Lesbók Morgunblaðsins - 25.04.1976, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 25.04.1976, Blaðsíða 3
var amma vön að kalla á Ingu frænku sina og nöfnu sem bjó í húsinu og bjóða henni kjötsúpu. Ég sá að afi skaut svona augunum til Ingu þegar hún sat í eldhúsinu hjá ömmu en hún brosti sinu kankvisa brosi og afi sagði ekki neitt. Inga var líka svo léttlynd og glaðlynd að enginn hefði held ég getað sagt neitt við hana. Hún var ein af þessum manneskjum sem flytja alltaf með sér gleði og hlýju. Nokkur dæmi um það að afi hafi ekki verið eins naumur og af var látið get ég nefnt og sýnir það líka að ef hann gerði eitthvað þá munaði um það. Eitt haustið sem oftar var þröngt í búi hjá foreldrum mínum og vantaði mig bæði kápu og skó í skólann. Amma hefur þá beðið afa að hjálpa upp á sakirnar og held ég að hann hafi sjaldan neitað henni ef hún á annað borð bað hann. Hann lagði af stað með mig til að kaupa þetta á mig. Hefur víst ekki treyst ömmu til að kaupa af hagsýni. Ég fór með hálfum huga því að satt að segja mundi ég ekki eftir því að hann hefði talað mikið við mig, þó kom það fyrir ef amma var ekki heima þegar ég kom I heimsókn að hann spurði mig hvort ég væri ekki svöng, og einhverja óljósa minningu hefi ég um að ég hafi verið að vappa á eftir honum, þegar ég var lítil, með hamar sem hann hafði gefið mér. En hafi ég farið mað hálfum huga af stað þá lá við að mig brysti alveg kjark þegar ég sá hvert afi ætlaði með mig, en það var til fornsala nokkurs þar í grenndinni, Sigga í ruslinu eins og við kölluðum hann krakkarnir. Hann var í okkar augum ógeðslegur og hafði orð á sér fyrir að lokka til sín smátelpur. Ég hugsaði með skelfingu til þess að fara þarna inn, en vissi að mér var óhætt með afa. Karlinn var hinn smjaðurlegasti og snerist í kringum okkur og kom með einhverjar kápur og ég þorði ekki annað en máta þær. En draumurinn um fallega kápu fór nú að fölna og mér datt ekki annað í hug en afi vildi kaupa sem ódýrast. Þegar hann spurði mig hins vegar hvort mér líkaði ekki ein kápan og ég stundi upp að mér fyndist hún ljót, þá varð undrun mín mikil þegar afi tók það gilt og fór með mig i tvær verslanir sem hann hafði viðskipti við og keypti á mig bæði kápu og skó alveg eftir minu vali. Ég held að hann hafi farið til fornsalans til að stríða mér því að ég man það vottaði fyrir glettni í augunum. Annað dæmi var þegar hann keypti útvarpstækið en hann var með þeim fyrstu sem það gerðu. Þetta var ti) mikillar ánægju fyrir ömmu sem var mjög söngvin og lærði öll lög sem hún heyrði. Fá tækifæri hafði hún til að njóta tónlistar og við höfðum grun um að áhugi hennar á jarðarförum og kirkjuferðum væri ekki síður sprottinn af tónlistaráhuga en guðrækni eða að hún þekkti alltaf mikið þá sem verið var að jarða. Aður hef ég minnst á hve ólík þau voru á velli, hve létt hún var á fæti, en hún var líka ákaflega svefnlétt en hann fór alltaf að sofa um tiuieytið. Þá kom sér vel hve léttstig amma var. Kannski hefur hún tamið sér það af nauðsyn. Hún var venjulega á ferli framundir miðnætti. Framan af hefur hún þurft að hleypa börnum sínum inn á kvöldin þvi að þá voru ekki smekklásar fyrir hurðum, og gæta þess að vekja ekki afa. Væri hann vakinn var hann eins og bjarndýr sem vakið er af vetrarsvefni og man ég eftir einum eða tveimur slíkum atburðum. Siðan hefur það orðið að vana að læðast um á kvöldin og það voru ýmis kvöldverk sem amma þurfti að sinna. Eitt var það að þegar afi var sofnaður náði hún stundum verkstæðislyklunum úr vasa hans og fór í kistuna hans og skar vænan kæfubita eða smjörklípu ellegar hún tók 2—3 kjötbita og kartöflur. Mest af þessu held ég hafi lent á borðum hjá okkur. En amma hafði fleiri kvöldverkum að sinna. I Bjarnaborg bjó gömul einkennileg kona sem kölluð var .Marsa. Margir álitu hana norn og ekki var hún árennileg. Hún var venjulega klædd í svartar druslur með svarta skuplu. Hún þótti vita lengra en nef hennar náði og fengu sumir hana til að spá. Hún hefur sjálfsagt verið greind og var mér sagt að hún hafi verið myndarstúlka en bilast er maður sveik hana, ekki veit ég um sönnur á þvi. Þessari gömlu konu færði amma alltaf vatn á kvöldin. Liklega hefur hún ekki viljað biðja sambýlisfólk sitt um vatn en hún hafði ekki eldhús. Ég gisti stundum hjá ömmu og eitt sinn fór ég .með henni til Mörsu. Hún var ekkert mjúk á manninn þó að amma ~ væri að gera henni þennan greiða og sendi hana eftir einhverju. Amma skildi mig eftir hjá henni á meðan. Þetta var hræðileg stund. Aðra eins vistarveru hef ég aldrei séð. Þarna var þykkt ryklag á öllu og sótflygsur héngu niður úr loftinu. Marsa var svo sérvitur að enginn fékk að þrífa i kringum hana, en hún orðin gamalmenni. Hún vildi vera góð við mig og ætlaði að gefa mér kandís og molasykur sem hún geymdi í kistli við rúmið sitt. Ekki hafði ég lyst á þessu en þorði ekki að segja það, stakk því í vasann og sagðist ætla að etaþað seinna. Þegar heim kom átti amma aðeins eft- ir að gefa villiköttunum sem höfðu gotið þarna i lóðinni og á þá kallaði hún með einkennilegu gælukjassi. Svo skriðum við upp fyrir afa, fyrst amma og síðan ég, þvi að ég var svo myrkfælin að ég þorði ekki að sofa ein. Oft hefi ég furðað mig á þvi að við skyldum ekki vekja hann. En morguninn eftir var amma komin fyrst á fætur og farin að mala i könnuna. Mörgu öðru einkennilegu fólki man ég eftir sem kom til ömmu. Ein af þeim var Bina. Hún var krypplingur og var eins þrifaleg og Marsa gamla var sóðaleg. Hún var alltaf i hvitum rykfrakka sem aldrei sá blett né hrukku á. Hún lifði lika af þvi að þrífa kringum fólk. Hún kom oft til ömmu og þegar hún var í góðu skapi talaði hún alltaf um sig i þriðju persónu. Oft kom hún með kaffi- bolla með sér eða húnhvolfdibolla þegar hún hafði drukkið kaffið. Þá kom Inga frænka til skjalanna og leit i bollann. „Æ, náðu honum út fyrir mig,“ sagði Bina. Með því átti hún við Inga ætti að sjá mynd af einhverjum manni sem Bína var hrifin af. Ef Inga gat ekki náð hon- um út í bollanum þá sagði hún: „Ég skal slá upp einni stjörnu fyrir þig“ — og þá brást það ekki að hann kom fram í stjörnunni. Þá var Bína ánægð en ég hafði alltaf grun um að þessi maður væri ekki til nema i draumi Bínu. Ömmu fundust þetta hálfgerðar blekkingar, en ég held að þetta hafi verið nauðsynleg blekking í lífi Bínu. Þó oft væri setinn bekkurinn í eldhúsi ömmu og spjallað þar yfir kaffibolla þá var aldrei talað um náungann. Því hafði amma skömm á. En oft var rætt um skáldskap og heimspekilegar umræður voru um lifið og tilveruna. Ég held að amma hafi hneigst dálítið að spiritisma þó aldrei væri hún eins sannfærð og Þorsteinn frá Hrafntóftum bróðir henn- ar en hann var pabbi Ingu. Ymis orð urðu henni uppspretta mik- illa heilabrota og velti hún þá fyrir sér hvernig þau væru hugsuð eða mynduð. Hana hafði langað mjög til að læra tungumál á yngri árum en það þótti algjör firra af stúlku að hugsa um slíkt. Af skáldskap hafði hún mestar mætur á ljóðum Matthiasar og held ég að hún hafi kunnað þau flest. Hún hafði verið vinnukona í Odda þegar hún var 18 ára. Mjög var hún fróð um plöntur og var einstaklega gaman að fara með henni i sveit. Þennan fróðleik held ég að hún hafi numið af Brynjólfi á Minnanúpi en honuni kynntist hún á ráðskonuárum sínum. Hófsöm var hún í orðum og mátti aldrei heyra ykjur í frásögn og var stundum skritið að heyra þær nöfnurnar tala saman þvi Inga sagði vel frá og færði dálitið í stilinn á sinn gamansama hátt. Þá þótti ömmu hallað réttu máli, en Inga hló bara og sagði: „Heldurðu að ég sé að skrökva?" Eins þoldi amma ekki að heyra blótað og breytti sjálf blótsyrðum í árans og ansans og var það það grófasta sem hún tók sér í munn. Einhverju sinni þótti henni ég blóta fullmikið og sagði við mig: „Ef þú notar blótsyrði og svona sterk orð við smámuni hvað ætlarðu þá Framhald á bls. 15

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.