Lesbók Morgunblaðsins - 12.05.1957, Blaðsíða 5

Lesbók Morgunblaðsins - 12.05.1957, Blaðsíða 5
LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 273 Eitt sinn er þetta var gert, var hrúturinn horfinn morguninn eft- ir, og fannst hann hvergi. Þegar húsið, sem hann var í, var mokað næst á eftir, fannst skrokkur hans undir grindunum. Annað sinn fannst hrúturinn dauður og stirðn- aður uppi í heystæðinu við húsið. Stóð hann á afturfótunum og studdist upp við heystálið, en fram- fæturnir stóðu sem spýtur beint fram. Sagði fjármaðurinn, að svo hefði verið að sjá sem hann hefði verið studdur í þessa stöðu, unz hann var fullstirðnaður. Maður sem var í Bæ 1898—1899 segir, að þá hafi hrútar verið hafðir í hús- unum og hafi ekkert orðið að. Hefir þá verið upphafið vald þeirra dul- armagna, sem áður réðu þar, en hvenær það varð, er ekki hægt að segja neitt um. Um seinustu aldamót flutti að Bæ Guðmundur Sigurðsson og bjó þar fram yfir 1940. Hann var mesti dugnaðarmaður og stundaði sjó og búskap jöfnum höndum. Það var eitt sumar, að grasspretta var ó- venjulega lítil og fekk Guðmund- ur stórum minni hey en vant var, þó hann slægi það sem slægt var af útengjum. Til að bæta nokkuð úr þessu, tók Guðmundur það ráð að slá blett uppi í svonefndum Hömrum, en Hamrar eru klettar hátt í hlíðinni upp af bænum og ná nokkru styttra fram en land Bæar. Ekki vissu menn til, að þar hefði verið slegið og enginn hafði heyrt getið um nein álög eða bann- helgi á þessum stað. En afar erfitt er að ná þaðan heyi og mun það hafa ráðið mestu um, að enginn hafði nytjað þennan blett. En skömmu síðar dreymdi Guðmund, að til hans kom kona, sem honum þótti álfkona vera. Hún var all- reið og ásakaði hann harðlega fyr- ir að hafa slegið þarna og hótaði illu ef það væri endurtekið. Hún kvað það skyldu verða hefnd íyr- ir þennan verknað, að aldrei mætti hann setja á meira en 50 ær, ef vel ætti að fara. Hvarf konan honum síðan og dreymdi hann hana aldrei framar. Guðmundur lét orð konunnar sér að kenningu verða, og eftir það setti hann aldrei fleiri ær á vetur en svo að eina eða tvær vantaði upp á 50. Blettinn sló hann ekki nema þetta eina sinn. Nokkrum árum seinna bað maður frá Suðureyri Guðmund um leyfi til þess að slá þennan sama blett, en hann þver- tók fyrir það, kvaðst hvorki slá hann sjálfur né ljá hann öðrum til slægna. Suðureyri. — Sagt var, að ekki mætti slá í tjörninni í túninu, en mikill hluti hennar er vaxinn stór- gerðri starartegund. Ekki er vit- að að sú bannhelgi hafi nokkurn tíma verið brotin. Laugar. Sumir segja, að ekki hafi mátt slá í Laugahverfi. Bann þetta hefir ekki verið brotið, svo vitað sé. Munu þær ástæður valda, að lítil freisting var til þess: Slægjuland er þar lítið og illt að ná heyi það- an, þótt slegið sé. Jörðin Laugar var kölluð álaga- jörð, og mátti enginn búa þar lengur en 20 ár, og mundi hver sá, er lengur byggi þar, verða fyrir alvarlegu óláni. Frá eldri tíma er ekki vitað, að neinn hafi verið þar fram yfir inn leyfilega tíma. Voru ábúendaskipti þar oft tíð, en stund- um var jörðin í eyði. Ásíðariárum hafa þó tveir menn búið þar lengur en 20 ár. Sá fyrri var Guðmundur Guðmundsson, sem fluttist á Suð- ureyrarmalir rétt fyrir 1900. Varð hann að hætta búskap vegna heilsuleysis, sem sumir settu í sam- band við það að hann hafði búið á Laugum yfir 20 ár. Er það og staðreynd, að honum leið betur eft- ir að hann kom að Suðureyri. Kann það raunar að nokkru leyti hafa stafað af því, að ástæður leyfðu honum að fara betur með sig og hlífa sér við erfiði, þegar hann var lasinn. Seinni maðurinn var Pétur Sveinbjarnarson, sem flutt- ist frá Laugum fyrir fáum árum eftir meira en 20 ára búskap þar. Mikið af þeim tíma átti hann við erfið kjör að búa, því að ómegð var mikil. Seinustu árin var hag- ur hans betri, því að þá voru börn- in komin upp og veittu honum stuðning. Ekki verður séð að álög- in hafi gert honum neitt. Má ætla að þau séu nú úr gildi fallin. Klúka. — Skammt frá bænum er álagablettur, sem kallast Ártung- ur, og þar sem þetta er rétt við bæinn, er nokkur freisting að slá þarna, þegar vel er sprottið, þar sem slægjur eru þarna litlar. Ekki er vitað að bannhelgin hafi verið rofin, fyrr en seinasti ábúandi á Klúku sló þarna eitt sumar. Um haustið setti hann fimm ær á, en missti þrjár af þeim um veturinn. Rann honum þá svo í skap, að hann drap þær sem eftir voru, og kvað bezt að þær fylgdust að allar. Botn. — Þar er álagabletturinn Karlsbali. Er hann framarlega á dalnum og engin freisting var að slá hann, því að nóg er af góðum slægjum nærtækari. Er því ekki kunnugt að hann hafi nokkru sinni verið sleginn, fyrr en Jón Pálma- son sló hann sumarið 1913. í nó- vember þá um haustið drukknaði Jón og sá atburður af sumum sett- ur í samband við sláttinn á Karls- bala. Annar álagablettur kvað vera í landi Botns. Heitir hann Latur og er fyrir framan Hafradalsá. Ekki hefi eg heyrt um hvort hann hefir verið sleginn áður fyrr, en bónd- inn, sem nú er í Botni, segist oft hafa slegið hann, án þess aö nokk- ur hafi að orðið.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.