Lesbók Morgunblaðsins - 10.09.1978, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 10.09.1978, Blaðsíða 3
einn innanum allan þennan fjölda og vonaði að Andri vinur minn færi að koma. Það voru þessir sjálfsöruggu. andskotar úr efribekkjunum sem gerðu mann svo óöruggan. Alltaf að hnippa í hina og þessa. Við hlið mér stóðu þrír strákar og ein stelpa. Öll úr sjöttabekk. Einn strákurinn, sá sem var með stelpunni, var í einhverri nefnd. Ég hafði séð hann tala á skólafundi. Á fundinum ræddi hann um nauðsyn breytts þjóðskipulags. Svo gagnrýndi hann lífsgæða- kapphlaupið og allt það drasl, og sagði að markmiðið væri þjóðfélag jafnrétis og bræðralags. Ég dáðist að stráknum fyrir þessa ræðu og horfði oft á eftir honum að loknum skólatíma, þarsem hann leiddi stúlkuna sína inn í bláan Volvo, nýjustu gerð, og keyrði síðan sem leið lá, þangað sem leiðir þeirra einna liggja sem eiga eitthvað undir sér. Náungarnir tveir, sem stóðu við hliðina á honum þarna í reykstofunni, voru skáld. Ég hafði lesið allskonar ljóð og greinar eftir þá í skólablaðinu. Ljóð annars þeirra voru ofsalega þunglyndisleg og eflaust átti hann voðalega bágt, þó hann bæri sig karlmann- lega. Ég held að skáld eigi yfirleitt meira bágt en aðrir menn. En þetta skáld, einsog fleiri, lét ekki sorgirnar buga sig, og á skólaböllum óð hann í píum og reytti af sér spakmælum. Hinn náunginn var örugglega líka skáld, því að þeir sem þekktu hann ekki og vissu ekki að hann var skáld, hættu sér aldrei nær honum en í 10 metra fjarlægð. Ég get svarið að þeir voru allir með svo djúpar raddir að fyrst þegar ég heyrði þá tala hélt ég að þeir væru eitthvað klikkaðir í hálsinum. Annars var þetta ofsalega skrítið, því stundum urðu raddirnar í þeim eðlilegar og þá litu þeir alltaf í kringum sig og roði færðist í kinnarnar. Ég get ekki að því gert, en stundum finnst mér einsog maðurinn sé bara gjaldmiðill. Tildæmis voru þeir allir virðulegir og öruggir með sig eins og þýzka markið og ég einsog íslenska krónan þarna við hlið þeirra. Og útkoma nokkurra skyndiprófa hjá mér undanfarið bentu til að gengisfelling væri kannski ekki svo ýkja langt undan. Mér til mikils léttis kom Andri og við gengum saman uppí dönskustofu, Andri var ekkert ofsalega vinsæll meðal kennaranna. Hann var alltof mikill töffari: kom oft með rokkplötur og þessháttar í skólann. Mennta- skólakennarar hafa nefnilega margir hverjir ímugust á popgæjum. „Allir í hópa! ... Raðið borðunum ykkar saman. Já þið þarna í horninu verið saman. Sex í hóp!“ Það var dönskukennarinn, ung kona í röndóttri mussu og með skollitaðan drengjakoll, sem talaði. Bekknum var skipt í fjóra hópa og lásum við nýtt danskt byltingarleikrit. Átti hver hópur síðan að skila áliti um verkið. Leikritið var hópvinnuleikrit, þ.e.a.s. samið í hópvinnu. Verkið var mjög dramatískt og fór fram í eldhúsi, utan smá þættir í lokin sem áttu sér stað inni á klósetti og nokkrum öðrum stöðum í íbúðinni. Leikritið fjallaði um vel stæða miðstéttafjöl- skyldu, sem kvöld eitt, yfir kvöldmatnum, fór að ræða saman í einlægni: án þess auðvitað að hafa ætlað sér það: umræðurnar bara þróuðust í þá átt. Aðalpersón- urnar voru fjórar: faðirinn, sem var forstjóri og mikill bragðarefur í viðskiptum og með bankainnistæðu uppá milljónir og samvisku uppá magasár, auk þess sem hann var orðinn kynferðislega getulaus og svo ópersónulegur að hann átti til að sofa með svarta leðurhanska og sólgleraugu: móðirin, sem var manísk pilluæta sem daglega eigraði eirðarlaus um íbúðina tautandi við sjálfa sig í sífellu með 25 milligramma valíum hugsanir uppá vasann: sextán ára sonur sem var með svo falleg augu að foreldrarnir voru farnir að örvænta: átján ára dóttir sem farin var að leggja lag sitt við skelfilegustu og úrkynjuðustu og hættulegustu manngerð á jörðinni, þ.e.a.s. hippa, auk sem hún komst ekki lengur í kjólana sína vegna þess sem hippinn hafði gert við hana. Og auðvitað enduðu samræðurnar með skelfingu einsog alltaf þegar mennirnir reyna að ræða skynsamlega saman. Dóttirin hljóp að heiman og í faðm hippans. Sonurinn rauk út og kom ekki aftur fyrr en að áliðinni nóttu og þá uppdópaður og í slagtogi með einhverjum ókunnum- jafnaldra sínum og berháttuðu þeir sig á stofugólfinu, fyrir fr-aman föðurinn sem lá í hnipri í stofusófanum með ristilkrampa og gat sig hvergi hreyft fyrir verkjum. Hlupu þeir síðan inn í hjónaherbergið og létu vel hvor að öðrum í hjónarúminu: þessu mesta hamfararúmi allra tíma. Meðan á þessu stóð hafði móðirin læst sig inni á klósetti og veinaði þar og hristi pilluglös og hótaði að gleypa allar svefntöflurnar og fyrirfara sér síðan með því að sofna í baðkarinu. Þegar leikritið endaði mátti heyra að hún var farin að láta renna í baðkarið. En þetta með að láta renna í baðkarið í lokin og vísa þannig til drukknunar móðurinnar, var bara táknrænt, sagði dönskukennarinn, og átti að standa fyrir sjálfsmorðs-endalok hins borgaralega þjóðfélags. Full lotningar á þessu sérstæða leikriti, skiptumst við á skoðunum og reyndum að koma okkur saman um niðurstöðu. „Ég meina að það er augljóst að þau þjást öll af öryggisleysi," sagði Magga, grannholda stúlka með lítil hringlaga gleraugu. „Ég meina að þau eru öll tilfinningalega og félagslega vanþroskuð." „Hei, Gunni, nennirðu ekki í bíó í kvöld,“ sagði Andri. „Ég meina að þau eru öll- svo bæld, að...“ „Á hvaða mynd,“ spurði ég. „ ... VÁ! Nei ég meinti bara ótti og kvíði og svoleiðis." „Það er ein helvíti góð í Háskólabíó." „ ... Það er bara vegna þess að þau hata sig svo mikið.“ Magga talaði mest í mínum hóp. Hún talaði raunar alltaf mikið. En þó ég væri búinn að sitja við hliðina á henni í tæpt misseri vissi ég aldrei hvað hún var að meina. Við hefðum örugglega skilið hvort annað miklu betur með því að þegja saman. Þess vegna töluðum við líklega svona mikið. Sigrún dönskukennari gekk á milli hópanna og aðgætti hvernig gengi. Þegar hún kom að okkar hóp skýrði Magga henni frá athugunum sínum, en Sigrún sagði að faktíst séð þá bara fúngeraði þetta ekki hjá okkur, en við værum þó á réttri leið. Magga lagði höfuðið í bleyti og reyndi að finna skilning Sigrúnar á leikritinu. Þorgeir, þybbinn og launmontinn náungi sem var í mínum hóp, var sífellt að reyna að snúa útúr fyrir Möggu. En þó Magga væri Magga, þá fór þetta röfl í Þorgerði gífurlega í taugarnar á mér. Hann hélt að hann væri einhver æðislegur gæi sem allar stelpurnar væru alveg vitlausar í, sem þær því miður voru margar hverjar að því leyti að þær virtust reyna mikið að hata hann. En það sem hafði gert útslagið um óvild mína i hans garð, var eitt sinn þegar han sagði að Guðný væri alveg síðasta sort. En Guðný var stelpa í mínum bekk sem ég bar ofsalega virðingu fyrir. Hún þurfti að vinna með skólanum, en það var aldrei að sjá að hún léti það koma niður á náminu. Það var ekki að hún væri neitt voðalega gáfuð, þá hefði þetta heldur ekki verið eins mikið að bera virðingu fyrir, heldur var hún bara svona ákveðin og vinnusöm. Stílabækurnar hennar voru svo snyrtilegar og fallegar að mér kom aldrei neitt í hug undir englum, þegar ég leit þær augum. Getur maður annað en dáðst að svona stelpu, þegar maður vinnur sjálfur ekkert með skólanum, en kemur þó alltaf ólesinn í tíma og á stílabækur sem minna á púka? Inní miðja glósubók í ensku hafði ég krotað: Lífið er brekka — og ég hef víst lent í helvítis skriðunum sem keyra mig æ lengra og lengra niður á við. En þrátt fyrir virðingu rnína fyrir Guðnýju, gerði tíminn og allt sem honum fylgir það að verkum að ég fór að forðast hana og stílabækurnar hennar eins og pestina. Og dag einn um vorið stóð ég sjálfan mig að því að kalla hana fífl! Bjallan hringdi. Dönskutíminn var úti í þetta sinn, einsog hálfkláruð bók sem maður setur í bókamerki og skellir aftur. Þegar ég var að ljúka við að setja draslið mitt ofaní töskuna, sá ég hvar bók féll af borði Stebba án þess að hann veitti því athygli. Ég ætlaði að benda, honum á bókina, en hann var rokinn áður. Stebbi var hálfgerður furðufugl. Hann sagði aldrei orð í tímum og virtist ekki umgangast neinn. Þetta var horaður og smávaxinn náungi með dökkt hár. Við Andri kölluðum hann oft okkar í milli Herra Einmana Feiminn Dreyminn og Gleyminn. Við erum líka svo rómantískir! Ég tók bókina og blaðaði í henni. Þetta voru mest teikningar og svo dönskuglósur inn á milli. Á öftustu síðunni fann ég þó alveg kolruglað og geggjað ljóð. Það hét Skóli: Éinn einsog finna sig umluktan hópnum og halda að allir ... allir... og ímynda sér! — en vita ekki. Ég hef nú aldrei verið mikið gefinn fyrir ljóð. Satt að segja les ég aldrei ljóð. Þó man ég eftir einu sem ég las í barnaskóla og heitir Fjallganga og er eftir Tómas Guðmundsson. Það fannst mér djöfull smellið! Ég hljóp á eftir Stebba og lét hann fá bókina. Þetta var alveg frábært! Hann var svo taugaveiklaður þegar ég rétti honum bókina að ég hef aldrei séð annað eins. Hann ætlaði örugglega að brosa eða eitthvað svoleiðis, en hægra munnvikið fór þá bara að titra þetta litla. Ég var nærri kominn að því að hlæja, en tókst þó að láta sem ég hefði ekki tekið eftir neinu. Ég velti stundum fyrir mér hvað verður eiginlega um svona krakka sem fara með veggjum. Hvað taka þau til bragðs þegar veggirnir taka enda? Annars er þetta alveg ferlegt, því að þeir sem líkjast ekki öllum öðrum í háttum, virðast gera allt til að vera einsog allir aðrir, meðan hinir sem eru einsog allir aðrir, reyna að vera pínulítið öðruvísi en allir hinir. Hér er örugglega kominn kímnigáfa skaparans. Og svo hafði Stebbi ugljóslega ekkert tímaskyn: það var ekki bara að hann kom nær alltaf of seint, heldur kom einnig fyrir að hann kæmi þá fyrst þegar kennslu var lokið. Annars var þetta allt mjög skrítið. Hann var oft svo tekinn í andliti þá loks hann mætti. Ég fór að svipast um eftir Andra, en það hafði verið gefið frí í næsta tíma og hann var rokinn eitthvert með einhverjum gaurum. Auk þess voru komin einhver leiðindi í samband okkar. Ég hafði kynnst stelpu fyrir stuttu, sem ég var nú kominn á fast með, og Andra líkaði ekki að vera fimmta hjólið á bíó og ballferðum okkar. Þetta var alveg frábær stelpa! Hún hét Anna. Fyrst þegar ég sá hana virkaði hún næstum því eins sterkt á mig og gott klámblað. Hún var svona í meðallagi falleg, en svo voru það hreyfingar hennar, talsmáti, og sólríkar hugsanir sem gerðu hana að dís. Fyrstu vikuna sem við vorum saman fórum við sjö sinnum á bíó. Sjö bíósýningar fannst mér hæfilegur aðlögunartími og bauð henni á ball. Ég er örugglega haldinn einhverju óeðli. Ég hafði ekki dansað við hana nema í nokkrar mínútur þegar ég byrjaði að naga á henni eyrnasnepilinn, síðan að kyssa hálsinn, og áður en ég vissi af var tungan á mér komin inn í munninn á henni. Það hljómar kannski undarlega, en þar sem ég stóð þarna í faðmlögum við Önnu á miðju dansgólfinu með tunguna uppi í henni, fór ég skyndilega að hugsa um hvað þetta er í rauninni fáránlegt að tjá ást sína með því að reka tunguna uppí viðkomandi. Eitthvað svo frumstætt, svona þegar maður fer að hugsa útí það. Við hættum að dansa og Anna fékk sér sæti, en ég fór á barinn og kom aftur með tvö glös af Vodka svo við gætum haldið áfram að drekka frá okkur vitið. Við vorum ekki orðín nógu vitlaus til að geta notið hvort annars fullkomlega og haft gaman af öllu brjálæðinu. Tveim tímum seinna stóðum við hamingjusöm og nær meðvitundarlaus af víndrykkju (meðvitundarleysi er besta mögulega ástand mannsins) í eins meters háum snjóskafl, tólf stiga frosti og átta vindstigum, fyrir • framan skemmtistaðinn og ég hrópaði ástarorð til Önnu. „Veistu Anna að mig langar ofsalega í þig! Ég get svarið að ég elska þig. Elska þig með sögninni að elska og öllum öðrum sögnum. Einnig með nafnorðum, atviksorðum, lýsingarorðum og fornöfnum. Með öllum orðum og í öllum föllum og tíðum. Meira að segja í Passé Compose og Fut. I Act. Ind. af 1. beyg. regl. sagna í latínu. Ég elska þig málfræðilega!" Orð mín höfðu tilætluð áhrif á Önnu. Sennilega vegna þess að vindurinn þreif þau beint úr munni mínum og þeytti þeim uppá húsþök. Næsta morgun stóð ég við símann á heimili mínu og hringdi á Bíl undir hana heim. Við áttum alveg frábæra daga framundan! En dag einn rúmu hálfu ári síðar, en við höfðum ætlað út saman þá um kvöldið, hringdi Anna í mig og sagðist vera veik. Ég var eirðarlaus um kvöldið og ákvað loks að skella mér í ellefu-bíó. Þar sem ég stóð í biðröð við miðasöluna varð mér litið inn í anddyrið, og ... þarna stóð Anna við hliðina á einhverjum gæja, sem meira að segja hafði lagt aðra höndina yfir axlir hennar einsog hann ætti hana! Aldrei, hvorki fyrr né síðar, hafa jafnmargar hugsanir leikið lausum hala samtímis í huga minum, og þegar ég hljóp frá bíóinu þetta kvöld. Ég stóð á ganginum framan við reykstofuna. Nú ætlaði ég að framkvæma lítilsháttar tilraun. Ég hafði dundað mér við smíði nýyrða í nokkrum leiðindartímum undanfarna daga, og hafði jafnvel hugsað mér að gefa þau út í smáorðabók síðar. Tilraunin fólst í því að kanna viðbrögð við einu nýju orðanna. Mér hefur alltaf fundist eldspýta ljótt orð og smíðaði ég því nokkur ný orð með sömu merkingu: eldplanki — eldtré — eldgrein ■ — eldflís. Eldtré fannst mér bæði fallegasta orðið og eiga best við. Þrír náungar komu eftir ganginum og dró ég upp sígarettu og stoppaði einn þeirra. Hinir tveir héldu áfram inní reykherbergið. „Geturðu lánað mér eldtré?" „Ha!“ „Geturðu lánað mér eldtré?“ „Hvað ertu að babla maður! Get ég lánað þér hvað?“ Getturðuu láánað mér eldspýýtuur!" Hann gaf mér eld í sígarettuna án þess að segja orð. Um leið og hann hvarf inn í reykstofuna gaut hann augunum til mín. Ég stóð eftir og reykti sígarettuna einsog sígarettur eru ekki reyktar. Þegar þeir komu aftur út úr reykstofunni gutu þeir allir til mín augum. Ég lagði samningu orðabókarinnar fyrir róða. Ég stóð kyrr nokkra stund og gekk síðan inn í reykherbergið. Ég hef örugglega verið mjög niðurlútur, því ég settist upp á borð við hliðina á náunga sem ég þekkti, án þess að taka eftir honum fyrr en hann ávarpaði mig. „Komið þér sælir Gunnar." „NEI! Blessaður.“ Djöfull! Hvað er maður alltaf að hrópa nei, þegar maður heilsar einhverjum. Svo getur þetta orkað mjög tvímælis ef hugsað er útí það. Framhald á bls. 15

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.