Lesbók Morgunblaðsins - 05.05.1957, Blaðsíða 7

Lesbók Morgunblaðsins - 05.05.1957, Blaðsíða 7
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 259 Þýðing á einu kvœði Hórazar HÓRATÍUS I. BÓK, 2. KVÆÐI Fönnin var nóg og ferlegt hagl, er sendi faSir og skaut af logarauðri hendi heilög á virkin, líkt og blóð þar blæddl, borgina hræddi. Hræddi hann þjóðir heims með slíkum teiknum, hér yrði Pýrrhu öld með nýjum teiknum, hafsguð er ræki hárra upp til fjalla hjörð sína alla. Fiskar þá efst úr álm ei losnað gátu, áður á greinum þar sem dúfur sátu, hræddust það flóð, er heiminn yfir dundi hindir á sundi. Vér höfum litið gula Tíber geisa, gegn sínum eigin straumi bárur reisa, fara að granda minjum kóngs og mestu musteri Vestu. Ilía kvartar, — straumur hennar hefnir, hraður á vinstri bakka fljótsins stefnir, brýtur mót Jóvis, býr við konuríki bóndans í líki. Fámenn er æskan, feðra glöp því valda, fregnar hún bræðravíg er þegnar gjalda, betur þeir hefðu vopnum vegið Persa volduga hersa. Hver er sá guð, er bót við böll finni, bæn inna helgu Vestumeyja sinni? Daufheyrð er Vesta orðin á að hlýða ákalli lýða. Apolló. Kom þú sáttaverk að vinna, vorum að syndagjöldum megi linna, bjartar um herðar búinn þokuhjúpi, blágeims úr djúpi. Brosandi gyðja, Venus, vera kynni, vildir þú hjálpa oss að þessu sinni. Stöðugt þér fylgir yndi, ást og gleði öllum að geði. Þjóðfaðir, saddur allt of löngum leiki. Litir þú niðja hirðulaust á reiki! Blóðgum mót óvin hinn er augu hvessir, hugnast þér þessir. Maju son fleygi. Ef þú með oss yrðir, æskumanns gerfi búinn þjóðar hirðir, þyldir að kallast, kynslóð sem þig nefnir' Keisarans hefnir! Seint þú til himins frá oss aftur farir, forði því lán, þig hrífi fyrr en varir andblær frá jörðu, vorum vítum graman. Verum hér saman. Vertu hér með oss fursti bæði og faðir, fjölmarga sigra vinn og þegnar glaðir. Vítalaus þeysa má ei Medinn skæður, meðan þú ræður. EFNI KVÆÐISINS OG NOKKRAR SKÝRINGAR Hóraz ræðir hér um kvíða manna fyrir gereyðingu af hamförum náttúrunnar vegna glæpa Rómverja, svo sem vígs Cæsars og borgarastríðanna í Róm. — Virkin helgu í byrjun kvæðisins eru in 7 fjöll eða hæðir í Róm. Pýrrhu öld lýtur að sögn um syndaflóð einhvern tíma í fyrnd- inni, þar sem aðeins tvær manneskjur komust af, Devka- líon og Pyrrha, og út frá þeim breiddist svo mannkynið yfir jörðina. — Persar og Medar voru löngum frægir fyrir reiðmennsku og bogfimi. Af þeim stóð Rómverjum nokkur stuggur á dögum Hórazar. Tíber er nefnd gul af gulum sandi. Fljótin voru talin guðir til forna. Fljótsguð Tíberfljóts var giftur Rheu Silvíu, öðru nafni Ilíu, og fékk hennar sem nú skal greina: Hún var ein af Vestu- meyjum í Róm. Þær máttu ekki vera við karlmenn kenndar, en svo fór þó, að Rhea Silvía eignaðist tvíbura með herguðnum Marz og fyrir það var henni drekkt í Tíber. Hún varð þá eiginkona fljótsguðsins. Svo mikið vald hafði hún yfir bónda sínum, að hún gat fengið hann til að gera sumt, sem sjálfur Júpíter ekki samþykkti, svo sem það, að ógna Róm með vatnsflóði fyrir dráp Cæsars. — Minjar kongs eru höll og minnismerki Núma konungs, þar sem einna flóðahættast var í Róm. Þegar Tíber var í mestum vexti, þá varð afturkast vatnsins frá hægri bakka, nokkru neðar enn á móts við Róm, svo mikið. að áin sýnist renna öfugt og ógna með því að flæða inn í borgina. — Marz er nefndur þjóðfaðir, því Rómúlus, annar ofannefndra tvíbura, var stofnandi Rómaborgar. Sonur Maju er guðinn Merkúríus. Hann var mildastur og hjálpsamastur allra guðanna. Honum er svo lýst, að hann hafði vængi á skóm, sinn hvoru megin jarka, eða á hatti sínum, sinn fyrir ofan hvorn vanga, og flaug uppréttur eða standandi í loftinu og notaði oft andblæinn sem byr, Þegar hann vildi hjálpa einhverjum, þá brá hann oft á sig gervi æskumanns til þess að gera manninn ekki hræddan. Skáldið biður Merkúríus að stjórna Róm í gervi Ágústusar, þ. e. að það verði ekki greint, hvort heldur Ágústus keisari eða guðinn Merkúríus stjórni borginni. Skáldið hyllir á þenna hátt í þremur síðustu vísum kvæðisins keisarann og kvæðið verður fyrst og fremst lofkvæði til Ágústusar. SIGURÐUR NORLAND þýddi.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.