Skólavarðan - 01.11.1990, Blaðsíða 18

Skólavarðan - 01.11.1990, Blaðsíða 18
ALÞJÓÐLEG SKÓLASAFNARAÐSTEFNA Alþjóðlegu skólasafnasamtökin, IASL, héldu sína árlegu ráðstefnu í Umeá í Svíþjóð dagana 8-12 júlí, 1990. Tveir íslendingar sátu þessa ráðstefnu, þær Ingibjörg Sverrisdóttir, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti og Sigrún Klara Hannesdóttir, sem nú er varaforseti samtakanna. Yfirskrift ráðstefnunnar var "Brúum bilið" og var fjallað um fjölmarga málaflokka sem tengjast skólasöfnum. Aðalfyrirlesarinn kom tárunum út á flestum sem í salnum sátu því hann fjallaði um nauðsyn þess að brúa þögnina milli foreldra annars vegar og veikra barna þeirra hins vegar. Tók hann sem dæmi litla stúlku sem var að deyja úr krabbameini. Sýndi hann teikningar sem litla stúlkan hafði gert á meðan á dauðastríðinu stóð og þá erfiðleika sem hún og foreldrarnir áttu í við að tala við barnið um dauðann. Alls voru fluttir um 30 fyrirlestrar og af öðrum má nefna umfjöllun um "áhættuhópa" í skólum, þ.e. börn sem eru líkleg að verða afbrigðilegir unglingar ef dæma má af hegðun þeirra í grunnskólum og hugsanleg viðbrögð skólans. Lýst var rannsókn sem verið er að vinna að í Kalmar í Svíþjóð um tengsl safnnotkunar og námsárangurs. Einn fyrirlesarinn lýsti því hvernig hann þróaði tímaritalykil fyrir skólasöfn í Ástralíu og efnistók helstu tímarit sem keypt voru í skólasöfnum. Sýndi hann þessi litlu hefti sem eru sannkallaður fjársjóður fyrir starfandi skólasafnverði. Einn daginn voru allir ráðstefnugestir dubbaðir upp í vatnshelda galla með björgunarbelti og settir í gúmmibát sem bar okkur niður straumharða, hvítfyssandi á. Þetta er víst kallað á enskunni "white-river rafting", og vakti óblandna ánægju þátttakenda sem flestir eru betur þekktir fyrir skrifstofulíf! 18

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/284

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.