Helgarpósturinn - 02.01.1995, Blaðsíða 6

Helgarpósturinn - 02.01.1995, Blaðsíða 6
6 MORGUNPOSTURINN FRETTIR MÁNUDAGUR 2. JANÚAR 1995 Óhreinu bömin hennar Evu „Skilningur er miklu minni á þörfum geðsjúkra barna en fullorðinna," segir Páll Ásgeirsson geðlæknir. „Við getum varla sinnt alvarlegustu tilfellunum og forvarnarstarf liggur niðri.“ Ófremdarástand í málefnum geðsjúkra barna eftir að legudeildinni var lokað 16. desember Talið er að um fímmtungur barna þjáist af geðrænum truflun- um af einhverjum toga þó aðeins brot af þeim hópi fái viðunandi geðmeðferð. Ófremdarástand ríkir í málefnum geðsjúkra barna og fjöldi foreldra er á biðlistum með börnin sín hjá Barna- og unglinga- geðdeildinni við Dalbraut. Deildin sinnir geðsjúkum börnum fram að sautján ára aldri en legudeild barna þurfti að loka þann 16. desember vegna fjárskorts. Alls 15 börn eru á biðlista á legudeild og 20 önnur bíða eftir að komast í fyrsta viðtal hjá geðlækni á göngudeild. Að sögn Páls Ásgeirssonar, geðlæknis á Dalbraut, þyrfti að margfalda öll stöðugildi með tíu til að geta sinnt þessum mála- flokki á þann hátt sem gerist í nágrannalöndun- um. MORGUNPÓSTUR- INN ræddi einnig við for- eldra sem kvarta ekki einungis yfir úrræðaleysi í kerfinu heldur yfir lít- ilsvirðingu á aðstæðum foreldra sem þeim finnst þeir verða varir við í kerfinu. Fengu tými en engin stöðu- gildi Það var árið 1987 sem legudeild fyrir unglinga var tekin í notkun en fyr- ir þann tíma hafði sára- lítið verið gert til að mæta þörfum stofnunar- innar fyrir aukið hús- rými. Legudeildinni fylgdu þó engin stöðu- gildi og því var gripið til þess ráðs að loka deild 11 á Kleppi og sér- menntað starfsfólk hefur að öðru leyti þurft að kreista úr starfsemi stofnunarinnar sem var aðþrengd fyrir. Unglingadeildin er rekin með aðstoðarlæknum eingöngu en þangað vantar tilfinnanlega sér- fræðing og félagsráðgjafa en hér um bil allir unglingar á deildinni eru illa félagslega settir. Lokað frá miðjum desember „Meðan legudeild barna er lokuð um helgar er ekki hægt að taka þar inn börn utan af landi,“ sagði Páll Ásgeirsson. I tvö ár hefur legudeild barna, sem rúmar sex einstaklinga, verið rekin með því að loka yfir jól og um helgar og í ár var gripið til þess ráðs að loka legudeildinni alveg frá 16. desember og fram yfir áramót. Það hefur komið fyrir að slegið hefur í brýnu milli stofnunarinnar og Félagsmálastofnunar þar sem ekki hefur alltafverið unnt að sinna þeim tilfellum á Dalbraut þar sem truflana verður vart hjá börnum sem eru skjólstæðingar stofnunar- innar. „Talsverður hluti barna sem geðdeildin hefur til meðferðar er viðloðandi Félagsmálastofnun á einn eða annan hátt og koma þar til bæði erfðir og umhverfi,“ sagði Páll. Sinnum einungis al- variegustu tilrellunum Á göngudeild Barna- og ung- lingageðdeildarinnar eru nú 3,7 stöðugildi, ein 70 prósent staða fyr- ir geðlækni, tvær fullar stöður fé- lagsráðgjafa og ein fyrir sálfræðing. Það er ekki mikið þegar haft er í huga að þessi göngudeild þjónar öllum börnum og unglingum landsins, 60 til 70 þúsund talsins. Biðlistarnir sýna ennfremur að þörfin er mikil og ótrúlegt að þarna skuli hafa verið gripið til sparnað- arráðstafana. Á Dalbraut koma 2-300 ný til- felli á ári og er það að sögn Páls að- eins kúfurinn af ísjakanum. „Við getum einungis sinnt alvarlegustu tilfellunum og eigum erfitt með að anna þeim. Allt forvarnarstarf hef- ur setið á hakanum því við höfum ekki bol- magn til að sinna fræðslu á vettvangi, það er í skólum og á heilsugæslustöðvum, spítölum og barna- heimilum. Stór hluti geðsjúkra barna er haldin ofvirkni og við höfum menntað okkur vel á því sviði og getum haldið námskeið og fyrirlestra en þarna skiptir miklu máli að það sé gripið snemma í taumana og komið í veg fyrir að fjölda þess- ara barna bíði þau ör- lög að enda sem baggi á samfélaginu, það er, sem afbrotamenn, skjólstæðingar Félags- málastofnunar eða daga uppi í geðbatter- íinu. Við höfum ekki getað sinnt fræðslu á þessu sviði og hvað þá getað elt uppi þessar truflanir úti í samfélag- inu.“ Lítilsvirðing afhálfu starfsfólks MORGUNPÓSTURINN hafði spurnir af því að margir foreldrar sem eiga geðsjúk eða atferlistrufluð börn teldu sig hafa orðið fyrir lítils- virðingu af hálfu fólks í kerfinu. Móðir sem á geðsjúkan dreng segir að þegar drengurinn hennar var fimm ára gamall hafi hann tekið æðiskast og gengið berserksgang í íbúðinni en hún var þá með yngsta barnið sitt þriggja mánaða og ann- an son sinn heima. Hún hringdi á næturlækni og bað um aðstoð en þegar hann kom á staðinn hringdi hann á geðdeildina á Dalbraut þar sem drengurinn hafði verið til meðferðar og bað um neyðarinn- lögn. Beiðninni var neitað og varð læknirinn mjög reiður og taldi að deildinni bæri að sinna bráðatilfell- um sem þessum. Málalyktir urðu þær að drengurinn var vistaður á einu af vistheimilum Reykjavíkur- borgar. Þá gerðist það að móðirin var beðin um að skrifa undir fóst- urbeiðni fyrir drenginn þar sem að- stæður væru of erfiðar til að hún gæti haft hann hjá sér. Það var eina hjálpin sem henni bauðst og var gengið svo hart að henni að hún brá á það ráð að biðja barnsföður sinn, sem hafði haft lítið sem ekkert að segja af drengnum, að taka við forræðinu og gerði hann það og tók drenginn til sín tímabundið. Lauk þar með afskiptum vegna þess að enginn í kerfinu virtist efast um hæfni föðurins til að hafa drenginn. Eftir stuttan tíma var hann kominn aftur til móður sinnar. Drengurinn rústaði viðtálsherberginu Umræddur drengur fékk grein- ingu inni á Dalbraut þegar hann var þriggja ára gamall og var hún sú að truflunin væri að völdum fæð- ingaráverka. Fyrir fjórum árum síðan var hann greindur ofvirkur á Greiningarstöð ríkisins en er nú á biðlista eftir nýrri greiningu á Dal- braut. Nú í desember kom móðirin að lokuðum dyrum á barnalegu- deildinni en hún hafði vonast til að hann kæmist þangað inn um tíma. Móðirin hefur nú tekið hann af öll- um lyfjum en hann hefur fengið geðlyf, bæði örvandi og þunglynd- islyf öðru hverju frá því að hann var þriggja ára gamall. Henni finnst það ekki forsvaranlegt að hann sé á lyfjum meðan endanleg greining liggur ekki fyrir og gagnrýnir það að læknar skuli líta á það sem úr- ræði eins og málum er háttað. Hún segir að síðasti geðlæknir sem hafði drenginn til meðferðar hafi gripið lyfseðil og fyllt hann út eftir að drengurinn rústaði viðtalsherberg- inu. Drengurinn fær fyrirvaralaust æðisköst og hendir þá og brýtur hluti og verður mjög árásargjarn, hinir drengirnir hafa misst vini af þessum sökum, auk þess hefur vinnutap móðurinnar haft áhrif á fjárhag heimilisins, en hún hefur ekki getað unnið úti um langa hríð sökum þessa. Móðirin hefur aftur fengið tímabundna aðstoð og dvel- ur drengurinn nú öðru hverju á vistheimili fyrir börn á Laugarás- vegi sem barnaverndarnefnd hefur úrskurðað í fóstur. Það er þó ljóst að slík úrræði eru óviðunandi og koma aldrei í stað- inn fyrir úrbætur, enda síst hægt að auka álagið á börnin þar sem þau koma úr erfiðum heimilisaðstæð- um fyrir. Líf mitt í allsherjar rannsókn Önnur einstæð móðir með þungt heimili og ofvirkan dreng sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með samskipti sín við starfsfólk Dalbrautar þegar hún leitaði þangað með drenginn sinn í greiningu. Hann hafði byrjað í al- mennum skóla sex ára gamall en kennarinn hafði kvartað undan hegðun drengsins og skólasálfræð- ingur við viðkomandi skóla vísað honum í sérdeild í öðru hverfi. Drengurinn var óánægður í sér- deildinni og móðurinni fannst klént að hann fengi ekki aðstoð við skólann sem hann þyrfti þannig að hann gæti verið með jafnöldrum sínum. Það varð til þess að hún komst eftir nokkra bið með dreng- inn í greiningu inn á Dalbraut. „Þar var allt mitt líf sett í eina allsherjar rannsókn og á niðurlægjandi for- sendum enda fannst mér að sökin væri allt í einu orðin mín, og eng- inn virtist hafa neinn skilning á því að mínar aðstæður gætu verið erf- iðar en ég er ein með stórt heimili. Það sló mig líka að foreldrarnir sem voru þarna með börnin sín voru yf- irleitt fátækt fólk og ég hugsaði hvort að vandamálið væri einangr- að við það eða hvort hinir gætu leitað annarra úrræða enda þurfa aðstæður manns að vera mjög au- mar til að hægt sé að þola svona framkomu." Hæfni mín dregin í efa „Drengurinn reyndist vera of- virkur en nú var vandamálið stærra, því að hann var settur á lyf sem gerðu hann sljóan og fjarræn- an,“ sagði móðirin. Hér um bil allt sem hann tók sér fýrir hendur var gert tortryggilegt. Það tók eiginlega steininn úr þegar einn félagsráð- gjafi úrskurðaði að hann ætti ein- ungis að leika sér með kubba því að ef hann fengi að leika með kalla þá yrðu leikirnir gjarnan ofbeldis- kenndir. Mér hefur fundist á því sem ég þekki til að drengir sviðsetji yfirleitt lífið á þennan hátt, það er góði kallinn og vondi kallinn og sí- felld barátta milli þess. Eftir því sem mitt líf og aðstæð- ur urðu tortryggilegri í augum starfsfólksins þá varð ég hræddari um að missa hann og leitaði ráð- legginga hjá öðrum sem höfðu ver- ið þar með börnin sín. Mér var þá sagt að segja já við öllu sem þeir segðu og leika leikinn til enda og ég gerði það eftir bestu getu. Það fór nú samt þannig að það var haldinn fundur þar sem hæfni mín til að annast drenginn var dregin í efa, þótt ég eigi tvö önnur börn sem ekkert amar að og þyki hæf til að ala upp. Ég bað þá um fund með fé- lagsráðgjafa frá Félagsmálastofnun og eftir það drógu þau í land en ég tók drenginn minn og hef ekki leit- að til þeirra síðan. Hann er nú loksins, sjö ára gam- all, kominn í sérdeild með jafnöldr- um sínum og sækist námið vel. Hann er auðvitað oft erfiður og þarf stöðuga athygli en ég hef reynt að fylgjast með því sem er fjallað um þessi mál og gef honum til dæmis engan sykur. Það er mjög bágt ástand í þessum málum og það þarf að auka aðstoð við foreldra og börn svo um munar en fólk þarf óhrætt að geta leitað þeirrar litlu aðstoðar sem býðst. Ég er enn hrædd þegar ég hugsa um þá lítils- virðingu sem mér fannst ég finna inni á Dalbraut og andrúmsloftið þar sem mér fannst þrungið spennu og ekki bættu úr skák eilífar fundarsetur sem oftar en ekki end- uðu í rifrildi." Geðmeðferð barna situr á hakanum Þó að umræða um alþjóðlegu heilbrigðisáætlunina, Heilbrigði handa öllum árið 2000, hafi vissu- lega skilað sér í umræðu inn í geð- heilbrigðiskerfi barna standa litlar vonir til þess að það sé hægt að fylgja henni eftir. Þar er stefnan sú að flytja þungann í heilbrigðiskerf- inu yfir í forvarnir. „Fórvarnarstarf er í Íamasessi og geðdeildin eins og hún er núna er brunalið sem vissu- lega reynir að kljást við afleiðing- arnar en orsakirnar verðum við að láta vera eins og málum er háttað í dag,“ sagði Páll Ásgeirsson. „Geð- meðferð barna hefur setið á hakan- um þó að rekja megi umtalsverðar framfarir í meðferð fullorðinna á undanförnum árum og ekki bætti úr skák niðurskurðurinn fyrir tveimur árum.“ Þar var höggvið þar sem síst skildi. -ÞKÁ

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/286

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.