Lesbók Morgunblaðsins - 21.04.1968, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 21.04.1968, Blaðsíða 4
íslensk nútímaljóðlist 2. grein. — Eftir Jóhann Hjálmarsson LJÓÐ í LAUSU MáLI Ljóð í lausu máli, eða prósaljóS hafa verið ort með góðum árangrí á íslandi: þetta bókmenntaform, aem franska skáldið Charles Baudelaire gerðieinna fraegast með bók sinni Petits Poemes en prose, 1869, hefst hérlendis árið 1919 þegar Fornar ástir, eftir Sigurð Nordal koma út. Þess ber að gæta, að Sigurður hafði nokkru fyrr birt brot úr Hel, þeim hluta Fornra ásta, sem geymir ljóð í lausu máli. í Fomum ástum, eru nokkrau smá- sögur, listilega gerðar og forvitnilegar, en það var einkum Hel, sem tók huga ungra manna fanginn. Halldór Laxness, segir t.d. í Reisubókarkorni: „Ef ég horfi leingra aftur er mér ferskastur í minni sá fagnaðarviðburður sem þeir kaflar Fornra ásta voru mér, þar sem Nordal segir af Álfi frá Vindhæli. Ég skal gera þá játníngu, að ritsnildin sem birtist mér í þessum köflum fól í sér alveg sérstaka skírskotun til mín í einn tíma, bar blátt áfram í sér örlög fyrir mig. Á þessum bókaropnum var í raun réttri nýr heimur skaptur í augum vor íslenskra æskumanna þess tíma, Ijóð- heimur óbundins máls á íslensku, sem aldrei hafði áður verið slíkur.“ í eftirmála, sem Sigurður Nordal læt- ur fylgja fyrstu útgáfu Fornra ásta, segir hann um Hel: „Frá síðari árum eru aðeins brotin, sem ég einu nafni hef kallað „Hel“. Af þeim er það fyrsta, Vegamót, skrifað í Höfn vorið 1913 (prentað í Iðunni 1916), það síðasta, Hel, í Oxford, í desember 1917. Ef ég hefði haft meiri tíma til ritstarfa af þessu tæi, hefði líklega orðið úr því efni löng skáldsaga. Fyrir smásögu var það of viðamikið. En nú átti ég ekki kost á nema fáum og strjálum tóm- stundum. Þannig sköpuðu ástæður mín- ar mér formið. Þættirnir úr æfisögu Álfs frá Vindhæli gátu ekki runnið sam an í skáldsöguheild með breiðum og skýrum dráttum. Þeir urðu að ljóða- brotum í sundurlausu máli. Ljóðaform- ið leyfði mér að stikla á efninu, láta langar eyður vera milli brotanna, gefa það í skyn með einni samlíkingu, sem annars hefði orðið að nota margar blað- síður til þess að gera grein fyrir." f annarri útgáfu, 1949, kemst Sigurð- ur Nordal svo að orði í eftirmála: „Við þetta hef ég því einu að bæta, að ég efast nú mjög um, hverju „ástæð- urnar“ hafa ráðið og hvort þetta hef- ur nokkurn tíma verið efni í annars konar frásögn. Allt frá því, er aðal- persónan kom til mín og kynnti sig með orðunum: Álfur heiti ég, Álfur frá Vindhæli, — talaði hann í þessum stíl, og hann mundi að líkindum hafa vesl- azt upp, ef ég hefði reynt að teygja lengri lopa úr brotunum." Þetta styður þá skoðun, að Hel standi Ijóðinu nær en sögunni, enda lítur Sigurður Nordal auðsýnilega á Hel sem ljóð, samanber eftirmála frum- útgáfunnar. Því má aftur á móti halda fram, að auðveldlega hefði mátt gera skáldsögu úr því efni, sem Hel fæst við, að það sé raunverulega ljóðrænn prósi en ekki Ijóð. Hvort sem við slá- um því föstu, eða komumst að þeirri niðurstöðu að það sé á mörkum ljóðs og prósa, hlýtur það að verða eitt af kenni leitum hins nýja ljóðs um alla fram- tíð, eitt af fyrstu merkjum nýs bók- menntastíls á íslandi. En gefum nánar gaum að eftirmála fyrstu útgáfu: „Enginn getur fundið betur en ég, að forminu á brotum þess- um er stórum ábótavant. En flest frum- smíð stendur til bóta. Og þó að mér auðnist aldrei að skrifa Ijóð í sundur- lausu máli, sem við má una, efast ég ekki um, að sú bókmenntagrein eigi sér mikla framtíð. Óbundna stílnum hættir við að verða of froðukendur og margorður, vanta línur og líki. Ljóð- unum hættir við að missa lífsandann í skefjum kveðandinnar, verða hug- myndafá og efnislítil, hljómandi málm- ur og hvellandi bjalla. Östuðluðu Ijóð- in ættu að eiga óbundnar hendur og víðan leikvöll sundurlausa málsins, og vera gagnorð, hálfkveðin og draum- gjöful eins og ljóðin. Þau eiga sér krappa leið milli skers og báru. En takist þeim að þræða hana, verður það glæsileg sigling.“ Sigurður Nordal vekur hér máls á því, sem nútímaskáld hafa löngum fært fram sem haldgóð rök fyrir réttlæt- ingu nýrrar viðleitni í skáldskap: hann talar um að ljóðin „missi lífsandann í skefjum kveðandinnar", en bendir á þá kosti, sem það hefur í för með sér, að ljóðin hafi „óbundnar hendur og víð- an leikvöll sundurlausa málsins“. En hann gerir sér einnig grein fyrir þeirri hættu, sem ljóði í lausu máli er búin, sé það lesið eins og venjulegt óbund- ið mál. Vamaðarorð hans við lesand- ann í eftirmálanum eru enn í fullu gildi, næg ástæða virðist vera fyrir marga að íhuga þau: „Ég veit, að þessi brot heimta mikla alúð, skilning og hugkvæmni frá lesandans hálfu, eins og reyndar öll ljóð, meira en önnur ljóð, af því að mönnum er svo tamt að lesa óbundið mál í flaustrL En ég vildi biðja menn að lesa þau a.m.k. nokkurnveg- inn vandlega áður en þeir fordæma þau. Ef til vill er það ofrausn af sum- um lesendum að halda, að alt sé vit- leysa sem þeir átta sig ekki á við fyrsta lestur. Og menn græða vafalaust meira á að skilja bækur en dæma þær“. Það er ljóst, að Sigurður Nordal gerir ekki smávægilegar kröfur til les- enda sinna. Hann biður þá ekki aðeins um alúð og skilning, heldur hugkvæmni líka. Þetta leiðir hugann að því, að hin raunverulega sköpun bókmennta- verks er ekki einungis í höndum skálds- ins, lesandinn á þar einnig hlut að máli, og því meiri hugkvæmni, sem hann sýnir, því stærri verður sá árangur sem skáldið hefur náð í glímunni við við- fangsefnið. Fáar eða engar bókmennta- greinar þurfa jafn mikið að halda á vönduðum og helst völdum lesendum og ljóðið, og þá einkum hið nýja ljóð. Strax í fyrsta kafla Heljar, Vega- mót, blasa við okkur einkenni ljóðsins. Kaflinn hefst á þessum orðum: .... FaJSir minn sigldi burtu. ÞaS var á heiðum vordegi með hvítum skýja- dreglum, og vindur stóð af landi. Hann kom áldrei aftur, og engin bára hef- ur skolað beinum hans upp í fjöruna. Móðir mín horfði út á sjóinn í tvö misseri. Annað haustið féll fyrsta mjöllin á nýgert leiði hér suður undir hamrinum. Einfaldleiki orðanna og skýrleiki hugsunarinnar, er það fyrsta, sem okk- ur dettur í hug við lestur þessara orða, sem Una mælir við Álf frá Vindhæli, þegar hún er að reyna að fá hann til að hætta við för sína, setjast um kyrrt. Og hún heldur áfram: Þú leitar gæfunnar eins og allir menn, en gœttu þín, að þú leitir henn- ar ekki langt yfir skammt. Er nokk- ur friðsœlli blettur til á jörðunni en eyjan mín, með bœinn á miðju túni milli fjalls og fjöru? Er ekki himinn- inn opinn yfir henni, og er hér ekki nœgilegt rúm til alls þess, sem er nokkurs virði, að unnast og biðja, eld- ast saman og deyja saman? Umræðan, sem jafnframt einfaldleika ljóðmálsins, setur svo sterkan svip á HeL er nú hafin. Álfur frá Vindhæli viðurkennir að eyjan hennarUnu sé yndisleg, en biður hana um að reyna ekki að telja sér hughvarf, því: Eg leita gæfunnar, og eg finn hana, þegar eg missi hennar, því sjálf leit- in er gœfan. Boðorð hennar er: leit- ið og finnið ekki! Gœfan er ekki til þess að eiga hana, heldur þrá hana og eignast, sleppa henni og minnast hennar. í þessu svari Álfs greinum við tog- ann í lífi hans, hið síendurtekna tema verksins. Hann segir t-d. við aðra konu, sem verður á vegi hans: Hversvegna vil eg reyna að skilja þig og láta þig skilja mig? Hvers- vegna vil eg kafa hvern hyl og sjá í gegnum hvert fjall? Því að hylurinn er ekki framar hylur, þegar hann hef- ur verið kafaður til botns. Ljóðsagan um Álf frá Vindhæli streym ir fram full af visku eins og gamalt fljót með mörgum hyljum og steinum; þungt fosshljóð berst til eyrna og jafnskjótt kvíslast æðar fljótsins í ýms- ar áttir með léttum dyn, yfir öllu vak- ir einhver ólýsanleg tign; gagnvart þessu landslagi verður lesandinn sleg- inn einhverju í ætt við töfra gömlu ævintýranna. Oft er skammt á milli ljóðs og spak- mælis. Margt í Hel er auðveldlega hægt að flokka undir spakmæli, og draga það út úr heild sinni; það stendur með glæsibrag eitt sér. Eins og til að mynda þessi ummæli um konuna í öðrum kafla: Sumar konur eru eins og demantar. Þœr eiga marga fleti og snúa ýmsum við þér, en alltaf sindrar Ijósið í þeim í þúsund geislabrotum. Þœr eiga marga fleti, og það er hægt að slípa á þær nýja, svo að óvœnt Ijósbrot komi fram. Og þær gleyma sér, — lofa sólskininu að streyma gegnum sig og leika á þær stjörnusöngva sína. Spakmæli væri lengi hægt að tína úr Hel, en þessi spekimál spilla ekki ljóðrænu andrúmslofti verksins, þau eru sjálf hluti af því. Lítum á aðra umsögn um konuna og ástina, þar sem máttur ljóðsins ríkir yfir spakmælinu: Þú ert heilög eins og guð og óhrein eins og dýr, þú ert einfáldari en dúfa og slægari en naðra, þú ert mjúk eins og vorþoka og hörð eins og stuðla- berg, þú getur klappað með barns- höndum og verið œgileg eins og snjó- flóð. Gleði þín getur verið víðari en himinninn, örvœnting þín dýpri en hafið, hatur þitt heitara en eldurinn, tryggð þín fastari en jörðin. Þú ert gömul eins og efnið, ung eins og and- inn, eilíf eins og tíminn. Kaflinn Óravegir, samanstendur af tveimur dæmisögum og þriðji hluti er ályktunin, lýsir því sem reynslan hefur kennt: Reyndu ekki að ná handfestu eða fótfestu í lífinu. Þér fceri þá eins og manni, sem er að hrapa fyrir björg og grípur eftir snösunum, sem hann dettur fram hjá. Þœr rifa hendur hans og tæta sundur. Ekkert nema aukin harmkvœli. Þú verður ekki stöðvað- ur. Fallið er í sjálfum þér. Og endir- inn er ykkur jafnvís báðum: dauðinn. Hann bíður. Áttundi kafli, samnefndur Ijóðaflokk num minnir á málverk eftir Arnold Böcklin. Mér verður einkum hugsað til Dauðaeyjar hans, lýsingin á umhverfi því, sem Hel leiðir Álf inn í þegar að uppgjörinu er komið, er varla tilviljun, um greinileg áhrif er að ræða frá mynd Böcklins. í þessu sambandi er ekki ó- fróðlegt að minnast þess, að mynd eftir Böcklin hafði einnig þýðingu fyrir Jó- hann Sigurjónsson þegar hann ortiód- ysseif hinn nýja, eins og Helge Told- berg hefur bent á í bók sinni um hann. Hin rómantíska dauðaþrá eða hilling- ar dauðans, eru hér komnar: Hún tékur í höndina á honum og leiðir hann með sér. Þau líða gegnum fjöllin eins og bláa þoku. Dynur sjávarins undir fótum þeirra er mjúk- ur eins og kliður í laufblöðum. Hann veit ekki, hve lengi þau halda áfram 4 LESBÓK MORGUNBLAÐSINS 21. apríl 1968.

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.