Þjóðviljinn - 01.12.1989, Blaðsíða 21

Þjóðviljinn - 01.12.1989, Blaðsíða 21
Þegar fjörið fer að dofna Einar Kárason Fyrirheitna landið Mál og menning 1989. Það fólk sem Einar Kárason vakti upp til lífsins í Gulleyjunni og Þegar djöflaeyjan rís, Thule- fólkið, fjölskyldan í Gamla hús- inu, í Nýja kofanum, það liggur ekki kyrrt. Höfundur sendir þá til fyrirheitna landsins, Ameríku, Munda Doliýjarson (og það er hann sem hefur orðið í sögunni) og Manna sem er sífellt að safna efni í bók - hann er sonur Fíu og Tóta. (Skrýtið annars og skemmtilegt að það skuli vera sjálfsagt mál að tala sisona um ættfræði upp úr skáldsögu, rétt eins og „pakkið“ úr Gamla hús- inu væru Thorsarar eða Briem- ar). Þar vestra hitta þeir ferða- langar fyrir hálfbróður Munda, biljarðsnillinginn kolruglaða, Bóbó. Og þeir leggja í langferð til að finna Badda og móður hans sem hafa tekið upp einskonar síg- aunalífshætti í lösnu hjólhýsi og það er náttúrlega byrjað að sukka eins og fara gerir. Þegar fjörið fer að dofna fara þeir frændur á slóð- ir frumherja rokksins, reyna að lyfta sér á kreik í ljómanum af minningu Elvisar Presley en hrekjast við illan leik frá rokk- kóngsborg Memphis í Tennessee barðir, rændir, fullir, ælandi - æ getur ekki amman Gógo hjálpað okkur að komast heim? Við hliðina á þessari sögu er ýmislegt rifjað upp frá fyrri tíðum Badda og ættmóðurina Karólínu spákonu og aðdraganda þess að þeir Mundi og Manni ákváðu að þeir yrðu að fara til Ameríku að „hitta leifarnar af fjölskyldunni og uppruna vestrænnar rokk- menningar. Fara í rannsóknar- leiðangur". Eins og menn muna af hinum fyrri bókum bálksins átti fólk hennar í sér heilmikið púður til gamanmála og harma. En nú hef- ur sumblið staðið mjög lengi og þreytan breiðir úr sér um sálar- kirnurnar. Það segir réttilega í bókarkynningu, að vesturfarar ætli að „endurlifa gömlu sögurn- ar og goðsagnirnar og fjörið og lætin“. Þeir sitja svo uppi með þann sígilda sannleik að enginn ætti að fara til fyrirheitna lands- ÁRNI BERGMANN ins, því það er ekki til. Þar við bætist ofursönn skáldskaparút- færsla á þeirri alkunnu stað - reynd, að þegar menn hafa drukk- ið nógu lengi þá hætta þeir að hafa gaman af því. Það skal segjast eins og er: ekki var það lífsnauðsyn að fram- lengja líf Thulefólksins með enn einni bók í bálkinn. Það bætist ekki neitt að ráði við það sem við um það vissum —sumt er barasta ítrekað eins og sitthvað um sam- band elsku aumingja djöfuls drengsins hans Badda og Línu spákonu. Það er líka um margt torvelt að leysa þann hnút svo vel fari að halda áfram þeim glað- beitta tóni sem setur mjög svip sinn á fyrri bækur sagnabálksins og vera um leið að segja sögu sem er í eðli sínu mjög dapurleg. Einar Kárason Það ferst, það ferst Ekki þar fyrir: Einar Kárason er reyndur höfundur og um margt úrræðagóður. Hann kemst ekki í óráðsíu með sitt fólk. Hann kem- ur skýrt og skilmerkilega til skila þessu spennufalli lífsins, ömur- leikanum sem þeir uppskera sem setja allt sitt traust á að það sé hægt að framlengja fjörið í partíi lífsins: „Við vorum eins og hópur menntaskólakrakka í kókauglýs- ingu, fimm saman; ísskápnum svipt upp og dreginn fram bjór og allskyns góðgæti, menn spörkuðu af sér skónum hingað og þangað og einhver setti Elvis á botn í græjunum. Við Bóbó hlömmuð- um okkur niður í sófann með tvær bjórdósir hvor og samlokur sem við náðum varla utan um og sungum með Elvis: Suspicious Minds. Það var eitthvað svo gott að fá næringu og kaldan bjórinn að vellíðanin steyptist yfir okkur, við vorum í Ameríku og þarna var Baddi frændi sjálfur og Elvis á fóninum og við sögðum sam- tímis hvor við annan með ham- ingjuglæður í augunum: Vá maður, það er eins og við séum komnir heim í Gamla hús- ið.“ Sagan er svo um það að gaman- ið lekur af samkvæminu hvað sem reynt er, leysist upp í rugl og fólsku og ráðleysi, sem er ágæt- lega til skila haldið, eins og fyrr segir. Og kannski þó hvergi betur en í útsmoginni lýsingu á pfla- grímsferðinni til Elvisborgar í Tennessee, sem endar á því að íslands óhamingju verður allt að vopni eins og gefið er til kynna í kaflafyrirsögn: Bóbó er laminn í klessu, frændurnir flýja undir bjórvotan pilsfald ömmu.... íslands óhamingja var nefnd. Það er nú svo. Við eigum þess vissulega kost að lesa söguna með forvitni sem nær út fyrir það sukksama lið sem skipast í per- sónusveit hennar. Við getum vel haft íslandsbúa kæra í huga alla saman, hvernig þeir stritast laf- móðir við að skemmta sér og hlaupa á eftir mýrarljósum glóru- lausir eins og andskotinn hafi stungið æðiberi upp í þeirra rass. Það er ekki nauðsynlegt að lesa bókina á þann veg, en það sakar ekki. Arni Bergmann í sælunnar reit á Sauðárkróki Glampar á götu. Veraldarsaga Sauð- kræklings. Æskuminningar Björns Jönssonar læknis. Kápu- og myndskreytingar Jóhannes Geir. Bókaútgáfan Skjaldborg 1989. Bjón Jónsson, læknir í Manito- ba, hefur fært í letur stóra bók um uppvaxtarár sín á Króknum um það bil sem syndafall kreppunnar sló heiminn, en Björn er fæddur 1920. Hann fékk snemma viður- nefnið Bjössi Bomm og gengst við því sem oftast í sögu sinni. Er nú skemmst frá því að segja að þessi minningabók er skrifuð af miklu fjöri og galsa og styðst við gnótt minninga, gott ef ekki ofgnótt. Að minnsta kosti verður lesandinn aldrei var við þá synd sem algeng er í minningabókum, að verið sé að teygja mjög lop- ann, rétt eins og aðstandendur bókarinnar séu orðnir langeygir eftir því að komið sé í bókar- lengd. Ekki hann Bjössi Bomm. Hann man allan skrattann: prestasögur, undarlegan skáld- skap, bflstjórasögur, atferli merkra bátasmiða, kassabflahug- vitsamstráka, allarlyktirsjávar- plássins, allt sem strákum dettur í hug að gera úr möguleikum sín- um á því að stýra hlandbunu. Hann fer ekki síst mjög nákvæm- □ífelf^ (ii'itijfMJ lill iillll ' í'Trrn / * , . . Isleifur og Bjössi kveðast á í búðinni. Ein af teikningum Jóhannesar Geirs. lega í alla mögulega og ómögu- lega leiki krakka í plássi: það er til dæmis vafasamt að nokkur hafi fest á blað jafn ítarlegan fróðleik um bogfimi (og bogaspellvirki) stráka og Björn Jónsson. í þessu efni hefur höfundur tekið mark á fyrirmælum Þórbergs um að menn skuli ekki segja svona hér- umbil frá því sem þeir skrifa um heldur fylgja vel eftir. Penni Bjössa Bomm er fjör- kálfur en ekki agaður að sama skapi og er það til baga. Það kem- ur oftar en ekki fyrir að eitt sögu- efni ekki bara hreyfir við öðru, heldur hleypir því strax upp á sig með gassa: Ekki er fyrr farið að segja frá ástinni en hoppað er í þá lífsreynslu sem fæst í bakaríum, síðan liggur leiðin snarlega bæði í sfldarævintýri og sundurvirk áhrif pólitíkurinnar. Hefði Björn læknir mátt læra margt þarflegt um kompósisjón af bróður sínum Jóhannesi Geir, sem teiknar ag- aðar og skemmtilegar myndir í þessa bók. Fagur eða Ijótur heimur? Hver er hann svo þessi heimur, þessi Sauðárkrókur, þessi veröld sem var? Bókin segir fyrst og fremst að þetta sé merkur heimur og fagur. Plássið er fullt af ungum og gömlum snillingum, snilling- um í því að pissa, bruna á sleða, yrkja hæpnar vísur, hamra járn og smíða báta. f þessu plássi er beykirinn ekki bara að drífa gjarðir niður á tunnu, hann er eiginlega að spila á hörpu. Hér er allt það sem hugurinn girnist: einn efnilegur Sauðkræklingur hefur meira að segja tekið sig til og leyst gátuna um guð: guð er stuttbylgjuhreyfing sem fer hraðar en ljósið. Jamm það held ég. Þetta er líka mjög góður heimur, það er engin illska í mönnum að heitið geti, mein- laust þótt fjúki í menn litla stund út af hrekkjum eða pólutík. Plássið er ekki síst ríkt af góðum konum sem ganga strák í móður- stað hvenær sem þarf. Ekkert er illt nema dauðinn og við hann tjó- ir ekki að deila. Ekki nema von að Bjössi Bomm sé sáttur við til- veruna, ætlar alltaf að vera strák- ur og ef hann neyðist til að verða stór ætlar hann að bæta sér það upp með því að éta vínarbrauð. Nú er að spyrja sjálfan sig: hvernig stendur á því að í bók- menntum þeirrar samtíðar sem nú er orðinn fjórði áratugurinn er sjávarplássið einhver allt annar og grimmari veruleiki en það er orðið í minningabókum okkar tíma? Áður: slor, þrældómur, harður slagur fyrir lífsbaráttunni (sama hvort við rifjum upp Svið- insvík eða Vestmannaeyjar The- ódórs Fririkssonar). Nú eru þessi pláss sælunnar reitur með nokkr- um hætti - og ekki bara hjá Bjössa Bomm. Hvað hefur gerst? Erum við svona dugleg við að breyta fortíðinni okkur í hag? Eftir formúlunni: ég sætti mig ekki við annað en ég hafi átt skemtilegri og innihaldsríkari bernsku en nú er boðið upp á í allsnægtasukkinu. Má vera. Alt- ént minnir það misræmi sem hér er um getið á það, að reyndar er nostalgían, söknuður eftir veröld sem var, eitt helsta einkenni ís- lensks samfélags, sem breytist svo ört að menn vita ekki stund- inni lengur hvar þeir eru niður komnir í heiminum. Árni Bergmann Föstudagur 1. desember 1989 NYTT HELGARBLAÐ — SÍÐA 21

x

Þjóðviljinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Þjóðviljinn
https://timarit.is/publication/257

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.