Vísbending


Vísbending - 19.10.1988, Blaðsíða 3

Vísbending - 19.10.1988, Blaðsíða 3
VÍSBENDING UM- HVERFIS- MENGUN OG OFVEIÐI Síðari grein Dr. PorvaldurGylfason Umhverfisvernd hefur vakið áhuga almennings í sívaxandi mæli í löndun- um í kringum okkur að undanförnu. Aukin iðnvæðing atvinnulífs og auknar samgöngur hafa að sínu leyti hneigzt til að auka umhverfismengun síðustu ár og áratugi í grannlöndum okkar og um allan heim. Á hinn bóg- inn hefur tækni jafnframt fleygt svo fram, að nú er miklu auðveldara og ódýrara en áður að halda mengun í skefjum. Vötn og skógar eru að vísu að dauða komin víða af völdum mengun- ar, til dæmis í Þýzkalandi og Svíþjóð, en á sama tíma hefur samt tekizt að bjarga margvíslegum náttúruverð- mætum á ýmsum stöðum með árang- ursríkum mengunarvörnum. Mæling- ar sýna til að mynda, að andrúmsloft og drykkjarvatn í Bandaríkjunum er yfirleitt miklu hreinna nú en fyrir 15 árum, enda verja Bandaríkjamenn nú rösklega 50.000 krónum á hverja fjög- urra manna fjölskyldu í landinu á ári til mengunarvarna. Það er mikið fé og reyndar miklu meira en þyrfti til að ná sama árangri. Ein og sama undirrót__________________ í fyrri grein um sama efni var vakin athygli á því, að (a) umhverfismengun varðar efnahag almennings; (b) meng- un er runnin af sömu rót og ofveiði; og (c) hagkvæm náttúruverndarstefna er náskyld auðveldustu og ódýrustu að- ferð, sem völ er á við stjórn fiskveiða, veiðileyfasölu. Undirrót hvors tveggja, mengunar og ofveiði, er sú, að hrein náttúra og gjöful fiskimið eru sameign, sem eng- inn einn hefur hag af að vernda, held- ur geta einstaklingar og fyrirtæki þvert á móti hagnazt á umhverfisspjöllum og ofveiði, af því að þeim er ekki gert að greiða afnotagjald fyrir aðgang að þessum sameiginlegu gæðum. Til þess að vernda fiskstofnana og náttúruna er þess vegna nauðsynlegt að reyna að laða menn til þess að fara eins vel með þessi gæði eins og þeir myndu gera, ef þeir ættu þau sjálfir. Tvær leiðir að einu marki_____________ Að því marki eru einkum tvær leiðir færar. Ríkið getur hamlað á móti of- veiði og mengun (a) með því að út- hluta aflakvótum, eins og tíðkast hér á landi, og mengunarkvótum, eins og tíðkast í Bandaríkjunum, án endur- gjalds eða (b) með gjaldheimtu, hvort heldur með því að leggja gjald á hvert tonn af veiddum fiski og hættulegum úrgangi eða þá með því að selja afla- kvóta og mengunarkvóta í stað þess að afhenda þá ókeypis. Hér er að sjálf- sögðu ekki verið að líkja verðmætum fiskafla við úrgang, heldur aðeins að vekja athygli á hagkvæmustu aðferð, sem völ er á, til þess að draga úr ofveiði og mengun. Fyrri leiðinni, ókeypis úthlutun kvóta, fylgir sá alvarlegi ókostur, að hún tekur ekki fullt tillit til þess, hvort fyrirtæki eru vel eða illa fallin til þess að draga úr ofveiði og mengun. ís- lenzkum skipum er afhentur kvóti, sem miðast við gamlar aflatölur, jafn- vel þótt önnur skip gætu fyllt kvótann með lægri tilkostnaði. Bandarískri verksmiðju er afhent mengunarheim- ild að tilteknu marki, jafnvel þótt aðr- ar verksmiðjur gætu haldið mengun undir leyfðu hámarki fyrir minna fé. Þess vegna er ókeypis úthlutun kvóta óhagkvæm stjórnunaraðferð, auk þess sem hún er óréttlát í augum flestra, þar eð einstökum aðilum er veittur ókeypis aðgangur að sameigin- legum verðmætum þjóðarheildarinn- ar. Síðari leiðin er að miklu leyti laus við þennan alvarlega galla. Ef gjald er lagt á hvert tonn af veiddum fiski og úrgangi, þá færast fiskvernd og meng- unarvarnir sjálfkrafa á hendur þeirra fyrirtækja, sem geta dregið úr ofveiði og mengun með minnstum tilkostnaði. Og ef kvótar eru seldir og ganga svo kaupum og sölum, þá lenda þeir sjálf- krafa í fórum þeirra fyrirtækja, sem eru bezt rekin og geta því greitt hæst verð fyrir kvótana. Gjald eða kvóti?____________________ Fræðilega séð er enginn verulegur munur á beinni gjaldheimtu og kvóta- sölu, og gildir þá einu, hvort söluverð kvóta er ákveðið af stjómvöldum eða á frjálsum uppboðsmarkaði. Margt bendir þó til þess, að sala kvóta sé auð- veldari og ódýrari aðferð í fram- kvæmd. Kvótasala gerir stjórnvöldum kleift að ákveða hámarksveiði og há- marksmengun beint óháð söluverði kvótanna. Gjaldheimta hittir hins veg- ar óbeint í mark. Fyrst þarf að ákveða gjaldið. Svo verður að athuga, hvort gjaldið hrífur. Annars þarf að breyta því, og þannig áfram, þangað til settu marki er náð. Auk þess er gjaldheimta yfirleitt þyngri í vöfum en kvótasala á upp- boðsmarkaði. Þetta stafar af því, að verð kvóta ræðst næstum fyrirhafnar- laust á frjálsum markaði, án þess að stjórnvöld þurfi að ákveða gjaldskrá. Þar að auki krefjast kvótasala og kvótaviðskipti miklu minni breytingar frá núgildandi skipan en gjaldheimta, því að kvótakerfi er þegar við lýði. Gjaldheimta útheimtir á hinn bóginn kerfisbreytingu. Kvótasala gæti gefið mikið fé í aðra hönd smám saman. Því fé gæti ríkið hvort heldur skilað til al- mennings eða notað það til annarra þarfa, til dæmis handa sjávarútvegi og til umhverfisverndar. Önnur sjónarmið_____________________ Sumum finnst það ósanngjarnt, að vel rekin fyrirtæki geti keypt sér leyfi til að sækja sjó eða menga umhverfið, en illa rekin fyrirtæki geti það ekki. Og sumum finnst það beinlínis óviður- kvæmilegt að verzla með kvóta. Þeir, sem líta kvótasölu þessum augum, horfa framhjá hagkvæmnissjónarmið- um. Ef þeir telja það réttlátt, að kjör vel og illa rekinna fyrirtækja séu jöfn- uð, þá er það hægt eftir öðrum leiðum án þess að sóa jafnframt miklu fé með óhagkvæmri fiskveiði- og umhverfis- verndarstefnu. Höfuðástæðan til þess, að kvótasala hefur ekki enn náð fram að ganga þrátt fyrir skýra yfirburði yfir ókeypis úthlutun virðist þó vera sú, að viðkom- andi fyrirtæki streitast á móti. Þau vilja miklu heldur fá kvótana afhenta ókeypis áfram en þurfa að greiða fyrir þá, jafnvel þótt kvótasala myndi sann- anlega spara þjóðarheildinni mikið fé. Fyrirtækin virðast ekki treysta því, að þau fengju sanngjarnan hlut í sparn- aðinum. Þennan hnút er hægt að leysa auðveldlega. Þegar þjóðin öll sparar stórfé, þarf enginn að tapa. 3

x

Vísbending

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vísbending
https://timarit.is/publication/281

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.