Lesbók Morgunblaðsins - 04.11.1973, Blaðsíða 8

Lesbók Morgunblaðsins - 04.11.1973, Blaðsíða 8
JON HJARTARSON LAND- KÖNNUN Á LAXA- SLÓÐUM Meira en tíu sinnum fleiri laxar veiðast á ári hverju í ám Irlands en hér á landi Nú er sumarið liðið og langur vetur framundan. Frosttærir morgnar haustsins hafa ýtt hlýj- um ágústkvöldum og björtum júlinóttum aftur fyrir, og senn leggst skammdegið yfir menn og málleysingja. Allir þrá í hjarta sínu endurkomu nýs sumars. Hver á sinn hátt. Hinn langi vetur mun leggjast misjafnlega á menn. Þó eru þeir fleiri nú en nokkru sinni fyrr, sem fagna honum sem tíma margvíslegra verkefna og kvölda heima við með bók eða þægilegu dútli, þvi sumarið, sem var að líða, einkenndist af þeim ferðalagaerli, sem nútima þjóð- félag dregur æ skýrar í velferðar- mynd sína. Tugþúsundir ís- lendinga endasentust um viða veröld. Sumir í ákveðnum erinda- gerðum, en flestir á „ökonomi" farseðlum til suðlægra sólar- stranda. Hér innanlands var allt á fleygiferð. Rútur og jeppar upp um fjöil og firnindi, og óslitinn bílastraumur um hverja helgi á eitthvert „Húsafellsmót", að ógleymdri sumarfrísumferðinni og veiðiferðum laxveiði- mannanna. Um þessa breytingu á lífsvenjum fólks er ekkert nema gott eitt að segja, svo lengi sem skemmtiferðirnar eru farnar til skemmtunar, til hvíldar þreyttri sál eða lúnum líkama og til aukins þroska. En þann dag, sem maður- inn hættir að hlakka til ferðar og fer aðeins vegna þess, að hann hafði ákveðið það eða að aðrir fara, myndast viðhorf, sem í eðli sínu er framhald af lífsleiða og streitu þægindakapphlaupsins. Fyrir litla drenginn í dainum sem aldrei hefur átt heimangengt, en horfir á fjallið fyrir ofan bæinn og hugsar sér það sem þrepskjöld hins víða heims, getur sunnudags- ganga upp á brún, í fyrsta sinn, verið tilbreytingaríkari en öðrum löng tízkuferð til Spánar. Vegna þess að drengurinn hafði hlakkað til. Þegar ör breyting verður á vel- megun þjóðar, svo sem hér á landi síðustu áratugi, og orðið að vera „sigldur" hverfur aftur í geymd tungumálsins, gleymist mönnum, að skemmtiferðalag er annað og meira en að þjóta frá einum stað til annars. Og enda þótt menn fari á sólarströnd sér til hvíldar og hressingar, vill það einnig gleymast, að aðgerðarleysið er ekki alltaf bezta hvíldin. Ferða- menn, sem sækja Island heim og koma frá löndum, sem efnuðust á undan okkur, kunna miklu fremur en við að hafa eitthvað fyrir stafni. Gefa ferðinni tilgang. Því það er ekki vegna fáskrúðugs næturlífs í henni Reykjavík eða dýrra vínveitinga, að þeir hafa með sér hluta af tómstundar- gamni sínu til Islands, teikni- blokk, dagbók, veiðistöng eða sjónauka til fuglaskoðunar. Ég veit ekki, hve margir íslendingar taka með sér þessa hluti eða aðra ámóta f skemmtiferðir suður í lönd, en þeir eru vafalaust mjög fáir. Og sami maður, sem ekki vílar fyrir sér að skreppa til Kanaríeyja og liggja þar í sand- inum f nokkra daga, verður ósköp undirfurðulegur til augnanna, ef þú segir honum, að núna sé fasanaskyttiríið ágætt f Tékkó- slóvakíu eða að sjóbirtingurinn gangi nú í skozku árnar. Sami maður keypti sér ef til vill tveggja daga veiðileyfi í Norðurá í sumar á þrjátíu þúsund krónur, og kom þreyttur heim. Hvernig sem þessu er farið, þá dylst mörgum Islendingi, að í útlandinu er fleira að fá en sól 'og sand, næturklúbba og kamparf. Þar má einnig finna söfn og náttúrufegurð, fugla og fiska og staði, þar sem fólksfæð og frelsi býðst hverjum þeim, sem vill það hafa. I vor sem leið valdi ég mér þann ferðamáta á leið heim úr löngu fríi að axla bakpokann minn og flakka um suður Irland í nokkrar vikur. Tilgangur ferðarinnar var að kynnast landi og þjóð, en þó fyrst og fremst sá að skoða lax- veiðiárnar þeirra og skilja, hvernig það mætti vera, sem ég hafði heyrt, að á írlandi væri mikil lax- og silungsveiði, en veiðileyfi mjög ódýr. Irland er fagurt land. Hlýlegt og gróðursælt og víða stórbrotið, en umfram allt grænt. Hálendi er þar allnokkuð, en þó frábrugðið því sem íslendingur á að venjast, því fjöllin rísa stök upp af lág- lendinu og dreifa sér líkt og skörðótt skjaldborg með ströndum fram umhverfis sléttuna miklu um miðbik lands- ins. Úr fjöllum og hæðum fossa lækir allt eins inn til Iandsinssem til sjávar. Hníga niður í grjót í þurrviðrum eða vaxa ört í rign- ingum og metta mójarðveginn, sem er írum sá vatnsgeymir sem jöklar og snjór er okkur. Vatna- drög eru því löng, ár lygnar og stöðuvötn mörg og mikil dreifast um mýrarnar. Landið er frjósamt og vel til búskapar fallið, enda eru Irar fyrst og fremst bænda- þjóð. Landsgæði eru þó mjög mis- jöfn og lökust meðfram vestur- ströndinni endilangri frá suðri til norðurs, enda ganga þar lægðir Atlantshafsins sífellt yfir. Þar er kvikfjárrækt mest stunduð, aðal- lega sauðfjárbúskapur. En þó að Islendingi finnist vestursveit- irnar búsældarlegar og furðu líkar grösugum héruðum norðan- lands, móar og mýrar og hlíðar brúnar í vorsólinni af fjalldrapa, sortu- og beitilyngi, skilst honum fljótt munurinn á afkomu bænd- anna, sem þar búa við nokkra tugi hektara lands og þröng upp- rekstrarlönd og hinna heima f Húnavatnssýslu. Þeir eru því margir hverjir lausir við búskap, sækja vinnu í næsta þorp, dag hvern eða hluta úr ári, kaupa eða leigja veiðilagnir í árósum eða flytja þangað á veturna, sem at- vinnu er að fá. Jafnvel til Eng- lands og Skotlands. Trjágróður er lítill og kyrkingslegur, beygður af sífelldum vestanveðrum og bændabýlin lágreist en hlýleg með reykháf á báðum stöfnum og litla glugga undir slútandi strá- þökum. Um miðbik landsins og með austurströndinni er töluverð akuryrkja, en einnig mikil naut- griparækt. Þorpin, sem eru mörg og smá, hafa byggst utan um þjón- ustugreinar og vinnslu land- búnaðarafurða, líkt og Selfoss og Hvolsvöllur. Hér er landið mjög ólíkt því, sem vestar er, og trjá- gróður festir rætur, hvar sem maðurinn gætir ekki nægilega að. En tvennt er þó öllum írskum bændabýlum sameiginlegt. Annað er hlaðan, sem stendur ör- lítið sér, klædd bárujárni hálfa leið niður veggstoðirnar, og svipar til hjallanna okkar gömlu, og er allt í senn, hlaða, skýli fyrir vélar og búpening, skemma og búr. Hitt er móhraukurinn og torfstungan, vandlega hlaðin með vatnskeið undir vegg. Annað ein- kenni, sem írland hefur, er grjót- garðurinn. Enda þótt víða sé grunnur jarðvegur og landbrot ekki aðeins ruðningur, skógar og kjarr, heldur grjótburður fyrst og fremst, skýrir það ekki þá alúð, sem Irar leggja við hleðslu garða sinna. Hvert sem litið er, svo langt sem augað eygir, teygja sig garðar hlaðnir af fádæma natni og list. Þetta er ef til vill frekar keltneskt einkenni en írskt, því ekki hafa Skotar slegið slöku við vegghleðslu heldur, sfðan það land byggðist. Og hver veit, nema einnig hér upp á Fróni finnist menn með þá áráttu í blóðinu að leggja stein við stein, þannig að af verði hleðsla svo jöfn, sem steypt í móti. Séð hef ég þær slíkar í Skaftafellssýslu. En það sem íslenzkur stang- veiðimaður aðgætir fyrst og fremst eru árnar írsku. Ferða- málaráð Irlands (The Irish Tourist Board) telur upp rúmlega eitthundrað ár, sem lax gengur í. Amar eru hugsanlega fleiri, því segja má, að lax gangi í hverja sprænu, sem á annað borð býður upp á tímgunarskilyrði. Hvort árnar eru 100 eða 120, segir að sjálfsögðu lítið. Það, sem máli skiptir, er hvernig þær eru. Þeim má skipta í fjóra flokka eftir eðli. Þær, sem eiga upptök sín í hæð- um og fjöllum sjávarmegin og renna nær skemmstu leið úr landi. Þessar ár eru flestar svip- aðar dragánum okkar, hafa kosti þeirra, svo sem tært svalt vatn, strengi og aðgengilega hylji og gamalkunna fegurð fossa og flúða á milli kletta og grasivaxinna bakka, eða þær hægja á sér í dal eða dæld, grafa undan rótinni, fá sér hnaus og hnaus og hika augna- blik, áður en þær breiða úr sér á næstu eyri. En einnig galla sem sérhver veiðimaður þekkir, sem beðið hefur eftir deginum vikum saman og kemur svo að ánni morguninn eftir úrhellisnótt og sér allt bólgið og beljandi grátt, þar sem átti að vera snotur flugu- staður. Eða þegar þurrkar hafa þrýst hverju lífi í skjól og áin er sem spegill og myndvarp hvers sinustrás. Þessu líkar eru einnig þær ár, sem til lands falla fyrst i stað. En svo er eins og þær renni upp í móti, eða falli alls ekki og við köllum þær frekar síki en á, en svo sjáum við, að þær eru hvorki það né hitt, heldur vatn. Vatn sem teygir sig svo langt sem augað eygir að næstu strönd, skógivaxinni, og áfram upp eða niður framhjá hverjum tanganum af öðrum, þar til við vitum aftur ekki, hvort vatn er eða á. En við stöndum og horfum til baka, þangað sem við komum frá og vitum nú, að áin okkar er þverá, með nafn og stað og líf, sem á þar heima og þekkir hana sem heim- kynni sitt en er ekki á lista „The Irish Tourist Board" yfir lax- veiðiár. Svo er það hin þriðja. Þessi sem við sáum í fjarska. Ain sem hætti að vera vatn, en á sér samt ekki brot neins steins né slóð straums. Aðeins nægan tíma. Þannig líður hún vatn úr vatni, þar til flóðið mætir henni, ef til vill 80 kílómetra frá sjó. Slík er Shannon, sem líður til sjávar eftir 300 kílómetra ferð. Þessu líkar ©

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.