Lesbók Morgunblaðsins - 04.02.1968, Síða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 04.02.1968, Síða 12
JÓNAS GUÐMUNDSSON: Við Dauðsmannsgil Upp á Hrafnseyrarheiði hægt rennur bíllinn minn Um stalla og krappa króka krækir sig vegurinn. í sólskini á sumardegi sindra hnjúkar og skörð. Óvíða ertu fegri, indæla fósturjörð. Bíllinn er fullur af fólki, — framundan brautin greið — farþegar, ungir og aldnir, allir á sömu leið. Á alla í bílnum slær óhug, — þó enn sé um hádegisbil — af hengifluginu háa að horfa oní Dauðsmannsgil. En bíllinn er bezti gripur og bílstjórinn harðsækinn. Ég bið þess að bili þó hvorki bremsan né kúplingin. Yfir Hrafnseyrarheiði held ég í annað sinn, og nú er ég orðinn eftir sem eini farþeginn. Bíllinn er gamall og beigldur, og brattur er vegurinn. Langt er á daginn. liðið og langþreyttur bílstjórinn. Við mjökumst þó örlítið áfram, en um það við sólarlagsbil af tanknum er bensínið búið í brekku við Dauðsmannsgil. Sólin er horfin í sæinn, — svipþungur himinninn. Og nú eru bilaðar báðar, bremsan og kúplingin. FRANCIS BACON Framhald af bls. 5. langur og heldur öðrum fætinum á lofti, virðist bíða í uppgjöf eftir frek- ari aðgerðum þess, sem felldi hann. Vellíðan eða sársauki, upphafning eða niðurlæging, allt sýnist það eitt og hið sama þarna. Þegar Bacon málar fólk í fötum, virð- ast fötin gædd eigin lífi. Hann málar skó og fætur af sérstakri færni, og notar oft á áhrifamikinn hátt þessa enda punkta mannlegs líkama. Það er ekki líklegt að áhorfandinn fái neinskonar ódýra skemmtun af mynd um Bacons, nema hann skilji þessi lit- ríku og fyrirferðamiklu verk út frá innihaldi þeirra, en þá hefur áhorf- þeirri spennu, sem gefur þeim líf. Sú ánægja, sem þær veita, birtist í dæmi- gerðri efahyggju. Sú staðreynd, að sann- leikurinn er oft sársaukafullur, gerir þær athyglisverðar og þegar dýpra er horft ánægjulegri en rósrauðan skáld- skap. Bacon hefur kafað á sársaukafullan hátt til botns i uppsprettum tilverunn- ar. Það sem hann fiskar þaðan upp er stundum skuggalegt en frjótt og jafn- vel tignarlegt. Trúlega eiga komandi kynslóðir eftir að hrærast af því, ekki síður en við, og kannski á þeim eftir að finnast þetta fullkomlega fag- urt, enda þótt sú tilhugsun mundi án efa skelfa Bacon. HARMLEIKUR UM ÁST OG AFBRÝÐI Framhald af bls. 2. með í reikninginn". I för með Natani var að þessu sinni fylgdarmaður, svo- nefndur Fjárdráps-Pétur, og skyldi hann taka meðul til baka morguninn eftir. Hann hlaut því að verða þarna nætur sakir, og nú atvikaðist það enn fremur þannig, að þeir Natan urðu rekkjunautar. Úr því að svo var kom- ið, gat ekki hjá því farið, að eitt yrði yfir báða að ganga, ef á annað borð yrði láti'ð til skarar skríða þessa nótt. Það var ekki fyrr en þau Agnes og Friðrik voru komin heim undir bæinn, að hún sagði honum frá gestkomunni. Féllst honum þá hugur og vildi í fyrstu ekki hafast að. En Agnes lét engan bilbug á sér finna, og þegar inn var komið, fékk hún honum vopn í hendur, hamar og hníf. Hafði hún þá talið kjark í hann og lagði fast að honum að fylgja sér að ódæðisverkinu. Þau atvik, sem nú gerðust og öll voru hin hryllilegustu, verða hér ekki rakin. Þess eins verður getið, að þegar þau Agnes og Friðrik höfðu unnið á mönnunum tveimur, lögðu þau eld í bæinn og hugðust þar með eyða öllum verksummerkjum. Hélt Friðrik síðan heim til sín í Katadal, þar sem for- eldrar hans bjuggu, en Agnes fór um nóttina á annan nágrannabæ, sem heitir að Stöpum, og vakti þar upp heimilis- fólk. Kvað hún Illugastaði standa í björtu báli, og mundu þeir Natan og Pétur, næturgestur hans, hafa látið líf sitt í eldinum. Sagðist henni um leið svo frá, að Natan hefði verið að meðala- suðu um kvöldið, og mundi það hafa orsakað íkveikjuna. Jón, bóndi á Stöpum, brá skjótt við og fór þegar við fleiri menn um nótt- ina til Illugastaða. Þegar þangað kom, var bærinn fallinn ofan og flest það brunnið, sem brunnið gat. Var samt gengið rösklega að því að róta til í rústunum, og fundust þá brátt lík þeirra Natans og Péturs undir öskunni. Jón var greindur maður og athugull, og þóttist hann auðveldlega mega ráða, að ekki hefði eldurinn einn orðið hinum látnu mönnum að fjörtjóni. Gat hann ekki betur séð en að líkin bæru merki eftir hnífstungur, og eins kom í leit- irnar nokkuð af hálfbrunnum fatnaði, sem virxist vera með greinilegum blóð- blettum. Jón bóndi lét þó ekki á neinu bera að svo komnu máli, og hvorki mun Agnes né Sigríður hafa látið sér til hugar koma, að hann hefði þau grunuð um græsku. En þessa sömu nótt reið Jón austur í Vatnsdal og hitti að máli Blöndal sýslumann. Skýrði hann honum frá, hvers hann hefði orðið áskynja, og leið þá ekki á löngu, unz þær voru báðar sóttar til yfirheyrslu, Agnes og Sigríður. Reyndi Agnes að þræta fyrir afbrot sitt í lengstu lög, en Sigríður gekkst þegar við hlutdeild sinni af fullri hreinskilni. Bárust þá einnig bönd in að Friðriki, en ekki játaði hann samt, fyrr en prestur hafði verið fenginn til að tala um fyrir honum. Voru þau öll þrjú úrskurðuð í fangelsi og síðan höfð í gæzlu, imz yfir lauk. Var Sigríði komið fyrir að Miðhópi og Friðriki að að Stóru-Borg og síðan að Kornsá. Héraðsdómur í málinu féll 2. júlí 1828, og samkvæmt honura skyldu þau Agnes, Friðrik og Sigríður takast af lífi og höfuð þeirra setjast á stengur. Fjármaður Natans, sem verið hafði í vitorði um glæpinn, var dæmdur til 4 ára refsivistar á „Kaupmannahafnar sög unarhúsi“ og Þorbjörg, móðir Friðriks, sem talin var hafa verið með í ráðum, til 5 ára betrunarhúsvinnu í Kaup- mannahöfn. Landsyfirréttur og síðar hæstiréttur staðfesti þennan dóm, og hafði þá málið staðið yfir í nærfellt tvö ár. Sigríður hafði jafnan verið hvers manns hugljúfi, og hörmuðu allir sem til þekktu, ógæfu hennar. Varð það til þess, að bæði sýslumaður og fleiri virð- ingarmenn gengust fyrir því að koma náðunarbeiðni fyrir hana á framfæri við konung. Báru þeir einkum fyrir sig æsku sakborningsins og góða hegð- un, auk þess sem hún hefði ekki sjálf lagt persónulega hönd að morðinu. Bar þetta þann árangur, að konungur breytti dauðadóminum í ævilangt fang- elsi, og var Sigríður síðan flutt utan til hegningarvinnu. Átti hún ekki aftur kvæmt til íslands, en ella vita menn ekki gjörla, hversu henni reiddi af. Þó hermdu sagnir, að hún hefði komið sér hið bezta i fangelsinu, og hefði loks „ungur herramaður“, bróðir skipstjóra þess, er flutti hana utan, keypt hana lausa og gengið að eiga hana. Senni- legra er samt, að þessar sögusagnir hafi til orðið fyrir óskhyggju almennings, sem ekki gat sætt sig við, að þessi unga, vel gefna og fríða stúlka hlyti til langframa þau örlög, sem henni höfðu verið ákvörðuð af dómstólunum. FAGURT MANNLfF At gömlum blöðum — Effir Hannes Jónsson Steingrímur Thorsteinsson Steingrímur Thorsteinsson skáld gekk daglega inn Hverfisgötuna, alltaf á sama tíma dagsins, föstum ákveðnum skrefum, aldrei of hart né hægt. Hann hvíldi sig á grjótgarðinum við Rauðarártínið, settist þar, og gekk svo jafn ákveðnum skrefum niður götuna aftur. Hann yrti ekki á neinn, svipurinn á andlitinu hugsandi. Hann var þá gamall maður. Einn sumardag sá ég út um búðar- glugga hvar Steingrímur gekk inn göt- una að vanda. Nokkru síðar sá ég hann útafliggjandi í hestvagni, lystikerru. Hann hafði fengið slag innivið túngarð- inn og hnigið niður. Sama kvöldið dó hann. Steingrímur var fagur sem maður og skáld, hann elskaði fegurð. Ljóð hans og þýðingar voru og eru unaðsleg. Þorsteinn Erlingsson Það var haustið 1907, sem ég sá skáld- ið Þorstein Erlingsson. Ég hafði áður lesið Dýravininn og mörg ljóð skálds- ins, sem alþýðan elskaði. Ég fór með pabba, sem átti að skila sendingu til stúlku að norðan og þá var vinnukona hjá Þorsteini. Við biðum eftir kaffi, og Þorsteinn og pabbi fóru að tala um ljóð og kveð- skap. Þar var pabbi heima, þekkti skáld- ið af ljóðunum og virti hann mjög. Ég held Þorsteini hafi líkað við pabba, hann lék á als oddi og iðaði af fjöri og kæti. Þorsteinn var spengilegur í vexti, grannur og vel vaxinn. En það, sem ég gleymi aldrei var fegurð augn- anna, þau voru eins og tindrandi stjörn ur, í senn mild og hörð. Svipurinn á andlitinu lýsti mildi og sannleiksást, sem áður en .varði gat breytzt í hörku, fordæmingu og háð. Jarþrúður Jónsdóttir kveið mest fyrir dauðanum, af því þá hitti hún Þorstein aftur. Þau voru heitbundin, en hún sleit böndin, er hún komst að laus- ung hans. Vonandi hefir þá verið svo skipt um svið, að ný kynni hafa orðið báðum til gleði. Einhver tilgangur er fyrir allri reynslu, og jarðlífið stutt en eilífðin óendanleg. Já, í jarðlífinu eru fáir englar að öllu, og Þorsteinn var syndugur maður, sem aðrir. En guðdómlegur maður var hann, elskaði fegurð og manngæði, fag- ur á líkama, í ljóði og sögu. Hann elskaði smæðina, var brjóstvörn varnar- lausra smælingja og málleysingja. Þannig er gott að lifa og deyja, slíkum verður eilífðin unaður og eilíft vor. Dr. Helgi Péturs Dr. Helgi Péturs var fagur maður. Það var eins og þar færi hámenntaður og kynborinn Rómverji. Svipur hans og fas var virðulegt og framganga öll. Andlitið var í senn góðmannlegt og göfugt, og bar vott um órjúfandi sann- Ieiksvissu. Mál hans, mælt og ritað var meitlað og fagurt, maður efaðist ekki um það, að hann sagði hvert sinn sannleikann, og ekkert nema sannleik- ann. Dr. Helgi var spekingur, á því er enginn vafi. En hann var svona 700 árum á undan tímanum, og því skildi hann enginn. Það er ömurleg æfi að vera svona einmana, ótrúleg þjáning. Hann vissi að hann var vanheill, líkam- inn þoldi ekki svo stóra sál. Líkams- rækt stundaði hann mjög, til að herða líkamann. Heilbrigð sál í hraustum lík- ama, það þekkti hann vel. Dr. Helgi dýrkaði fegurðina, hina sönnu fegurð alsælunnar. Við teljum þjáningar jarðlífsins böl, en er það ekki eitt stigið til fullkomnunar? Augu og andlit Dr. Helga Péturs minna mig alltaf á Jesú Krist, sem mað- ur getur alltaf séð þó hann sé í óra- fjárlægð, en aldrei nema maður sé barn í hugsun og með hreinum huga. -------------------- 4. febrúar 1968 12 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.