Lesbók Morgunblaðsins - 22.10.1978, Blaðsíða 12

Lesbók Morgunblaðsins - 22.10.1978, Blaðsíða 12
Sigurður Skúlason magister FÓKUS, brennidepill. Orðið er komið úr latínu, þar sem focus merkir: eldstó, en hún var eins konar brennidepill í rómversku heimilislífi. d. fokus, e. focus. FÓLÍÓ, stærsta tegund bókar- brots (OM), prentað þar: folio. Orðið finnst í ísl. ritmáli frá árinu 1712 (OH). Það er komið af latneska orðinu folium sem merk- ir: blað. d. folio, e. folio. FÚXÍA, tárablóm, stofujurt af eyrarrósaætt (OM). Orðið finnst í ísl. ritmáli frá árinu 1882. Þetta skrautblóm heitir eftir þýskum lækni og jurtafræðingi, Leonhard Fuchs að nafni, sem uppi var á 16. öld. e. fuchsia. GALLERI, m.vndlistarsalur, málverkasafn, sæti í leikhúsi efst uppi undir lofti. Þetta orð hefur nýlega komist inn í ísl. tal- og ritmál. d. galleri, e. gallery. GEIM, svall, veisla (með drykkju og dufli), taumlaus skemmtun (OM). Þetta aðskotaorð er tiltölulega nýkomið inn í ísl. mál, einkum talmál, úr ensku, en þar er það ritað game og var upphaflega haft um flestallt sem fólk skemmti sér við. Fornenska orðið, sem það er komið af, hét gamen og er vafalaust ensk mynd af íslenska orðinu gaman. Orðið geim í spilum og skák finnst hins vegar í ritmáli frá árinu 1898 (OH). GENERÁLL, yfirhershöfðingi. Orðið finnst í ísl. ritmáli frá árinu 1661 (generall) (OH). Það er komið af latneska orðinu generalis (sem varðar allan kynstofninn). d. generalj e. general. GENIAL, hugvitssamur, snjall o.s.frv. Orðið finnst í ísl. ritmáli frá árinu 1880 (OH). Það á rót sína að rekja til genialis í latínu (af góðri ætt). d. genial, e. genial. GESTAPÓ, leynilögregla þýskra nazista. Elsta dæmi þessa orðs í seðlasafni OH er frá árinu 1955. Orðið er stytting úr Geheime Staatspolizei á þýsku (Leynilög- regla ríkisins). d. gestapo, e. gestapo. GRÓSSÉRI, stórkaupmaður, ríkisrobbi, auðkýfingur (OM). Orð- ið finnst í ísl. ritmáli frá árinu 1821 og er þar haft um kaupmenn hina stærri (OH). Það er komið af danska orðinu grosserer (stór- kaupmaður). Á 14. öld merkti grocer í Englandi: Kaupmaöur sem seldi einungis mikið vörumagn í einu eða „by the gross" eins og það var orðað. GÆI, strákur (OM). Þegar bandarískir unglingspiltar koma til Evrópu og spyrja þar eftir gistirými í hóteli segja þeir oft: „We are some guys... (Við erum nokkrir strákar...). Ósennilegt er að þeir viti að uppruna orðsins guy má rekja til Guy Fawkes þess er frægur hefur orðið í sögu Eng- lands fyrir þátttöku sína í púður- samsærinu árið 1605 og var pyndaður og síðan hengdur fyrir vikið. I Bandaríkjunum merkir guy aðeins náungi. Samt er ekki laust við að orðatiltækið „to guy people" (að draga dár að fólki) hafi niðrandi merkingu. Gæi í íslensku er trúlega aðskotaorð frá styrj- aldarárunum skömmu fyrir miðja 20. öld. Af því orði er dregið lo. gæjalegur, svo það er farið að sá sér! IIASAR, hasi, gáski, ólæti, hamagangur, fjör, (hættulegur) leikur (OM). Þetta er ungt orð í íslensku (OH). Hasar merkti upphaflega: teningsleikur og er komið af arabiska orðinu alzar (teningurinn). En af því að ten- ingskast er tilviljunarkennt fékk orðið merkinguna óvæntur atburð- ur er það var tekið upp í spænsku sem: azar. I frönsku varð það hasard og í ensku hazard (tilvilj- un). Þar merkir það enn m.a. áhættuspil. d. hasard. HOBBÍ, áhugaefni, tómstunda- gaman. Orðið finnst í ísl. ritmáli frá árinu 1960, ritað hobby (OH). d. hobby, e. hobby. HOTTINTOTTI, maður af sér- stökum kynflokki meðal frum- byKfíja Suður-Afríku (OM). Orðið finnst í ísl. ritmáli frá 17. öld (OH). Þegar Hollendingar stigu á land við Góðrarvonarhöfða hittu þeir fyrir kynflokk innborinna manna, en skildu ekki stakt orð af tali þeirra; það lét í eyrum Hollendinganna eins og stam, allt með rykkjum og skrykkjum. Einu atkvæðin, sem Hollendingarnir þóttust bera skyn á, voru: hot og tot. Því nefndu þeir fólkið: hot- en-tot (cn merkir og í hollensku). d. Hottentot, e. Hottentot. HÚMOR, kímni, fyndni. Orðið finnst í ísl. ritmáli frá byrjun 20. aldar (OH). Það er komið úr latínu (humor) og hafði þar síður en svo skopmerkingu því að það merkti: vökvi. Heimspekingar fornaldar héldu nefnilega að í mannslíkam- anum væru fjórar vökvategundir og að skaplyndi mannsins , væri komið undir blöndunarhlutföllum þeirra. Væru þau röng, væri ekki við góðu að búast. Seinna fékk humor merkinguna: undarlegheit eða skringileiki og húmoristi fór aö merkja: sérvitringur. Loks fékk húmor merkinguna: skopskyn og húmoristi merkinguna: grínisti. d. humor, e. humor (humour). HYSTERIA, móðursýki. Orðið finnst í ísl. ritmáli frá árinu 1932 og lo. hysteriskur frá árinu 1934 (OH). Það er komið úr grísku og heitir þar hystera sem merkir: móðurlíf. Af því að konur þóttu tilfinningaríkari en karlar þótt' sjálfsagt að eigna hýsteríuna einhverju líffæri þeirra og varð móðurlífið fyrir valinu. Af hýst- ería er dregið lo. hýsteriskur sem merkir: móðursjúkur. d. hysteri, e. hysteria. ÍDEA. hugmynd. Orðið finnst í ísl. ritmáli skömmu eftir 1870 og er þýtt þar: hugsýni (OH). Það er grískt að uppruna (idea) og merkir þar upphaflega: mynd eða líking. Menn hafa löngum álitið að sjón væri sögu ríkari og að nauðsynlegt væri að leiða hvaðeina augum til þess að tilveru þess yrði trúað. Seinna þróaðist merking orðsins í: hugmynd. d. idé, e. idea. Af þessu orði er idealisti (hugsjónamaður) dregið. Finnst það í ísl. ritmáli frá árinu 1881 (OH). d. idealist, e. ideabst. IDÍÓT (IDJÓT), bjálfi, flón, fábjáni o.s.frv. Orðið finnst í ísl. ritmáli frá árinu 1891 (OH). Forn-Grikkir kölluðu þann, sem gegndi ekki opinberu starfi, idiot- es, en það merkti: alþýðumaður. Þaðan er orðið idíót komið og hefur nú heldur en ekki breytt um merkingu á verri veg. d. idiot, e. idiot. IDYL, friðsæld, skáldverk um kyrrlátt sveitalíf. í ísl. ritmáli frá 20. öld kemur fyrir lo. idylliskur (OH). Orðið idyl á rót sína að rekja til grísku, þar sem orðið eidyllion merkir: Eins konar hjarðljóð um það sem skáldið hafði séð í sveitasælunni. d. idyl, e. idyll. INSPÍRASJÓN, innblástur. Orð- ið finnst í ísl. ritmáli frá miðri 20. öld (OH). Það er komið úr latínu, þar sem inspiration merkir: anda- gift frá guði. Nú hefur merking orðsins víkkað þannig að talað er um andagift frá ýmsu. d. inspira- tion, e. inspiration. INTELLÍGENS, vitsmunir, greind o.s.frv. Orðið finnst í ísl. ritmáli frá 20. öld (OH). Það er komið af latneska orðinu intelli- III HLUTI gentia sem merkir: glöggskyggni, greind. d. intelligens, e. intelli- gence. JERSEY, fataefni kennt við eyjuna Jersey í Ermarsundi. í íslensku ritmáli frá árinu 1897 er getið um jersey drengjaföt (OH). e. jersey. KALÖRÍA, hitaeining. Finnst í ísl. ritmáli frá árinu 1906 (OH). Orðið er komið af latneska orðinu calor (hiti). d. kalorie, e. calorie. KANDÍDAT, sá sem hefur lokið háskólaprófi í einhverri grein; sá sem sækir um einhverja stöðu eða eftir einhverjum titli; frambjóð- andi í kosningum (OM). Orðið finnst í ísl. ritmáli frá árinu 1862, stafsett candidat (OH). Það er komið úr latínu og merkir þar: hvítklæddur maður. Stafar sú merking af því að þegar Rómverj- ar háðu stjórnmálabaráttu gættu þeir þess vandlega að skikkjur þeirra væru mjallahvítar til þess að þeir gengju í augun á lýðnum sem hlustaði á þá. Seinna hlaut orðið merkinguna: umsækjandi um starf. d. kandidat, e. candidate. KAPÍTULI, kafli, þáttur (í bók) (OM). Orðið kemur fyrir í ísl. fornmáli (Fr.). Það er ásamt. ýmsum öðrum orðum komið af latneska orðinu capitulum sem er smækkunarmynd af caput (höfuð) og merkir: Letur sem er ofan við lesmál. d. kapitel, e. chapter. KAPTEINN, kafteinn, skip- stjóri (OM). Orðið finnst í ísl. ritmáli í byrjun 17. aldar (OH). Það er eins og orðið kapituli dregið af latneska orðinu caput (höfuð) og merkir: Maður sem settur er vfir herdeild eða skipshöfn. d. kaptajn, e. captain. KARAKÚLFÉ, sauðfé, er gefur af sér mjög verðmætt skinn, einkum lömbin (OM). Orðið kara- kúl er komið inn í ísl. ritmál nálægt miðri 20. öld (OH). Það merkir: Með svört ' eyru og er afbökun úr tyrknesku orðunum: qara qulag (svart eyra). Það merkir: Loðskinn sem haft er í kvenkápur. Skinnið er af persnesk- um gaupum sem eru heldur stærri en refir. Það er með rauðbrúnu hári. Eyrun á gaupunum eru stór og svarthærð. e. caracul. KARDÍNÁLI, einn af æðstu mönnum rómversk-kaþólsku kirkjunnar, meðlimur þeirrar samkundu, er velur páfa úr eigin hópi (OM). Orðið kemur fyrir í ísl. fornmáli (Fr.). Það er komið af latneska orðinu eardo (hjarir), en af því er leitt latneska orðið cardinalis. Það merkti upphaflega: Eitthvað sem snertir hjarir, en öðlaðist síðar merkinguna: Eitt- hvað mjög mikilsvert sem annað byggist á. Þannig tala t.a.m. enskumælandi menn um þrjár höfuðdygðir (cardinal virtues); trú, von og kærleika. d. kardinal, e. eardinal. KARIKATÚR, skopmynd. Þetta orð er komið af latnesku so. carricare (að hlaða vagn). Sú sögn varð í frönsku að: chargier og í ensku að: charge. Merking þessara sagnorða víkkaði síðan og varð: að hlaða (menn) störfum, áhyggjum, glæpum; hlaða byssu. Karíkatur merkir því upphaflega: Mynd sem er „of hlaðin" eða ýkt. d. karikatur, e. caricature. KASTALI, virki, vígi, höll (í sérstökum stíl) (OM). Orðið kemur fyrir í ísl. fornmáli (Fr.) Það er komið úr latínu og heitir þar castellum. Það varð á fornensku: ceaster, cester. Nú heitir það -chester eða -caster í endingum sérnafna í ensku (Manchester, Doncaster). d. kastel, e. castle. KATAKOMBA, neðan jarðar grafhýsi, grafhellir. Orðið nefnist á latínu catacumba (holrúm í jörðu þar sem lík voru sett í frumkristni). Orðið katakumba kemur fyrir í kvæði eftir Eggert Ólafsson (1726-1768) (OH). Marg- ir Islendingar þekkja katakombur Rómaborgar af eigin sjón. d. katakombe, e. catacomb. KAVALÉRI, herra, kurteis maður (OM). Orðið finnst í ísl. ritmáli frá árinu 1896, stafsett: kavaler (OH). Það er vafalaust hingað komið úr dönsku eins og fjöldinn allur af ísl. aðskotaorðum, enda heitir það þar kavaler. Á ensku heitir það cavalier og er komið af franska orðinu cheval (hestur) því að riddarar sátu á hestbaki. Franska orðið cheval er hins vegar komið af latneska orðinu caballus er merkir: hestur (sbr. ísl. kapall). Riddaramennska þessara manna fékk seinna merk- inguna: kurteis, einkum við konur. KAMPAVÍN, dýr víntegund, gerjuð úr þrúgum (OM). Orðið finnst í íslensku ritmáli á 19. öld (OH). Má rekja það til frönsku, en þar nefnist þessi drykkur champ- agne eftir franska vínyrkjuhérað- inu Champagne. d. champagne, e. champagne. KAOS, óskapnaður, ringulreið. Orðið finnst í ísl. ritmáli á 20. öld (OH). Það er komið úr grísku, heitir þar kaos og merkir: óskapn- aður. d. kaos, e. chaos. KLASSISKUR, sígildur. Orðið finnst í ísl. ritmáli á 4. tug 19. aldar. Það er komið úr latínu, en þar heitir það classicus og merkir: fyrsta flokks. d. klassisk, e. classic. KLAUSTUR, munkasetur, nunnusetur (OM). Orðið kemur fyrir í ísl. fornmáli (Fr.). Það er komið af latneska orðinu claustr- um sem merkti upphaflega: loka (no.). Seinna fór það að merkja: Einangraður staður þangað sem guðrækið fólk fór til að draga sig í hlé frá háreysti veraldarinnar. d. kloster, e. cloister. KLÓSETT, salerni (OM). Orðið finnst í íslensku ritmáli frá 20. öld (OH). Það merkti upphaflega: Einkaherbergi, m.a. fyrirmanna þar sem leynifélög höfðu fundar- höld og ýmis launráð voru ráðin. Orðið er komið af latneska orðinu clausum (lokað herbergi). Þaðan barst það um frönsku til ensku, þar sem það varð: closet. d. kloset. KÓKÓ, KAKÓ, (hréssingar)drykkur, duftið, sem drykkurinn er gerður af, unnið úr aldini (fræjum) kakótrésins sem vex í heitum löndum (OM). Orðið kakao finnst í ísl. ritmáli frá árinu 1827. Það mun ættað frá Mexíkó. Þar lærðu Spánverjar það og í tali þeirra varð það: cacao. d. kakao, e. cocoa. Framhald í næsta blaði NOKKUR AÐSKOTAORÐ í ÍSLENSKU

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.