samráð við utanríkismálanefnd og þá sérstöku Evrópunefnd sem Alþingi kaus. Við töldum hins vegar ekki rétt á þessu stigi að flutt yrði sérstök ályktun á Al- þingi sem markaði umboð utan- ríkisráðherra, heldur væri það ríkisstjórnarinnar að sinna því. Sjálfstæðisflokkurinn leikur mjög ómerkilega leiki í þessu máli og virðist mótast af fullkom- inni tækifærismennsku og tölu- verðri vanþekkingu ef þeir raun- verulega meina það sem þeir segja. Við ráðherrar Alþýðubanda- lagsins höfum lagt ríka áherslu á að þetta er eitt af stærstu málum sem íslendingar þurfa að standa frammi fyrir og menn þurfa að vanda mjög hvert skref. Sú niður- staða sem fékkst í ríkisstjórninni fól einmitt í sér að á öllum stigum málsins verði vandlega skoðað hvaða árangur hefur náðst í meginkröfum íslendinga, sem er fríverslun með sjávarafurðir og hvort þau skilyrði sem við höfum sett um forræði yfir eigin efna- hagslífi um efnahagslegt sjálf- stæði landsmanna, séu tryggðar. Landsfundur Alþýðubanda- lagsins ályktaði með réttu að í landinu færu fram mjög ítarlegar umræður um samskiptin við Evr- ópu og fól þingflokki og fram- kvæmdastjórn að fjalla sérstak- lega um málið áður en formlegar samningaviðræður hæfust á milli EFTA og EB. Þær formlegu samningaviðræður munu ekki hefjast fyrr en í mars eða apríl á næsta ári. Þangað til' munu könnunar- og undirbúningsvið- ræður halda áfram, þar sem við- ræðuaðilar reyna að kortleggja hver vandamálin eru, hverjir fyrirvaramir eru og hvað það er sem einstök lönd vilja sérstaklega halda til haga. Það hefur einnig verið ákveðið innan ríkisstjórnarinnar að skip- aðir verði vinnuhópar í þessum viðræðum með fulltrúum ein- stakra ráðuneyta, þar sem bæði fjármálaráðuneytið, landbúnað- arráðuneytið, menntamálaráðu- neytið og samgönguráðuneytið munu eiga mjög ríkan þátt í þeirri vinnu. Svo ráðherrar Alþýðu- bandalagsins, ásamt fulltrúum flokksins í utanríkismálanefnd og Evrópunefnd, munu taka mjög virkan þátt í mótun þeirrar stefnu sem mun einkenna málstað ís- lands í þeim viðræðum sem fram- undan eru. í febrúar og mars þegar við sjáum betur hvað hefur komið út úr könnunar- og undirbúnings- viðræðunum, höfum við tækifæri til að meta hvort og þá hverjar áherslur íslands eiga að vera í formlegum samningaviðræðum sem hefjast í vor. Næsta ár er síðasta starfsár stjórnarinnar, sem kennt hefur sig við jafnrétti og félagshyggju, og í henni sitja flokkar sem kenna sig við þau slagorð. Er þá ekki nauðsynlegt fyrir þessa flokka að bæta kjör launafólks með kaupmáttaraukningu á næsta ári? Mikilvægast er að tryggja að kaupbreytingamar brenni ekki upp á nýju verðbólgubáli. Stöð- ugleiki í verðlagi er forsenda þess að kjarasamningar með nýjum tölum skili raunverulegri kaupmáttaraukningu til fólksins í landinu. Vöxtur í atvinnulífi og aukinn útflutningur eru forsend- ur þess að við fáum meiri tekjur og getum skipt þeim jafnar en áður. Efnahagshrunið sem Sjálf- stæðisflokkurinn skildi eftir sig, minnkandi afli og nú síðast hrika- legar fréttir af loðnunni, hafa ásamt óhagstæðu verði á er- lendum mörkuðum gert það að verkum, að á þremur árum hafa 20-30 miljarðar farið út úr okkar þjóðartekjum. Verkefni ríkis- stjórnarinnar hefur þess vegna verið að tryggja að skerðing þjóðartekna kæmi minnst niður á þeim sem hafa lökustu kjörin. Þess vegna höfum við varið mikl- um fjármunum í að auka niður- greiðslur á algengum matvælum, sett fé til að efla félagslega hús- næðiskerfið sem sérstaklega kemur lágtekjufólki til góða og þess vegna höfum við beitt okkur fyrir skattkerfisbreytingu eins og virðisaukanum sem lækkar vöru- verð nokkuð en látið þá sem hafa hærri laun bera byrðar þeirrar breytingar. Af sömu sökum munum við leggja fram frumvarp um að skattlegja fjármagnstekjur og gróða sem hingað til hafa ekki borið skatt. Allt þetta ásamt mörgu öðru stuðlar að auknum jöfnuði í okkar þjóðfélagi og endurspeglar félagshyggjuna og jafnaðarstefnuna sem flokkarnir í stjórninni aðhyllast með einum eða öðrum hætti. -hmp 4 SÍÐA — NYTT HELGARBLAÐ Föstudagur 1. desember

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.