Lesbók Morgunblaðsins - 21.07.1957, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 21.07.1957, Blaðsíða 3
LESBOK MORGUNBLAÐSINS »83 Þegar James kom aftur heim til Bandaríkjanna lauk hann prófi 1 læknisfræði, en fékkst aldrei við lækningar. Heilsu hans hrakaði og þunglyndi hans náði hámarki. Hann lagði árar í bát og lét reka: Hvaða tök hafði manneskjan á lífi sínu? Hvað var hún annað en hjóþ sem snerist um sjálft sig í ráð- leysi, leikbrúða, sem stjórnaðist af ósýnilegum þráðum í hendi forlag- anna? Ákvarðaðist ekki allt líí hennar af uppruna og umhverfi, og hvað var hinn frjálsi vilji mannsins til að vera sinnar eigin gæfu smiður annað en ímyndun ein? En einmitt um þessar mundir barst James í hendur rit hins franska heimspekings Charles Renouvier um frjálsan vilja manns- ins. — 30. apríl 1870 skrifar hann í dagbók sína: „Ég álít að í gær hafi reynslutími minn í lífinu náð hámarki. Ég lauk við að lesa fyrri hlutann af annari ritgerð Renou- viers og get ekki séð hvers vegna sú skoðun hans á frjálsum vilja „að hugsun sé viðhaldið vegna þess að ég kýs að svo sé, þótt mér sé í sjálfsvald sett að ala í hennar stað aðrar hugsanir", þurfi að vera röng. Ég ætla a. m. k. að trúa því — bar til næsta ár — að hún sé rétt. Fyrsta verk hins frjálsa vilja skal vera að trúa því að viljinn sé frjáls“. Hvort sem James misskilur Renouvier eða ekki, þá fann hann í þessu lausnina á sínu eigin vandamáli og lækningu við sjúk- dómi sínum. Og þessi nýja hug- mynd verður uppistaðan í allri hans heimspeki: — Hugsun hefur allt- af ákveðinn tilgang og miðast því við ákveðna framkvæmd. Um eðli og gildi hugsunar er ekkert hægt að segja fyrr en vitað er til hvers hún leiðir. Gildi hugsunarinnar hlýtur því að ákvarðast af afleið- ingum hennar; — hinu hagnýta gildi verksins sem af henni leiðir. Árið 1872 var James ráðinn sem kennari við Harvard. Fyrst í stað kenndi hann líffræði og heilsu- fræði og síðar sálarfræði. Árið 1878 kvæntist William James og byrjaði að kenna heim- speki. Sama ár samdi hann við bókaútgefandann Henry Holt um að skrifa bók um sálarfræði í bóka- flokknum „Amerísk vísindi". Holt krafðist þess að handritið yrði til- búið árið eftir en James taldi sig þurfa tvö ár til að Ijúka bókinni, og var um það samið. Að tólf ár- um liðnum var bókin tilbúin til prentunar! Á þessum árum ferð- aðist James til Frakklands, Eng- lands og Þýzkalands til að kynn- ast mönnum og kenningum í þess- um fræðum í Evrópu. Hann eyddi einnig allmiklum tíma í rann- sóknir á dulrænum fyrirbrigðum og miðilsstarfsemi, en komst ekki að neinni niðurstöðu í þeim efn- um. Þau aðeins styrktu hann í trú hans á að öruggast væri að treysta ekki um of „óyggjandi" vísinda- legum kenningum því að alltaf gætu nýir hlutir gerzt sem koll- vörpuðu gömlum „sannindum". Rit James um sálfræðina „The Principles of Psychology" skipaði honum í röð hinna þekktustu sál- fræðinga, á bekk með James Ward og Carl Stumpf. Sá kafli bókar- innar sem fjallar um vanann varð einkum víðþekktur, en kjarni hans var: „Sá sem sáir verki uppsker venjuna. Sá sem sáir venjunni uppsker eðlið. Sá sem sáir eðlinu uppsker forlög sín“. Þegar James hafði lokið þessari bók ákvað hann að „snúa sér að alheiminum“, eins og hann orðar það í bréfi til bróður síns, og gera heimspekinni sömu skil. En hraði mannlífsins í hinum nýja heimi gaf honuxn lítinn frið til kyrrlátra hug- leiðinga um hin dýpri rök viðburð- anna. Hann eignaðist um þessar mundir fimmta barn sitt og til að sjá sér farborða skrifaði hann í blöðin um dægurmál og flutti fyr- irlestra um það sem hann var beð- inn! Tíu árum seinna komu frá hans hendi tvær bækur: „Talk to Teach- ers“ og „Will to Believe". Þessi rit voru samsafn úr greinum og ræð- um sem hann flutti í erli daganna, en ekki „bókin“ um heimspekina sem vera skyldi heilsteypt lausn á lífsundrinu. Sama máli gegndi um næstu bók hans sem fjallaði um trúmáhn. „The Varieties og Rele- giouse Experience“, hún var ekki það sem honum lá þyngst á hjarta. Eftir að hún kom út er hann óánægður með verk sitt og skrifar: „Nú langar mig til, ef ég get, að skrifa eitthvað alvarlegt, kerfis- bundið og rökfræðilega geirneglt. Ég hef haldið nóg af þessum glundurslegu fyrirlestrum — fyr- ir almenning“. En hin rökfræðilega geirneglda bók um heimspekina var aldrei skrifuð, — aðeins drög að henni, sem gefin voru út undir nafninu „Pragmatism" og „A Pluralisl’c Universe". Brúin yfir heimsfljótið var byggð frá tveim aiidstæðum sporðum og náði aldrei saman, hið síðasta orð var aldrei sagt. Vorið 1910 sigldi William James sína síðustu för til Englands til þess að vera þar hjá bróður sínum sjúkum. James var sjálfur farinn að heilsu þegar hann lagði upp í þessa för og vissi að hann átti skammt eftir ólifað. Þeir sneru heim saman, bræðurnir og William James náði landi til að deyja. — Hann lézt á sveitasetri sínu í New Hampshire, þar sem fjórtán dyr opnuðust út — til veruleikans og líísins.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.