Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1982, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 24.12.1982, Blaðsíða 3
málaskrifstofunni. Árið 1946 fluttist hann svo búferlum úr höfuðstaðnum og gerðist sóknarprestur að Holti undir Eyjafjöllum. Því embætti gegndi hann til dauðadags. Jafnframt þeim störfum, sem þegar eru talin, gegndi séra Sigurður öðrum veiga- miklum störfum á vegum ríkisins. Hann var tíðinda- maður útvarpsins frá 1931 til 1937, fréttastjóri sömu stofn- unar frá 1937 til 1941 og átti sæti í útvarpsráði frá 1943 til 1947. Enn eru ótalin stjórn- málastörf hans, en hann var landskjörinn þingmaður fyrir Alþýðuflokkinn frá 1934 til 1937. Séra Sigurður var einn af fjölhæfustu og afkastamestu rithöfundum þjóðarinnar. Eft- ir hann liggja að minnsta kosti 14 frumsamdar bækur, þar af 5 ljóðasöfn: „Hamar og sigð“ 1930, „Yndi unaðs- stunda" 1952, „Undir stjörnum og sól“ 1953, „Yfir blikandi höf“ 1957 og „Kvæði frá Holti“ 1961. Leikritið „Fyrir kóngsins mekt“ kom út 1954 og tók Þjóðleikhúsið það síðar til flutnings. Önnur frumsamin rit Sigurðar eru keíínslubæk- ur, ritgerðasöfn, ævisögur og ferðabækur. Sextán erlendar bækur komu út í íslenskri þýðingu séra Sigurðar, flestar þeirra skáldverk eftir heimskunna höfunda, einnig ævisögur. Eftir séra Sigurð liggur aragrúi greina og ritgerða í blöðum og tímaritum. Margar þeirra skrifaði hann fyrir er- lend blöð. Oft flutti hann út- varpserindi erlendis. Fundum okkar séra Sigurð- ar bar fyrst saman haustið 1932. Hann var þá kennari við Kennaraskóla íslands og ég nemandi hans þar. Þá þegar var hinn breiði þjóðvegur fjöldans hættur að vera gang- vegur hans. Hann hafði brot- ist inn á fámennisgötu í slóð spámanna, stórskálda og bylt- ingarleiðtoga. Þaðan glumdi nú rödd hans í eyrum þjóðar- innar, snjallari en annarra manna, í senn hvöss og blíð, oft óvægin, gálaus, jafnvel ofstopafull, en nálega alltaf gædd hrífandi tungutaki snill- ingsins, í ætt við Amos og Jes- aja. Og við unglingar þeirra daga litum upp til Sigurðar Einarssonar og tignuðum hann svikalaust. Þegar hann sté í ræðustólinn andspænis okkur, fannst mér heilagur andi koma yfir hann og ræða hans verða kraftaverk. Eg man einu sinni að hann talaði við okkur um Pál postula, fyrst af blöðum, svo fleygði hann blöðunum og talaði blað- laust, og smátt og smátt lækk- aði hann röddina, svo sté hann ofan úr ræðustólnum og kom nær okkur, og rödinn var orð- in mjög lág, hún varð að hvísli, og við á bekkjunum reyndum að láta andardrátt okkar ekki heyrast, halda niðri í okkur andanum, við störðum á hann, hölluðum okkur áfram, berg- numin, furðu lostin-. Og aldrei hefur Páll frá Tarsus komið mér svo í hug síðan, að ég minnist ekki um leið séra Sig- urðar. Því að á þessu kvöldi vitraðist okkur gegnum Sigurð þessi andlega hamhleypa, eins og hann stæði mitt á meðal okkur, svo að mér finnst æ síð- an, að ég hafi séð Pál postula með eigin augum og að ég hafi heyrt hann tala. Slík ræðumennska af hálfu Sigurðar var ekkert einsdæmi. Ég heyrði hann kaffæra and- stæðinga sína í kappræðu, ég heyrði hann oft tala áheyr- endur sína í rot, ef svo mætti að orði komast, með sefjandi mætti tungutaks og andríkis. Prédikanir hans í kirkjuhús- um og við guðsþjónustur þekkti ég hins vegar ekkert af eigin raun, en heyrði mikið af þeim látið. Það þótti auðvitað góð lat- ína í Kennaraskólanum, að nemendur stunduðu versa- gerð. Að hálfnuðum námstíma mínum þar gaf ég jafnvel út fyrstu bók mína, ljóðabókina „Ég heilsa þér“. Nokkru fyrr en svo langt var gengið í bíræfninni, hætti ég mér heim til Sigurðar, að kvöldlagi nálægt páskum. Sig- urður var létt ölvaður, þegar mig bar að garði hans, en hann tók mér sem sjálfsögðum hlut og bauð mér til stofu. Ég bar upp erindi mitt og sagðist hafa hug á að bera undir hann fáein nýlega ort kvæði eftir mig. Hann kvaðst reiðubúinn til að hlusta og bað mig hefja lesturinn. Ég fór með nokkur kvæði. Eitt þeira hét „Vor“. í því stóð þessi setning: „Þú klæðir með blessuðum blóm- um/hin blóðugu vetrarspor"/. „Hvaða helvítis blóm áttu við?“ spurði Sigurður Einars- son. „Við höfum engin blóm hér á íslandi. Þau vaxa í út- löndum, en ekki hér. Ég hef vaðið hafsjó af blómum í út- löndum, upp í hendur, upp í háls! Það er nálin, sem ein- kennir okkar land. Hvurs vegna yrkirðu ekki kvæði um nálina — þessi grænu bless- uðu strá, sem bóndinn og sauðkindin þrá á vorin? — Og hvað áttu við með þessum blóðugu sporum?" Ég reyndi að verja ljóð mitt og sagðist meina sóleyjar og fífla, þar sem ég minntist á blóm, — og blóð hefði ég oft séð á veturna í sporum fénað- arins, þegar skari væri á snjónum. En auðvitað fann ég að ég var sigraður. Og þegar ég kom heim, lét ég það verða mitt fyrsta verk að breyta kvæðinu um vorið. Ég ger- breytti því öllu: setti nál í staðinn fyrir blóm og hor í staðinn fyrir spor, og allt eftir því. Setningin sem fyrr er get- ið varð tilmynda á þessa leið: „Þín gróðurnál seður svanga/ sauðinn sem berst við hor“/! — Æ, herra guð, ekki er ég viss um að kvæðið hafi batnað við þetta. En ég hafði annað Þrjú ljóð eftir séra Sigurð í Holti GOSEN Gósen er eins og Gósen var gæðaland, þar sem drýpur smér. Og ævikjör þeirra, sem eru þar, eru eins og Drottins þjóðar: Strit, sem engan árangur ber. Þeir eru of margir þar í sveit, þessvegna drepa þeir sveinbörn enn. Faró er dáinn — Farúk brott, en fólksdrottnar nýir skelfast alla, sem geta orðið menn. Fógetans mælir skal fylltur á barm, fólkið sjálft, það er einskis vert. En leiran er frjó og lífið sterkt, það lifir af aldanna kvöl og harm dapurt, lúið og dauðamerkt. Þar sérðu lítinn labbakút lyppa orm útúr særðri tá, haltra kjökrandi í hvarf við runn. Heiðríkjan yfir er sindrandi blá. Skó mun hann aldrei á fót sinn fá. (Kvæði frá Holti, 1961) VEIZLAN /gær sat ég veizlu hjá gjörningameisturum heimsins, gleiðmynntur fögnuður háværra, vínhreifra gesta skall í rokum sem hafbrim um háreista sali — því hér skyldi notið hins bezta. Og þarna kunni sérhver að skapa og skera skammt sinn við lífsins borð, og var ekki feiminn — með höndum, sem bæði án þakkar og auðmýktar þáðu — og þetta fólk átti heiminn. En glóandi vín úr gulls og kristalls skálum íglitrandi straumum hneig milli þyrstra vara og tendraði vínroðans villtu ástríðublossa á vöngum hins glaðværa skara. Og söngurinn dunaði, augun skutu örvum elds og tælandi ljóss yfir svignandi borðum. Svo drukku menn betur, og öllum fannst lífið indælt — því allt vargott, eins og forðum. En þrátt fyrir alltgekk angistin hljóðum skrefum um alla sali, svo þögn sló á glaðværð og hlátur. Menn kipptust við, eins og sæju þeir vofur vafra — og var ekki þetta hljóð grátur? Það beit á þá alla: Bráðum er stund vor komin, og beitt er sigðin og hvöss er sláttumanns eggin, því voldugri armur, en mannleg hönd, hefur málað sitt mene tekel á vegginn. (Undir stjörnum og sól, 1953) ÉG TÝNDI MINNI RAUÐU RÓS í GÆR Ég týndi minni rauðu rós í gær eitt rökkur augnablik, því vinur minn sleit hana af mér fast og feimulaust og festi hana á barminn sinn. Ég týndi minni rauðu rós í gær og rökkurs bíð — þá finn ég vin minn þar, sem rós mín týndist — tefþar stundarbið og týni því, sem eftir var. Hann, sem ég elska, rændi minni rós, en rauður logi brennur mér í æðum, á meðan ég ber eim af hennar ilmi ennþá í hári og klæðum. Þvígeng ég aftur auðmjúk sömu spor, er ótta slökkur dagsins fagra ljós, svo lengi, sem hann verður ör af ást við ilm af minni týndu rós. I Með hverjum aftni angan hennar þver. Og innan stundar týni ég sjálfri mér. (Yfír blikandi höf 1957) upp úr þessari ferð: ég náði alveg frábærri nærmynd af Sigurði Einarssyni, og hann varð tryggðavinur minn til æviloka. Tveimur árum fyrr en ég kynntist séra Sigurði hafði hann sent frá sér ljóðabókina „Hamar og sigð“. 011 kvæði hennar voru ort á tímabilinu frá 15. apríl 1930 til 5. nóv- ember sama árs. í desember voru þau komin út í bók. Hann varpaði þeim frá sér eins og ég get hugsað mér að soldán í landi morgunroðans varpi handfylli silfurpeninga af þaki hallar sinnar niður til lýðsins, eða eins og lúðurþeyt- ari, sem leikur hergöngulög sín á torginu, stráir þeim út í veður og vind án þess að hirða um hvur á þau hlustar. Sagt var að höfundurinn léti sér í léttu rúmi liggja, hvort hann hreppti skáldatitil að launum. Hann hafði lagt meiri áherslu á efnið en formið og boðaði jafnaðarstefnu og nýjan dag, þar sem vélin létti erfiðinu af hinni lúnu vinnuhönd og skil- aði henni þeim arði, sem henni bar. Þetta gerðist árið 1930. En nú brá svo við, að í rúm tuttugu ár hafði séra Sigurður tiltölulega hægt um sig á rit- vellinum. Þó kom út eftir hann eitthvað af þýddum skáldverkum og tvö frumsam- in ritgerðasöfn árið 1938: „Miklir menn“ og „Líðandi stund". í „Líðandi stund" birt- ist meðal annars ritgerðin: „Farið heilar fornu dyggðir", sem vakti feikilegt umtal og harðar deilur um Sigurð. Áður hafði þó ritgerðin „Nesja- mennska", sem fyrst kom út í tímaritinu Iðunni, gert enn meiri usla i menningarlífi þeirra tíma. Hún skipti þjóð- inni í tvo hópa: annan sem fylkti sér um séra Sigurð og dáði hann, hinn sem reis gegn honum og úthrópaði hann. Fyrsta ljóðabók Sigurðar Einarssonar eftir „Hamar og sigð“ er „Yndi unaðsstunda" og kom út 1952. Þar kemur höfundurinn fram sem þrosk- aður listamaður, jafnvígur á form ljóðsins, sem efni þess, og tókst víðast að samræma hvort tveggja þannig, að árangurinn varð heilsteypt og göfug list. Hvur mundi leika eftir honum, að gera aðra eins mannlýsingu og þessa, og það í örfáum orðum?: „H.K.L. Beiskur og hýr, bitur ogglettinn í senn. Alltaf á verði og ögn til hliðar við aðra menn. Tómlátlegt fas, tillitið spurult og kalt. En hugsunin, stíllinn, tungutakið tindrandi snjallt. Frh. á bls. 19. 3

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.